Guðjón Weihe (rafvirki)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Guðjón Weihe.

Guðjón Weihe rafvirki, húsvörður fæddist 4. júní 1945 á Framnesi við Vesturveg 3b og lést 26. febrúar 2022 á Landspítalanum.
Foreldrar hans voru Johan Elias Martin Weihe frá Færeyjum, verkamaður, f. 11. nóvember 1913 í Suðurey þar, d. 11. janúar 1992, og kona hans Guðlín Guðný Guðjónsdóttir frá Framnesi, húsfreyja, f. 24. mars 1913, d. 19. maí 1970.

Börn Guðlínar Guðnýjar og Johans:
1. Guðjón Weihe, f. 4. júní 1945 á Framnesi, d. 26. febrúar 2022.
2. Jóhanna Helena Weihe, f. 7. maí 1949 á Framnesi.
Fóstursonur þeirra var
3. Kjartan Sigurðsson sjómaður, f. 23. ágúst 1943 í Skógsnesi í Flóa, drukknaði 16. október 1972.

Guðjón var með foreldrum sínum í æsku.
Hann lærði í Íþróttaskólanum í Haukadal 1960-1961, lærði rafvirkjun í Iðnskólanum í Eyjum, lauk sveinsprófi 1977. Meistari Sæmundur Vilhjálmsson.
Guðjón vann við fiskiðnað og við hraunkælingu í Gosinu 1973. Síðar vann hann hjá Rafveitu Vestmannaeyja, sem síðar varð að Bæjarveitum Vestmannaeyja og gekk síðast inn í H.S. Veitur. Þar vann hann til 2001, er hjónin fluttu til Reykjavíkur.
Guðjón var hagyrtur, samdi ljóð, dæmi:

Ást
Ástin skreytti okkar spor
yndisrósum forðum.
Alla daga von og vor,
var í beggja orðum.
Ég man enn þá út við mar
aftangeisla skína,
allt, sem lífið okkur bar
ástarkveðju sína.
Enn þá skreytir okkar leið
Allt sem fyrrum skeði,
enn er sól á himni heið
í hjörtum ást og gleði.

Hjónin bjuggu við Efstaleiti og Guðjón varð húsvörður í Efstaleiti 10-14 til 2011, er þau sneru til Eyja.
Þau Erla Hrönn giftu sig 1965, eignuðust þrjú börn. Þau bjuggu í Görðum við Vestmannabraut 32 í fyrstu, en á Boðaslóð 6 við Gos 1973. Eftir heimkomu frá Reykjavík bjuggu þau á Dverghamri 17.
Guðjón lést 2022.

I. Kona Guðjóns, (20. febrúar 1965), er Erla Hrönn Snorradóttir frá Akurseli í Öxarfirði, húsfreyja, f. 9. júní 1946.
Börn þeirra:
1. Jóhanna Guðný Weihe, f. 9. október 1964. Fyrrum maður hennar Ásgeir Sigurðsson. Maður hennar Stefán Einarsson.
2. Hrafnhildur Bára Guðjónsdóttir, f. 13. maí 1966. Maður hennar Björn Svavar Axelsson.
3. Haukur Örvar Weihe, f. 6. október 1977. Fyrrum sambúðarkona er Ingibjörg Pálsdóttir. Sambúðarkona hans Caryn Leigh Wilson.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.
  • Morgunblaðið 11. mars 2022. Minning.
  • Prestþjónustubækur.
  • Rafvirkjatal. Ritstjóri: Þorsteinn Jónsson, Gunnar Guðmundsson og fleiri. Þjóðsaga hf. 1995.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.