Jörgen Johnsen (Garðinum)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Jörgen Johnsen.

Kasper Johan Jörgen Johnsen verslunarstjóri í Garðinum, kaupmaður í Hafnarfirði og á Papósi fæddist 12. október 1822 í Söndeborg í Danmörku og lést 17. ágúst 1874 í Khöfn.

Hann fluttist til Eyja 1845, verslunarstjóri (faktor) að Garðsverslun og gegndi því starfi til 1851.
Í fyrstu var hann í Kornhól með hjónunum Sólveigu Pálsdóttur ljósmóður og Matthíasi Markússyni smið, Halland lækni, Sigríði Nikulásdóttur ráðskonu og Guðfinnu Austmann „sjálfrar sinnar“.
1846 var hann þar með Pétri Bjarnasen tökudreng, Sigríði bústýru og Guðfinnu Austmann sjálfrar sinnar.
1847 var Guðfinna farin þaðan, en var 24 ára þjónustustúlka á Fæðingarstofnuninni hjá Schleisner lækni. Þar var einnig sonur hennar Jóhann Jörgen Johnsen á fyrsta ári.
1848 var Jörgen í Kornhól með Pétri Bjarnasen og Sigríði bústýru. Hún var bústýra hans til 1849, en þjónustustúlka þar eftir að Hanne Marie Henriette kom á heimilið. Guðfinna var nýgift á Vilborgarstöðum með syni sínum og eiginmanni í heimili með tengdaforeldrum sínum.

Hanne Marie Henriette fluttist til Eyja 1849 og þau Jörgen giftu sig um sumarið.
Þau eignuðust soninn Jörgen Henrik Nicolai í apríl 1850 og voru í Kornhól með hann og Pétur Bjarnasen í lok ársins.
Jörgen Johnsen keypti Flensborgarverslun í Hafnarfirði 1850 af Frederike Marie Asgeirsen, f. Steenbach, ekkju Magnúsar Ásgeirssonar kaupmanns, áður verslunarstjóra í Ólafsvík.
Johnsenhjónin fluttust frá Eyjum 1851 og Conrad Lintrup var skráður verslunarstjóri í Garðinum á því ári. Hann fluttist til Eyja frá Hafnarfirði.

Saga Hafnarfjarðar eftir Sigurð Skúlason: „Rak J. Johnsen síðan verzlunina um nokkurt skeið, en 1. febrúar 1855 seldi hann hana tveim sonum sínum, Jörgen J. C. Johnsen og Christian Johnsen, fyrir 2100 rd., og skyldi hún framvegis rekin undir nafninu: Johnsen & Co. í Hafnarfirði.
Jörgen J. C. Johnsen mun síðar hafa keypt þann hluta, er bróðir hans átti í Flensborgarverzlun, og rekið verzlunina því næst einn til æviloka. En eftir lát hans seldi ekkja hans, Hanne Marie Henriette Johnsen (f. Bernikov) í Kaupmannahöfn, árið 1875, P. C. Knudtzon & Sön Flensborg og þann hluta úr Hamarslandi (áður Ófriðarstaðalandi), sem maður hennar hafði átt fyrir 7 þús. krónur.
En firmað, P. C. Knudtzon & Sön, hóf ekki verslunarrekstur í Flensborg, heldur seldi það Þórarni prófasti Böðvarssyni í Görðum fasteignin til skólaseturs. “ (Hér gæti verið mannaruglingur á ferð).

Jörgen Johnsen stofnaði verslun á Papósi í Lóni 1861. Verslunarleyfið var gefið út 19. janúar 1863.
Kaupmaður á Papósi 1880 var Jörgen H. N. Johnsen fæddur í Eyjum 1850.
Síðar (1895 eða fyrr) var Ottó Tulinius kaupmaður þar.
Verslun þar var rekin til 1897, er hún var flutt á Höfn í Hornafirði, m.a. vegna erfiðra hafnarskilyrða á Papósi.

I. Barnsmóðir Jörgens var Guðfinna Jónsdóttir Austmann, sem hafði verið bústýra hjá Jóhanni Bjarnasen verslunarstjóra, en hann var þá ekkill í Garðinum, uns Jörgen tók við húsum, en hún var skráð „sjálfrar sinnar“ þar hjá honum 1846.
Barn þeirra var
1. Jóhann Jörgen Johnsen veitingamaður, bóndi og útgerðarmaður í Frydendal, f. 9. október 1847, d. 11. maí 1893. Hann var faðir Gísla, Sigfúsar Maríusar, Guðna, Kristins Lárusar og Árna.

II. Kona Jörgens, (7. júlí 1849 í Eyjum), var Hanne Marie Henriette Johnsen, húsfreyja, f. 4. febrúar 1828 í Khöfn, skírð 27. apríl 1828, lést 28. desember 1924 í Khöfn.
Barn þeirra fætt í Eyjum:
2. Jörgen H. N. Johnsen, f. 23. apríl 1850 í Eyjum, skráður kaupmaður á Papósi 1880 og lést 15. maí 1897 í Khöfn.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.