Ritverk Árna Árnasonar/Bölvaldur Vestmannaeyja 1600-1848

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Bölvaldur Vestmannaeyja 1600-1848


Á ÝMSUM ÖLDUM hafa tímabil óáranar og sjúkdóma gengið yfir flestar byggðir Íslands. Má þar til nefna farsóttir, sem valdið hafa manndauða, ógnum þrungin eldsumbrot, ísalög og veðurhörkur, sem af hefur leitt fólks- og skepnufelli, skipskaða, fiskileysisár, grasbrest og í kjölfar þess hina sárustu fátækt. Fjöldamargir kaflar sögu vorrar eru svo hlaðnir frásögnum um hörmungar þessar, að manni hrýs hugur við þeim þrautum, sem þjóðin hefur þolað.
Ekki fóru Vestmannaeyjar varhluta af þrengingum þeim, sem yfir meginlandið gengu. Hér var oft þröngt í búi sakir aflaskorts og farsótta, og fátæktin var trúr fylginautur manna. Þótt ekki væri lifandi eldfjall í Vestmannaeyjum, sluppu eyjarskeggjar sjaldnast við öskufall, þegar eldur var uppi í landi, né aðrar afleiðingar eldsumbrotanna. Var þeim oft skenktur beiskur bikar af þeim Heklu og Kötlu líkt og öðrum landsmönnum, einkum hinni síðarnefndu. Umbrot hennar trylltu oft hafið umhverfis eyjarnar, svo að það varð eins og hamslaus goshver. Fjallháir brotsjóar og hrikalegar bylgjur skullu með tröllauknum krafti á eyjunum, gengu langt á land upp, brutu og eyðilögðu allt, er á vegi þeirra varð. Ollu þessar hamfarir oft stórtjóni.
Aflabrestur lék Eyjarnar svo grátt sum árin, að vertíðarhlutur stórskipa varð aðeins um og yfir 100 fiskar. Skipa- og mannskaðar voru tíðir í Eyjum, og áttu fjölmörg heimili um sárt að binda þeirra vegna. Búskapur bænda þar var lítill, og stunduðu þeir þess vegna sjóinn af kappi, enda áttu þeir oftast afkomu sína undir fiskveiðunum. Brygðust þær ásamt fuglaveiðunum, mátti segja, að sultur væri fyrir hvers manns dyrum.
Ein plágan var þó flestum verri, og lá hún eins og mara á eyjabúum öldum saman. Þessi plága var barnadauðinn mikli og óviðráðanlegi, sem kallaður var „ginklofi“. Veiki þessi var svo skæð, að naumlega var öruggt um líf nokkurs barns í Eyjum, jafnvel þótt mæðurnar færu upp til meginlandsins til að ala þau. Mörg börn létust þar eða tóku veikina eftir að þau komu ung til Eyjanna. Munu börn 5 til 7 ára gömul oft hafa sýkzt, er þau komu frá meginlandinu, þótt ekki séu til sérstakar skýrslur um það.
Talið er að veikinnar hafi fyrst orðið vart í Eyjum um 1630, þó má vel vera, að hún hafi borizt þangað fyrr með fólki frá Írlandi. En umrætt ár skrifar Kirkjubæjarklerkur hér, að fjórar konur hafi látizt úr ginklofa, og auk þess 29 börn af 37, sem fæddust þar á þremur árum, 1627—1630. Af þessu sést, að fullorðið fólk hefur einnig orðið veikinni að bráð.
Í ritgerð séra Gissurar PéturssonarOfanleiti 1703 er veikinni lýst svo, „að hún líkist mjög sinadrætti, sem afmyndi, teygi og togi sundur limina og geri holdið blásvart“. Veikin magnaðist eftir því sem fólkinu fjölgaði. Við ekkert varð ráðið, enda var ekkert til varnar henni, nema ýmiss konar skottulækningar, sem fólkið greip til í vandræðum sínum, en gerðu að sjálfsögðu lítið eða ekkert gagn. Lengi var læknum ókunnugt um orsakir veiki þessarar, og talið var, að hún þekktist hvergi nema í Vestmannaeyjum. Síðar kom þó í ljós, að hún var einnig landlæg í Írlandi. Sumir töldu, að hún stafaði af fuglakjöts- eða fiskáti, en aðrir töldu hana koma af sóðaskap, af notkun fýlafiðurs í sængurfatnað, sem mjög var almennt, eða af mjög vondu neyzluvatni.
Sveinn Pálsson, læknir fór til Eyja 1799 til þess að kanna sjúkdóm þennan, og aðhylltist hann ofangreindar ástæður. Fýlafiður er afar daunillt, nema það sé mjög vel hreinsað, en slíkt hefur sennilega verið ókunn hreinlætisráðstöfun í þá daga. Allflestir efnaðri menn notuðu hins vegar lundafiður í sængurfatnað, en það var of dýrt fyrir alþýðu manna. Það var eðlilegt, að læknar kenndu óheilnæmu neyzluvatni um veikina, eins og Sveinn Pálsson. Allur þorri fólks sótti neyzluvatn í svonefnda „Vilpu“. Það er tjörn, sem aðrennsli hefur á alla vegu frá aðliggjandi túnum, en frárennsli er ekkert úr henni nema í stórleysingum. Á túnin var búpeningi beitt að sjálfsögðu og á þau var borinn alls konar húsdýraáburður, fiskúrgangur o. fl. eftir því, sem þörf krafði. Af túnunum rann svo vatn blandað þessum áburði í Vilpu, og má fara nærri um að það hefur ekki verið hollt til drykkjar eða neyzlu yfirleitt.
Brunnar við hús voru sízt betri, ef þeir voru þá nokkrir til. Þeir voru opnir og oftast grafnir í túnum bændanna (sbr. brunninn í Dölum, Miðhúsum og víðar). Steinlímdir brunnar komu hér ekki til sögunnar fyrr en skömmu fyrir síðustu aldamót, líklega 1880--1885, nema við fæðingarstofnunina, Dönsku húsin og á tveimur stöðum öðrum.
Til þess að bæta úr þessu lögðu læknar eindregið til, í fyrsta lagi, að vatnsbrunnar væru hafðir lokaðir, og í öðru lagi að til drykkjar væri eingöngu notað bergvatn úr Klettshelli í Yztakletti, frá Heimakletti undir Löngu og úr vatnslindinni inni í Herjólfsdal.
Læknisvitjanir voru erfiðar úr Eyjum, og oft var allsendis ókleift að ná til læknis, þótt bráðnauðsynlegt væri. Næstu læknar voru lengi vel í Nesi við Seltjörn eða á Austfjörðum. Urðu mennþví langoftast að vera án hjálpar þeirra.
Árið 1799 var stofnað læknishérað er náði yfir Suðurland, þ. e. Skaftafells-, Rangár- og Árnessýslur ásamt Vestmannaeyjum. Það var að vísu stórt skref til úrbóta því vandræðaástandi, sem í þessum málum hafði ríkt. Fyrsti læknirinn í þessu nýja héraði var Sveinn Pálsson. Bjó hann að Kotmúla í Fljótshlíð og síðar og lengst í Vík í Mýrdal. Á fyrsta embættisári sínu kom hann til Vestmannaeyja til þess að rannsaka ginklofann og almennt heilbrigðisástand eyjarskeggja.
Enda þótt læknir væri kominn í Vík, breyttist mjög lítið til batnaðar með ginklofann. Þvert á móti virðist veikin hafa ágerzt fyrstu tugi 19. aldarinnar. Vafalaust hefur lítið verið um læknisvitjanir til lands, eða læknarnir ekki getað gefið ný ráð gegn veikinni nema þau að breyta um drykkjarvatn, bæta hreinlæti og aðbúnað í híbýlum manna o. s. frv.
Árið 1800 gefa prestar Eyjanna skýrslu um barnadauða á tímabilinu 1790—1799. Á þessum árum hafa 80 börn, af 113 fæddum, látizt úr ginklofa.
AIls konar athugunum var haldið áfram, og ýmsar ráðleggingar gefnar, en allt jafn gagnslaust og ráð fólksins sjálfs í ráðaleysinu. Fyrirskipan kom frá stjórninni, þar sem brýnt var fyrir sýslumanninum, að hann skoraði á konur að hafa börnin á brjósti. Var þá talið líklegt, að sjúkdómurinn stafaði af því, að konur gæfu börnunum óblandaða kúamjólk. Annað virðist naumast hafa verið gert gegn þessum vágesti um árabil, og fór vitanlega árangurinn eftír því.
Árið 1820 hófust eyjarskeggjar loks handa undir forystu Magnúsar Bergmanns, verzlunarstjóra. Sendu þeir stiftamtmanni bréf og beiðni um fyrirgreiðslu til konungs, að hann vildi náðarsamlegast hjálpa eyjarskeggjum í þessum voða og senda þeim duglegan lækni, sem hefði í höndum lyf og læknistæki, og skyldi hann dveljast að minnsta kosti 3 ár í Eyjum. Hétu Eyjamenn að taka þátt í kostnaði þeim, sem af þessu leiddi eftir getu sinni. Landlæknir og amtmaður voru þessu mjög fylgjandi og skrifuðu þeir hvatningarbréf til stjórnarinnar um þetta nauðsynjamál í ágúst og september 1820.
Árangur þessara skrifa varð sá, að ákveðið var með konungsúrskurði 28. marz 1821, að kostnaður af þessu skyldi greiðast í bili af landfógeta, en síðar úr Jarðabókarsjóði. Fór þá að koma skriður á málið.
Fyrsti læknirinn, sem sendur var til Eyja frá Kaupmannahöfn var Íslendingur, Ólafur Thorarensen, var hann þá nýútskrifaður frá Hafnarháskóla. Hann kom til Eyja 1821. Dvaldist hann þar aðeins stuttan tíma, en þó var talið, að honum hefði orðið nokkuð ágengt til varnar veikinni, svo að sagt var að ekki hafi nema 8. eða 9. hvert barn veikzt af þeim, er fæddust þann tíma, sem hann var í Eyjum. Mun hjálp hans vafalaust hafa verið fólgin í auknu hreinlæti og góðu eftirliti með sængurkonu og barni.
En Ólafur hvarf á brott úr Eyjum og aftur sótti í sama horfið með ginklofann, og enn urðu Eyjamenn að sækja mál sitt til æðri staða. Sóttu þeir nú málið enn fastar en áður og nutu þar við góðs stuðnings Jóns Thorsteinsens, landlæknis. Sókn þessi bar þann árangur, að ný konungleg tilskipan var gefin út 1827 um sérstakt læknishérað í Vestmannaeyjum, en þó aðeins til sex ára. Hugðu ráðamenn, að þá mundi niðurlögum veikinnar ráðið að fullu, og heilbrigðisástand eyjabúa komið í viðunanlegt horf.
Hinn fyrsti skipaði Eyjalæknir kom þangað 1828. Hann var danskur og hét Carl Ferdinand Lund. Lagði stjórnin honum til nokkuð af lækningatækjum og lyfjum.
Lund varð brátt mjög vel kynntur og vinsæll í Eyjum, en því miður naut hans skamma stund við. Hann lézt hér 7. des. 1831 eftir tæpra þriggja ára dvöl. Ekki virðist honum hafa orðið nokkuð ágengt með að lækna ginklofann. Að minnsta kosti geisaði hann eftir sem áður eftir dauða hans.
Enn kom til kasta stjórnarinnar um málið. Sá hún sér ekki annað fært en að framlengja úrskurðinn um læknissetu í Eyjum og senda þangað annan lækni til næstu sex ára. Hét sá Carl H.U. Bolbroe frá Kaupmannahöfn. Hann var hér tilskilinn tíma, 6 ár, 1832 - 1839, og barðist gegn veikinni með nokkrum árangri. Abel sýslumaður telur honum hafa orðið nokkuð ágengt, og ástandið hafi batnað mikið síðan læknar urðu búsettir í Eyjum. Hefur sýslumanni að sjálfsögðu verið vel kunnugt um þetta.
Þegar lokið var tilskildum tíma Bolbroes læknis fór hann aftur utan, en veikin var landlæg sem fyrr og ósigruð að mestu, öllum til sárra vonbrigða.
Stjórnin ákvað því enn, að læknir skyldi sendur til Eyja. Munu meðmæli sýslumannsins einkum hafa ráðið þar úrslitum, því að nú gerðist það merkilega, að bæði landlæknir og stiftarntmaður lögðust á móti. Töldu þeir kostnaðinn við læknissetu í Eyjum of mikinn, þegar tekið væri tillit til hins litla árangurs, sem orðið hefði við læknissetuna þar.
En þótt þessir valdamenn legðust gegn því, var samt enn sendur læknir til Eyjanna frá Kaupmannahöfn, Andreas S.I. Haaland að nafni. Hann var áhugamaður um starf sitt og mannkostamaður mikill. Honum tókst að fá stjórnina til þess að leggja sér til ný lækningaáhöld og 200 ríkisdala styrk. Eftir komu sína 1840 gerði hann brátt tillögur til stjórnarinnar um, að komið yrði hér upp fæðingarheimili. Hann sagði, að veikin væri nú minni en undanfarin ár og þakkaði það góðu lækniseftirliti. Hins vegar taldi hann, að veikinni yrði ekki útrýmt fyrr en barnshafandi konum yrði fyrirskipað að leggjast á fæðingarheimili og fæða þar börn sín. Þar þyrftu þær að dvelja 3 - 4 vikur eftir barnsburðinn undir læknishendi og njóta leiðbeiningar um meðferð ungbarna. Einnig lagði dr. Haalland tíl, að ung stúlka yrði send utan til að læra ljósmóðurstörf, og yrði hún síðan látin vinna við fæðingarstofnunina. Kom hann því til leiðar, að Sólveig Pálsdóttir var send utan til ljósmóðurnáms.
Dr. Haalland aðhylltist skoðanir Sveins Pálssonar um, að veikin kynni að stafa frá kúamjólk, sem börnin fengju óblandaða strax eftir fæðingu. Neyzluvatnið úr Vilpu sagði hann algerlega óhæft, og aðbúð alla í híbýlum manna mjög slæma í hvívetna.
Þá komst dr. Haalland og að þeirri mikilvægu niðurstöðu, að börnum stafaði mjög mikil hætta af því, hversu illa væri gengið frá naflastreng þeirra við fæðinguna, uppbinding á honum og annar frágangur væri með öllu ófullnægjandi, og stafaði þetta af vankunnáttu ljósmæðranna í meðferð ungbarna.
Þarna var dr. Haalland að því kominn að leysa gátuna um ginklofann, þótt honum tækist ekki að finna fullkomna lausn hennar. Hann verður þó eigi ásakaður fyrir það, svo mjög sem hann barðist fyrir vörnum gegn veikinni, t.d. með stofnun fæðingarheimilis. En umbótatillögur hans fundu ekki náð fyrir augum stjórnarinnar, þótt vel væru rökstuddar. Þótti henni þær of kostnaðarsamar, og kom fyrir ekki, þótt Eyjabúar hétu að láta af mörkum allt að 1400 ríkisdölum upp í væntanlegan kostnað. Stjórninni þótti nóg aðgert svo sem komið var, og fékkst ekki til að leggja út í það stórfyrirtæki að reisa fæðingarheimili í Eyjum.
Dr. Haalland lét af störfum hér 1845 og fór til Kaupmannahafnar. Eftir hann kom læknir að nafni August F. Schneider. Hann var hér aðeins 2 ár, og virðist honum ekki hafa orðið mikið ágengt gegn veikinni. Að minnsta kosti fara ekki sögur af því. Hins vegar hefur það efalaust verið mikill styrkur í heilbrigðismálum Eyjanna, að hafa hér búsettan lækni, sem unnið hefur að því að halda uppi hreinlætisaðgerðum við sjúklinga og sængurkonur.
Þegar dr. Haalland kom til Kaupmannahafnar hélt hann áfram sókn sinni á hendur stjórninni um úrbætur í heilbrigðismálum Vestmannaeyja. Sótti hann málið svo fast að hann fékk að lokum stjórnina til að leita álits dr. Levys, prófessors, um ginklofann. Var það mikill sigur fyrir dr. Haalland.
Í álitsgerð sinni um málið segir Levy prófessor, að veiki þessi sé víðar til en í Vestmannaeyjum.
Hún sé t.d. algeng í Írlandi. Leggur hann eindregið til að komið sé upp fæðingarstofnun í Eyjum til útrýmingar veikinni. Segir hann, að í Dublin hafi slíkri stofnun verið komið á fót, og þá hafi brugðið svo við, að barnadauði af völdum veikinnar hafi minnkað á fyrsta ári niður í 4 prósent, og hafi hann farið minnkandi síðan. Þessi álitsgerð reið baggamuninn. Má vafalaust þakka dr. Haaland, að jákvæður árangur náðist í þessu mikla velferðarmáli Eyjamanna.
Stjórnin hófst nú handa um stofnun fæðingarheimilis í Eyjum. Fyrst var ráðgert að kaupa timburhús í Eyjunum fyrir 600 ríkisdali, og skyldi þar vera bústaður læknis og ljósmóður, ásamt góðu húsrúmi fyrir 3 sængurkonur. Ekkert slíkt hús var þá tiltækilegt í Eyjum. Varð stjórnin þá að leita annarra ráða. Fyrst ætlaði hún að leggja fram 4000 ríkisdali til að byggja nýtt hús, en guggnaði á því, er til kastanna kom, en fól lækni og sýslumanni að ráða fram úr því á sem hagkvæmastan hátt.
Árið 1847 var enn nýr læknir sendur til Eyja. Hét hann P.A. Schleisner,¹) var hann frá almenna sjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn, og sendur hingað til lands að ráðum og tilstilli Levys prófessors. Auk þess sem hann skyldi taka upp baráttuna við ginklofann í Vestmannaeyjum, var honum falið að ferðast um landið og kynna sér heilbrigðisástand landsmanna yfirleitt. En einkum hafði hann þó fyrirmæli um að rannsaka til hlítar allt, er við kom ginklofanum og heilbrigðisástandinu í Vestmannaeyjum, skyldi hann leitast við að finna orsök veikinnar, rannsaka í því skyni lifnaðarhætti Eyjabúa, híbýli þeirra, klæðnað, mataræði o. s. frv., en einkum þó alla meðferð ungbarna um og eftir fæðingu.
Schleisner kom til Vestmannaeyja 2. júlí 1847. Hóf hann starf sitt með því að leigja bráðabirgðahúsnæði fyrir fæðingarheimilið í „Danska Garði“.
Á meðan verið var að lagfæra það og búa það undir móttöku sængurkvenna, fór hann í ferðalag um meginlandið, en kom aftur til Eyja 20. september. Hófst þá starfsemi hans og fæðingarheimilisins, sem í daglegu tali var kallað „Stiftelsen“ og var rekið til júníloka 1848.
Eftir heimkomu sína til Danmerkur gaf Schleisner dönsku heilbrigðisstjórninni skýrslu um þennan landlæga barnasjúkdóm í Vestmannaeyjum. Hann ber latneska heitið Trismus neonatorum (ginklofi eða stífkrampi). Skýrsla þessi er prentuð í bók eftir dr. med. Julius Thomsen, sem heitir: Über Krankheiten und Krankheitsverhältnisse auf Island und der Faroer Inseln. Í skýrslu þessari segir svo:
„Eftir komu mína til Vestmannaeyja, 2. júlí 1847, fór ég strax til yfirvaldanna og samkv. hinum kgl. úrskurði var leigt hæfilegt húsnæðí fyrír fæðingarstofnunina, sem í öllu tilliti var heppilegt til þessa og nægilega stórt til þess að ég gæti búið þar og ljósmóðirin. En af því að hún fékkst ekki til að búa þar, nema fjölskylda hennar flytti í stofnunina, þá var því þannig fyrir komið, að hún komi tvisvar á dag í stofnunina til þess að vitja kvennanna og barnanna, fyrir tveggja dala borgun fyrir hverja konu og jafnháa upphæð fyrir hvert barn. Til þess að búa í stofnuninni var ráðin matselja, sem fékk 3 marka laun á dag fyrir hvert barn, sem lifði, og tvö fyrir hvert barn, sem lézt. Auk þess þóknun fyrir mat handa fátækum konum. Meðan verið var að koma stofnuninni í lag, tókst ég á hendur ferð til fastalandsins og kom fyrst aftur 20. september. (Sbr. hér á undan.).
Ég komst að raun um að íbúarnir voru langt frá því að vera hlynntir fyrirtækinu. Konurnar voru ófúsar til þess að leggjast inn á stofnunina, jafnvel þess fullvissar, að ekki væri hægt að afstýra dauða ungbarnanna.
Ég átti því erfitt með að koma fyrirtækinu í framkvæmd og þrátt fyrir það að ég legði margt í sölurnar. Ég gat aðeins fengið átta konur til að leggjast á stofnunina. Aftur á móti voru öll börn, sem fæddust þann tíma, sem ég dvaldist á þessum stað, flutt þangað, annað hvort sama dag eða daginn á eftir að þau fæddust. Með því að sjúkdómurinn kemur venjulega í ljós, hér sem annars staðar, innan 14 daga eftir fæðinguna, var börnunum hjúkrað, og þau alin aðeins 2 til 3 vikur á stofnuninni.
Ég þarf ekki að taka fram, að ég gætti allra varúðarreglna með tilliti til dragsúgs, hitabreytinga og óþæginda, m.a. við að gefa börnunum að borða (kunstliche auffütterung), sem ekki varð hjá komizt vegna aðstæðna. Einkum gaf ég gætur að naflastrengnum og lét, eftir ráði amerískra lækna, binda um naflann á öllum börnum, þangað til að hann féll af, með „balsamum copaivae“ þar sem vart varð við hið minnsta grunsamlegt sjúkdómseinkenni, t.d. ef naflasárið hafði mislitt útlit, brúnirnar uppflenntar og bólgnar, neðri hluti líkamans heitur og stífur, notaði ég líka sem varúðarreglu heit jurtablöð og lét binda naflann einu sinni eða tvisvar daglega með sárabindi, sem bleytt var í „Laud. liq. Syd.“
Af þeim 23 börnum, sem tekin voru á stofnunina, (sá fjöldi svarar til meðaltals barna sem fæddust árlega), fengu aðeins 3 ginklofaveikina og létust þau, þó meðöl væru notuð. Tvö létust á 7. degi, en eitt á 9. degi. Auk þess dóu 2 börn, annað af vondu kvefi, sem þá gekk og barnið hafði frá fæðingu, en hitt barnið fæddist fyrir tímann og lézt af vesaldómi án þess að nokkuð fyndist athugavert á því við líkskurð.
Eftir útreikningi, sem ég hef gert eftir kirkjubókum síðustu 20 árin, kemur í ljós að af lifandi fæddum börnum dóu árlega að meðaltali 62% áður en liðnar voru 21 fyrstu vikurnar eftir fæðingu....“ (Hann á hér við árin 1828 til 1848).
Dr. Schleisner kveðst hafa orðið var ginklofa um allt land, en hvergi sé hann jafnskæður og í Vestmannaeyjum. Hann segir, að barnadauðinn sé þar mestur hjá bændum, en húsnæði þeirra sé verst og sóðaskapur mestur. Næst gangi barnadauðinn hjá tómthúsmönnum, þá embættismönnum og verzlunarfólki en minnstur sé hann hjá kaupmönnum, enda séu húsakynni þeirra bezt. Einnig segir hann, að híbýli manna í Eyjum séu þau langverstu, er hann hafi séð á öllu landinu, og er lýsing hans á þeim mjög ófögur.
Enginn vafi er á, að húsakosti manna hér hefur verið mjög ábótavant um þessar mundir og hreinlæti af skornum skammti bæði í Eyjum og annarsstaðar, að minnsta kosti í augum dr. Schleisners.
Það er ekki að undra þótt honum hafi blöskrað, þegar þess er gætt, að allar líkur eru til að fyrstu mannahíbýlin, sem hann hefur kynnzt, hafi verið fjósbaðstofur, sem vitanlega voru mjög misjafnar að gæðum og hreinlæti. Við húsdyr margra heimila hér í Eyjum voru þá safnþrær, sem í var hent alls konar úrgangi, hefur óefað lagt af þeim magnaðan óþef, því að allar voru þær opnar. Þá hefur fýlafiðurlyktin af sængurfatnaði og fólkinu sjálfu ekki verið sérlega heilnæm, að ógleymdri fýlunni og reyknum af eldiviðnum, sem var þurr bein, þang, fuglshamir, tað, grútur o.fl. þess háttar. Segir læknirinn að húsin séu oftast full af svælu og reyk frá þessum óþverra, og sé þetta mjög skaðvænlegt heilsu fullorðinna, hvað þá nýfæddra barna. Loftrými í húsum segir hann að hafi minnst verið 48 rúmfet á mann, en mest 192 rúmfet, meðaltalið sé 99,6 rúmfet.
Margt fleira telur hann upp, sem ábótavant sé í hreinlæti og heilbrigðisháttum, og hafa ályktanir hans efalaust haft við full rök að styðjast.
Fyrsta barnið sem fæddist og hélt lífi á fæðingarheimilinu var Soffia Lizebeth Andersdóttir, skipstjóra Asmundsen og konu hans Ásdísar Jónsdóttur í Stakkagerði. En fyrsta barnið, sem á heimilinu fæddist, dó, og gerði læknirinn miklar rannsóknir í sambandi við það, einkum á meðferð naflastrengsins. Er ekki ósennilegt, að þær rannsóknir hafi verið í beinu framhaldi af athugunum dr. Haallands, sem Scleisner hefur vafalítið verið kunnugt um, svo og rannsóknir amerískra lækna, en við reynslu þeirra studdist Haalland mjög eins og fyrr getur.
Loks tókst að ráða þessa flóknu gátu ginklofans, sem legið hafði eins og farg á Eyjabúum öldum saman. Það tók dr. Schleisner ekki nema rúmt ár að kveða veikina niður að mestu. Lækningaraðferð hans var fremur öllu fólgin í auknu hreinlæti og því að bera olíu, sem nefnd var naflaolía (balsamum copaive), á nafla barnanna nýfæddra og þar til alveg var gróið fyrir naflastrenginn. Hann lét og gæta, hvers konar hreinlætis í meðferð sængurkvenna, bæði um fatnað og aðra aðbúð, og naut þar við þekkingar og hins stranga eftirlits hinnar lærðu ljósmóður, frú Sólveigar Pálsdóttur.²)
Árið 1849 fæddust hér 20 börn, en aðeins 2 dóu, og síðan komu fyrir eitt og eitt dauðsfall af völdum ginklofans allt fram á 20. öldina.
Orsök ginklofaveikinnar taldi Schleisner vond húsakynni og óhreinlæti á öllum sviðum, sem af þeim leiddi. Á vertíðinni segir hann, að komi um 250 manns til Eyja og setjist að í þeim húsakynnum, sem fyrir séu, og minnki loftrýmið í húsunum við það niður í 66,8 rúmfet að meðaltali og á einum stað hafi hann séð, að ekki var nema 34,2 rúmfeta loftrými á mann. Þá hafi það verið siður þar sem annars staðar á landinu, að ljósmæðurnar flyttu nýfædd börnin heim með sér og ælu þau þar fyrstu vikurnar. Ljósmóðir sú, er lengi hafði verið í Eyjunum, var ólærð og bjó í lélegum húsakynnum. En þegar dóttir hennar, Sólveig Pálsdóttir, tók við starfinu, lærð vel og kröfuhörð um allt hreinlæti, segir læknirinn, að svo hafi vaninn verið rótgróinn meðal fólksins, að það hafi helzt ekki viljað leita til hennar fyrst í stað, en tekið gömlu konuna fram yfir hana. Telur hann, að þetta hafi meðal annars seinkað því að vinna bug á veikinni, því að vitanlega hefði mjög vel lærð og samvizkusöm ljósmóðir kunnað starfið betur, og gætt hinnar nauðsynlegu varúðar um allt hreinlæti, sem hún vissi hversu mikilvægt var.
Af dánarskýrslum séra Jóns Austmanns sést, að á árunum 1817 - 1836 fæddust 210 börn í Ofanleitissókn.
Af þeim dóu 157 á fyrsta ári. Samsvarandi tölur vantar úr Kirkjubæjarsókn þessi ár, en naumast hefur ástandið verið betra þar.
Árið 1837 voru prestaköllin sameinuð. Frá þeirn tíma til 1842 fæðast 120 börn í Eyjum, en af þeim deyja 87 á fyrsta ári eða nýfædd. Auk þess eru svo þau börn, sem dóu innan 6 ára aldurs, en þau eru ekki talin i skýrslum séra Jóns.
Tölur þessar sýna bezt, hvílíkur ógna vágestur ginklofinn var og, að ekki var vanþörf á að finna varnir gegn honum.
Nafn dr. Schleisners mun því löngum í minnum haft í Vestmannaeyjum, sem eins hins mesta velgerðamanns Eyjamanna, sem leysti þá undan einhverjum þeim verstu hörmungum, sem yfir Eyjarnar hafa gengið allt frá fyrstu byggð þeirra.
En um leið og minnzt er dr. Schleisners, má ekki ganga fram hjá minningu dr. Haallands, því að víst er um það, að hann átti ekki minnstan þátt í hversu giftusamlega tókst til. Það var Haalland, sem með nákvæmri athugun sinni fann hættuna, sem stafaði af sóðaskap og ófullnægjandi meðferð naflastrengsins á ungbörnum, og er enginn vafi á, að Schleisner hefur fært sér þær athuganir í nyt. Þá var það einnig Haalland, sem með áhuga sínum og harðfylgi fékk dönsku stjórnina til þess að snúa sér til Levys prófessors og leita álits hans um, hvað gera skyldi.
Án afdráttarlausra tillagna prófessors Levys er vafasamt, hvort Schleisner hefði verið sendur til landsins og fæðingarstofnunin nokkru sinni komizt á fót. Hefði ginklofinn þá haldið áfram að stráfella börn Eyjabúa um ófyrirsjáanlegan tíma. Ekki er fjarstætt að hugsa sér, að veikin hefði magnazt með auknum fólksflutningum til Eyja. En þegar svo var komið, hefði hún getað átt þátt í að leggja þær í auðn, þegar fólk sá hvert stefndi, því að hinn stórkostlegi barnadauði hefði sennilega flæmt fólk í burtu, þar sem það hefði ekki treyst sér til að búa við slíkar hörmungar.

¹) P.A. Schleisner dvaldist hér á landi í tvö ár. Sumarið 1847 ferðaðist hann um Norður- og Austurland, en sumarið 1848 um Suður- og Vesturland, allt norður á Barðaströnd.
Hann samdi allmikla bók um ferðir sínar og rannsóknir hér á landi. Heitir hún Island undersögt fra et lægevidenskabeligt Synspunkt, Kbhavn 1851.
Þrjá fyrstu kafla bókarinnar gaf hann út sem sérstaka ritgerð undir nafninu: Forsög til en Nosographie af Island, Kbhavn 1849. Hlaut hann doktorsnafnbót fyrir hana við Hafnarháskóla. Þorvaldur Thoroddsen segir um bók Schleisners: „Í henni er mjög mikill fróðleikur, eigi aðeins um sjúkdóma og heilsufar, heldur einnig um margt annað, einkum um lifnaðarhætti íbúanna...., er hún enn hin ítarlegasta bók á dönsku um lifnaðarhætti Íslendinga á 19. öld og hefur töluvert sögulegt gildi.“

²) Sólveig Pálsdóttir, amma Matthíasar Einarssonar, læknis, var yfirsetukona í Vestmannaeyjum 1842 - 1867. Hún var gift Matthíasi Markússyni trésmið. Þau reistu húsið Landlyst laust fyrir 1850, en það ár var það stækkað og var viðbótin nefnd „Stiftelsen“ og var þar fæðingarheimilið úr því.

Heimildir við samningu þessarar greinar hef ég úr ritum prestanna séra Jóns Austmanns og séra Jes A. Gíslasonar um veikina. Afskriftir úr Þjóðskjalasafni gerðar af Jóhanni G. Ólafssyni bæjarfógeta, m.a. er þar skýrsla dr. Schleisners o.fl.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit