Jón Bernódusson (verkfræðingur)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Jón Einarsson Bernódusson.

Jón Einarsson Bernódusson frá Borgarhól við Kirkjuveg 11, skipaverkfræðingur, forstöðumaður, frumkvöðull fæddist 18. febrúar 1952 og lést 22. september 2021 á Landspítalanum.
Foreldrar hans voru Bernódus Þorkelsson vélstjóri, skipstjóri, f. 3. júní 1920 í Sandprýði, d. 11. febrúar 1957, og kona hans Aðalbjörg Jóhanna Bergmundsdóttir húsfreyja, verkakona, f. 27. desember 1919 á Strönd, d. 8. september 2003.

Börn Aðalheiðar og Bernódusar:
1. Birna Berg Bernódusdóttir húsfreyja, bankastarfsmaður í Hafnarfirði, f. 8. september 1938 í Stakkholti, d. 31. mars 2021.
2. Þorkell Birgir Bernódusson, f. 14. nóvember 1939 á Haukfelli, d. 1943 úr berklum.
3. Elínborg Bernódusdóttir húsfreyja, fiskverkakona í Eyjum, f. 4. desember 1940 í London.
4. Þóra Birgit Bernódusdóttir húsfreyja, verkakona, klinikdama í Eyjum, f. 8. desember 1942 í London, d. 26. janúar 2013.
5. Aðalbjörg Jóhanna Bernódusdóttir húsfreyja, útgerðarmaður í Eyjum, f. 28. júní 1944 í London.
6. Birgir Bernódusson stýrimaður, f. 4. apríl 1946 að Faxastíg 11, fórst með v/b Ver 1. mars 1979.
7. Helgi Bernódusson cand. mag. í íslensku og almennum málvísindum, skrifstofustjóri Alþingis, f. 6. ágúst 1949 á Borgarhól.
8. Jón Einarsson Bernódusson skipaverkfræðingur, forstöðumaður skipasviðs Siglingamálastofnunar, f. 18. febrúar 1952 á Sjúkrahúsinu, d. 22. september 2021.
9. Þuríður Bernódusdóttir húsfreyja, fiskverkakona, þjónustufulltrúi, f. 13. nóvember 1954 á Sjúkrahúsinu.
Börn Aðalbjargar og Magnúsar Magnússonar, síðari manns hennar:
10. Jóhannes Þórarinsson, f. 1. nóvember 1959. Hann varð kjörbarn Ásu Bergmundsdóttur systur Aðalbjargar, f. 2. maí 1926, d. 28. nóvember 2004, og Þórarins Kristjánssonar sjómanns, kaupmanns, f. 13. júní 1920, d. 11. janúar 1983.
11. Elín Helga Magnúsdóttir húsfreyja, skrifstofumaður í Eyjum og Reykjavík, f. 16. september 1963.

Jón var með foreldrum sínum skamma stund, því að faðir hans lést, er Jón var fimm ára. Hann var til heimilis á Kirkjuvegi 11 1972, Kirkjuvegi 17 1979 og 1986.
Hann lauk landsprófi í Gagnfræðaskólanum 1970, varð stúdent í Menntaskólanum í Hamrahlíð 1974. Jón lauk Dipl.Ing-prófi í skipaverkfræði í Universität Rostock í A.-Þýskalandi, stundaði framhaldsnám í eðlisverkfræði í Technische Universität Berlin 1979-1981; straumfræði og sveiflufræði; framhaldsnám í skipaverkfræði 1981-1983; hönnun skipa og rannsóknir.
Jón vann heimkominn hjá fyrirtækinu Atlas sem annaðist innflutning skipa og véla. Árið 1998 hóf Jón störf á Siglingamálastofnun, sem síðar varð hluti af Samgöngustofu og vann þar til æviloka, síðast fagstjóri rannsókna, þróunar og greiningar. Sérsvið hans síðari ár voru rannsóknir á nýtingu repju til framleiðslu lífrænnar olíu (lífdísils) til manneldis og sem eldsneyti og var í forsvari fyrir mörgum rannsóknarverkefnum á þeim vettvangi. Átti hann mest samstarf við ábúendur á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum og Sandhól í Meðallandi, auk ráðuneyta og annarra stofnana. Samhliða föstu starfi fékkst Jón við kennslu og var frumkvöðull á því sviði. Frá árinu 2005 var hann stundakennari við námsbraut í véla- og orkufræði við Háskólann í Reykjavík (HR), þar sem hann kenndi straumfræði og aflfræði. Á árunum 2010-2019 sá hann m.a. um kennslu í Iceland School of Energy (Orkuskóla Íslands), sem er deild innan verkfræðideildar HR. Þar kenndi Jón erlendum meistaranemum nýsköpun á orkusviðinu tengda repjurannsóknum og leiðbeindi nemendum við lokaverkefni. Auk þess kenndi Jón stærðfræði, eðlisfræði og skyldar greinar við aðra skóla, m.a. við Tækniskólann.
Þau Martina giftu sig 1979, eignuðust tvö börn. Þau bjuggu í Þýskalandi og Reykjavík.
Jón lést 2021.

I. Kona Jóns, (1979), er Martina Bernodusson lyflæknir, fædd Fährmann 20. febrúar 1957 í Schwerin í Þýskalandi. Foreldrar hennar voru Martin Fährmann framkvæmdastjóri í Schwerin, f. 13. september 1905 í Schwerin, d. 24. september 1964, og kona hans Maria Fährmann, f. 24. desember 1922 í Vechta í Þýskalandi.
Börn þeirra:
1. Maria Lára eðlisfræðingur, sérnámslæknir í Sviss, f. 26. júní 1990 í Reykjavík.
2. Aðalbjörg Jóhanna sálfræðingur í Frankfurt, en býr nú á Íslandi, f. 24. október 1993 í Reykjavík. Unnusti hennar er Nils Buddemeier.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íbúaskrá Vestmannaeyja 1972.
  • Morgunblaðið 1. október 2021. Minning.
  • Prestþjónustubækur.
  • Verkfræðingatal. Ritstjóri: Þorsteinn Jónsson. Þjóðsaga ehf. 1996.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.