Blik 1978/„Í hneykslanlegri sambúð“
Við skulum hvarfla huga svo sem 125 ár aftur í tímann. Viss fyrirbæri í lífi fólks þá í Vestmannaeyjum mundi ekki geta átt sér stað á landi hér nú á tímum.
Á Oddstöðum í Eyjum búa hjónin Jón bóndi Þorgeirsson og frú Elín Einarsdóttir húsfreyja. Þau eru þekkt hjón í byggðarlaginu, hafa dvalizt þar lengi, og eru kunn sæmdarhjón og þekkt að manngæðum og hjálpsemi við snauða og lítilsmegandi samborgara. — Um árabil voru þau tómthúsfólk og bjuggu þá m.a. í hinu kunna tómthúsi Kastala. Það var á fyrri helmingi aldarinnar.
Þegar hér er komið sögu þeirra, eru liðin þrjú ár fram yfir miðja öldina. Og hann, bóndinn á Oddstöðum, hefur ávallt stundað lundaveiðar hvert sumar í henni Elliðaey. Þar hefur hann veitt lundann í net og svartfuglinn í snörur á flekum í námunda við eyjuna. — Þegar Jón bóndi var tómthúsmaður, veiddi hann í Suðurey. Þá var líf í tuskunum, — já mikið líf og fjör. Og þá urðu sumir veiðigarparnir nafnkunnir fyrir kveðskap sinn þar í eyjunni, t.d. Jón bóndi, sem þá orkti Suðureyjarbrag, sem vakti athygli og ánægju þeirra, sem næstir stóðu. Einnig orkti Jón bóndi formannavísur um sægarpa mikla þar í byggð og sjósóknara. Kveðskapur Jóns bónda þótti snjall á þeim tímum og hafður á orði.
Aldur hjónanna á Oddstöðum, Jóns bónda Þorgeirssonar og frú Elínar Einarsdóttur, fylgdi svo að segja öldinni. Jón bóndi var fæddur árið 1801.
Síðari hluta ársins 1853 veiktist húsfreyjan á Oddstöðum, frú Elín Einarsdóttir, hastarlega. Hún lézt 6. júní árið eftir (1854).
Ástríður gamla Jónsdóttir, móðir Jóns bónda, var þá hjá þeim hjónum. Hún var á áttræðisaldri, þegar Elín tengdadóttir hennar andaðist. Gamla konan var farin að kröftum og heilsu, svo að hún gat ekki veitt heimilinu forstöðu.
Nokkrum vikum eftir jarðarför eiginkonunnar lagði Jón bóndi leið sina upp að Ofanleiti til fundar við sóknarprestinn séra Jón Austmann. Þeir voru trúnaðarvinir, enda hafði Jón bóndi verið sóknarbarn prestsins um tugi ára bæði sem tómthúsmaður í Kastala og bóndi á Oddstöðum.
Erindi bóndans á Oddstöðum til vinar síns prestsins að Ofanleiti var að þessu sinni dálítið sérlegs eðlis. Hann vildi ræða við hann hjúskaparmál og leita hjá honum ráða. Bóndi hafði sterkan hug til að leita sér kvonfangs í stað Elínar heitinnar. Ekki mátti það henda þetta dygga og trúa sóknarbarn prestsins að ráða sér bústýru og eiga það síðan á hættu að lifa með henni í „hneykslanlegri sambúð,“ eins og valdsmennirnir orðuðu það, — sænga hjá henni og svo sitthvað meira, með því að Jón bóndi var ekki sneyddur allri sjálfsþekkingu, sízt á þvi sviði mannlegrar tilveru. Hneyksli vildi hann sízt valda í söfnuðinum.
Hafði Jón bóndi þá augastað á konuefni í stað Elínar heitinnar? Já, ekki var þvi að neita. Vinnukona var á Gularási í Landeyjum,
Margrét Halldórsdóttir að nafni. Hún var hin myndarlegasta stúlka í öllum húsverkum og þó aðeins 21 árs að aldri.
Nokkrum dögum fyrir slátt eða fyrstu dagana i júlímánuði (1854) höfðu Landeyjabændur verið á ferð í Eyjum og rekið þar verzlunarerindi. Í þeim hópi hafði verið Eiríkur bóndi Gíslason í Gularási. Hann var náinn vinur Jóns bónda á Oddstöðum, og þeir ræddust við, bændurnir, um konuefni til handa Oddstaðabóndanum. Ekki var loku fyrir það skotið, að fröken Margrét vinnukona Halldórsdóttir í Gularási fengist til að sinna þessu erindi, ef það væri sótt fast og henni gert það sem girnilegast.
Eiríkur bóndi tók það að sér að reka þetta mál fyrir Oddstaðabóndann, ræða það við konu sína og vinnukonuna og svo nánasta frændfólk stúlkunnar. Og nú hafði Oddstaðabóndanum borizt jákvætt svar með Magnúsi bónda Jónssyni á Skíðbakka, sem brá sér í verzlunarferð út í Eyjar að loknum slætti eða 19. sept. um haustið (1854). Stúlka þessi, vinnukonan í Gularási, hún fröken Margrét Halldórsdóttir, var fús til að flytja til Eyja og giftast Jóni bónda Þorgeirssyni á Oddstöðum, þó að hún að vísu þekkti hann naumast nema í sjón. En húsbændur hennar og nánustu frændur og vinir réðu henni eindregið til að hafna ekki þessu boði eða þessari beiðni Oddstaðabóndans, sem var þekktur gæðakarl og bjó góðu búi á einni þekktustu tvíbýlisjörðinni á Heimaey. Það var fyrir mestu.
Og ekki hafði aldursmunurinn á þeim, 32 ár, haft neinar teljandi vangaveltur í för með sér.
Til þess að koma í veg fyrir leiðinlegt umtal í söfnuðinum og hneykslun hinna rétttrúuðu í Vestmannaeyjasókn, lagði prestur þau ráð á, að nafn Margrétar frökenar Halldórsdóttur yrði fært inn í kirkjubókina sem innflytjanda með þeim viðbæti, að hún væri innflutt „til giftingar.“ Þá yrði hún ekki kölluð neitt viðhald bóndans á Oddstöðum, þó að eitthvað vitnaðist um náið samlíf þeirra. Allt væri þá með felldu, orðaði prestur það.
Hinn 6. október um haustið (1854) var Þorkell bóndi og skipasmiður Jónsson á Ljótarstöðum á verzlunarferð í Eyjum. Þá tók Jón bóndi á Oddstöðum sér far með honum upp í Landeyjar til þess að sækja brúðarefnið sitt.
Hinn 25. okt. um haustið þurfti Guðmundur formaður á Skíðbakka að bregða sér til Eyja í verzlunarerindum fyrir bændur þar í grenndinni og svo auðvitað sjálfan sig. Með honum fékk Jón bóndi aftur far yfir álinn og þá með konuefnið sitt með sér. Og hjálp Jóns bónda á Oddstöðum við Landeyjabændurna var ómetanleg í þessari verzlunarferð eins og mjög oft áður, þegar flýta þurfti störfum og erindarekstri til þess að eiga ekki á hættu tafir og ferðahömlun svo vikum skipti sökum veðra eða brims við sanda Suðurstrandarinnar.
Og ekki lét sóknarpresturinn hann séra Jón Austmann Jónsson á því standa að tilkynna aðstoðarprestinum, honum séra Brynjólfi Jónssyni, komu Margrétar Halldórsdóttur vinnukonu til Eyja og svo það, að færa skyldi skýrum stöfum í kirkjubókina, að hún væri í sóknina flutt „til giftingar.“ Þar með var skotið loku fyrir allt slúður og alla hneykslan, þó að samlífið yrði brátt náið milli hjónaefnanna.
Síðla haust 1854, tæpu hálfu ári eftir fráfall frú Elínar Einarsdóttur, húsfreyju á Oddstöðum, eiginkonu Jóns bónda Þorgeirssonar, gifti sóknarpresturinn hann og fröken Margréti Halldórsdóttur fyrrverandi vinnukonu í Gularási í Austur-Landeyjum. Þá gaf hún upp aldur sinn, 24 ár, til þess að valda ekki hneykslun í söfnuðinum, því að það mundi hinn rétti aldur hennar, 21 ár, hafa gert, þegar vitað var, að brúðguminn var 53 ára. Þar munaði miklu um þrjú árin í aldri brúðarinnar.
Og svo hófst brátt barnaframleiðslan hjá hinni ungu eiginkonu og bónda hennar á sextugsaldrinum.
Hinn 2. nóvember 1855 ól frú Margrét Halldórsdóttir húsfreyja á Oddstöðum fyrsta barn þeirra hjóna. Það var einkarefnilegt sveinbarn og var innan stundar skírt Eiríkur. — Víst átti Eiríkur bóndi Gíslason í Gularási sinn ríka þátt í því, að Jón bóndi á Oddstöðum hafði borið gæfu til að eignast hinn mikla búfork og hið frábæra dugnaðarkvendi, hana Margréti Halldórsdóttur, og að hann fékk notið hennar í ríkum mæli á milli sængurvoðanna. Ekkert var annað sjálfsagðara, en að sveinbarn þetta hlyti nafn hans.
Hinn 10. nóvember 1856 ól frú Margrét Halldórsdóttir, húsfreyja á Oddstöðum, annað barn þeirra hjóna. Það var meybarn og hlaut nafn fyrri konu föðurins, — var skírt Elín.
Svo leið hálft fjórða ár. Þá ól Margrét húsfreyja þriðja barnið. Það fæddist 20. marz 1860, sveinbarn, sem skírt var Jón. — Bóndi lét það heita í höfuðið á sjálfum sér með þeirri heitstrengingu við konu sína, að stofna ekki til fleiri barneigna í hjónabandinu, svo hrumur og slitinn, sem hann var orðinn og ófær til allrar erfiðisvinnu í búskapnum, — og þó ekki nema tæplega sextugur að aldri.
En Adam gat nú stundum hlaupið útundan sér og reynzt misbrestakarl, þegar honum bauð svo við að horfa. Og stundum reynist erfitt að temja trippið.
Hálfu öðru ári síðar, eða 18. ágúst 1862, fæddi Margrét húsfreyja á Oddstöðum fjórða barnið. Það var sveinbarn og skírt
Eyjólfur.
En nú tók að kárna gamanið fyrir alvöru í hjúskaparlífi hjónanna á Oddstöðum. Frú Margrét húsfreyja sá sitt óvænna. Hún átti nú orðið fjögur börn með eiginmanni, sem var í rauninni kominn að fótum fram. Og þau bjuggu við rýrnandi efnahag sökum lasleika hans og getuleysis til allrar erfiðisvinnu. Sjómennsku gat hann ekki stundað lengur, gat naumast valdið ár. Af sömu ástæðum var honum fyrirmunað að stunda veiðar í úteyjum. Elli sótti á bónda, svo að á sást hvert árið. Hann var veill fyrir brjósti. Öll orka virtist ganga honum til þurrðar nema þá ein....
Lánstraustið hjá einokunarkaupmanninum, honum Niels Nikolai Bryde, fór einnig þverrandi ár frá ári, svo að illa fauk í það skjólið, þegar skortur þessa eða hins lét á sér kræla.
Þó þraukaði húsfreyja við hokrið næstu þrjú árin án þess að láta til skarar skríða og skilja við bónda sinn, segja heimilið til sveitar, með því að
Jón bóndi gat á það fallizt, að þau skildu að sæng.
Og svo gafst hún upp að fullu og öllu. Árið 1865 sagði hún fjölskylduna til sveitar. Þá var heimilið bjargarlaust.
Þrjú börnin voru tekin til vistar á þekkt gæðaheimili í Eyjum. Þar hétu þau niðursetningar, eins og skráð er í gildum heimildum. Gæðahjónin á Gjábakka, Eiríkur bóndi Hansson og Kristín Jónsdóttir, tóku á framfærslu Eirík litla á Oddstöðum, þá 10 ára að aldri.
Ekkjan í Elínarhúsi, hún Guðrún gamla Eyjólfsdóttir, tók að sér sveitarbarnið hann Jón litla Jónsson frá Oddstöðum. — Margrét Jónsdóttir, ekkjan í Nýja-Kastala, móðir Hannesar Jónssonar, síðar hinn nafnkunni formaður og svo hafnsögumaður í Eyjum um tugi ára, og systur hans Sesselju Jónsdóttur, sem síðar giftist Jóni bónda Jónssyni í Gvendarhúsi, tók til sín hana Elínu litlu á Oddstöðum, þá níu ára gamla. Faðirinn, Jón bóndi Þorgeirsson, var færður til vistar á heimili frú Sigríðar Sæmundsdóttur á Gjábakka og var titlaður þar giftur vinnumaður. Þá var hann 64 ára.
Margrét húsfreyja fór vinnukona til hjónanna á Presthúsum, Jóns bónda og formanns Jónssonar og frú Ingibjargar Stefánsdóttur húsfreyju. Þau hjón voru föðurforeldrar Stefáns skipstjóra og útgerðarmanns Guðlaugssonar í Stóra-Gerði á Heimaey, hins kunna samborgara okkar Eyjamanna á fyrri hluta þessarar aldar. Móðirin Margrét Halldórsdóttir fékk að hafa yngsta barnið sitt, Eyjólf, með sér á framfæri. Hann var þá á fjórða árinu. Árið 1866 var Jón bóndi Þorgeirsson orðinn óvinnufær með öllu og fékk þá vist í tómthúsinu Vanangri. Þar var hann á framfærslu hreppsins. Þar lézt hann 6. júní um sumarið úr „ellihrumleika“ og svo „kvefpest,“ eins og það er orðað í frumheimild. Þá hafði Þorsteinn Jónsson, héraðslæknir, starfað um eins árs skeið í Vestmannaeyjum. Hann stundaði Jón bónda af kostgæfni. Samt tókst honum ekki að lengja líf hans eða lækna hann sökum þess, hversu brjóstveikur hann var orðinn. Kvefpest reið honum síðast að fullu.
Undir sláttarlokin 1858 flytur til Vestmannaeyja frá Bryggjum í Landeyjum Guðmundur nokkur Ögmundsson. Hann er þá 25 ára (fæddur 1833) og hafði verið vinnumaður undanfarin tvö ár hjá hjónunum á Bryggjum, Jóni bónda Ingimundarsyni og Margréti Jónsdóttur húsfreyju. Þessi vinnumaður vissi þá sök sína fyrir guði sínum og einum trúnaðarvini, að hann hafði gert barn vinnukonunni á Bryggjum, henni
Guðrúnu Jónsdóttur, 36 ára gamalli.
Já, við sláttarlokin haustið 1858 tók hann sig upp í nokkrum flýti og fór til Vestmannaeyja til þess að ráða sig þar í vinnumennsku. Með þessu uppátæki sínu var hann að firra sig ýmsum óþægindum af þessum mistökum sínum. Orðrómurinn, sem gekk milli bæja í Landeyjum, var nagandi og þreytandi. Dvöl í Eyjum hlaut að fjarlægja hann frá öllum þeim ófögnuði sökum einangrunarinnar. Þar sáust Landeyingar ekki nema svo sem tvisvar á ári og þá snögglega, meðan verzlað var.
Þegar Guðmundur vinnumaður vatt sér út í Eyjar, var Guðrún vinnukona farin að þykkna allmikið undir belti, já, meira en það. Hún var ellefu árum eldri en hann og hjúskapur milli þeirra kom ekki til greina af hans hálfu.
Að morgni 27. október um haustið fæddi Guðrún vinnukona á Bryggjum einkar efnilegt sveinbarn. Síðar um daginn var presturinn kvaddur heim að Bryggjum til þess að skíra það. Samkvæmt þjóðlegri venju og kirkjulegri staðfestingu skyldi nýfætt barn skírt svo fljótt eftir fæðingu sem nokkur kostur var á, til þess að tryggja því dýrð himnanna, ef eitthvað kæmi fyrir það, sem svipti það hinni jarðnesku vist.
„Hvað á barnið að heita?“ spurði prestur við skírnarathöfnina. „Ástgeir,“ svaraði móðirin, hún Gunna vinnukona. — Nú, það var býsna fáheyrt mannsnafn, hugsaði prestur en sagði ekkert. Þá var heldur ekki sú kvöð lögð á herðar íslenzkra presta að vega og meta nöfn skírnarbarnanna.
„Og faðirinn?“ spurði svo prestur að athöfn lokinni, því að honum bar að gera grein fyrir þessu og hinu í kirkjubókinni. — „Já, það er nú það,“ hugsaði Guðrún vinnukona. „Faðirinn er í rauninni Guðmundur Ögmundsson frá Auraseli, sem var hér vinnumaður á Bryggjum undanfarin tvö ár.“ — „Hefur hann viðurkennt faðernið?“ spurði prestur. Nei, það hafði hann ekki gert, og nú náðist ekki til hans, þar sem hann dvaldist úti í Vestmannaeyjum.
Þannig atvikaðist það, að nafn Ástgeirs Guðmundssonar hins kunna bátasmiðs í Vestmannaeyjum á sínum tíma er skráð í kirkjubók Krosssóknar án þess að föðurins sé getið. En Guðrúnu móður hans var ýmislegt betur gefið en fjölmörgum stéttasystra hennar í íslenzkri sveit. Hún átti ríkt ímyndunarafl og lúrði á léttum leikhæfileikum, sem ekki fengu að njóta sín á almennum vettvangi af gildum ástæðum. Var hún ekki gædd skáldlegri innsýn og orðanna hagleik? Vissulega fannst henni sjálfri nafnið rétt orðað, þegar hún minntist þeirrar stundar, er drengurinn hennar kom undir. Þá hafði geir ástarinnar snortið hana í tvennum skilningi. Þess vegna lét hún drenginn sinn heita Ástgeir, þó að það væri óvenjulegt mannsnafn en íslenzkt þó að stofnum og myndum.
Um jólaleytið 1858 hafði Guðmundur Ögmundsson frá Auraseli viðurkennt faðerni sitt að honum Ástgeiri litla á Bryggjum. Þá tóku hin mætu bóndahjón í Auraseli, Ögmundur og Guðrún, foreldrar föðurins, drenginn litla í fóstur. Þarna ólst hann upp við mikið ástríki afa síns og ömmu, og hann minntist ávallt þeirra kennda öll bernsku- og æskuárin, og minnin um þau yljuðu honum til æviloka.