Ritverk Árna Árnasonar/Jón Einarsson (Garðstöðum)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Kynning.

Jón Einarsson, Garðstöðum.

Jón Einarsson formaður á Garðstöðum fæddist 27. janúar 1857 og lést 9. október 1906.
Foreldrar hans voru Einar Guðmundsson frá Skíðbakka í A-Landeyjum, bóndi á Steinsstöðum, f. 26. mars 1834, d. 27. maí 1858, hrapaði í Ofanleitishamri, og Valgerður Jónsdóttir frá Norðurgarði, f. 20. ágúst 1832, d. 7. október 1896.

Alsystir Jóns var Ingibjörg Einarsdóttir, f. 8. mars 1854, d. 24. apríl 1905.
Hálfsystir Jóns, dóttir Einars og konu hans Kristínar Jónsdóttur, var Ástríður Einarsdóttir, sem varð kona Sigurðar Jónssonar á Löndum, en þau voru foreldrar Kristins Sigurðssonar þar.

Við manntal 1860 var Jón Einarsson 4 ára niðursetningur á Vilborgarstöðum hjá Guðbjörgu Daníelsdóttur, sem bjó þar ekkja með börnum sínum Ólafi Magnússyni, síðar formanni og hagyrðingi í Nýborg og Bergi bróður hans.
Jón var 13 ára niðursetningur að Ofanleiti 1870.
Við manntal 1880 var Jón vinnumaður í Batavíu hjá Guðmundi Ögmundssyni, stjúpföður Ingibjargar Hreinsdóttur, og þar var hún.
Þau bjuggu í Mandal 1888.
Við manntal 1890 voru þau hjón, Jón og Ingibjörg, í Helgahjalli með dæturnar tvær, Sigríði og Jónínu.
1901 voru þau komin að Garðstöðum með Jónínu. Þá var Sigríður dóttir þeirra hjú í Godthaab.
Jón var formaður á Gnoð um skeið. Hann var allvirkur í leikstarfsemi í Eyjum á sinni tíð.
Jón Einarsson og Ingibjörg kona hans voru meðal útflytjenda frá Garðstöðum til Vesturheims 1905, hann 50 ára, hún 51 árs. Eitthvað virðist hafa farið úrskeiðis í ferðalaginu, því að Jón dó í Eyjum ári síðar.

Kona Jóns á Garðstöðum var Ingibjörg, f. 19. febrúar 1854, d. 18. nóvember 1922, Hreinsdóttir frá Brandshúsi, en hann fórst með Hansínu 1863.
Börn Jóns og Ingibjargar hér nefnd:
1. Sigríður, f. 2. desember 1882. Hún fór til Vesturheims 1904, 21 árs, kona Kristjáns Sæmundssonar 29 ára.
2. Jónína, f. 11. ágúst 1885, d. 3. mars 1957, kona Kristmanns Þorkelssonar. Þau bjuggu í Steinholti. Þau voru foreldrar Kristmannssystkina, Karls, Inga (Ingibergs Sigurjóns), Júlíönu Kristínar, Magneu Þóreyjar, Huldar, Alexanders og Sigurveigar Þóru.
3. Kristján Jónsson, f. 15. september 1888, d. 26. desember 1888.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

„Hann var meðalhár, dökkhærður, allþrekinn, liðlega vaxinn, fremur fríður, dökkt yfirvaraskegg, stutt andlit en breitt, lágt enni og nokkuð há kinnbein, beint nef og andlitið fremur smátt.
Jón var orðlagður fjörkálfur og skapléttur og hrókur í fagnaði, spaugsamur og fullur galsa.
Hann var lipur veiðimaður, var nokkuð við veiðar í úteyjum og aðrar veiðar á Heimalandinu. Þótti góður liðsmaður, þegar hann vildi svo við hafa, en var nokkuð laus við vegna ærslaláta og æringjaskapar. En skemmtilegur þótti hann og þótti lífga vel upp á daufan félagsskap. Jón mun hafa fyrirfarið sér norðan á Eiðinu. Merkilegt af jafn lífsglöðum manni að vera, eftir því sem virtist vera. Hins vegar hefir, ef til vill sannast á honum, að enginn veit, hvar skórinn kreppir, nema sá, sem ber hann.“


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.