Ritverk Árna Árnasonar/Hjálmar Jónsson (Dölum)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Hjálmar Jónsson.

Kynning.
Hjálmar Jónsson frá Dölum, fæddist 5. júní 1899 í Bólstað í Mýrdal og lést 25. júlí 1968.
Foreldrar hans voru Jón Gunnsteinsson bóndi, útvegsmaður og söðlasmiður í Dölum, f. 10. desember 1844, d. 19. júlí 1924, og kona hans Þorgerður Hjálmarsdóttir húsfreyja, f. 4. júní 1855 að Ketilsstöðum Mýrdal, d. 2. mars 1939.

Kona Hjálmars var Guðbjörg Einara Helgadóttir húsfreyja, f. 16. október 1898, d. 23. júní 1958.

Börn Hjálmars og Guðbjargar:
1. Þorgerður, f. 14. janúar 1921, d. 28. maí 2004.
2. Jón Gunnsteinsson, f. 30. desember 1922, d. 31. ágúst 2014.
3. Kristín Helga, f. 11. mars 1925, d. 21. ágúst 1995.
4. Svava, f. 16. ágúst 1929, d. 16. janúar 1988.
5. Sveinbjörn, f. 11. september 1931.
6. Jakobína Bjarnfríður, f. 2. nóvember 1932.
Barn Hjálmars fyrir hjónaband; með Þórunni Guðmundsdóttur, síðar húsfreyju í Fíflholts-Vesturhjáleigu, f. 28. apríl 1888, d. 24. nóvember 1972:
7. Markús Hjálmarsson, f. 27. desember 1918 í Fíflholts-Vesurhjáleigu í V.-Landeyjum, d. 18. október 2010.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Hjálmar Jónsson er tæpur meðalmaður að hæð, svarthærður, en allþrekinn um herðar, mjög léttur í öllum hreyfingum, snar og fylginn sér og mjög þrautseigur í öllum störfum, þó að ekki sé hann kraftamaður.
Hann er liðugur sem köttur og með afbrigðum góður lundaveiðimaður, sigamaður landsþekktur og klifrar allt, sem klifrað verður, enda er maðurinn ófyrirleitinn og býður öllum hættum og erfiðleikum byrginn. Má hiklaust telja hann til bestu bjarggöngumanna og veiðimanna Eyjanna, enda hefir hann farið um og í allar úteyjarnar og allt heimalandið til lunda, eggja, fýla og súlna. Þess utan í Eldey og Krísuvíkurbjarg o.fl.
Síðustu árin hefir hann ávallt legið við í Álsey og gert garðinn frægan. Hann hefir þrisvar hrapað allhátt, meiðst mikið, en ekkert hefir það kynjað hann í þori og þrautseigju við björgin. Sá sem veiðir eins vel og Hjálmar, er góður veiðimaður.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Skagfirzkar æviskrár 1890-1910, IV. Margir höfundar. Sögufélag Skagfirðinga 1972.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.