Blik 1972/Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum, 6. kafli 1920-1938, síðari hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1972



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Saga barnafræðslunnar
í Vestmannaeyjum


6. kafli, 1920-1938
(Síðari hluti)


Veturinn 1925-1926 gengu 262 börn í barnaskóla Vestmannaeyja.
Með bréfi fræðslumálastjórnarinnar dags. 9. sept. 1929 var skólanefndinni tilkynnt, að hún gæti á það fallizt, að skólaskyldualdurinn í Vestmannaeyjum yrði færður niður í 8 ár frá 1. okt. það haust. Þetta sumar höfðu Aðventistar í Eyjum byggt söfnuði sínum barnaskólahús. Þeir æsktu þess þá að mega reka barnaskóla á vegum safnaðar síns. Til þess þurftu þeir leyfi bæði þessa aðila og hins. Þau leyfi fengu Aðventistar tafarlaust. Fengu þá 22 börn í Eyjum undanþágu frá því að ganga í barnaskóla kaupstaðarins veturinn 1929-1930.
Þrátt fyrir þessar undanþágur fór nemendum barnaskólans í Eyjum mjög fjölgandi ár frá ári, svo að 375 börn nutu kennslu í skólanum veturinn 1932-1933. Alls luku þá 328 börn ársprófi og 47 börn fullnaðarprófi. Þann vetur gengu 36 börn í barnaskóla Aðventista, svo að þá reyndust vera á fimmta hundrað börn á skólaskyldualdri í Vestmannaeyjakaupstað.
Sumarið 1932 var það ætlan skólanefndar, að unnið yrði að því að skólpveitan frá barnaskólahúsinu, sem til þessa hafði legið í hraunsvelg eða hraungjótu skammt frá byggingunni, yrði nú tengd skólpveitu bæjarins, sem þá hafði verið lögð, niður í höfnina frá nokkrum þéttbýlissvæðum í bænum. Jafnframt vann skólastjóri að því að fá böð í tengslum við leikfimisalinn. Þessum framkvæmdum var komið í heila höfn á árunum 1933 og 1934 og vatnssalerni tekin í notkun í barnaskólanum haustið 1934. Brátt steðjaði þá að mikill vatnsskortur, svo að loka varð bæði vatnssalernunum og böðunum, þar til meira vatns yrði aflað. Það varð aðeins gert með stærri vatnsgeymum, því að nóg var flatarmál barnaskólaþaksins til regnvatnssöfnunar, ef vatnsgeymarnir gætu rúmað meira. Þetta er sérstaklega tekið hér fram til að auka skilning lesenda Bliks á sérstöðu Vestmannaeyinga um öflun vatns til neyzlu og þrifnaðar á þessum árum og löngu fyrr og síðar, þar til vatnsleiðslan mikla var lögð milli lands og Eyja.
Veturinn 1933-1934 gengu 409 börn í barnaskóla Vestmannaeyja og 66 börn í barnaskóla Aðventista. En veturinn eftir (1934-1935) voru nemendur barnaskóla kaupstaðarins 437, og luku þá 68 börn fullnaðarprófi um vorið. Þegar nemendur barnaskóla Aðventista eru taldir með munu á sjötta hundrað börn hafa notið kennslu í báðum skólunum þennan vetur.
Þennan vetur var nemendum kennd handavinna í þrem bekkjum.
Á undanförnum árum hafði Kvenfélagið Líkn beitt sér fyrir því, að handavinna stúlkna yrði kennd í barnaskólanum.
Næstu þrjá vetur var nemendatalan sem hér segir:
Veturinn 1935-1936: nemendur alls 450 að tölu.
Veturinn 1936-1937: nemendur alls 523, þar af luku 71 barn fullnaðarprófi.
Veturinn 1937-1938: nemendur alls 551, þar af luku 72 börn fullnaðarprófi.
Vorið 1937 var hreyft markverðu máli á skólanefndarfundi. Framkvæmd þess var mikilvægt þrifnaðarmál í bænum, sérstaklega til velfarnaðar börnunum. Skólanefndin samþykkti að ráða sérstaka hjúkrunarkonu, bæjarhjúkrunarkonu, eins og titill hennar var, til þess að útrýma eftir föngum allri lús á vestmannaeyískum heimilum. Skólanefndin orðaði það þannig, að starf hennar skyldi vera að „útrýma óþrifum á skólabörnum, sem mikið ber á,“ eins og bókað er í fundargerð skólanefndar. Hjúkrunarkona þessi skyldi fyrst og fremst starfa í samráði við skólalækni og skólastjóra. Skólalæknirinn var þá Ólafur Ó. Lárusson héraðslæknir, og var hann þá jafnframt formaður skólanefndarinnar. Geri ég því ráð fyrir, að þessi markverða samþykkt hafi upphaflega verið runnin undan rifjum hans með vitund og í samráði við Pál skólastjóra.
Haustið 1937 tók þessi hjúkrunarkona til starfa í bænum, eftir því sem ég veit sannast og réttast, og víst er um það, að hún vann næsta ótrúlega mikið og markvert starf til þrifnaðarauka og menningar. Stundum varð kona þessi að beita róttækum aðferðum í starfi sínu til útrýmingar óþrifunum á sumum heimilunum. Ekki meira um það hér. En eitt er víst, að við, sem önnuðumst daglegt skólastarf í bænum, sáum mikinn árangur af starfi hennar. Við dáðum hana fyrir allt hennar starf. En hún komst ekki alveg ómeidd frá því: Hún var kölluð „lúsamamma“, sérstaklega af þeim, sem nærri var höggið.
Bæjarhjúkrunarkonan vann svo markvert starf í þágu barnanna í bænum, að þess er vert að geta í skólasögu kaupstaðarins.
Ég hef hér í frásögn minni leitast við að veita lesanda mínum nokkra hugmynd, - nokkra fræðslu um þróun og viðgang barnaskóla Vestmannaeyja undir stjórn Páls skólastjóra Bjarnasonar. Síaukið aðstreymi fólks í bæinn sökum vaxandi atvinnulífs á árunum fyrir heimskreppuna miklu olli örum vexti barnaskólans og erfiðleikum til að fullnægja kröfum tímans og umhverfisins. En allt tókst þetta giftusamlega fyrir skólastjóra og hinu góða kennaraliði hans, sem ég hafði persónuleg kynni af, þar sem Unglingaskóli Vestmannaeyja og svo Gagnfræðaskólinn voru til húsa í barnaskólabyggingunni fyrstu sjö starfsárin mín hér í kaupstaðnum.
Nemendafjöldi barnaskólans hafði tvöfaldast á s.l. 20 árum. Nokkru munaði þar að sjálfsögðu um lækkun skólaskyldualdursins úr 10 árum í 8 ár. En þá ber okkur einnig að muna það, að barnaskóli Aðventista í bænum tók til starfa á þessu tímaskeiði (1929) og sóttu hann árlega 60-70 börn, þegar fram leið.
Páli skólastjóra hafði tekizt að fá barnaskólabygginguna stórlega bætta og endurbætta. Þá hafði hann fengið því framgengt, að leikfimihúsið var byggt og efri hæð á það, þar sem fengust tvær kennslustofur og kennarastofa. Og á hanabjálka þeirrar byggingar fékkst einnig húsrými til nauðsynlegra nota. Aðstaða öll til bóklegrar kennslu í skólanum hafði sem sé batnað stórlega. Jafnframt batnaði einnig aðstaðan til að kenna stúlkum handavinnu, - gera hana fastan lið og fjölþættari í náminu. Í þeim efnum beitti Kvenfélagið Líkn áhrifum sínum til framgangs þeirri hugsjón og fórnaði til þess nokkru fé.
Hins vegar voru enn engin tök á að kenna sveinum handavinnu, t.d. smíðar. Þá skorti enn húsrými og svo fé til tækjakaupa. En þann hnút leystum við Páll í vinsamlegri samvinnu, með því að Gagnfræðaskólinn lánaði barnaskólanum handavinnustofu sína, verkstæði sitt, í leiguhúsnæði sínu að Breiðabliki (eftir 1935) . Þar fengu barnaskólanemendurnir einnig aðgang að öllum smíðatækjum Gagnfræðaskólans. Skólarnir komu sér þá saman um einn og sama smíðakennarann.
Fleira fékk Páll skólastjóri framgengt börnunum til velfarnaðar og foreldrunum til vildar. Er mér þá ríkast í huga starf Leifs tannlæknis Sigfússonar við skólann. Og svo lýsisgjafirnar á tímum fjárhagskreppu og fæðuskorts, svo að börn liðu af krankleika. Ekki átti mjólkurskorturinn í bænum lítinn þátt í því böli. Hinn almenni krankleiki barna þá og unglinga var hryggskekkja og blóðleysi. Orsakirnar leyndust tæplega.
Vissulega átti skólanefndarformaðurinn, Árni Filippusson, sinn ríka þátt í framförum þessum á fyrstu árum kreppunnar og þrátt fyrir þau, meðan hans naut við, en hann lézt 1932. Hann ól með sér brennandi áhuga á framfaramálum barnaskólans. Hann naut jafnan trausts og tillits hjá hinum alls ráðandi valdsmannahópi í bæjarfélaginu, þar sem innsti kjarninn bar konsúlatitilinn. Árni skólanefndarformaður var víðsýnn um fræðslu- og skólamál, enda barnakennari frá fyrri árum, svo sem greint er frá í 3. kafla Sögu barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum, og ég birti í Bliki mínu árið 1962.
Við andlát Árna Filippussonar breyttust viðhorfin. Tóku þá veður að gerast válynd á sumum sviðum fræðslumálanna í bæjarfélaginu.
Um það bil tóku valdamennirnir í bænum að hugsa alvarlega um valdaaðstöðu sína og hættur þær, sem kynnu að henni að steðja. Blikur voru á lofti, sumar óneitanlega geigvænlegar og þess vegna engin ástæða til að sýna þeim einskært tómlæti.


ctr


Páll skólastjóri Bjarnason og nokkrir samkennarar hans.


Aftari röð frá vinstri: 1. Halldór Guðjónsson, 2. Hallgrímur Jónasson, 3. Séra Jes A. Gíslason, 4. Friðrik Jesson, 5. Arnbjörn Sigurgeirsson.
Fremri röð frá vinstri: 1. Ársæll Sigurðsson, 2. Anna Konráðsdóttir, 3. Páll Bjarnason, 4. Katrín Gunnarsdóttir, 5. Ágúst Árnason.
Mynd þessi mun tekin árið 1933. (Sjá Kennaratal á Íslandi).

Fjárhagskreppan mikla herpti að og færði ýmislegt í fjötra. Kjósendunum, - hinum háttvirtu, - varð ekki fullnægt í sama mæli og fyrr, - kröfum þeirra og kalli. Hinn andlegi sjóndeildarhringur Eyjabúa fór vaxandi ár frá ári. Ný kynslóð var í uppvexti. Hún hafði notið framhaldsskólanáms. Ef til vill orkaði það á hugina til lesturs og aukinnar bóklegrar fræðslu. Innri skjárinn lét þannig fleiri geisla frá ljósi lífsins skína í gegn en eldri kynslóðin hafði gert.
Já, ýmisleg annarleg öfl létu á sér kræla í bænum, ógeðfelld öfl og hvimleið, sem ollu valdamönnum þó nokkurra áhyggna. Og svo voru alveg óvenjulegir krepputímar. - Fjárhagskreppan í bænum bitnaði fyrst og fremst á þeim stofnunum bæjarins, þar sem ávöxtur starfsins varð ekki lagður á borðið og talinn saman í grjóthörðum krónum, t.d. ávextirnir af starfi skólanna.
Einnig í stjórnmálum landsins gerðust veður válynd. Nýir straumar hrifu hugi ungra manna og þá einnig ungra kennara. Sumir gerðust „róttækir“, sem svo voru kallaðir, - „hættulegt fólk“, „viðurstyggilegt fólk“, - „þjóðarvoði“. Viðsjár risu með mönnum. Málefnum fjölgaði og skiptar skoðanir skipuðu mönnum í flokka, - harðsnúna flokka, - já, meir en nokkru sinni fyrr.
Eins og fyrr og síðar var það sjávarútvegurinn, sem skaut styrkustu stoðunum undir alla afkomu Eyjabúa. Og nú gerðust þær stoðir veikar mjög, þegar allar sjávarafurðir féllu í verði á erlendum mörkuðum ár frá ári.
Allar launagreiðslur bæjarsjóðs, eins og annað, færðust í fjötra. Ekki fengu barnakennararnir í Vestmannaeyjum sízt að kenna á launagreiðslutregðunni. - Á fundi skólanefndar 16. maí 1935 lá fyrir bréf frá Stéttarfélagi barnakennara í Vestmannaeyjum, eins og það er nefnt, þar sem kvartað er yfir grómtækri óreiðu á launagreiðslum bæjarsjóðs til kennaraliðsins í bænum. Tekið er fram í bréfi þessu, að sumir barnaskólakennararnir hafi þá ekki fengið greidda eina krónu af launum sínum úr bæjarsjóði í heilt ár. Kennararnir fleyttu þá fram líftórunni á þeim hluta launanna, sem ríkissjóður greiddi þeim.
Á þessum fundi sínum gerði skólanefndin þá samþykkt, að rekstrarstyrkur ríkisins til barnaskóla Vestmannaeyja skyldi sendur skólanefndarformanni, svo að hann gæti notað féð einvörðungu í þágu barnaskólans. Þessari samþykkt skólanefndar fékkst ekki framgengt.
Að sjálfsögðu höfðu þessi greiðslu- og launamál áhrif á afstöðu kennarastéttarinnar í bænum til hinna alls ráðandi valdhafa í bæjarfélaginu.
Jafnframt sveið þeim hinum sömu bréf kennarasamtakanna um greiðslutregðuna og óreiðuna í launagreiðslunum. Kennurunum beið þegjandi þörfin á rækilegri hirtingu!
Þó nokkur hluti kennaraliðsins hafði tileinkað sér skólahugsjónir Jónasar Jónssonar frá Hriflu, sem var menntamálaráðherra um eitt skeið, og þeir dáðu framtak hans og dugnað í skólamálum þjóðarinnar. Þessir eiginleikar hans og hugsjónamál voru þyrnar í augum allra kyrrstöðumanna í landinu. Þeir hötuðu þennan mann og fyrirlitu alla, sem hylltust að hugsjónamálum hans.
- Og nú dregur að leikslokum. Holskeflan mikla er í aðsigi, - Alda rís og alda hneig. Fall hennar var mikið og táknrænt fyrir þá menningu, sem ríkjandi var þá og hafði verið ríkjandi um langt árabil í Vestmannaeyjum, konsúlamenninguna, sem ég hef nefnt svo.
Undanfarin 10 ár eða frá 17. nóv. 1928, hafði aðeins eitt stjórnmálablað verið gefið út í Eyjum samfleytt. Það var blaðið Víðir, blað valdhafanna í bænum, blað konsúlavaldsins í kaupstaðnum, sem átti 6 fulltrúa af 9 í bæjarstjórninni fyrir atfylgi hinna fjölmörgu smáatvinnurekenda í bænum og fylgifiska þeirra.
Á þessum árum hófu ýmis blöð göngu sína í bænum. Flest voru þau eitthvað annað en stjórnmálablöð, svo sem íþróttablöð og grínblöð. En brátt tóku flokkarnir að gefa út áróðursblöð fyrir málstað sínum. Og þá hófst taugastríðið hjá hinum allsráðandi mönnum í bænum. Og ungliðar þeirra hófu félagsstarf og áróðursherferð gegn öllum hinum, sem vildu vinna að framförum í kaupstaðnum og almennings hag, - m.a. bæta starfsskilyrði skólanna. Þó höfðu ungliðar hins ráðandi flokks tvívegis hafið blaðaútgáfu og látið mikið yfir sér.

Mynd þessi er úr dýrlingamyndasafni ungnazista í Vestmannaeyjum, komin í eigu Bliks eftir krókaleiðum.

Þeir reyndust vera ungir og upprennandi nazistar eða „brúnstakkar“, eins og hinir kölluðu þá eftir litnum á jökkunum þeirra, þegar þeir skrýddust félagsbúningnum og fóru um götur bæjarins á tyllidögum sínum hrópandi þýzk nazistaslagorð og svo „Heil Hitler“ með viðeigandi armsveiflum og útlima-„gymnastik“. Þá sungu þeir baráttusöng sinn hinn heiftþrungna, þar sem hvert erindi enti með þessum ljóðlínum:

„Sameinaðir stöndum,
sigurs lyftum bröndum,
sigrum, fellum fjanda her.“

Ekki var framtíð skólanna í bænum gæfusamleg, þó að ekkert annað væri haft í huga! En óneitanlega voru þó þessi fyrirbrigði í bæjarlífinu athyglisverð og brosleg í aðra röndina.
Við hlógum dátt, sumir hverjir, þó að skömm sé frá að segja, þar sem liðið „marseraði“ um götur bæjarins með fánann sinn í fararbroddi, - bláan stóran fána. Á miðjan bláa feldinn var saumaður hringmyndaður hvítur dúkur og á honum var eldrauður nazistakrossinn, hakakrossinn þýzki*.
* Byggðarsafn Vestmannaeyja á fána þennan og mun hafa hann almenningi til sýnis eftir nokkur ár, samkv. samningi við visst fólk í bænum.

Já, í aðra röndina fannst okkur sumum þetta broslegt, en í hina var það hryllilegt. T.d. var það vissast sumum hverjum í „viðurstyggðinni“ að hýrast sem mest innan veggja, er skyggja tók í bænum, af ótta við líkamlegar árásir á förnum vegi, þar sem skugga bar á. Svo miklar voru æsingarnar og heiftþrungnar. Og á pólitískum fundum fékk æsingalið þetta hvatningu og andlega næringu með hóli og kjassyrðum „umboðsmannanna“, sumra konsúlanna. Þetta unglingalið átti framtíðina fyrir sér, var glæsilegt og atorkusamt og vissi, hvað það vildi! Slík orð hlustaði maður á á pólitískum fundum.
Þrívegis hófu þessir ungliðar flokksins í Eyjum blaðaútgáfu. Fyrst gáfu þeir út blaðið „Fasistann“ og svo blaðið „Þjóðernissinnann“.
Síðan hófu þeir útgáfu á blaðinu „Fróni“, málgagni ,,Félags Þjóðernissinna í Vestmannaeyjum“. Seinna hét útgefandinn „Flokksdeild þjóðernissinna, Vestmannaeyjum“. Allt lék í lyndi fyrir flokksdeildinni og valdhöfunum, sem að þeim stóðu, „þessum fáu sálum“ í Vestmannaeyjum. Nazistarnir voru að hertygja sig í Þýzkalandi og efna til heimsstyrjaldar. Sigurinn var viss og einnig í Vestmannaeyjum. „Fella skyldi fjanda her“.
Ég hlýt að geta þessa alls hér til skýringar því, sem hér fer á eftir í skólasögu Vestmannaeyja, sem fjallar um þessi ár, þetta voðatímabil í sögu bæjarfélagsins.
Allt á sína þróun, vöxt sinn og viðgang. Hið fráleitasta reynist stundum vísir að framförum og heillaferð „götuna fram eftir veg“.

Haustið 1938 (14. sept.) hófu Framsóknarmenn í Vestmannaeyjum blaðaútgáfu. Fyrsta blað Framsóknarblaðsins, en svo kölluðu þeir blað sitt, fékkst prentað hér í prentsmiðju valdhafanna, en síðan ekki söguna meir. Til Reykjavíkur varð að leita prentunar á blaðinu.
Nú virtist blossa upp í bænum heift og hamstola æði, sem m.a. bitnaði á kennurum barnaskólans og stofnuninni. Annars væri þessa ekki getið hér. Uppnefni á vissum hópum manna tóku að ganga manna á milli. Þeir, sem hylltust að stefnu Framsóknarflokksins, voru oft nefndir „Framsóknarhundar“! Í því sambandi vil ég taka hér upp orðrétta klausu úr Víði, blaði valdhafanna:
„... væri aðstaðan þannig, myndu jafnvel hinir grunnhyggnustu framsóknarhvolpar forðast að biðja um nokkurn samanburð ...“ (Sjá Víði, 30. okt. 1938).
Þannig var orðbragðið í blaði valdhafanna. Á þessum árum hygg ég, að fyrst hafi heyrzt orðið Krati, sem var þá þrungið fyrirlitningu og hneykslan á fylgifiskum jafnaðarstefnunnar. Og svo voru „kommúnistarnir“ á hinu leitinu, „viðurstyggð allrar viðurstyggðarinnar“, eins og það hét á máli kunningja míns í innsta hring hins alls ráðandi flokks bænum.
Þetta hlýt ég allt að taka fram til skýringar og skilningsauka á skrifum þeim um barnakennarana í bænum og barnaskólann í heild, sem verða birt hér orðrétt, því að þau eru þáttur í sögu skólans. Þau eru prentuð hér upp úr blaðinu Víði. Þau skrif munu tæpast eiga sér hliðstæður í öllu landinu fremur en vöxtur og þróun nazismans með vissu ungu fólki í Vestmannaeyjabyggð á dögum nazismans í Þýzkalandi, þegar þar var undirbúinn allsherjar sigur hans og „þriðja ríkið“ í uppsiglingu. Skrif þessi gefa glöggum lesanda hugmynd um þann jarðveg, sem skólum kaupstaðarins var þá ætlað að þróast í og verða æskulýð bæjarins til gæfu og góðs farnaðar á lífsleiðinni.
Í einu af fyrstu blöðum Framsóknarblaðsins birti einn af barnaskólakennurunum grein um leikvöll barnaskólans. Hann kvartaði þar yfir því, hversu börnin ættu erfitt með að nota hann í rigningartíð sökum bleytu, foraðs, þar sem aldrei hafði fengizt borið ofan í leikvöll barnanna svo að árum skipti. Grein þessa skrifaði Arnbjörn Sigurgeirsson barnakennari. Vegna afleiðinganna af skrifum þessum verð ég hér að taka fram, að ekki hafði ég hugmynd um, hvar kennari þessi hafði staðsett sig í stjórnmálaheiminum íslenzka eða haslað sér þar völl. Þó þekkti ég kennarann vel, þennan skólabróður minn frá Kennaraskólanum. Hann hafði meira að segja borðað hjá okkur hjónunum um skeið. En valdhafar bæjarins hafa víst fundið einhvern fnyk af þessum kennara eins og fleirum. Og nú skyldi hann fá að vita, hvar Dabbi keypti ölið, fyrst hann vogaði sér að hreyfa velferðarmálum barnaskólans á opinberum vettvangi.
Í 45. tölublaði Víðis, 6. nóv. 1938, birtist svargrein við umkvörtun kennarans. Hér leyfi ég mér að birta orðrétt meginmál greinarinnar :

„... Má vel vera, að úr þessu þyrfti að bæta að einhverju leyti (þessu með leikvöllinn). Hins vegar verður ekki fram hjá því gengið, að skólinn er fyrst og fremst andleg fræðslustofnun barnanna, og er því ekki úr vegi að skyggnast eftir, hvernig umhorfs er í sjálfri kennarastofunni. Þar mun gefa að líta langsamlega meiri hluta kennaranna, sem að meira eða minna leyti eru sýktir af hinni andlegu pest, kommúnismanum, - þeirri stefnu, sem með öllu afneitar með öllu guðstrú og sem stofnað hefur í heimkynnum sínum félög og sambönd til útrýmingar kristindóminum samhliða því sem eignarrétturinn er þar að engu hafður, og siðgæðið ekki á hærra stigi en svo, að hjónavígslur eru þar taldar hégómi einn og firra. Getur A.S. ímyndað sér, að foreldrar þeir, sem börn eiga í slíkum skóla, óttist meir en eitthvað af þeim óþverra, sem kommúnismanum fylgir, kunni að berast yfir til barnanna, heldur en þó að þau kæmu að skólaverunni lokinni heim með skítugan skó eða högginn sokk?“

Þannig hljóðaði þessi nafnlausa árás á kennara barnaskólans hér haustið 1938.
Þessi heiftþrungna árás varð til þess, að Páll skólastjóri tók penna í hönd. Hann skrifaði þá síðustu blaðagreinina sína. Hún birtist í Framsóknarblaðinu 18. nóvember um haustið, með því að hann fékk ekki rúm fyrir hana í Víði, blaði konsúlamenningarinnar í kaupstaðnum.
En hver var svo höfundur þessarar nafnlausu greinar? Ekki gat það verið Magnús Jónsson, ritstjóri Víðis. Hann var of mikið prúðmenni og of mikill drengskaparmaður til þess að ráðast þannig að kennarastétt bæjarins og ærumeiða hana með slíkum gífuryrðum. Efni greinarinnar var mikið rætt í bænum og margar voru ágizkanirnar. Var höfundurinn Sigurður S. Scheving, hreppstjórasonurinn frá Hjalla og Samvinnuskólapilturinn, sem notaður var á mig persónulega til þess að svívirða mig og ærumeiða, þegar ég var skipaður skólastjóri Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum?
Jú, hliðstæðurnar voru greinar Sigurðar S. Schevings á mig persónulega þá fyrir fáum árum, er ég var skipaður skólastjóri Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum eftir að hafa mótað hann og skapað með mikilli vinnu, þrotlausu erfiði á undanförnum 4 árum. Þegar ég skrifa sögu framhaldsskólans í byggðarlaginu, kem ég að þeim svívirðingum öllum.
Undanfarnar vikur hafði Páll skólastjóri legið rúmfastur og stundum þjáður. Síðustu sjö árin hafði heilsa hans verið slök og farið versnandi.
Skólastjóri settist nú upp við dogg, þótt þjáður væri, og tók að skrifa varnarorð fyrir stofnun sína, - svara hinum nafnlausa höfundi, huldumanninum heiftþrungna.
Þegar skólastjóri hafði lokið svargrein sinni, sendi hann hana Víði til birtingar. En þar var henni hafnað. Ritstjórinn vildi gjarnan birta hana, - fannst það drengskaparbragð við skólastjórann, en hann réð þá mjög litlu um efni blaðsins, þegar á reyndi. Við það varð hann að una eða víkja ella.
Svargrein skólastjórans birtist síðan í Framsóknarblaðinu 18. nóvember um haustið. Svargrein sína kallaði skólastjórinn „Árás hrundið“, og birti ég hana hér orðrétta til skilningsauka á þessum kafla fræðslusögu Vestmannaeyjabyggðar, enda síðustu orðin, sem hinn gagnmerki skólamaður skrifaði í þessu lífi, því að tæpum þrem vikum síðar lá hann liðið lík.


,,ÁRÁS HRUNDIÐ


„Víðir“, 30. okt. þessa árs, flytur nafnlausa grein á 3. síðu. Greinin hlýtur að vera aðsend, því að ritstjóri blaðsins hafði þá verið burtu lengur en svo, að líklegt sé, að hann hafi skrifað hana.
Greinarhöfundur minnist á leikvöll barnaskólans og gerir lítið úr því, að honum sé áfátt. Þeir, sem vilja vita það sanna um útlit vallarins, fræðast bezt um það með því að ganga um hann í hláku, og helzt ausandi rigningu, sem er hér nokkuð tíð. Það er betra en blaðagrein. En það þarf víðar leikvöll en við skólann. Tilraunir hafa verið gerðar til að fá bætt úr þeim skorti, og verður ekki fjölyrt um það frekar hér.
Greinarhöfundur telur ráðlegt að skyggnast um á kennarastofunni. Það væri æskilegt, að forráðamenn bæjarins gerðu það. Þeim gæfi þá á að líta, hve rausnarlega hefur verið lagt til kennsluáhalda skólans hin síðustu ár, svo að hann njóti sín sem ,,andleg fræðslustofnun“. Það er verið að reyna að bjargast við það, sem til er, og það er allt til sýnis á kennarastofunni.
Flestum er það kunnugt, að nú er lagt fast að skólanum með að rækja einnig líkamsuppeldið, bæði með íþróttum og vinnu. Við búum vel með leikfimihús og sundlaug, en vantar tilfinnanlega góðan leikvöll og bað við skólahúsið. Handavinnu vantar alveg fyrir alla drengi skólans, því að til hennar vantar allt, sem hafa þarf.
Greinarhöf. hefur þungar áhyggjur út af innræti kennaranna og ber á þá svo þungar sakir, að það má ekki standa ómótmælt. Það er að vísu ekki ný bóla, að skólar og kennarar fái hnútur, maklegar og ómaklegar, en það er siður allra gætinna skólamanna að leiða það hjá sér í lengstu lög. En þar fyrir er ekki sjálfsagt, að hver nafnlaus níðhöggur megi komast áfram með hvað sem vera skal.
Kennarar eiga rétt á að hafa stjórnmálaskoðanir og verja mannorð sitt sem aðrir menn. Í greininni segir, að kennararnir hérna, „langsamlega meiri hlutinn“ - en svo er enginn undanskilinn, - séu sýktir andlegri pest, fylgi stefnu, sem afneitar með öllu guðstrú og hefur stofnað félag og sambönd til útrýmingar kristindómnum, samhliða því sem eignarrétturinn sé að engu hafður og siðgæðið ekki á hærra stigi en svo, að „hjónavígslur“ eru þar taldar hégómi.
Það er ekki kristilegt siðgæði að skrifa svona móti betri vitund.
Að ákærum loknum er bending til foreldra, ,,sem börn eiga í slíkum skóla“, að nokkur hætta sé á ferðum. Hann telur minni hættu, þó að eitthvað takist smáslysalega til með fætur barnanna á vondum leikvelli. Það afsakar greinarhöf. ekki, þó að hann sé að breiða rauða dulu kommúnismans yfir ákærurnar, samhengið er svo ljóst, að ekki verður villzt um tilganginn.
Það væri fróðlegt að athuga, hverjir fá þessar sneiðar, en þess þarf ekki með, því að bæjarbúar vita allir, hvað satt er í þessu og hafa það að engu. Þó mætti minna á formann Félags ungra sjálfstæðismanna.
Myndi aðalstarfsmaður K.F.U.M., sem er þjóðkunnur áhugamaður um kristniboðsmál (S.B.), eða fyrrverandi þjóðkirkjuprestur (J.A.G.), sem eru aðalkristindómskennarar skólans, vera líklegir til að vinna að útrýmingu kristindómsins, eða þorir hann að fullyrða, að við öll séum svo ,,sýkt af andlegri pest“, að börnum sé ekki óhætt í návist okkar? Ég tel mér skylt að mótmæla þessu fyrir skólans hönd, líka þó að það komi frá manni, sem sendir það nafnlaust út til almennings í þeirri von, að alsaklausum manni verði um kennt. Hér þarf reyndar ekki að tala dulmælum. Höf. þekkist af skrifum sínum. Það er hans að segja sjálfur til nafns síns, þó að hann kunni nú að blygðast sín fyrir frumhlaupið.

Páll Bjarnason.

Grein þessi fékk ekki rúm í síðasta „Víði“. P.B.

Þegar þessi svargrein skólastjórans birtist, varð kurr í bænum. Skorað var á ritstjóra Víðis að birta nafn höfundar árásargreinarinnar. Hinn hamstola huldumaður varð þá að láta til leiðast og birta nafn sitt.
Í 47. tbl. Víðis, hinn 26. nóv. 1938, birtist svar við grein skólastjóra undir fullu nafni. Sú grein fer hér á eftir. Hún talar sínu máli um það, hversu auðvelt og ánægjulegt muni hafa verið að stjórna skóla og starfa að kennslumálum í Vestmannaeyjakaupstað á þessum árum.
Höfundurinn var þá nýlega orðinn einn af bæjarfulltrúum hins allsráðandi valds í kaupstaðnum og stefndi að því með ráðum og dáð að verða konsúll í bænum. Í fyllingu tímans, er hann hafði sannað sig verðan þess, hlaut hann titilinn. Og loksins birti hann nafnið sitt:


,,SVAR TIL PÁLS BJARNASONAR


Í Víði 30. okt., 44. tbl., skrifaði ég smágrein, aðallega sem bendingu til Arnbj. Sigurgeirssonar kennara í sambandi við umræður hans um leikvöll barnaskólans.
Grein þessi virðist hafa orðið til þess að raska sálarró skólastjórans Páls Bjarnasonar svo mjög, að hann telur sig tilneyddan að koma fram í dagsljósið í síðasta tölublaði Framsóknarblaðsins til þess, að því er hann sjálfur segir, að hrinda árás, sem hann telur skólann hafa orðið fyrir í umræddri grein.
Ég teldi ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að skólastjórinn tæki að sér þetta verk, ef hann væri þeim eiginleika gæddur að geta haft svo mikið taumhald á geðsmunum sínum, að hann álpaðist ekki út í það, þegar málefni skólans eru rædd opinberlega, að koma fram með allskonar illkvittnislegar og strákslegar, órökstuddar getgátur og aðdróttanir, sem eru honum og þar af leiðandi stofnun þeirri, sem hann veitir forstöðu, síður en svo til sóma. Heldur P.B. að það sé ,,kristilegt siðgæði“, eins og hann orðar það, eða til eftirbreytni fyrir aðra, að hann sjálfur skólastjórinn, leyfir sér að bera það fram mót betri vitund, að ég hafi skrifað umrædda grein mína „í þeirri von að hún yrði kennd alsaklausum manni“, eftir að hann hafði fengið það staðfest bæði af þeim manni, sem þá sá um útgáfu Víðis og mér persónulega, að ég einn væri ábyrgur fyrir greininni og myndi svara fyrir hana ef til kæmi. Sé P.B. hugsvölun í því eða telji hann sér það samboðið að misþyrma þannig sannleikanum, er hann mín vegna einn um ánægjuna af slíkum verknaði. Mig snertir það ekki, hvorki til né frá.
Öðrum persónulegum skætingi í minn garð sé ég ekki ástæðu til að svara, en vil víkja að þeim skoðanamismun, sem virðist vera milli mín og skólastjórans um það, hvort skólabörnunum geti stafað nokkur hætta af því, að sumir kennarar skólans eru opinberir boðberar kommúnismans, þeirri stefnu, eins og ég réttilega tók fram í fyrri grein minni, er afneitar með öllu Guðs trú, og sem stofnað hefur í heimkynnum sínum félög og sambönd til útrýmingar kristindóminum, samhliða því sem eignarrétturinn er þar að engu hafður.
Til andsvars þessu hefur P.B. ekkert annað fram að færa en það, að kennarar eigi rétt á að hafa stjórnmálaskoðanir eins og aðrir menn, og er ég honum að þessu leyti fyllilega sammála, svo framarlega sem skoðanir kennaranna eru ekki beint niðurrif á stjórnarfari og siðgæði þessa lands. En einmitt þannig er kommúnisminn þar sem hann hefur komizt til framkvæmda. Um það verður ekki deilt.
Annars mun víst vera óþarfi fyrir P.B. að vera að deila um þetta mál. Við gætum eflaust verið sammála, ef hann teldi sig hafa aðstöðu til að koma opinberlega fram með hina raunverulegu skoðun sína. Hann veit það eins vel, og ef til vill betur en ég, að Kommúnistaflokkurinn er eini stjórnmálaflokkur þessa lands, sem undanfarið hefur beinlínis skipulagt sendingar nemenda á Kennaraskólann í flokkslegu augnamiði. Enda er svo komið, að þeir eru sjálfir farnir að gorta af því, hvort sem það er rétt eða ekki, að þeir séu þar ávallt mikils ráðandi.
Mönnum þessum er svo ætlað það hlutverk, að smita út frá sér í skólunum eftir því sem þeir frekast sjá sér fært. Þannig að börnin verði, ef þau eru á annað borð nokkuð veik fyrir, nægilega þroskuð á þeirra vísu til þess að verða starfandi kraftar í Ungherjadeild flokksins, sem við hér í Vestmannaeyjum höfum séð s.l. tvö ár ganga fylktu liði um götur bæjarins við hátíðahöld kommúnista 1. maí.
Það sorglegasta í þessu er ef til vill það, að ríkisstjórnin sjálf, eða að minnsta kosti fyrrverandi kennslumálaráðherra (J.J.) virtist vera mjög hjálpsamur kommúnistum beint og óbeint með að ota fram mönnum sínum í kennarastöðurnar jafnóðum og þær losnuðu. P.B. mun vera það kunnugt, eins og fleirum, að komið hefur það fyrir, að þar sem skólanefnd var búin að mæla eindregið með vissum manni, greip ráðherrann fram í og skipaði annan mann, sem mun hafa verið nægilega vinstri sinnaður**.
Þannig er skoðanafrelsi kennaranna varið. Enda kemur það vel heim við þá ráðstöfun, sem gerð var hér síðastliðið vor, þegar formanni skólanefndar var vikið frá að ástæðulausu, en annar með réttari pólitískan lit að dómi ráðherrans, var skipaður í hans stað, beint fyrir það að sjálfstæðismenn yrðu hér í meiri hluta í skólanefndinni***.

** Hér mun greinarhöfundur sveigja að mér og mínu máli, er ég var skipaður skólastjóri Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum gegn samþykki fjögurra skólanefndarmanna, sem allir voru áhangendur valdaklíku bæjarins. Þessum mönnum fannst það réttlátast, að ég viki frá skóla, sem ég hafði mótað og skapað á undanförnum fjórum árum með látlausu erfiði og býsna löngum vinnudegi án alls aukaendurgjalds. Ég kem að þessu síðar, er ég birti sögu framhaldsskólastarfsins í Vestmannaeyjum.
*** Ég átti einn sök á því, að þessi formaður skólanefndarinnar í Vestmannaeyjum var ekki endurskipaður. Ég færði svo skýr og óyggjandi rök og sannanir fyrir skaðsamlegu starfi hans í trúnaðarstarfinu gegn Gagnfræðaskólanum, að fræðslumálastjóri sannfærðist og gat á það fallizt að endurskipa hann ekki. Hann þjónaði valdaklíkunni og óvinum skólastarfsins Gagnfræðaskólanum til skaðræðis. Þ.Þ.V.

Þá heldur P.B. því fram, að ég hafi verið að gera lítið úr því, að leikvöll barnaskólans væri nokkuð áfátt. Þetta getur P.B. sannfært sjálfan sig um að er beinn útúrsnúningur, ef hann vill láta svo lítið að skilja það sem skrifað er eins og það kemur fyrir. Það sem ég hef um þetta mál sagt er það eitt, að vel megi vera að úr ásigkomulagi leikvallarins þurfi að bæta. Að benda mönnum á að skoða völlinn í austan rigningu eins og skólastjórinn gerir, er svo vanhugsað, að ekki verður um það rætt hér. Það er vitanlegt, að hér í bænum er til barnaleikvöllur (Stakkagerðistúnið) sem ég tel að mér sé óhætt að fullyrða, að er að dómi bæjarbúa yfirleitt og reyndar margra annarra, sem um hann hafa gengið, í mjög góðu ásigkomulagi. En ef dæma ætti þetta svæði, eftir því sem það lítur út þegar mest rignir, er ég ekki viss um að það yrði lengur talið nothæft. Völlur sem ætti að vera nothæfur í hvaða veðri sem er, yrði að vera yfirbyggður, og ég er ekki viss um að svo mjög hollt yrði álitið að börnin kæmu aldrei út undir bert loft þann hluta dagsins sem skólavistin stendur yfir.
Annars er það dálítið einkennilegt, að skólastjórinn skuli nú fyrst, eftir að farið er að ræða þetta mál opinberlega, vakna fyrir alvöru með að bæta þurfi leikvöllinn. Um mína afstöðu til þessa máls vil ég segja P.B. það, að ég hef gengið um þetta svæði í votu og þurru og tel, eins og ég hef áður tekið fram, að það þurfi einhverra endurbóta við og mun stuðla að því eftir getu, ef ég tel að fjárhagur bæjarins leyfi það.
Um gagnrýni P.B. á áhöldum skólans er það eitt að segja, að það mun sennilega vera einsdæmi að nokkur skólastjóri hafi leyft sér slíkt á opinberum vettvangi. P.B. hefur fylgzt með þróun og framgangi skólans, bæði sem kennari og skólastjóri, frá því að hann var starfræktur í mjög svo litlum húsakynnum niðri í bænum með tveimur eða þremur kennurum - og þar til nú. Hann veit það vel, að skólabyggingin sjálf hefur kostað Vestmannaeyjabæ á þriðja hundrað þúsund, auk þess sem bæjarsjóður árlega leggur fram til hans, bæði til viðhalds eignarinnar, áhaldakaupa og annarra þarfa skólans 40 til 50 þúsund krónur.
Ég veit vel, að þessari gagnrýni P.B. er slegið fram í fljótfærni til þess að reyna að hefna sín á mér og öðrum í meiri hluta bæjarstjórnarinnar. En gæta verður Páll Bjarnason þess, að það eru takmörk fyrir því, hve langt hann getur leyft sér að ganga. Það er mjög vafasamt, að það sé til bóta fyrir rekstur skólans, að sjálfur skólastjórinn ræðst í það að níðast á þeim áhöldum sem kennararnir eiga að nota við starf sitt og þar með rýra gildi og álit skólans í augum almennings, til þess eins, að lítilsvirða þá menn, sem með fjárreiður skólans fara.
Um þá staðhæfing P.B. að honum hafi verið meinað um rúm í Víði fyrir grein sína, er það eitt að segja, að hún er af sama toga spunnin og margt annað, sem fram kemur í grein hans. Honum var boðið allt það rúm sem laust var í blaðinu, þegar greinin kom, og sem hefði verið allt að því nægileg fyrir hana, auk þess sem honum var boðið að taka hana til birtingar í næsta blaði, sem út kæmi.

Guðl. Gíslason.


Ég þekkti vel alla kennara barnaskólans hér á þessum árum. Með sumum hafði ég starfað um árabil. Sumir þeirra voru kennarar hjá mér við Unglingaskóla Vestmannaeyja og svo Gagnfræðaskólann. Allir voru þeir að mínum dómi hinir mætustu menn í daglegu lífi sínu og starfi, reglusamir, samvizkusamir og vel að sér í sérgrein sinni.
Jafnframt vissi ég það, að ýmsir þeirra höfðu ríka samúð með hinum undirokuðu í bæjarfélaginu og þeim, sem beittir voru misrétti í daglegu atvinnulífi. Margir kennararnir ólu með sér andúð á öllu misrétti og undirokun. Líklega hafa sumir þeirra talið þá menn og þær konur, sem veittu taumlausum eiginhagsmunaöflum í bæjarfélaginu og þjóðfélaginu í heild, - t. d. við hverjar þing- og bæjarstjórnarkosningar, - efla fremur djöfuldóm en kristindóm í umhverfi sínu. Þess vegna ólgaði heiftin og hamstola æði, - líka gagnvart skólunum.
Kennarastéttin í Vestmannaeyjum fékk vissulega að kenna á hörmungum kreppuáranna, ekki aðeins persónulega, heldur einnig og ekki síður í samskiptum sínum við börnin og skólastarfið í heild. Þeir fundu til með börnunum, sem naumast gátu hulið nekt sína sökum klæðleysis vegna fátæktar foreldranna. Og bókalaus voru þau oft og tíðum af sömu ástæðum.
Páli skólastjóra entist ekki aldur til að svara greinarhöfundi aftur. Hann lézt 5. desember 1938.
Hver er sjálfum sér næstur. Eitt var mér þá ljóst og stóð mér ríkast í huga, er Páll Bjarnason var fallinn frá: Ég hafði misst skeleggasta málsvarann minn í skólastarfi mínu. Hvað beið mín nú persónulega og skólastarfs míns í hinu eitraða umhverfi?
Séra Jes A. Gíslason skrifaði minningargrein um Pál skólastjóra og birti hana í Víði. Þar segir hann meðal annars:

„... Um hann mun óhætt að fullyrða, að hann vildi hvergi vamm sitt vita, og að hann hafði þá mannkosti til að bera, sem prýða hvern mann svo, að við burtför hans getum við sagt, er við lítum yfir lífsstarf hans: Í honum bjuggu engin svik. Vinum sínum var hann hinn trygglyndasti og raunbezti og þeim, sem leituðu ráða hans, en þeir voru margir, var hann hinn ráðhollasti, enda var hann víðsýnn og sá opin sund og vegi greiðfæra, sem fyrir öðrum voru sund lokuð og vegir ófærir.
En þetta mikla ævistarf Páls er því aðdáanlegra og undraverðara, þegar þess er gætt, að hann gekk sjaldan heill til starfa, hvorki á fyrri árum og því síður hin síðari árin, því að árið 1931 bilaði heilsa hans fyrir alvöru, og það svo, að iðulega var tvísýnt um líf hans. En það var hinn einbeitti vilji og sanni ásetningur að standa meðan stætt var, sem bar hann þannig fram á þann dag, er ekki varð lengur afborinn, - ofurþungi sjúkdóms þess sem lagði hann að velli 5. þ.m. (5. des. 1938). Hann barðist alla ævi sem hetja og hann dó sem hetja, - möglaði aldrei, hvorki fyrr né nú síðast um þyngsli og erfiðleika hins langvarandi sjúkdóms.
En þegar minnst er á starf hans í sambandi við sjúkdóma hans, þá er ekki hægt að leyna því, að hann stóð ekki einn né óstuddur. Þann 14. maí 1921 kvæntist hann ágætiskonu sinni Dýrfinnu, dóttur Gunnars Andréssonar hreppstjóra og Katrínar Sigurðardóttur frá Hólmum í Austur Landeyjum. Þessi kona hans stóð sem bjargfastur klettur við hlið hans og létti honum hverja þá þraut, sem að bar, með þeirri lipurð og fórnfýsi, sem samboðin er góðum förunaut og göfugum konum. Og Páll kunni einnig að meta þessa miklu hjálp konu sinnar. Hann hafði oftar en einu sinni orð á því við mig, hversu mikið athvarf hann ætti hjá konu sinni, þegar honum fannst syrta mest að og kreppa mest að sér vegna sjúkdóms þess, sem stöðugt ágerðist.
Að endingu þetta: „Mannorð lifir, þótt maðurinn deyi. Mannorð Páls mun lifa meðal vor, þótt hann sé horfinn sjónum vorum. Blessuð sé minning þessa mæta manns.

J.A.G


Svo sem áður er getið, réðst Halldór Guðjónsson kennari að barnaskóla Vestmannaeyja haustið 1921. Hann hafði því verið, samkennari Páls og unnið undir stjórn hans í 17 ár. Hann skrifaði í Framsóknarblaðið um skólastjórann 16. desember 1938 (6. tbl.). Ég tek mér það bessaleyfi að birta hér kafla úr grein þessari. Hann segir um skólastjórann:


ctr


Halldór Guðjónsson, skólastjóri, og samkennarar hans.


Aftari röð frá vinstri: 1. Lýður Brynjólfsson, 2. Loftur Guðmundsson, 3. Friðrik Jesson, 4. Sigríður Árnadóttir, 5. Karl Guðjónsson, 6. Séra Jes A. Gíslason, 7. Árni Guðmundsson, 8. Steingrímur Benediktsson.
Fremri röð frá vinstri: 1. Arnbjörn Sigurgeirsson, 2. Viktoría Guðmundsdóttir, 3. Halldór Guðjónsson, 4. Katrín Gunnarsdóttir, 5. Helgi Þorláksson.
Myndin er tekin vorið 1940. (Sjá Kennaratal á Íslandi).

„...Sem kennari hafði Páll Bjarnason einróma álit. Hann var í kennslustundum eins og alls staðar yfirlætislaus og hægur, en hann hafði hinn mikla kost hins sanna kennara, að segja allt, sem hann sagði þannig, að allir hlutu að veita því eftirtekt. Fróðleikurinn var ótæmandi, en hann kunni líka þá list að stilla í hóf og segja aðeins það, sem við átti og segja það á einfaldan hátt ... Hélt hann sér ekki fast við kennslubækurnar, en var tamt að leiða nemendur með sér í anda um ríki hins daglega lífs, ríki náttúru, sögu og landa og íhuga sitt af hverju á því mikla sviði. Af þessu öllu urðu kennslustundir hans hvort tveggja í senn, skemmtilegar og fróðlegar, svo að ekki mun ofmælt að telja hann afburða kennara, meðan heilsa og kraftar leyfðu.
En hæfileikar Páls voru margþættir. Auk kennslunnar hafði hann full 19 árin á hendi stjórn barnaskólans hér, sem allan þann tíma hefur verið einn af stærstu skólum landsins. Var sú stjórn hans rækt af einstakri trúmennsku og festu. Hygg ég, að honum hafi tekizt óvenju vel að gera þar hið bezta fyrir alla aðila. Í allri hans stjórn var velferð barnanna ætíð fyrst. Samstarf hans við kennarana var hið ákjósanlegasta, og samstarf hans við skólanefnd, fræðslumálastjóra og bæjarstjórn stjórnaðist ætíð af sömu eiginleikunum, fyrst og fremst hinum einlæga vilja til þess að lyfta stofnuninni og vinna henni allt til bóta, og því næst af sanngirni og einkar góðum skilningi á öllum ástæðum.
Þótt skólastarfið væri ætíð aðalstarf Páls Bjarnasonar, þá lagði hann víðar gott til mála. Honum var manna léttast um mál, bæði í ræðu og riti, og lagði til mjög margra menningarmála eitthvað bæði með ráðum og dáð...
Páll var stakur reglumaður alla tíð. Mun naumast hafa bragðað vín um ævina né neytt nokkurs tóbaks. Allra manna var hann ræðnastur, og ætíð var það hinn ótæmandi fróðleikur, sem naut sín jafnt í fjölmenni sem fámenni. Og þrátt fyrir langvarandi vanheilsu var hann ætíð glaður og reifur, þegar af honum bráði, fram til hinzta dags ... Við kennarar söknum við fráfall hans eins hins ötulasta starfsmanns úr okkar stétt og tryggasta vinar.
Ég þakka þér, Páll, sérstaklega fyrir alla vinsemdina allt frá þeim degi, er ég kom hingað fyrir 17 árum, beint af skólabekknum, óreyndur og illa fær, undir þína öruggu handleiðslu.

Vestmannaeyjum, 11. des. 1938.
Halldór Guðjónsson.“


Eitt sinn var það ætlun mín að skrifa í stórum dráttum sögu barnafræðslunnar hér í Vestmannaeyjum frá fyrstu tíð (1745) til æviloka Páls skólastjóra Bjarnasonar (1938). Nú hef ég gert það og birt þessa sögu í Bliki, svo sem drepið er á í upphafi þessa greinarkorns. Þá á ég eftir að birta sögu unglingafræðslunnar í Vestmannaeyjum frá því að borið var við að kenna hér unglingum bókleg fræði og til ársins 1963. Þá hvarf ég frá því starfi til þess að beita mér óskiptum á vissum sviðum fjármálalífsins í kaupstaðnum og þeim til framdráttar fyrst og fremst, sem okkur ábyrgðarmönnum Sparisjóðs Vestmannaeyja fannst að hallast stæðu fæti í lífsbaráttunni. Saga þess starfs verður væntanlega birt í Bliki næsta ár, því að þá er starfsemi Sparisjóðsins 30 ára.

Til baka