Ritverk Árna Árnasonar/Fyrsta björgunarfélag á Íslandi

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Fyrsta björgunarfélag á Íslandi


stofnað í Vestmannaeyjum árið 1919


Þegar ræða á um björgunarskip hér í Eyjum, verðum við að fara langt aftur í tímann eða til ársins 1887. Þá er gerð samþykkt á fundi Bátaábyrgðarfélags Vestmannaeyja að fara þess á leit við eigendur áttæringsins „Haffrú“ og julsins „Blíðu“ að þeir hefðu skipin til taks í hrófunum með öllum fargögnum frá þeim tíma, að skip væru tekin úr hrófunum á haustin og þar til þau væri sett aftur í hróf í byrjun vertíðar, svo að fljótt yrði gripið til þeirra, ef slys bæri að höndum.
Þetta varð að samkomulagi milli eigenda skipanna og félagsstjórnar Bátaábyrgðarfélagsins. Sem þóknun fengu eigendur skipa þessara ábyrgð félagsins á greiðslu á öllu tjóni og skemmdum, er skipin kynnu að verða fyrir. Auk þess greiddi félagið þeim 1% af virðingarverði þeirra sem kaup. Þetta helst svo þannig á meðan opin skip gengu til fiskjar héðan, nema hvað skipt var um skip, er hin gengu úr sér – t.d. var skipið „Friður“ lengi sem björgunarbátur, Aurora o.fl.
Hugmynd þessi um björgunarbát var mjög góð og þörfin brýn, en vitanlega var þetta ónóg með tilliti til vertíðarinnar, því að þá var þessum björgunarbátum haldið út til fiskveiða og þá enginn sérstakur bátur til hjálpar, er slys báru að höndum.
Þau voru mörg slysin hér og sum alveg við landsteinana, eins og t.d. „Þurfalingsslysið“ 5. marz 1834, er 13 manns drukknuðu rétt utan við „Lækinn“, Hannibals-slysið 9. febrúar 1895 á „Leiðinni“, er Lárus Jónsson hreppsstjóri á Búastöðum drukknaði ásamt Bjarna Jónssyni, Björgvins-slysið, er Björn í Skarðshlíð fórst á „Víkinni“ og allur sá mannfjöldi o.m.m.fl.
Árið 1890 var hin svonefnda Bjargráðanefnd stofnuð hér, og beitti hún sér fyrir slysavörnum.
Hún fékk það m.a. upptekið í fiskiveiðasamþykktinni, að bátar skyldu hafa með sér a.m.k. 8 potta kút af lýsi til þess að geta hellt út í vondum sjó eða notað á annan hátt til varnar sjóágjöf.
Afaroft fyrirkom, að báta vantaði í lengri og skemmri tíma í vondum veðrum. Var þá oft flúið til nýaðkominna báta og þeir beðnir að fara að leita hins vantandi báts. Brugðust menn ávallt fljótt og vel við slíku, enda þótt oft væri teflt á tæpasta vaðið, farið út í myrkur og stórviðri.
Að sjálfsögðu kom fyrir að þessir bátar, sem fóru að leita, komu ekki aftur, en þrátt fyrir það fóru menn ávallt að leita, ef um var beðið.
Þá var og oftlega beðið um hjálp útlendra skipa í slíkum tilfellum og brást sjaldan eða aldrei hjálp frá þeim í leit að bátum. Einkum voru Englendingar hjálplegir í þeim sökum og fyrir kom líka, að þeir færu óbeðnir í slíkar ferðir. Var vissulega mörgum mannslífum bjargað á þennan hátt, þótt margir hraustir synir Eyjanna færust, fyndust ekki, þrátt fyrir ýtarlega leit.
Á þingmálafundi, sem haldinn var hér árið 1914, voru tveir frambjóðendur til alþingis héðan þeir Karl sýslumaður Einarsson og Hjalti Jónsson skipstjóri. Talaði Hjalti um það m.a., að nauðsynlegt væri fyrir Vestmannaeyinga að fá björgunarskip, sem einnig væri eftirlitsskip við landhelgina. − Þetta fékk góðar undirtektir á fundinum, því að menn fundu þörfina á að hjálpa nauðstöddum bátum og að verja fiskibúnaðinn. Var mikið rætt um þetta á fundinum, þó að ekki væri þá frekar að gert.
Síðar um sumarið eða 27. júní 1914 samþykkti sýslunefnd Vestmannaeyja áskorun til alþingis.
Í sýslunefnd voru þá Karl Einarsson sýslumaður, Gunnar Ólafsson kaupmaður, Halldór Gunnlaugsson héraðslæknir, Jón Einarsson kaupmaður á Gjábakka og Oddgeir Guðmundsen.
Þingmaðurinn, sem varð Karl Einarsson, kom áskoruninni á þingið og gerði grein fyrir þörfinni á eftirlits- og björgunarskipi.
Um þetta leyti skall fyrri styrjöldin á, og menn fengu annað að hugsa um en þessi áhugamál Eyjaskeggja. Varð því ekki af neinum framkvæmdum og lá málið niðri þar til veturinn 1917-18.
Þann 7. apríl 1918 var samþykkt þessi tillaga á þingmálafundi hér:
Fundurinn skorar á þingmanninn að flýta sem mest, að landstjórnin styrki Vestmannaeyinga til að eignast björgunarskip.
Þingmaðurinn bar málið fram á þinginu og fékk það góðar undirtektir, en þótti flausturslega undirbúið og ekki nógu vel. Því lauk á þessu þingi þannig, að 11. júní 1918 var samþykkt þingsályktun þess efnis, að Alþingi ályktaði að heimila landstjórninni að veita Vestmannaeyingum allt að 40 þúsund króna styrk til þess að festa kaup á björgunarbát, þó ekki framyfir 1/3 kostnaður.
Þigmaðurinn boðaði fjölda manna 3. ágúst 1918 á einkafund til þess að ræða stofnun björgunarfélags og til að kaupa björgunarskip. Var á þeim fundi samþykkt að stofna félagið og hefja fjársöfnun. Var kosin bráðabirgðastjórn til þess m.a. að halda áfram hlutafjársöfnun og undirbúa aðrar framkvæmdir í málinu.
Þessir voru kosnir: Karl Einarsson formaður, Jóhann Þ. Jósefsson ritari, Gísli Lárusson kaupfélstjóri, Þorsteinn í Laufási og Árni Filippusson í Ásgarði, en þeir tóku sér til aðstoðar Gísla Johnsen og Sigurð Sigurðsson lyfsala. Fór Sigurður Sigurðsson til Reykjavíkur til undirbúnings málinu og var hvarvetna vel tekið og ágengt.
Dagana 16. og 17. september 1918 var haldinn fundur um þessi mál og þar gefnar þær upplýsingar, sem fengist höfðu og upp lesin skýrsla erindrekans Sigurðar Sigurðssonar.
Hinn 17. september var kosin regluleg félagsstjórn og voru þessir kosnir:
Karl Einarsson formaður
Jóhann Þ. Jósefsson skrifari
Sigurður Sigurðsson lyfsali
Jón Hinriksson kaupfélagsstjóri
Gísli Lárusson kaupfélagsstjóri
og gjaldkeri var ráðinn Árni Fiippusson.
Félagslagafrumvarp stjórnarinnar var samþykkt endanlega á fundi félagsins 7. apríl 1919.
Hinn 11. okt. var Sigurður Sigurðsson ráðinn sem erindreki félagsins til að fara utan og undirbúa byggingu björgunarskips handa Vestmannaeyingum. Hafði nefndin hugsað sér það 50-60 tonn að stærð, djúprista 8 fet maximum, hraði minnst 12 mílur og styrkleiki 1 Cl.- Bureau Veritas.
Skömmu eftir áramót kom Sigurður Sigurðsson heim aftur með teikningar og fleiri upplýsingar um þessi skipakaup, frá sérfróðum mönnum. Svo bárust og tilboð um smíði á björgunarbát frá tveim skipasmíðastöðvum. Þessu var þó öllu frestað að sinni.
Síðar kom tilboð um kaup á skipi fyrir 250 þúsund krónur, en var enn frestað og þeim kaupum varð ekkert úr.
Snemma í ágúst 1919 bárust björgunarfélagsstjórninni þau boð, að „Thor“ hafrannsóknaskipið væri til sölu. Var fundur haldinn um þetta mál af stjórninni, sem þá var stödd í Reykjavík, 8. ágúst 1919. Á þeim fundi mættu skipstjórarnir Halldór Þorsteinsson, Jón Ólafsson og M. Magnússon.
Varð fundur þessi einróma sammála um að æskilegast væri að festa kaup á „Thor“ (stærð 115 fet að lengd, 21 fet á breidd og 11 á dýpt). Kaupverð Thor var 150 þúsund krónur og skyldi greiðast við móttöku.
Var nú hafist handa að safna fé til kaupanna og innheimta lofað fé o.s.frv. Gekk það mjög vel, en meira þurfti þó en þessar 150 þúsundir, því að ýmislegt vantaði, enda kostaði skipið í höfn komið í Vestmannaeyjum 270 þúsund krónur. Alþingi samþykkti að veita 50 þúsund krónur viðbótarstyrk eða samtals 90 þúsund krónur, enda styrkur þaðan þá orðinn þriðjungur kaupverðs.
Skipið lagði á stað frá Ora 13. marz 1920 og kom til Vestmannaeyja eftir slæm veður 20. sama mánaðar kl. 5 og er það því afmælisdagur í sögu félagsis, enda slegið í eitt og félagsafmælið haldið þá, en ekki september 16. eða 17., en þá var fyrsta stjórn kosin.
Við komu „Þórs“ til Eyja varð draumur Eyjaskeggja að veruleika um björgunarskip og fyrsta stórsporið í skipulagðri björgunarstarfsemi stigið. Þór varð fyrsta björgunarskip Vestmannaeyinga, fyrsta björgunarskip Íslendinga og hefst þarvið stórmerkur þáttur í bjögunarstarfsemi Íslands og sögu þeirra mála.
Það er óþarfi að skrifa um störf Þórs, eftir að hann kom. Hann var í ýmsum innanlandsferðum, við björgunarstarfið og eftirlit við landhelgina hér og svo Norðanlands og tók nokkur skip í landhelgi. 1924 var sett í hann fallbyssa og stóð hann þá betur að vígi, enda tók hann það ár 8 togara og 1 síldveiðiskip.
Það fór svo, að reksturskostnaður skipsins var Vestmannaeyingum um megn, því að ríkið vildi ekki samþykkja það tilboð að leigja skipið gegn sanngjarnri greiðslu til landhelgisstarfa, sem álitið var að færast þyrfti í íslenskar hendur. Loks varð það þó að samkomulagi, að ríkið keypti Þór fyrir 80 þúsund krónur með því skilyrði, að það héldi uppi björgunarstarfsemi og eftirliti 3½ – 4 mán á ári, þ.e. yfir vertíðina.
Salan fór fram og tók ríkið við skipinu 1. júlí 1926 og þarmeð hefst svo fyrir alvöru hin íslenska strandgæsla.
Talið er, að Þór hafi leitað báta hér 80 sinnum og beinlínis borgið með heimdrætti helmingi þeirra eða um 300 manns. Farþegaferðir fór Þór 73 hingað og þangað, stundum með yfir 100 farþega.
Svo er um skip sem annað, að einhvern tíma kemur að leiðarlokum. Síðasta ferð Þórs var það, að hann var af ríkisstjórninni sendur norður á land á Húnaflóa með 2 menn og strandaði þar á Sölvabakkaskerjum 21. des. 1929. Menn björguðust með naumindum vegna góðrar og ötullar framgöngu manna í landi. En skipið ónýttist með öllu. Það voru hans endalok, og var Þór þá 30 ára gamall. Ég hef heyrt að margur sjómaðurinn hér hafi sagt, er hann heyrði um strand Þórs: „Mér liggur við að gráta“.
Að síðustu – margt má segja allmerkilegt um „Þór“ og líf hans, liggur mér við að segja. Eins og til dæmis það, að hann var fyrsta fiskirannsóknarskipið, enda oftlega minnst á þær rannsóknir í fræðiritum. Hann var fyrsta björgunarskip Íslands. Hann var fyrsta strandvarnarskip Íslands og með honum færist sú mikla starfsemi yfir á íslenskar hendur. Má því minnast á það, að í starfi sínu tók hann alls 96 skip í landhelgi, sem gáfu í peningum í ríkiskassann um eina milljón króna. Þá var um tíma vertíðina 1921 læknir á Þór, Jón Benediktsson, og er það einsdæmi í sögu íslenska skipaflotans. Skyldi hann vera til taks, ef slasaðir menn þyrftu skjótrar hjálpar við á hafi úti. Svona mætti lengi upptelja, en hér skal staðar numið.
Þór var mesta happafleyta og uppáhald allra Eyjabúa, óskabarn þeirra, sem allt of snemma og óréttilega fór undan handarjaðri þeirra út í hringiðu tortímingarinnar. Eitt er víst, að minning hans mun uppi meðan íslenskir sjómenn eru við lýði í Vestmannaeyjum.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit