Ritverk Árna Árnasonar/Magnús Eiríksson, Vesturhúsum

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Magnús Eiríksson, Vesturhúsum


Þessi grein Árna Árnasonar um samferðamann sinn og viðlegufélaga í Álsey, Magnús Eiríksson, er einhver lengsta greinin í handritasafni hans, mjög ítarleg og ber þess glöggt vitni, að þessi sérkennilegi persónuleiki og ævintýramaður hefur haft mikil áhrif á hann.

Ætt og uppruni


Hann var fæddur í Helgahjalli í Vestmannaeyjum 7. febrúar 1860, en lést í Reykjavík 5. apríl 1917, ókvæntur og barnlaus. Faðir hans var Eiríkur, f. 1825, ættaður úr Reynissókn, d. hér 1882, Eiríksson.
Kona Eiríks og móðir Magnúsar var Katrín, f. 1835 í Eyjum, d. 2. apríl 1915, Eyjólfsdóttir bónda á Vesturhúsum eystri, f. 1804, ættaður úr Teigssókn, Erasmussonar.
Kona Eyjólfs Erasmussonar var Valgerður, f. 1808, komin frá Langholtssókn, Jónsdóttir.

Eiríkur Eiríksson og Katrín Eyjólfsdóttir giftust hér 8. nóv 1855, og voru þau fyrst í húsmennsku á Vesturhúsum hjá foreldrum Katrínar. Síðar fluttu þau að Helgahjalli og voru þar, a.m.k. til 1860, þar eð þar var Magnús fæddur, sem áður segir. Valgerður systir hans var hins vegar fædd á Vesturhúsum.
Son átti Eiríkur, áður en hann giftist Katrínu. Sá hét Eyjólfur og kom til Eyja frá Keldum árið 1856 og fór þá til föður síns að Vesturhúsum.
Dóttir Eiríks og Katrínar var fyrrnefnd Valgerður, fædd að Vesturhúsum 23. okt 1856, giftist 1887 og lést hér 15. júní 1918. Maður hennar var Eyjólfur, f. 1862, d. 16. júlí 1906, Jónsson. Giftingardagur þeirra var 15. okt 1887.
Eyjólfur var uppeldissonur Jóns bónda Jónssonar í Gvendarhúsi og konu hans Sesselju Jónsdóttur, er gifst höfðu 8. júní 1872. Jón í Gvendarhúsi var sonur Jóns Símonarsonar í Gvendarhúsi, f.1810, d. 8. sept 1861 og Þuríðar Erasmusdóttur. Lætur að líkum, að Þuríður hafi verið systir Eyjólfs Erasmussonar. Þuríður er á manntali 1857 talin 65 ára, en Jón maður hennar 46 ára. Þá hafa og, að öllum líkindum, verið systur Þuríðar og Eyjólfs þær Helga Erasmusdóttir, London, talin fædd 1806, en dáin 24. okt 1890, Ingibjörg, talin fædd 1790 og Guðný Erasmusdóttir, fædd 1795 og er í Ömpuhjalli 1857. Öll eru þau talin komin úr Teigssókn.
Árið 1872 eru þau Katrín og Eiríkur Eiríksson, samkvæmt manntali, tekin við búinu þar. Eyjólfur Erasmusson er þá orðinn ekkill og talinn 65 ára, en er hjá dóttur sinni og tengdasyni.
Börn Valgerðar Eiríksdóttur og Eyjólfs Jónssonar voru þessi:
1. Katrín, f. 7. mars 1887, áður en foreldrarnir giftust.
2. Eiríkur, f. 18. apríl 1888, fór til USA.
3. Magnússína, f. 1890. Hún giftist fyrst Einari M. Einarssyni, síðar skipherra á Ægi. Þau áttu börn, skildu samvistir, en giftust bæði aftur og fluttu til Reykjavíkur.
4. Eyjólfur, f. 1896. Hann giftist Sigríði Einarsdóttur, og fluttu þau til Hafnarfjarðar. Þau áttu börn. Þar lést Eyjólfur (líkl. 1957/58), [8. maí 1933. Heimaslóð].
5. Jón Vestmann, f. 1897, d. 11. maí 1910, 13 ára gamall. Hann var efnilegur piltur, bráðgjör og dugmikill, var í miklu afhaldi leikbræðra sinna og ekki síður hjá móðurbróður sínum, Magnúsi.
Þá var og sonur Eiríks Eiríkssonar og Guðrúnar Erlendsdóttur, Jón Eiríksson. Hann fór til Ameríku og gerðist þar námamaður. Hann fór í stríðið 1914-18, var þar frá 1916 til 1919. Var m.a. í Síberíu, en heim til Nevada kom hann aftur 1919. Þar bjó hann.
Á manntali 1882 er Eyjólfur Erasmusson talinn, og þá sagður 75 ára ekkill á Vesturhúsum. Þá er Katrín dóttir hans talin ekkja, 49 ára gömul. Hún missti Eyjólf mann sinn það ár. Valgerður er þá ógift 26 ára og Magnús Eiríksson 22 ára, ógiftur. Ekki er Eyjólfur sonur Eiríks talinn á þessu manntali, og hefir hann ef til vill farið aftur upp til meginlandsins þaðan, sem hann kom til Eyja 1856.
Eyjólfur Erasmusson á Vesturhúsum var talinn stórbóndi. Hann var mikill vin Bryde kaupmanns og einn af þeim þrem, er Bryde færði ávallt við komu sína til Eyja á vorin, heilt brennivínsanker. Hinir tveir voru Bergur, bóndi í Stakkagerði Brynjólfsson og Jón Símonarson, bóndi í Gvendarhúsi.

Sprengingin í Tangaverslun


Hér mætti minnast allmerkilegrar sögu, er skeði viðvíkjandi Eyjólfi Erasmussyni á Vesturhúsum. Fleiri koma þar við sögu, en frásögn þessi er alveg einstæð og þar eð hún fjallar mest um Eyjólf, finnst mér rétt, að hún fylgi með frásögnum um Vesturhúsafólkið.
Það var árið 1858, annan dag septembermánaðar, að Eyjólfur Erasmusson bóndi á Vesturhúsum og vinnumaður hans, Jónas Sæmundsson, komu inn í Tangaverslun til þess að kaupa nokkur pund af hvellhettum, sem seldar voru þar í búðinni eftir vigt, til þess að lita með skinn. Á hvellhettunum stóð annars þannig, að þær höfðu náðst upp úr frakknesku gufuskipi, er sokkið hafði á læginu fyrir utan Kaupmannahöfn. Voru þær síðan seldar á uppboði, og keypti P.Bryde kaupmaður töluvert af þeim. Voru þær látnar upp á pakkhúsloft í Kaupmannahöfn, handleiknar þar aftur og aftur og breiddar til þerris, þar eð þær höfðu lengi legið í sjó. Síðar voru þær svo fluttar hingað til Eyja og skyldu notast til litunar á skinnum.
Búðarþjónn var Gísli Bjarnasen og vó hann hvellhetturnar handa Eyjólfi í hinum venjulegu metaskálum.Var þessi sala til Eyjólfs sú fyrsta, er fram hafði farið hér á þeim.
Þegar nú Pétur ætlaði að hvolfa þeim í skjóðu, er Eyjólfur hafði undir þær, kveiktu þær eld af sjálfu sér, sem læsti sig á augabragði um þær allar með svo ógurlegum hvelli og púðurbáli sem af fallbyssu hefði verið hleypt og með slíku afli, að mennirnir er næstir voru, féllu sem dauðir niður og særðust víðs vegar um allan líkamann, bæði af brotum metaskálanna, er splundruðust og af ögnum úr hettunum. Búðarsveinninn logaði allur utan. Önnur saga segir, að hann hafi hlaupið út í sjó til þess að slökkva í sér. Af loftþrýstingnum og ósköpunum, sem urðu, sprungu og mölvuðust allar rúður í búðinni, er leirker öll og flöskur köstuðust á gólf niður ofan úr búðarhillunum. Það var mildi að hina, sem viðstaddir voru, sakaði ekki. Það var tómthúsmaður einn og Möller kaupmaður með tveim börnum sínum. Annað þeirra sakaði að vísu lítið eitt.
Átján dögum síðar lá Eyjólfur Erasmusson steinblindur og Jónas Sæmundsson ekki kominn á skrið, en Gísli Bjarnasen farinn að fylgja fötum. (sbr. Frásögn í Annál 19. aldar). Ekki hefi ég heyrt, hvort Eyjólfur hafi fengið sjónina aftur, en það er mikið vafamál.

Stórgjöfull við fátæka, börn og gamalmenni


Magnús Eiríksson þótti sérkennilegur maður um margt í daglegri umgengni.
Hann var fremur lágur vexti, þó vel meðalmaður að hæð, þrekinn vel og sagður vel styrkur. Hann þótti af sumum harður í horn að taka, ef því var að skipta, og þá óvæginn. En hann var vinur vina sinna og vildi allt fyrir þá gera og fannst aldrei ofgert. Hann var hárábyggilegur í viðskiptum öllum og vildi, að aðrir væru það. Stórhuga var hann og geðríkur, reiddist illa, ef hann reiddist, en mjög fljótt sáttur aftur. Hann var sagður vel fjáður, þó að hins vegar fyndist lítið og ekkert eftir hann látinn. Hann var mjög stórgjöfull við fátæka, börn og gamalmenni. Veit ég, að hann var vænn maður og gat verið bljúgur, þótt hörð skel virtist vera utan um þá eiginleika hans. Man ég, að Magnús Guðmundsson á Vesturhúsum sagði mér eitt sinn, að þegar Katrín á Vesturhúsum, móðir Magnúsar Eiríkssonar, var jörðuð, þá hefði hann verið sá eini, sem á sást, að tregaði hana, enda hefði hann tárfellt í kirkjunni. Magnúsi Guðmundssyni fannst það einstakt og ótrúlegt, en þá sagði hann, að hin harða skel Magnúsar Eiríkssonar hefði brotnað.
Mér er ekki sérlega vel kunnur æviferill Magnúsar Eiríkssonar, nema þá hin síðari árin, þ.e. sem við vorum saman við lundaveiðar og samtíma hér í bænum. Þess utan var ég ungur að árum, er hann féll frá, 1917, svo farið er að förlast yfir ýms skemmtileg atvik, er skeðu viðkomandi samleið okkar. Við vorum samtíma til lundaveiða í Álsey fáein sumur. Þar var hann mér sem öðrum unglingum mjög góður. Hann kom alla tíð mjög vel fram við mig persónulega og fjölskyldu minni var hann mjög góður vinur.
Hann var samtíma föður mínum í Ameríku fyrir aldamótin, og unnu þeir þar saman af og til. Bar faðir minn honum hið besta orð, bæði sem samverkamanni og félaga. Magnús var harðduglegur maður, styrkur vel og fylginn sér að hverju, sem hann gekk.
Fyrst hefir Magnús líklega farið til Ameríku 1885. Fór hann þá til Seyðisfjarðar héðan úr Eyjum og sennilega tekið sér far af Austfjörðum vestur yfir hafið, þar var hann svo til ársins 1898, að hann kom heim um sumarið snemma, en fór aftur um haustið. Aftur kom hann heim til Eyja 1907/08 og var þá heima til ársins 1910. Þá fór hann þriðju ferðina til U.S.A., þá ásamt Sveinbirni Jónssyni í Dölum, í maímánuði, voru burtu tæpa 18 mánuði, en komu heim í október 1911, eftir heilmikið ferðalag vestra. Eftir það fór Magnús ekki til Ameríku aftur. Er sagt, að í þeirri ferð hafi þeir komist alla leið til Klondike og orðið vel ágengt um vinnu og fundið eitthvað af gulli. Annars eru margar sagnir til um þessa ferð þeirra vestur og aðrar ferðir Magnúsar, en mikið hygg ég, þær séu langt frá hinu rétta. Eftir að Magnús kom heim úr fyrstu ferðinni til Ameríku, var hann sagður vel fjáður, þótt lítt bærist hann á. Var sagt, að hann gæfi þá mörgum fátækum og lánaði fé sitt án þess að hafa nokkuð í höndunum, nema orð manna, sem sennilega hafa reynst misjöfn.
Almenningur hélt því og fram, að hann mundi hafa lánað Gísla Johnsen fé eða lagt í verslun hans henni til styrktar, en um það skal allt ósagt látið. Þó er það staðreynd, að þar vann Magnús sem hver annar afgreiðslumaður, utanbúðar og innan, þegar honum sýndist svo sjálfum og á þann hátt, sem honum sjálfum sýndist hagkvæmast, ýmist fyrir verslunina eða fyrir viðskiptavininn, en þó oftar í hag þess, er við hann verslaði. Virtist Gísli Johnsen í engu skipta sér af háttum Magnúsar við verslunina eða afgreiðslumáta hans þar, enda þótt Gísli hafi hlotið að sjá, að afgreiðsla Magnúsar var með all sérkennilegum hætti og síst versluninni til hagnaðar. Manni finnst óeðlilegt, að Gísli Johnsen hefði leyft honum slíka afgreiðsluhætti, ef Magnús hefði ekki „átt þar í fullu tré“. Eru býsna margar sögur enn á vörum eldra fólks, sem afgreiðslu hlutu af Magnúsi, sögur, sem þó verður ekki hægt að minnast hér, nema að mjög litlu leyti, og hef ég valið þær úr, sem engan særa. Þær lýsa hins vegar Magnúsi vel, afgreiðsluháttum hans með tilliti til Gísla Johnsen, eiganda verslunarinnar, og viðskiptavinanna. Það eru sagnir, sem lifa enn í dag meðal almennings. Fyrst vil ég þó geta Magnúsar og ýmissa atvika, er komu fyrir á samleið okkar í Álsey.

Starfaði ýmislegt í „þarfir eyjarinnar“


Það mun hafa verið sumarið 1912, að í Álsey voru eftirtaldir menn til lundaveiða: Sveinbjörn Jónsson, Dölum, Magnús Eiríksson, Vesturhúsum, Árni Árnason eldri, Grund, Jón Jónsson, Brautarholti og Kristinn Sigurðsson Löndum, auk tveggja drengja, Hjálmars Jónssonar og undirritaðs. Ekki var hægt að segja, að Magnús væri mikill veiðimaður, enda farinn að stirðna þá og feitlaginn. Þeir voru oftast saman vinirnir, Sveinbjörn og Magnús, veiddu saman og tíunduðu saman veiðina að kvöldi. Veiddi þá Sveinbjörn, en Magnús greiddi fuglinn úr netinu, eða kippaði og bar veiðina upp í Skarð eða austur í Veltu, þar sem fuglinum var velt niður brekkuna, alla leið niður að efstu sjóflánni, rétt ofan við Lundakórinn svonefnda.
Þegar um trega veiði var að ræða, sat Magnús hjá Sveinbirni og „hændi að“ eða „magnaði“, sem stundum var sagt. Hann hændi þá hinn fyrirfljúgandi lunda, sem er frægur fyrir forvitni, að veiðistaðnum með því, t.d. að halda á einum lifandi í höndum sér. Lundinn barðist þá um í höndum hans og gargaði mikið. Þetta sáu og heyrðu lundarnir, þurftu nauðsynlega að skoða það sem best, flugu nálægt og vel fyrir veiðistaðinn og lentu þá auðvitað í háfnum. Forvitni varð þeim þannig að fjörtjóni. Strax og fugl kom í háfinn, aflífaði Magnús þann, sem hann hafði haldið á, greiddi hinn úr netinu og notaði hann svo á sama hátt. Stundum var Magnús eitthvað að bjástra kringum Sveinbjörn, stillti upp dauðum fugli kringum veiðistaðinn, veifaði rauðum vasaklút eða festi hann á spæk og notaði sem veifu. Að þessu hændist fuglinn mikið, og varð veiðin mun meiri fyrir þessar brellur Magnúsar. Þær eru oft notaðar enn í dag, sérstaklega að nota veifu og stilla fuglum upp hjá veiðistaðnum.
Stundum kom það fyrir, að þeim sinnaðist eitthvað vinunum, urðu jafnvel reiðir og rifust eitthvað. Öll fóru þau orðaviðskipti þeirra fram á ensku, svo að við strákarnir skildum ekkert, hvað þeim fór í milli. En þeir Jón í Brautarholti og faðir minn, sem báðir höfðu verið alllengi í Ameríku, töluðu góða ensku. Var auðheyrt á þeim, að ófögur orð hrutu stundum milli þeirra Sveinka og Magnúsar. En þetta var fljótt liðið hjá, og urðu þeir fljótt glaðir aftur, eins og ekkert hefði í skorist milli þeirra.
Þegar Magnús var ekki að veiða, var hann oftast að starfa ýmislegt í þarfir eyjarinnar eða viðlegumanna. Stundum var hann að gera við fjárgirðinguna uppi á ey, laga til við kofann eða að klappa spor í móbergið á daglegum umferðarleiðum um eyjuna. Á sjóflánni við „Lundakórinn“ og upp þá leið klappaði hann ágæt spor og höld, braut af nibbur og nef, rak bolta í bergið o.fl. Þá bjó hann og mörg spor og höld upp frá svonefndum „Ögmundarkór“, svo að leiðin varð mjög greiðfær. Leiðina frá Lundakórnum og heim að kofanum bætti hann með sporum og lagði hana, svo að nú má hlaupa þar um viðstöðulaust. Eru þar stór og mikil spor, bergsnasir afbrotnar og m.fl. Þarna átti Magnús býsna mörg dagsverk, sem enn þann dag í dag bera þess glöggt vitni, að þar hefir ekki verið sparaður tími eða til verksins kastað höndunum. Handlagnin lýsir úr hverju spori.
Víða um eyjuna lagfærði hann veiðistaðina, sæti þeirra og umhverfi. Fór hann sjaldan upp á ey án þess að hafa með sér skóflu og öxi. Stundum lét hann þessi verkfæri o.fl. liggja við móbrík uppi í Skarði, við Nónhaus eða hjá Feðgatindi, svo að hægt væri að grípa til þeirra. Það gat sparað mörg sporin að þurfa ekki að fara alla leið niður í kofa eftir þessum verkfærum, ef á þeim þurfti að halda.
Þeir Sveinbjörn og Magnús veiddu oft við norðurbrún eyjarinnar, t.d. á svonefndum Mangastöðum og Vítisfláa. Þarna lagfærði Magnús aðstæður til veiða, en þó eru það hættulegir og tæpir staðir, sem varast er verandi í til veiða, t.d. á Vítisfláa. Þar sátu þeir þó oft. En þeir sátu þá bundnir, og var bandið fest í tréhæl, sem skástungið var í grasið við brúnina.

Prakkarastrik í Brandinum


Margt kom fyrir í úteyjum, bæði skemmtilegt og æsandi. Hefir það verið sameiginlegt um allar úteyjarnar fyrr og síðar. Mér er persónulega kunnugra um þetta í suðureyjum, þar sem ég hef lengstum verið til veiða.
Eftir að Gísli Lárusson fór fyrst með bát með sér í Álsey, líklega um 1890, hefir mjög oft verið bátur þar til hægðarauka fyrir viðlegumenn. Eitt sinn voru þeir í færaskaki hjá Álsey. Voru þeir búnir að fá vel í pottinn, þegar þeim datt í hug að sækja háf og veiða svartfugl af sjóflánum. Það var stundum gert og gaf nokkurn afla. Svo fór og í þetta sinn. Þá stakk einn upp á því að skreppa með þessa tvo háfa upp í „hjáleiguna“, þ.e. Brandinn, og næla þar nokkrum lundum, ef hann væri við þar. En þar var ekki um auðugan garð að gresja, aðeins um 40 fugla veiddu þeir. En á meðan þeir voru þar, þokaðist þangað bátur. Álseyingar urðu hans fljótt varir og flýttu sér í burtu. Samt tóku þeir áður smáspýtu og rissuðu á hana „A.SVB“. Það var fangamark Arngríms Sveinbjörnssonar á Kirkjubæ, eins eiganda Brandsins. Svo settu þeir 5-6 fugla á snæri og bundu merkispjaldið við. Umræddur bátur fann svo þennan „fuglahala“ með fangamerki Gríms á Kirkjubæ og færði honum við heimkomuna í Heimaey. Var þá sagt, að nú hefði illa komist upp um Grím og hans ólöglegu veiði í Brandinum, þar eð hann hefði týnt fuglinum merktum sér. Enginn trúði þessu þó á blessaðan karlinn, hann Grím, sem var samviskusemin sjálf, en böndin bárust að Álseyingum og sagt, að þeir væru valdir að þessu prakkarastriki. Var Sveinka í Dölum einkum kennt þetta bellibragð. Hann bar ekki af sér, en sagði, að rétt væri, að þeir Álseyingar endurgyldu heimsóknir Brandsmanna í Álsey. Ekki vil ég segja, að þetta hafi verið einasta skiptið, sem komið var í „hjáleiguna“, en þær heimsóknir gáfu lítið í aðra hönd.

Slátraði sauð í matarleysi


Það kom fyrir einu sinni, er legið var til veiða í Álsey sem oftar, að menn urðu alveg matarlausir vegna langvarandi storma og brima. Nóg var af blessuðu vatninu, það þraut aldrei á Vatnsgili. Í þennan tíma var einvörðungu lifað á skrínukosti og þá mest á brauðmat, sem sendur var tvisvar í viku með sókningsbátnum. Um matarbirgðir var þess vegna ekki að ræða. Er það öðruvísi nú, þegar menn elda matinn sjálfir úti í eyjunni og hafa hvers konar matvæli ný og niðursoðin. Það var á föstudagskvöldi, að allir átu síðasta matarbitann sinn úr matardallinum, og hafa sumir sennilega ekki verið alltof vel haldnir þetta kvöld. Ekki sást nokkur lundi á flögri, svo að ekki var hægt að ná sér í pottinn með þeim hætti, en daginn eftir ákveðið af nauðsyn að „fara í holur“ og ná í nokkuð af lunda í matinn. Ekki var gert mikið af því að sjóða mat, þótt næðist, þar eð olían var ekki of mikil. Daginn eftir var mesta illviðri og matarástandið ekki betra. Útséð var um það, að sókningsbáturinn kæmist þennan daginn.
Magnús Eiríksson, sem að öllu jöfnu hafði mjög gott fæði, hefir kunnað þessu matarleysi illa, sem og hinu að hafast ekkert að til þess að bæta úr því. Um hádegisbilið fór hann austur Siggafleskekki og þá leiðina upp á eyjuna. Meðferðis hafði hann forláta tvíhleypu, sem hann átti og hafði með sér úti í ey. Segir ekkert af ferðum hans, fyrr en nokkuð löngu seinna, að hann kom öslandi niður Brattabring hjá Nóngili með kind á bakinu. Við kofafvegginn kastar hann af sér byrðinni, sótti hníf mikinn inn í kofa og fór að gera til kindina.
Menn inntu hann eftir, hvernig á kindinni stæði, en hann svaraði fáu eða engu til og hamaðist því meir við tilgerðina. Það tók hann ekki langan tíma. Skipaði hann þá að setja upp fötu og byrja að sjóða. (Um potta var þá ekki að ræða í útey, en fiskur og annað soðið í vatnsfötum). „Nú getið þið étið,“ sagði Magnús. „Það er betra að við étum sauðinn, heldur en hann hendi sér ofan fyrir, svo að enginn hafi gott af honum.“
Magnús hafði auðvitað skotið kindina uppi á ey, lagt hana á bakið og bar svo alla leið niður í kofa. Hefir það verið versti burður, þar eð kindin var stór og feit og brekkan snarbrött og slæm yfirferðar, þótt undan fæti væri. Ekki man ég betur en að Valgerður systir hans ætti kindina fremur en hann sjálfur. Innmat öllum henti hann fyrir brún ásamt löppum og haus. Sagði hann til lítils að vera að geyma það einungis til þess að ala bölvaða „flöguna“. Þetta er eitt dæmi af mörgum, sem sýnir, að Magnús var fljótur að hugsa og framkvæma og fór þá sínu fram, hvort öðrum líkaði betur eða verr.
Hund hafði Magnús með sér í Álsey, fallega skepnu og vel alda. Var hundurinn stór og mjög fallegur og nefndist „Peet“ (pít). Hann átti góða ævi í Álsey, því að ekki var maturinn sparaður við hann. Það var ekki af lakara taginu fæðið hundsins. En hann hafði þann leiða vana að vera matvandur, mjög matvandur. Vildi hann oft ekki snerta við því, sem húsbóndi hans bar fyrir hann, enda þótt um herramannsmat væri að ræða, hvað þá hundamat.
Eitt sinn varð Magnús bálvondur við Peet. Þá vildi hundurinn ekki líta við hangikjötsstykki, sem fram var reitt. Margreyndi Magnús til þess að fá hundinn að éta þetta, en allt kom fyrir ekki. Peet vildi ekki sjá hangikjöt. Man ég vel, að mig langaði mjög í þetta glæsilega kjötstykki. Þá varð Magnús vondur: „Éturðu ekki hangið kjöt, helvítið þitt, Peet, viltu ekki kjöt, bölvaður asninn þinn?“ En allt kom fyrir ekki. Peet var alveg lystarlaus á hangið kjöt, enda þótt Magnús reyndi að troða bita í kjaft hans. Þessi girnilegi biti lenti því til hunds föður míns, og hafði Tryggur gamli góða lyst á þessum trakteringum. Svona fór í fleiri skipti. Þá vildi, t.d. Peet ekki líta við hveitibrauði, sem á var sultutau. Okkur strákunum fannst mikið til um þetta, því að slíkt hnossgæti var ekki með okkar skrínukosti.

Misstu næstum bátinn


Eitt sinn var Dalabáturinn „Jói“ hafður í Álsey. Það var allstórt þriggja manna far, ágætis bátur og fisléttur í uppdrætti. Það sumar var útbúin rammbyggileg tilfærsla til uppsáturs, boltar reknir, spor höggvin, bergsnasir afbrotnar og fleira lagað til vegna uppdráttar bátsins upp brattan bergfláann. Fyrir var komið tví- og þrískornum blökkum o.m.fl. Var þá hægt að draga bátinn „blökk í blökk“ eða allt upp í efri bátskórinn, svo að stefni bátsins nam við móbríkina þar fyrir ofan. En ofan á brík þessari var efri blökkin fest, þ.e. sú þrískorna. Þarna virtist manni, að bát ætti að vera óhætt í hvaða brimi, sem væri, þar eð líka var hægt að binda hann til hliðanna í bolta, er þar var fyrir komið. Jú, bátnum skyldi óhætt, hvað sem á gengi. En reyndin varð þó önnur, einmitt þetta sumar, því að einn daginn kom það mikill sjógangur að segja má, að gengi upp í grös. Fylltist stærri Lundakórinn slag í slag og oft litli Lundakórinn, efri, en í neðri brún hans stóð hællinn á bátnum. Gekk sjórinn allt í kringum bátinn og á hann, svo að við sjálft lá, að við misstum hann. En allt fór þó vel, og héldum við bátnum óskemmdum. Þvílíkan sjógang höfðu viðlegumenn aldrei séð áður.
Þetta sumar, þ.e. 1914, var báturinn einkum hafður úti í ey til þess að flytja fuglinn á honum heim í bæ. Með því spöruðust sókningsmenn, en fyrir þá varð annars að greiða 200 lunda fyrir hverja venjulega sókningsferð, en hálft gjald fyrir að flytja menn út þangað í byrjun veiðitíma. Það var kallað setningsgjald. Þá var og hálft gjald fyrir að sækja menn heim síðustu ferðina. Virðist þessi ívilnun gjalda hafa verið uppbót á hinum gjöldunum, sem voru mikil. Með því að hafa bátinn, gátu veiðimenn hagað heimferðum með fuglinn eftir vild og aðstæðum. Var þá oftast farið með fuglinn heim í Klauf, Kaplagjótu eða alla leið heim að bryggju, ef leiði var gott. Viðlegumenn höfðu hjá sér lúðulínu þetta sumar og lögðu hana, þegar lítið var um fugl. Var hið mesta kapp í þeim með þessi aflabrögð, enda gáfu þau vel í aðra hönd. Þetta sumar varð þeim mjög aflasælt. Ég sé það af gömlum vasabókum, að 15. júlí 1914 hafa þeir farið heim með 7 stórar lúður og 18 kippur af lunda.

Álseyjarnautið að velli lagt


Þann 23. júlí um morguninn var besta veður, hægur andvari og sjór hreyfingarlaus. Þá kom Jón í Brautarholti hlaupandi inn í kofa og sagði, að nú væri stóri selurinn í góðu færi „norður á Gati“, sem er skammt NA af kofanum. En þessi selur, sem virtist vera ákaflega stór, hafði verið þarna af og til alla daga mánaðarins, mjög rólegur. Hann var nefndur Álseyjarnautið. Aldrei hafði verið reynt að skjóta hann af óvissunni um það, hvort mögulegt mundi að ná honum. Ef ekki, var vitanlega tilgangslaust að vera að skjóta hann. En nú virtust allar aðstæður góðar.
Það varð nú uppi fótur og fit í kofanum. Magnús Eiríksson eggjaði fast að skjóta nú selinn, þar eð nú virtist það vera til einhvers gagns. Tók hann forystuna í sínar hendur, skipaði röggsamlega fyrir. Menn skyldu koma strax niður á steðja, setja bátinn á flot, róa síðan svo þétt upp með flánum norður með, svo nálægt Gatnefinu sem fært þætti með tilliti til þess að fæla ekki selinn, sem var norðan við nefið. Liggja svo rólegir á bátnum sunnan undir nefinu þar til skotið riði af, en róa þá sem knálegast að flúðinni við Gatnefið, en þar mundi selurinn verða að vanda.
Allt varð nú á tjá og tundri. Menn þutu niður á steðja að setja á flot, en faðir minn tók riffilinn sinn, sem aldrei hafði brugðist í höndum hans, hljóp norður á Gat, en ég og hundurinn okkar, sem „Nice“ nefndist, einhver besti skothundur, er í Eyjum hefir verið, læddumst á eftir. Skulfum við báðir af spenningi. Við vinirnir þrír vissum, að mikið stóð til, og nú lá mikið við, að ekkert færi í handaskolum okkar vegna. Ég og Nice lögðumst svo niður strax og norður á Gatnefið kom og skriðum á eftir pabba, sem læddist norður að brúninni. Þar lagðist hann niður, sem þýddi að selurinn var uppi. Við biðum rólegir, hundurinn og ég, þar til pabbi stóð upp og fór nú hratt niður nefið. Selurinn var þá í kafi.
Ég og hundurinn hentumst þá líka af stað, þar til við sáum flúðina neðan við nefið. Þá var pabbi lagstur niður og bjó sig undir að taka á móti selsa, er hann kæmi upp. Ég tók lundasnæri, batt um hálsinn á hundinum og hélt í bandið. Sagði svo hundinum að liggja grafkyrr, sem hann hlýddi skilyrðislaust. Ég þorði ekki annað en setja band á Nice. Hann hefði verið vís með að henda sér fram af brúninni, er skotið reið af.
Örlítið seinna kom selurinn upp. Hausinn var eins og lóðabelgur og hann ekki af minnstu gerð. Selsi var hinn rólegasti, kafaði grunnt og kom fljótt upp aftur. Báturinn var nú kominn á sinn stað, lá kyrr og beið sunnan nefsins. Pabbi beið nú tilbúinn með riffilinn, en það var eins og selurinn væri nú horfinn með öllu. Nei, – allt í einu kom hann upp þétt við flúðina að norðan, sem er við NA-horn Gatnefsins, og veifaði stórum steinbít í kjaftinum. Þá skeði margt í senn. Skotið reið af, báturinn tók sprett austur með nefinu, en ég og hundurinn þutum upp með ópum og óhljóðum allt fram á fremstu brún og niður til pabba, sem sat rólegur í skotsæti sínu. Selurinn var horfinn, en sjórinn var allur litaður blóði á stóru svæði kringum flúðina og óx rauði liturinn ört og mikið.
Báturinn kom á fleygiferð fyrir nefið að flúðinni. Voru þeir með krókstjaka, sem þeir höfðu útbúið, handfæriskrók á háfsskafti og aðrar tilfærslur til þess að ná í selinn. Hann hafði steinsokkið og fannst nú hvergi þar, sem þeir reyndu að slæða. Ekkert sást heldur fyrir blóði til botns, en þarna er þó grunnt, en þangi vaxnar flúðir og sjávargróður mjög mikill þarna í kring. Voru þeir á bátnum lengi að kraka og kíkja eftir selnum, en allt án árangurs. Hann fannst ekki, þrátt fyrir allt. Báturinn fór þá aftur að steðjanum, og þar var hann dreginn upp á sjóflána. Lengra þurfti ekki, þar eð sjór var sem sagt hreyfingarlaus og blíðasta veður.

Kúlan fannst við afturhreifana


Mikið var rætt um þetta óhapp, að ná ekki selnum. Töldu sumir, að hann hefði aðeins særst og horfið á haf út með blóðgusuna. Aðrir sögðu, að pabbi hefði alls ekki hitt, og væri það meiri bölvaður klaufaskapurinn á ekki lengra færi. Ég man eftir því, hve mjög mér sviðu þessi orð, þar eð ég var þess fullviss, að pabbi skaut aldrei framhjá markinu. Hygg ég, að svo hafi dómur almennings verið um hann. Hann var afbragðs skytta. Ég fann líka, að honum sviðu þessi orð, þó að hann segði ekkert annað en þetta: „Jú, ég segi ykkur satt, drengir. Ég hitti selinn milli augnanna.“ Ég var yfir mig feginn og glaður, þegar Magnús Eiríksson tók loks til máls og sagði: „Vitanlega hitti hann selinn. Sáuð þið ekki blóðið, bölvaðir asnarnir ykkar? Þið haldið kannske að þetta hafi verið rauð málning?“ Mál þetta féll svo niður, enda þýddi ekki að þrefa um það. Selurinn var horfinn.
Eftir matinn var farið til veiða upp á ey og veiddist vel yfir daginn, eða tíundaðar 14 kippur rúmar, því að áttin var góð og veitt á Útsuðursnefi, Gilinu (Flánni), Molda, Mangastöðum og víðar. Var svo allur fuglinn borinn upp í Veltu að venju, og voru menn fegnir að koma heim „til bóls“ og fá sér matarbita. (Ennþá er kallað að fara til bóls, vera við ból o.s.frv., þegar átt er við kofann. Er sú nafngift runnin frá þeim tíma, að menn lágu við í fjárbólum og notuðu sem svefnstað, þótt nú til dags séu ágætis sumarbústaðir í hverri ey. En þrátt fyrir það, viðlegukofinn, húsið, er ávallt nefnt ból).
Leið svo kvöldið til um kl. 10. Menn lágu í kojum sínum og reyktu pípu sína. Var sú venjan að spjalla þá saman um ýmislegt efni. Jóni í Brautarholti varð þá gengið út á hlað, kallaði til þeirra og sagðist halda, að tunna væri á reki í stefnu innan við Mjóastíg. Sagði hann, að hún væri mjög stór að sjá og virtist vera í hálfgerðu kafi við yfirborðið. Karlarnir tíndust út og skimuðu eftir tunnunni, sem sást greinilega frá kofanum. Vildu sumir setja bátinn á flot og athuga reka þennan. Höfðu sumir orð um, að hér kynni að vera stór vínáma á reki eða annað, sem mikill fengur væri í.
Magnús Eiríksson lagði fátt til þessara viðræðna, en horfði vel á hlut þennan. Þá sagði pabbi eitthvað á þessa leið: „Mig skyldi ekkert undra, þótt hér væri nú selurinn kominn.“ Nei, ekki fannst einum frænda minna þarna það trúlegt. Hélt, að ekki væri ómaksins vert að fara að setja á flot hans vegna, það væri eins og hver önnur vitleysa. Magnús leit til hans fremur illúðlega og sagði: „Ég held, að betra sé að setja á flot en vera að þrátta um, hvað þetta sé. Kannske er það brennivínsáma, kannske líka selurinn. Þá skoðun hef ég nú, og fljótir niður á steðja.“
Það var farið á flot. Við urðum eftir strákarnir og pabbi. Hygg ég, að hann hafi verið mjög þjáður á þessu augnabliki af taugaæsingu og vonað eða haft á tilfinningunni, að þarna væri selurinn á reki. Báturinn fór hratt yfir, enda stutt að fara. Sáum við, að Mangi veifaði til okkar, þegar báturinn kom að þessu. Síðan beygði hann sig út yfir borðstokkinn og greip um eitthvað. Við heyrðum köll þeirra og sáum mikla hreyfingu um borð í bátnum. Jón í Brautarholti var aftur í skut og veifaði hann og pataði einhver ósköp. Ég leit á pabba og sá, að andlitið ljómaði. Þetta hlaut, að hans áliti, að vera selurinn. Sú var líka raunin á, þetta var selsi, og flaut hann þarna steindauður við yfirborð sjávarins.
Þetta var enginn smákópi. Þvílíkan stærðarsel hafði enginn þeirra séð fyrri, enda er það stærsti selur, sem skotinn hefur verið og náðst hér við Eyjar. (Svonefnt Helliseyjarnaut héldu þeir þó, að mundi hafa verið stærri selur, sem pabbi skaut þar nokkru síðar, en hann náðist ekki).
Þeir á bátnum sögðu, að það hefði færst einhver hýrleikssvipur yfir andlit Magnúsar, þegar hann hafði náð báðum höndum utan um frammákann (framhreifann) á selnum, og það hefðu ekki verið nein vettlingatök. Þannig hélt hann, meðan verið var að ganga frá stórri lúðuífæru í skoltinn á selnum og vildi helst ekki sleppa, þótt traustlega væri um búið og auk þess komið fyrir dráttartaug vel og tryggilega um hausinn. Þegar að steðjanum kom, sem ekki örlaði við í næturblíðunni, var gengið frá bátsblökkunum um selinn og hann síðan dreginn upp á sjóflána. Var það mjög erfitt, þótt 5 fullorðnir karlmenn drægju, auk okkar strákanna tveggja. Var selurinn síðan rígbundinn við augaboltann á steðjanum og annan ofar. Þegar því var lokið, teygði Magnús úr sér og sagði: „Hlauptu nú á burt aftur, ef þú bara getur.“ En það kom ekki til. Magnús hafði bundið vel og tryggilega, enda blessuð skepnan steindauð.
Ég get ekki líkt selnum við neitt. Þó að ég færi að reyna það, yrðu það sagðar ýkjur einar. Stærðin var svo gífurleg í alla staði. Þó verð ég að segja, að hausinn var eins og stærðar lóðabelgur og skrokkurinn eins og bátur á hvolfi, þar sem hann lá þarna á sjóflánni. Hversu þungur hann var, veit ég ekki, en sem sagt, upp úr sjónum drógum við hann í tví- og þrískornum blökkum, 5 karlmenn og 2 strákar, og eftir langan tíma og erfiði, tókst okkur loks að koma honum upp á steðjann. Er þó hált þarna af slýi og sjávargróðri, svo að selskinnið rann vel á því.
Daginn eftir reru þeir svo með selinn alla leið inn í innri höfn og voru að mig minnir nálægt 5 tímum á leiðinni. Hafa þeir og staðfest það, þeir sem eftir lifa af viðlegumönnum þetta eftirminnilega sumar. Þegar búið var að flá selinn, urðu mestu vandræði með að hæla skinnið. Það komst hvergi fyrir á þá húsgafla, sem tiltækilegir voru. Var þá gripið til þess ráðs að hæla það á austurgafl Kornhússins í Garðinum og borðum slegið upp til viðbótar gaflhæðinni. Þetta er býsna ótrúlegt, en er þó staðreynd. En, hvar haldið þið, að riffilkúlan hafi fundist í selnum? Hún var aftur við afturhreifana. Hafði hún farið inn milli augnanna og rifið sér leið með hryggnum aftur að hreifum. Fann Jón í Brautarholti hana þar í parti þeim, sem honum var úthlutað af kjötinu, sem vitanlega var að þess tíma sið etið með bestu lyst. Bendir leið kúlunnar réttilega á, að skotið var á selinn mikið til beint niður, þegar hann var að skjóta hausnum úr kafinu. Skotfærið var varast meira en 10 faðmar, svo að eðlilegt var að 10 mm kúla ryddist fast um á leið sinni.
Ég gleymdi að geta þess, að sem að líkum lætur, varð ég afarhreykinn, þegar selinn rak þarna steindauðan. Það fullvissaði mig um, að um dauðaskot hefði verið að ræða og, að gamla manninum hafði ekki brugðist skotfimin fremur venju. Magnús gamli sagði líka, þegar við vorum komnir að kaffiborðinu, eftir að búið var að ganga frá selnum á steðjanum, við þann sem mest hafði dregið að fara á flot selsins vegna: „Trúirðu nú, að um feilskot var ekki að ræða?“ Hinn sagði svo vera. „Jæja, það var þá ekki málning,“ sagði Magnús.
Hvernig á hvarfi selsins stóð eftir skotið, gerðu menn sér engar getgátur, en enginn veit, hvað réttast var. Máske hefir hann sokkið strax eins og steinn, og straumurinn borið hann undir þaragróður flúðarinnar eða Gatnefsins, og hann svo legið þar einhvern tíma. Ekkert sást fyrir blóðlitnum á sjónum. Síðan hefir hann svo flotið upp og rekið „út á poll“ eins og kallað er svæðið milli Þjófanefs og Mjóastígs, hin raunverulega höfn Álseyjar. Síðan hefur hann svo borist með sjávarfallinu inn að eyjunni, en straumurinn ber ávallt í hring allt, sem er á reki, og liggur sú hringrás frá MjóastígÞjófanefi, þaðan nokkuð austur og út á, en svo aftur inn að Mjóastíg, norður að Þjófanefi o.s.frv., máske allan daginn og lengur. Að sjálfsögðu hefir selurinn verið búinn að fara marga hringi, en þar eð við vorum ekki „við ból“ og flestir uppi á ey, algjörlega afhuga því að sjá selinn meira, tók enginn eftir honum, fyrr en Jón í Brautarholti um kvöldið eins og áður segir. Þetta mun sennilegasta skýringin.

Sýndi á sér allt aðra hlið með okkur strákunum


Það var eitt sinn þetta sumar eða næsta, að þeir fóru heim með fuglinn og lentu í Kaplagjótu. Við urðum eftir úti í ey, strákarnir og Magnús Eiríksson. Þegar báturinn var farinn og við komnir til bóls, gjörbreyttist Magnús í orðum og gjörðum. Hinn venjulegi kuldi hvarf eins og dögg fyrir sólu. Varð hann blíður við okkur í orðum, jafnvel klappaði okkur og strauk af umhyggju.
Sagði hann, að nú skyldum við setja upp ketilinn og hita okkur góðan kaffisopa. Þetta var um sjöleytið um kvöldið. Við settum ketilinn á prímusinn og sauð brátt og bullaði í vatninu. Þá tók Magnús rauðmálaða kassann sinn undan kojunni, tók þar upp tvö stykki af súkkulaði og sagði okkur að brjóta þau niður í ketilinn og hræra svo í annað veifið undir hægri suðu. Við höfðum orð um, að þetta væri nokkuð mikið í ketilinn. „Jæja, étið þið þá restina, strákar. Þetta er gott súkkulaði, og þið gubbið því varla.“
Svo kom hann með mjólkurdós, niðursoðna. Var dósin með mynd af víkingaskipi og full af mjólk eða rjóma. „Hérna, strákar, látið þetta svo í ketilinn, það verður að vera mjólk í súkkulaði, og setjið nógan sykur í það. Annars verður það rammur ódrykkur.“ Svo var farið að drekka. Þá kom hann með kexkökur og fleiri útlendar kökur, sem hann gaf okkur. Þetta varð hin mesta veisla, og nutum við þessa góðgætis af bestu lyst. Magnús var mjög ræðinn við okkur og sagði þá ýmislegt af Ameríkuferðum sínum og fleira. Hann var og með flösku, sem vafalaust hefir haft inni að halda eitthvað gott vín. Hann lét örlítið út í fantinn sinn. „Þið verðið að smakka á þessu, strákar. Það er eins og saft.“ Svo lét hann líka örlítið út í fantana okkar, því að vitanlega drukku þá allir úr föntum, nema þeir sem höfðu gamla vanann að drekka kaffið úr litlum spilkomum. Mér fannst þetta skrýtið á bragðið og ekki beinlínis gott, en þó ekki vont. Býst ég við, að Hjálmari hafi fundist líkt um það. Svo bauð hann okkur aftur, en við afþökkuðum það báðir. „Það er alveg rétt, strákar, en þessi ögn gerir ykkur bara gott. Víns á aldrei að neyta nema svona örlítið.“
Þegar við höfðum borðað og drukkið nægju okkar, kom Magnús með spil og spurði, hvort við kynnum ekki að spila póker. Nei, það kunnum við ekki, bara lönguvitleysu, kött og hund. „Já, hund, – hundarnir eru báðir úti og hafa ekkert fengið að éta.“ Þarna mundi hann allt í einu eftir þeim, tók stærðar kjötbita og risti niður í þá, og fengu báðir tvo jafna hluta. Það var ærlegur biti. Svo kastaði hann til þeirra tveim þykkum brauðsneiðum. Hann var ekki sínkur á matinn.
Þá kom hann aftur til okkar. „Jæja, þið kunnið ekki póker. Þið verðið að læra póker, strákar. Allir Ameríkanar spila póker.“ Svo fór hann að kenna okkur þetta spil og var hinn skemmtilegasti og góður við okkur. Hann lánaði okkur eitthvað af smápeningum, sem hann var með. Það þótti okkur skrýtið að vera með peninga með sér í útey. En hann sagðist alltaf hafa peninga með sér. Enginn vissi, nema maður þyrfti þeirra með. Okkur gekk furðanlega að læra spilið, og spiluðum við nokkuð lengi.
Allt í einu spratt hann upp. „Við verðum að fá eitthvað meira að drekka. Þið hafið víst látið salt í súkkulaðið í staðinn fyrir sykur.“ Við sórum og sárt við lögðum, að við hefðum látið sykur í það, en ekkert salt. Hann ansaði því engu, en tók úr kassanum sínum 3 flöskur með glertappa, sem var fastur við flöskuna í einhvers konar vírloku. Tappinn var með gúmmíhring, og voru flöskurnar líklega einn og hálfur peli. Svo gaf hann okkur, sínum hvora flöskuna, og drakk úr einni sjálfur. Ég held þetta hafi heitað Sinalco og var einhvers konar gosdrykkur, líkt og nú tíðkast hér, límonaði eða kannske citrón. En hvað sem það var, þá var það gott á bragðið, en kom allmjög upp í nefið á manni, svo að nokkuð hefur verið í því af kolsýru.
Það fór nú að líða að miðnótt og þá fór að verða von á hinum að heiman. Þá skipaði Magnús okkur að vaska allt upp, hreinsa og sópa vel. „Þá varðar ekkert um, hvað við höfum skemmt okkur við.“ Klukkan eitt kom báturinn róandi úr Kaplagjótu. Ég sá strax á Magnúsi, að hann var orðinn eitthvað skrýtinn, ekki afundinn við okkur, en það var eins og hann hefði eitthvað ekki gott á tilfinningunni gagnvart körlunum á bátnum. Þegar báturinn kom að steðjanum, var auðséð, að þeir voru sumir góðglaðir af víni og vel það. Það var líka auðséð, að Magnúsi líkaði þetta miður vel. Eitthvað rifust þeir á ensku, Sveinki og hann, og mun vínið hafa verið orsök þess. Ég man vel eftir því í þetta skipti sem önnur, að Magnús notaði mikið þetta orðatiltæki: „Ay, shut up you shatter like a son of a bitch.“ Daginn eftir var svo gamla kalda skelin komin utan yfir blíðu Magnúsar frá kvöldinu áður, þótt hann léti okkur strákana afskiptalausa og væri alveg ónotalaus við okkur.
Af þessu litla dæmi veit ég, að Magnús var í eðli sínu mjög barngóður maður, blíður og tilfinninganæmari en margur hefur haldið. Mér hefir sagt mjög greinargóður maður, Magnús Guðmundsson, Vesturhúsum, sem þekkti nafna sinn mjög vel, að þegar Katrín, móðir Magnúsar Eiríkssonar, var jörðuð, þá hafi hann verið sá eini af Vesturhúsafólkinu, sem sást vikna í kirkjunni, viknaði svo, að hann felldi tár. Misstu hin þó einnig mikið við fráfall Katrínar, því að hún hafði verið þeim svo sannarlega góð og blíð móðir og amma, sístarfandi að heill og velferð heimilisins, meðan kraftarnir entust. Eflaust hefir Magnús verið móður sinni góður, þótt hann flíkaði því ekki við náungann og skrifaði sjaldan eða aldrei heim í utanlandsferðum sínum. Eitt sinn, þegar hann kom heim eftir margra ára veru í Ameríku, vissi enginn neitt um hann, fyrri en hann kom heim í eldhús á Vesturhúsum og kallaði: „Sæl, mamma, ég er kominn.“ Hann gerði víst mjög lítið að því að skrifa heim, svo að fréttir allar af honum fékk fólk hans gegnum aðra vestanhafs, t.d. Árna Árnason, síðar að Grund, sem var mikið með Magnúsi vestra og unnu þeir saman, t.d. í kolanámum og við járnbrautarlagningar o.fl.

Keypt fyrir 5 aura og 10 aurar til baka


Hér skal staðar numið um úteyjasagnir af þessum gamla samferðamanni í bili og lýsa öðrum hliðum hans nokkuð.
Eins og ég sagði í upphafi var hann mjög handgenginn Verslun Gísla Johnsen og afgreiddi þar mikið úti og innivið, en þó eftir eigin geðþótta, að því er virtist. Hafði hann sína sérstæðu afgreiðsluhætti, sem hiklaust má telja, að hafi verið kaupanda í vil, sérstaklega, ef um févana fólk og börn var að ræða. Það var t.d. oft, ef maður kom með 5 aura að kaupa sér fyrir, hæsta lagi 10 aura, fínabrauð eða brjóstsykur, að fyrst lét hann ríflega í poka af fínabrauði, en lét ekki þar við sitja, heldur kallaði þegar barnið var að hlaupa út: „Bíddu, strákur, þú átt að fá til baka,“ og rétti manni svo oft 10 aura til baka, ef maður hafði keypt fyrir 5 aura. Oft sá ég hann gera þetta sem og hitt, að oft tók hann þá 10 aura úr vestisvasa sínum og lét í skúffuna eða tók þann aurinn, sem gefinn var til baka úr vasa sínum, en ekki skúffunni.
Eru fjölmargar slíkar sagnir til af verslunarmáta Magnúsar, sem gaman væri að rifja upp. Sagnir, sem sýna vinhlýju hans í garð barna og fátæks fólks. En sumir sögðu líka, að stundum hefði hann selt þeim ríku vörurnar á „hámarksverði“ og þá í engu dregið af.
Eitt sinn var Magnús að taka glervörur upp úr tágakörfu sunnan við verslunarhúsið. Þá bar Gísla Johnsen þar að, og spurði hann Magnús, hvort mikið væri brotið í körfunni. „Brotið,“ ansaði Magnús. „Það er allt meira og minna brotið, mélbrotið og best að henda því öllu í sjóinn.“ Nokkuð mikið lá brotið hjá körfunni, og sá Gísli það. Hann fór þá burt og lét Magnús sjálfráðan um það, hvað hann gerði í þessum efnum. Magnús gaf þá mörgum manninum bolla eða könnu úr körfunni, svo að ekki hefur Gísli ábatast af þeirri verslun. En sannleikurinn var sá, að í körfunni voru heil sett, svo að ef eitthvað var brotið í körfunni, var viðkomandi sett ekki mikils virði sem slíkt. Sagt var líka í þessu tilfelli með glerkörfuna, að Magnús hefði átt sams konar þvottastell og þarna var í körfunni, en hann hafi vantað í sitt stell könnuna, sem brotnað hafði. Þá henti það, að úr höndum hans datt sams konar kanna og hann vantaði, og var stellið í körfunni óseljanlegt sem stell. Þá hefði Gísla Johnsen borið þarna að, og hann spurt, hvort mikið væri brotið í körfunni. Jú, jú, Magnús hélt nú það. Það væri allt í maski og best að henda því öllu saman. Gísli gekk þá burt en Magnús gaf Pétri og Páli það, sem eftir var í körfunni.

Tvennir skór fyrir jólin


Þá vil ég minnast hér atviks, er snerti mig sjálfan. Það hefur líklega verið 1912/13. Ég hafði safnað nokkrum krónum og ætlaði að kaupa mér skó fyrir þær fyrir jólin. Þóttist ég hafa nægilegt fyrir þeim eða rúmar 5 krónur. Mig langaði að fá skó úr fínu skinni, en ekki heimasmíðaða vatnsleðursskó, sem strákarnir voru flestir á, smíðaðir af Snorra Tómassyni, sterkir og góðir, en ekki beint fínir jólaskór, fannst mér. Þótt hversdagslega væru þeir prýðilegir og þættu fallegir. Sumir strákar, sem ég var með, áttu fallega skó úr boxcalf skinni, t.d. Jói á Vesturhúsum, Hjálmar á Vegamótum og nafni hans í Dölum. Þeir notuðu þessa skó á skólaskemmtunum og þóttu mjög fínir til fótanna, ekki síst um jólin. Ég arkaði niður í Miðbúð með krónurnar mínar, þó með hálfum huga, því að ég þóttist fullviss um, að ég hefði ekki nóg fyrir skóm. Það var bullandi ös í búðinni og margir að afgreiða. Þar hitti ég Marinó í Hólshúsi. Hann ætlaði að kaupa sér boxcalf skó og átti 10 krónur, auk þess eitthvað meira heima. Ég átti bara 5 krónur, ekkert heima. Svo fór Marinó með Páli Ólafssyni að velja sér skóna en ég beið frammi við dyr, austan megin, þar sem „diskurinn“, það er lyftuhlerinn, var í borðinu og skrifpúltið suður við gluggann þar rétt hjá. Fólki var boðið inn fyrir borð, a.m.k. fína fólkinu, og gekk þá gjarnan um þessar dyr í búðarborðinu eða aðrar vestan megin við gluggann þar. Ég sá Marinó máta skóna, en ég beið rólegur til þess að sjá hversu honum reiddi af.
Þá kom Magnús Eiríksson norðan úr búðinni, þaðan sem farið var upp á loftið (lagerinn), og var hann með ýmsar smávörur í fanginu, sem hann lagði á borðið austan megin í búðinni. Hann kinkaði til mín kolli, en fór svo að afgreiða einhvern annan. Ég var að óska, að hann kallaði á mig eða að Guðni Johnsen kæmi, en svo var ekki. Marinó kom nú með nýju skóna og sýndi mér í kassann. Skórnir hans voru uppháir, reimaðir í kósa, aldeilis flottir skór, fannst mér, enda var ég svo hrifinn að ég gat naumast sleppt skónum úr höndunum. Bara, að ég gæti keypt mér svona skó, en þeir kostuðu 6.50. Ég tók ekki eftir, að Magnús kom fram fyrir borðið og var víst á útleið. Hann stoppaði hjá okkur og spurði mig, hvort ég hefði ætlað að finna sig. Einhvern veginn gat ég stunið upp að svo væri, ég ætlaði að biðja hann að sýna mér skó og máta á mig, ef hann mætti vera að. „Víst má ég vera að því, drengur, en, áttu einhverja aura?“ Já, ég sagðist hafa peninga, en… „Jæja, komdu þá með mér, strákur.“ Ég elti hann svo inn fyrir, norður í búðina. Hann sagði mér að koma upp á loftið, því að niðri væru engir góðir skór. Hann þrammaði upp stigann með mig á hælum sér.
Þarna uppi var æði margt að sjá. Vörur í hverri hillu, allt yfirfullt. Allt austur á loftinu var mikið af skókössum í hillum. Hann kom svo með fallega skó, en þeir voru víst úr grófu skinni eða vatnsleðri. Ekki boxcalf. Magnús mátaði á mig skóna. Þeir voru nokkuð stórir, en sterklegir. „Þetta eru góðir skór, drengur. Þola fjandann ráðalausan.“ Ég var ekki sem ánægðastur með þá, og hefir hann eflaust séð það á mér, því að hann sagði: „Þetta eru ágætir skólaskór. Það stendur ekkert við á löppunum á ykkur strákunum. Þessir eru alveg níðsterkir og kosta bara 5 krónur“, (minnir mig). Ég sagði fátt, en hugsaði margt. Það voru ekki fallegir jólaskór eins og hinna strákanna og hans Marinós í Hólshúsi. Svo fórum við niður og ég rétti Magnúsi fimm krónurnar. „Bíddu, drengur, meðan ég pakka þessu inn.“
Svo teygði hann sig upp í skóhilluna norðan við peningakassann og kom með skókassa og sýndi mér í hann. Þar voru fallegir boxcalf skór, alveg eins og Marinós. Skinnið glansandi, kósar og sléttir á tám og breiðir fyrir. Hann pakkaði svo báðum kössunum í sama pakkann, rétti mér og sagði: „Hérna drengur, notaðu aðra sem skólaskó og hina um jólin og spari.“ Ég var alveg orðlaus og vildi helst gráta af gleði, en hafði þó rænu á að rétta honum fimm krónurnar mínar. Hann bandaði hendinni á móti þeim og sagði: „Kauptu þér jólapappír og kerti fyrir þessa aura, drengur, og heilsaðu pabba þínum frá mér.“ Svo fór hann að peningakassanum og ég sá, að hann lét seðil í skúffuna í peningakassanum. Eflaust var það borgunin fyrir skóna mína, sem hann hefur gefið mér. Krónurnar átti ég óeyddar, og gleði mín var mikil.
Nokkrum dögum seinna gat ég þakkað honum þessa stórgjöf. Hann vildi ekkert um það tala. En þá gat ég gert hann undrandi, því að ég hoppaði upp, greip um háls hans og kyssti hann á kinnina. Hann stóð alveg undrandi, þegar ég hljóp í burtu, hálfhræddur um, að hann yrði vondur við mig. En svo var þó ekki, en ég hygg, að hann hafi orðið hissa á framkomu minni, þessa héraðsfræga ólátabelgs, sem ég var. Það er fullvíst, að þannig kom Magnús fram við fleiri, sem efnalitlir voru. Var þá ekkert að klípa við neglur sér í hjálparstarfsemi sinni. En hann gumaði heldur aldrei af henni við einn eða neinn.
Magnús Eiríksson lá við til lundaveiða í fleiri úteyjum en Álsey. Eitt sinn var hann t.d. í Bjarnarey og sennilega fleiri sumur. Eitt sinn bar svo við, þegar sókningsbáturinn kom til þeirra og var fyrir skömmu farinn heim aftur, að Magnús varð þess var, að eftir hafði orðið tómur malpoki hans úti í ey. Hann átti að sjálfsögðu að fara heim. Ekki fjasaði Magnús mikið um þetta, en sagði: „Hann skal heim samt.“ Labbaði hann síðan upp á Bunka, veifustaðinn, og setti upp veifu. Var þá brugðið skjótt við heima og fengin smáferja, mönnuð fjórum röskum mönnum, og reru þeir þá þegar lífróður austur í Bjarnarey. Var talið fullvíst, að þar hefði orðið eitthvert slys. Fyrir þetta tiltæki Magnúsar varð víst karl faðir hans að greiða eins og upp var sett. Hversu mikið það var, komst ekki í almæli, en sennilega hefur það verið nokkuð mikið.

Það er sárt að ganga á gulli


Nokkurn tíma var hann við gullgröft í Alaska, sem fyrr segir. Meðan það var, lá hann eitt sinn í kofa. Sveinbjörn var þá ekki með honum í þeirri Alaskaferð. Í kofanum var moldargólf og fóru víst önnur þægindi eftir því. Þá var það eitt sinn, að skip nokkurt strandaði þarna við ströndina. Það var franskt skip, sem flutti ávexti og fleira matar- og drykkjarkyns. Margur hafði náð þar í góðan feng án þess að borga, t.d. höfðu tvær kerlingar vaðið upp að öxlum til þess að ná í koníakstunnu, sem þær svo höfðu að koma undan. Einhver spurði Magnús, hvort hann hefði engu náð. „Það er nú varla teljandi,“ svaraði hann. „Þrjá kassa gat ég gómað með alls kyns niðursoðnum ávaxtadósum og gróf það svo í kofagólfið.“
Faðir minn og Magnús voru mikið saman í vinnu í Ameríku, sem fyrr segir. Sagði pabbi, að Magnús hefði verið afburða duglegur til hvers konar vinnu og lét þá ensku í engu kúska sig, hvorki í átökum né í orðaleik. Nei, það stóð aldrei upp á Magnús, og fljótur gat hann verið til úrræða, ef því var að skipta.
Eitt sinn lágu þeir í tjaldi þrír, en voru annars við lagningu brautarteina nálægt Scoefield. Eina nóttina kom slanga, eitursnákur, inn fyrir tjaldskörina. Bit hans eru banvæn. Nú var snákurinn alveg að ráðast að Jóhannesi og búast til að höggva tönnum sínum í hann. Magnús þreif þá skóflu, skutlaði henni með blaðið á undan svo laglega og af slíku afli, að skóflan sneið snákinn sundur í tvennt, og féllu tveir partarnir við Jóhannes, þar sem hann lá. Þeir voru þarna saman, faðir minn, Magnús og Jóhannes frá Stakkagerði hér, sá er giftist Maríu Guðmundsdóttur frá Batavíu.
Nokkur ár var Magnús við gullgröft, t.d. fóru hann og Sveinbjörn í Dölum í síðustu ferð Magnúsar til Ameríku, alla leið til Klondike. Hann sagði frá því m.a., að í einni gullnámunni hefðu unnið feðgar. Allir reyndu að koma undan smágullmolum, en það var erfitt og áhættusamt. Þessir feðgar vildu gjarnan ná smámola til þess að þyngja pyngjuna sína. Lét þá faðirinn gullmolann í skó sonarins, en fótbraut hann síðan. Á þann hátt heppnaðist þeim að ná gullinu upp úr námunni, þar eð ekki var leitað á slösuðum mönnum. Annars hefði verið leitað vandlega á hverjum manni, sem upp úr námunni kom. Ekki gaf Magnús neitt út á það, hvort hann hefði nokkurn tíma getað nælt sér í smá gullmola, en þó sagði hann, er um þetta var talað: „Það er sárt að ganga á gulli,“ hvað sem hann kann að hafa meint með þeim orðum. Einstaka menn reyndu líka að gleypa gullmola, sem svo gekk niður af þeim aftur. En þetta þótti ekki áhættulaust.

Fyrsta bíósýning í Eyjum


Þegar Magnús kom heim úr síðustu Ameríkuferð sinni 1911 í október, var Jón Vestmann, frændi hans á Vesturhúsum, sonur Valgerðar og Eyjólfs, dáinn. Þegar Magnúsi var sagt lát Jóns, varð honum að orði: „Þar fór það eina sem nýtilegt var í Vesturhúsabúinu.“
Magnús hefir haft hið mesta dálæti á Jóni frænda sínum. Eyjólfur Gíslason á Bessastöðum sagðist einu sinni hafa heyrt Magnús segja eftirfarandi, en þeir Eyvi og Jón voru óaðskiljanlegir vinir: „Við Sveinki (í Dölum), ætluðum að fara að róa á honum „Jóa“, (en svo hét Dalabáturinn, sbr. sagnir um hann við Álsey). Strákurinn hann John (Magnús nefndi Jón alltaf svo) var að snudda þarna hjá og sá ég, að hann langaði með okkur, þó að hann segði ekkert um það. Ég sagði þá við hann: „Þú mátt koma með okkur, John minn, en hlauptu fyrst heim og láttu vita af því.“ Ég hélt, að strákurinn væri varla kominn upp að Skarði, þegar hann var kominn aftur til okkar. Já, John var ekki í tíu mínútur að snúa sér við.“
Eyjólfur á Bessastöðum sagði enn fremur: „Ég tel víst að Magnús Eiríksson hafi verið fyrsti maður, sem sýndi hér bíómynd, árið 1911. Það var í Gúttó. Ekki var það samt fyrir almenning, a.m.k. ekki fyrst og ekki í það skipti, sem við Lárus Árnason og fleiri ofanbyggjarastrákar sáum bíóið. Samt voru allmargir áhorfendur, fullorðnir menn, t.d. Dalabræður og fleiri gestir, sem ég man ekki lengur hverjir voru. Ég man enn, hve undrandi og stórhrifnir við vorum og eins, hvernig myndin var. Ekki var hún löng. Lítil baðströnd sást þar og gjálpandi bárur. Þá kom smá stöðuvatn, og á því flaut lítil ferja, julla, sem í voru piltur og stúlka, en önnur tvö biðu á ströndinni.“
(Sjá nánar um bíó Magnúsar í grein minni: Ritverk Árna Árnasonar/Leikir unglinga í Eyjum, fyrri hluti).


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit