Blik 1972/Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum, 6. kafli 1920-1938, fyrri hluti
Á árunum 1959-1965 birti ég í Bliki kafla úr sögu barnafræðslunnar hér í Vestmannaeyjum frá fyrstu tíð (1959, 1960, 1962, 1963 og 1965), en fyrsti barnaskóli á Íslandi var stofnaður hér í Eyjum og starfræktur á árunum 1745-1756. (Sjá Blik 1959).
Árið 1965 birtist í Bliki 5. kafli þessarar sögu. Þar enti ég frásögn mína með því að segja frá starfi Björns H. Jónssonar, skólastjóra barnaskóla Vestmannaeyja, og burtför hans úr bænum. Sú brottför átti sér stað vorið 1920.
Haustið 1919 réðust að barnaskólanum í Eyjum tveir kennarar, sem síðar áttu eftir að verða nafnkunnir menn. Annar þessara skólamanna var rithöfundurinn Sigurbjörn Sveinsson, höfundur Bernskunnar og fleiri mætra barnabóka, og svo Páll Bjarnason, þáverandi ritstjóri hér, áður skólastjóri á Stokkseyri um 8 ára skeið. (Sjá Blik 1971).
Vorið 1919 voru þessir menn kosnir í skólanefnd Vestmannaeyja: Séra Oddgeir Guðmundsen, sóknarprestur, Halldór héraðslæknir Gunnlaugsson, Gunnar konsúll Ólafsson, séra Jes A. Gíslason, skrifstofustjóri Gísla J. Johnsens kaupmanns, og Árni Filippusson, gjaldkeri í Ásgarði, sem var kjörinn formaður nefndarinnar. Það hafði hann verið s.l. 3 ár, eða síðan Sigurður hreppstjóri Sigurfinnsson féll frá (1916). Ritari skólanefndarinnar var séra Jes A. Gíslason.
Þegar Björn H. Jónsson sagði lausu skólastjórastarfi sínu, kom það vitanlega í hlut skólanefndarinnar að mæla með manni í hans stað. Og teldum við það eðlilegt nú, að skólanefndin hefði beitt sér fyrir því, að fræðslumálastjórnin hefði auglýst stöðuna til umsóknar. En svo var ekki gert. Fiskur lá undir steini. Hin ráðandi öfl í bænum voru tvíklofin í valdastreitunni og úthlutan lífsins gæða í bænum.
Í maímánuði 1920 var Páll kennari Bjarnason staddur í Reykjavík. Þá sendi hann skólanefnd Vestmannaeyja skeyti og tilkynnti henni, að hann hefði lagt inn hjá stjórnarráðinu umsókn sína um skólastjórastöðuna í Vestmannaeyjum. Jafnframt æskti hann í skeytinu meðmæla skólanefndarinnar sér til handa í skólastjórastöðuna. - Skeytið var dagsett 18. maí.
Ekki var beðið boðanna. Strax daginn eftir boðaði formaður skólanefndarinnar til fundar í nefndinni. Aðeins þrír skólanefndarmenn sátu fundinn. Gunnar konsúll Ólafsson var ekki í bænum, og Halldór héraðslæknir Gunnlaugsson önnum kafinn við læknisstörfin. Fundinn sátu formaður nefndarinnar, Árni Filippusson, gjaldkeri Ísfélags Vestmannaeyja, þar sem Gísli J. Johnsen var formaður, séra Jes A. Gíslason, skrifstofustjóri G.J.J., og svo sóknarpresturinn. Þessir skólanefndarmenn mæltu allir eindregið og ágreiningslaust með Páli kennara Bjarnasyni í skólastjórastöðuna.
Á þessum árum var hin opinbera regla ráðandi og gildandi, að kennari þurfti að sækja um stöðu sína á hverju ári, og voru kennarar þannig ráðnir frá ári til árs. Rúmum hálfum mánuði eftir að skólanefndin hafði mælt með Páli í skólastjórastöðuna, kom skólanefndin saman á ný og þá til þess að mæla með endurráðningu kennaranna við barnaskólann. Allir skólanefndarmennirnir sátu þennan fund. Þá var látið til skarar skríða og þakkaði fyrir sig!
Þarna hlaut Páll dóminn sinn um leið og skólanefndin fékk ákúrur fyrir að auglýsa ekki skólastjórastöðuna. - Á fundinum lét Gunnar Ólafsson bóka þessa klausu: ,,Ég vil auglýsa skólastjórastöðuna til þess að fá í hana lærðan og duglegan mann, helzt kandidat, þar eð ég tel, að skólastjóri verði, ef vel á að vera, að hafa yfirburði yfir aðra kennara skólans. Tel Pál Bjarnason vanta flest til þess að geta talizt hæfur til að stýra svona stórum skóla, - ekki sízt, ef unglingaskóli yrði settur hér á stofn.
(Sjá fundargjörðabók skólanefndarinnar 19. maí 1920).
Hinir skólanefndarmennirnir hummuðu bókun þessa fram af sér. Létu ekki orð falla gegn henni. Stefndu að sínu marki hinum arminum til fulls sigurs í máli þessu. - Enn hafði Páll ekki verið ráðinn í stöðuna. Öll var gætnin bezt og hummað gegn pumminu, eins og þeir orðuðu það, sem bezt þekktu þá allt sitt heimafólk í Eyjum.
Á þessum fundi (6. júní 1920) mælti skólanefndin einróma með þessum kennurum í stöðurnar við skólann: Eiríki Hjálmarssyni á Vegamótum, Ágústi Árnasyni í Baldurshaga, ungfrú Dýrfinnu Gunnarsdóttur frá Hólmum í Landeyjum og Sigurbirni Sveinssyni rithöfundi. Um þessa kennara var enginn ágreiningur.
Svo tók þá hinn „óhæfi skólastjóri“, Páll Bjarnason, við skólastjórataumunum í sínar hendur og stýrði barnaskóla Vestmannaeyja næstu 18 árin af rögg, festu og mikilli samvizkusemi.
Þegar Páll Bjarnason hóf skólastjórastarfið haustið 1920, voru börn á skólaskyldualdri (10-14 ára) í barnaskóla Vestmannaeyja 190 talsins. Þar að auki voru 130 börn í bænum á aldrinum 8 og 9 ára, sem ,,hvergi áttu sér kennslu vísa,“ eins og bókað er hjá skólanefnd. Hinum nýja skólastjóra var falið að ráða fram úr vandræðum þessara barna eða réttara sagt foreldrum þeirra, sem flestir fundu sárt til þess, hversu skórinn kreppti illa að í þessum efnum. Skólastjóri skyldi stuðla að því eftir megni, að þessi börn nytu tilsagnar í undirstöðum námsins á skyldustiginu. Í þessum efnum var þá helzt treyst á Eirík kennara Hjálmarsson, sem stundað hafði hér smábarnakennslu um tugi ára, eða frá síðasta áratug síðustu aldar, af mikilli kostgæfni, fórnarlund og þrautseigju.
Nokkurt kennslugjald skyldu foreldrar eða aðrir framfærendur þessara óskólaskyldu barna greiða og var gjaldkera kaupstaðarins falið að innheimta það.
Allt fór kennslu- og skólastjórastarfið vel og giftusamlega úr hendi hjá Páli Bjarnasyni og samkennurum hans, eins og þegar hann var skólastjóri á Stokkseyri. Öll skólastjórn hans var markviss og traust og agi góður í skólanum.
Margvíslegir erfiðleikar steðjuðu að um rekstur barnaskólans á fyrstu árum Páls í skólastjórastöðunni. Þar orkuðu mjög á starfið afleiðingar styrjaldaráranna (1914-1918), svo sem eldiviðarskorturinn og afleiðingar hans: Lokun barnaskólans um lengri eða skemmri tíma, sem síðan leiddi af sér lakari kunnáttu barnanna til þess að fullnægja kröfum fræðslulaganna og reglugerðum.
Þá var einnig skólahúsinu ólokið, þó að 3-4 ár væru liðin frá því að skólinn var fluttur í það, og það sem verra var: engin fjárhagsleg geta kaupstaðarins til að ljúka þeim dýru framkvæmdum. Það voru líka afleiðingar erfiðra ára. - Ég segi skortur á getu, því að ég er sannfærður um það af gildum heimildum, að viljann til framkvæmdanna skorti þá ekki, ef efnahagurinn hefði leyft það. Ýmsir ráðandi menn í bænum vildu þá efla eftir föngum barnakennsluna og allt starf barnaskólans í kaupstaðnum. Hefi ég þá fyrst og fremst í huga skólanefndarformanninn Árna Filippusson og oddvita bæjarstjórnar (samkvæmt lögum um bæjarstjórn í Vestmannaeyjum frá 1918) Karl Einarsson bæjarfógeta. Báðir voru þeir miklir áhugamenn um gengi skólans og velferð. En í mörg horn var að líta í hinum verðandi kaupstað og fjárhagsgetan í minna lagi, eins og fyrr er getið, ekki sízt sökum ráðandi stefnu um álagningu útsvara og opinberar framkvæmdir.
Skólanefndin knúði jafnan á um framhald á byggingarframkvæmdum við barnaskólann. En bæjarstjórn spyrnti við fæti. - Ég leyfi mér að birta hér bréf bæjarstjórnaroddvitans til skólanefndarinnar skrifað haustið 1920. En það haust, þegar Páll Bjarnason tók við skólastjórastöðunni, var svo ástatt um bygginguna, að hvorki voru máluð eða dúklögð nokkur gólf í skólastofunum, veggir allir í kjallara ómúrhúðaðir, engir gluggar málaðir, hvorki utan né innan, og slegið borðum fyrir marga gluggana sökum skorts á rúðugleri, sem ekki fékkst í landinu. Skólabyggingin var öll ómáluð innan veggja.
Leiksvið barnanna sunnan við skólahúsið var forað eitt. Þá skorti tilfinnanlega anddyri við útidyr byggingarinnar á vesturstafni til þess að hindra kuldagust inn í skólahúsið.
Alla þessa vöntun, - allan þennan skort á framkvæmdum, tók skólanefndin fyrir til umræðu á fundi sínum í júlí 1920. - Og svo kemur hér svar oddvita bæjarstjórnar við óskum skólanefndarinnar og áskoruninni:
„Bæjarfógetinn í Vestmannaeyjum (stimpill)
Hofi, 16. okt. 1920
Á bæjarstjórnarfundi 30. f.m. var lögð fram og tekin til umræðu fundargjörð skólanefndar 10. júlí, og út af máli þessu samþykkt svofelld tillaga:
Enda þótt bæjarstjórnin sjái nauðsynina á því að gera skólann betur úr garði en orðið er, sér bæjarstjórnin sér ekki fært að láta umrædda aðgerð fara fram nú, en felur skólanefnd að láta gjöra það, sem alveg nauðsynlegt er að skólanum nú. Hinsvegar felur bæjarstjórnin oddvita að láta gera áætlun um kostnað við fullkomna aðgerð skólans, þar talið bygging leiksvæðis við skólann og leikfimihús.
Jafnframt því að tjá yður, herra gjaldkeri, þetta, skal tekið fram, að skólanefndinni er heimilt að láta byggja hinn umrædda forskála nú þegar.
- Karl Einarsson
Til formanns skólanefndarinnar í Vestmannaeyjum, herra gjaldkera Árna Filippussonar, Ásgarði, Vestmannaeyjum.“
Sparisjóður Vestmannaeyja (stofnaður 1893) hafði lánað til skólabyggingarinnar kr. 60.000,00, eftir því sem næst verður komizt samkv. handbærum heimildum.
Fyrsta starfsár Páls Bjarnasonar reyndist allur kostnaður við rekstur barnaskólans, greiddur úr bæjarsjóði, kr. 42.898,33. En ríkissjóður greiddi 1/3 af föstum launum kennslukraftanna og svo aldurshækkun og dýrtíðaruppbót.
Til fróðleiks birti ég hér afrit af bréfi frá Stjórnarráði Íslands til ríkisféhirðis varðandi kaupgreiðslur til kennara barnaskóla Vestmannaeyja úr ríkissjóði árið 1920.
„Stjórnarráð Íslands.
Reykjavík, 15. apríl 1920.
Stjórnarráðið hefur í dag skrifað ríkisféhirði á þessa leið:
,,Hér með tilkynnist yður, herra ríkisféhirðir, að frá og með 1. jan. þ.á. ber ríkisféhirði samkvæmt lögum nr. 75, 28. nóv. 1919, um skipun barnakennara og laun þeirra, að greiða eftirgreindum kennurum við barnaskólann í Vestmannaeyjum laun þau og dýrtíðaruppbót, er hér greinir :
1. | Birni H. Jónssyni | |
a | 1/3 launa | kr. 666,67 |
b. | aldurshækkun | - 200,00 |
c. | dýrtíðaruppbót | - 2640,00 kr. |
samtals | 3506,67 | |
2. | Eiríki Hjálmarssyni | |
a | 1/3 launa | kr. 500,00 |
b | aldurshækkun | - 1000,00 |
c | dýrtíðaruppbót | - 3000,00 |
Samtals | kr. 4500,00 | |
3. | Ágúst Árnasyni | |
a | 1/3 launa | kr. 500,00 |
b | aldurshækkun | - 600,00 |
c | dýrtíðaruppbót | - 2520,00 |
Samtals | kr. 3620,00 | |
4. | Jónínu Þórhallsdóttur | |
a | 1/3 launa | kr. 500,00 |
b | aldurshækkun | - 200,00 |
c | dýrtíðaruppbót | - 2040,00 |
Samtals | kr. 2740,00 | |
5. | Dýrfinnu Gunnarsdóttur | |
a | 1/3 launa | kr. 500,00 |
b | dýrtíðaruppbót | - 1800,00 |
Samtals | kr. 2300,00 | |
6. | Sigurbirni Sveinssyni | |
a | 1/3 launa | kr. 500,00 |
b | aldurshækkun | - 200,00 |
c | dýrtíðaruppbót | - 2040,00 |
Samtals | kr. 2740,00 | |
7. | Páli Bjarnasyni | |
a | 1/3 launa | - kr. 500,00 |
b | aldurshækkun | - 400,00 |
c | dýrtíðaruppbót | - 2280,00 |
Samtals | kr. 3180,00 |
Ofannefndar upphæðir eruð þér beðinn að greiða hlutaðeigendum með 1/12 mánaðarlega fyrirfram og færa greiðslurnar sem útgjöld vegna framangreindra laga.“
Þetta tilkynnist skólanefndinni hér með.
Guðm. Sveinbjörnsson
Gísli Ísleifsson
Til skólanefndar í Vestmannaeyjum.“
Þessi laun kennaranna voru þá miðuð við 6 mánaða starf við skólann.
Veturinn 1919-1920, þegar Páll Bjarnason var kennari við barnaskóla Vestmannaeyja, féll kennsla niður um margra vikna skeið af tveim ástæðum: miklum veikindum, sem altóku mörg heimili í Eyjum þá, og svo vegna eldiviðarskorts. Hvergi fengust kol keypt. Þau voru ófáanleg í
landinu. Að sjálfsögðu leið allt kennslustarfið fyrir þessa lokun skólans; börnin misstu kennslu og voru því illa undirbúin fyrir framhaldsnámið næstu árin.
Á fundi sínum 28. marz (1920) vildu skólastjóri (B.H.J.) og skólanefndarformaður fá því framgengt, að skólaárið yrði framlengt til aprílloka til þess að bæta börnunum upp að nokkru það, sem þau höfðu misst í kennslu sökum lokunarinnar um
veturinn. Ekki urðu skólanefndarmennirnir á eitt sáttir í þessum efnum. Þó var að lokum samþykkt að lengja skólaárið um einn mánuð með þrem atkvæðum gegn tveim. Auðvitað hafði framlenging skólaársins nokkurn kostnað í för með sér fyrir kaupstaðinn eða bæjarsjóðinn.
Þessa samþykkt skólanefndarinnar um lenging skólaársins notfærði síðan skólastjórinn (P.B.) sér árið eftir. Þá fékk hann það samþykkt í skólanefndinni mótyrðalaust, að skólaárið í Eyjum yrði framlengt til 15. maí. Stjórnarráðið gat hins vegar ekki fallizt á lenging þess nema til aprílloka eins og árið áður. En dropinn holar steininn, stendur þar. Nokkuð hafði áunnizt, og aftur varð ekki snúið í þessum efnum.
Þá þokaði skólastjóri einnig áfram framkvæmdum við skólahúsið. Gler fékk hann í alla glugga og málningu á þá og þakið. Þá voru einnig kjallaraveggir múrhúðaðir og anddyri byggt við útidyr á vesturstafni til þess að verja húsið kulda. Erfiðast reyndist að koma fyrir skólpveitu frá skólahúsinu. Það ráð var tekið að sprengja svelg niður í hraunið norðan við bygginguna og hleypa skólpi þar niður. Það hafði margur húseigandinn í Eyjum gert fyrr.
Og margir húseigendur áttu þá eftir að hlíta því ráði, áður en skólpleiðslur voru lagðar í götur bæjarins.
Salerni barnaskólans voru byggð á safnþró vestan vert við skólahúsið og notuð þar um áraskeið. Enn stendur sú bygging, og hefur verið
notuð í þágu skólans alla tíð -, nú um árabil geymsla skólans.
Allar þessar auknu framkvæmdir við skólahúsið nýja voru inntar af hendi sumarið 1921 og kostuðu milli 20 og 30 þúsundir króna. Það var mikið fé á þeim árum.
Ýmsu fleira til eflingar skólastarfinu fékk Páll skólastjóri framgengt. Hann fékk því t.d. til leiðar komið, að samin var ný reglugerð handa barnaskólanum og fékkst hún staðfest af stjórnarráðinu haustið 1921. Samkvæmt henni skyldi barnaskóli Vestmannaeyja starfa ár hvert frá 1. október til 14. maí. - Jafnframt varð það að samkomulagi, að allir eldri kennarar skólans væru skipaðir í
stöður sínar, og því ekki lengur ráðnir frá ári til árs, eins og verið hafði frá stofnun barnaskólans 1880.
Annað árið, sem Páll Bjarnason var skólastjóri í kaupstaðnum, var nemendafjöldinn á skólaskyldualdri 259 alls. Auk þess var fjöldi barna á aldrinum 8 og 9 ára, sem nutu einhverrar kennslu undir skyldunámið, svo að betri árangur næðist þar. Allt þetta starf skólastjórans studdi skólanefndarformaðurinn, Árni Filippusson, gjaldkeri, af drengskap og einlægum hug til skólans og starfsins í heild.
Haustið 1921 réðust að barnaskóla kaupstaðarins tveir kennarar, sem síðar áttu eftir að koma mikið við fræðslustörf í Eyjum um árabil: Hallgrímur Jónasson, sem starfaði þar að kennslu við góðan orðstír næstu 10 árin og endurreisti þar
sýslubókasafnið úr ömurlegustu vanhirðu og vanmati -, og svo Halldór Guðjónsson, sem varð skólastjóri barnaskóla Vestmannaeyja að Páli skólastjóra látnum og skólastjóri Iðnskólans í kaupstaðnum jafnframt. Ári síðar réðst að skólanum Bjarni kennari Bjarnason, sem dvaldist
Eyjum aðeins fá ár.
Haustið 1922 fékk Páll skólastjóri því framgengt, að tekin var upp föst leikfimikennsla við skólann. Húsrými var að vísu ekki annað en ein stofan í kjallara skólabyggingarinnar. Þar æfðu börnin fimleikaæfingar, standandi á beru steingólfinu. Samt var þetta spor stigið í rétta átt og jók skilning skólanefndarmanna og bæjarstjórnar á þörfinni á fimleikahúsi handa skólanum.
Hinn 6. febrúar 1923 sátu flestir kennarar skólans skólanefndarfund, þar sem fræðslumál barnanna voru til umræðu. Þarna fóru fram alhliða og ítarlegar umræður um ástandið yfirleitt í skóla- og fræðslumálum bæjarins, þar sem heimilin vanræktu áberandi þá hlið uppeldisins, sem laut að námi óskólaskyldu barnanna, barnanna á 8 og 9 ára aldrinum.
Á annatímanum mikla að vetrinum, vertíðinni, áttu heimilin í Eyjum yfirleitt erfitt með að sinna heimanámi barnanna. - Á þessum fundi kennaranna, skólastjórans og skólanefndarinnar sameiginlega var skýrsla skólamannanna á þessa leið: Af 93 börnum á aldrinum 8 og 9 ára, sem þeir höfðu prófað, reyndust 17 nokkurn veginn læs, 64 börn voru
stautandi og 12 börn þekktu ekki alla stafina. Kennararnir vissu um 30 börn í bænum á 8 og 9 ára aldrinum, sem aðstandendurnir hirtu ekki um að senda til prófs eða láta læra hið minnsta undir skyldunámið að einu eða tveim árum liðnum. Samtals hafa þá verið yfir 120 börn í kaupstaðnum á aldrinum 8 og 9 ára.
Hvað var til ráða? Skólaskyldan náði þá aðeins til barna 10-14 ára.
Vorið 1923 geisaði taugaveiki í Vestmannaeyjakaupstað. Guðmundur Björnsson, landlæknir, kom þá til Eyja. Hann mæltist til þess við skólanefnd, að hún leyfði að taka barnaskólahúsið til nota. Koma skyldi þar fyrir taugaveikissjúklingunum og annast þá þar, - einangra þá þar. Skólanefndin í samráði við skólastjóra spyrnti við fæti og benti á Goodtemplarahúsið á Mylnuhól til þessara nota. Eftir nokkurt þref varð það að ráði, að taugaveikissjúklingarnir voru fluttir í Goodtemplarahúsið, með því að aðventistapresturinn Olsen tók að sér stjórn þessa máls og umönnun í samráði við héraðslækninn, Halldór Gunnlaugsson. Þeir skipuðu þessum vandamálum vel og drengilega til halds og heilla kaupstaðarbúum í heild, svo að ekki hlauzt mikill mannskaði af.
Á skólaárinu 1922-1923 nutu 242 börn á skólaskyldualdri kennslu í barnaskóla kaupstaðarins. Fjarvera nemendanna var þá áberandi sökum blóðleysis og hryggskekkju, svo að orð var á haft og fært til leturs.
Til þessa var vistarveran, sem kallast kennarastofa, óþekkt í Eyjum. Hvergi sérstakur dvalarstaður til handa kennurum milli kennslustunda. En nú var látið að vilja þeirra eða farið að beiðni þeirra í þeim efnum. Lítið herbergi á annarri aðalhæð í norðausturhorni skólabyggingarinnar var gert að kennarastofu. Þar var komið fyrir ofni til upphitunar og svo borði og nokkrum stólum. Þetta þótti þá viðburður í skólastarfinu í kaupstaðnum.
Í september 1923 var markverðu máli hreyft á fundi skólanefndar. Rætt var um hina brýnu þörf á leikfimihúsbyggingu við barnaskólabygginguna. Þessari hugsjón var haldið vakandi næstu árin og reyndar unnið sleitulaust að því, að hún yrði að veruleika. Það gerði Páll skólastjóri sjálfur með góðu liðsinni skólanefndarformannsins, Árna Filippussonar.
Frá því að skólabyggingin var tekin í notkun haustið 1917 hafði hún verið kynnt eða hituð með kolaofni í hverri stofu. En sumarið 1924 afréð skólanefnd að róa að því öllum árum, að miðstöðvarkynding yrði sett í húsið.
Hinn 13. okt. 1924 sat Halldór læknir Gunnlaugsson síðast skólanefndarfund. Hann drukknaði við Eiðið tveim mánuðum síðar, svo sem kunnugt er, eða 16. desember. Hann sat í skólanefnd síðustu fimm árin og hálfu betur og vann þar af áhuga og velvild til starfs og stéttar. Á fyrstu árunum sínum hér í Eyjum
kenndi þessi héraðslæknir barnaskólanemendum leikfimi í gamla Goodtemplarahúsinu á Mylnuhól. Það kennslustarf innti héraðslæknirinn af hendi í sjálfboðavinnu, og án alls endurgjalds, eftir því sem ég veit sannast og réttast. Hann gerði það aðeins af einskærum áhuga á að auka líkamsmennt ungra Eyjabúa.
Skólanefndarmennirnir knúðu fast á um þá hugsjón sína, að byggt yrði leikfimihús við barnaskólabygginguna. Eftir beiðni bæjarstjórnar létu þeir gera kostnaðaráætlun um byggingu þessa. Bæði til gamans og nokkurs fróðleiks um verð á byggingarvörum þá og fl., birti ég hér þá áætlun, sem gjörð var og send bæjarstjórn Vestmannaeyja í októberlokin 1924.
Bréf skólanefndarinnar til bæjarstjórnar hljóðar svo:
„Í tilefni af fundarályktun skólanefndarinnar í Vestmannaeyjum hafa þeir Halldór Gunnlaugsson, héraðslæknir, Páll Bjarnason, skólastjóri, Helgi Árnason, múrari, og Magnús Ísleifsson, trésmiður, ásamt undirrituðum á sameiginlegum fundi gjört svolátandi
- Áætlun
- Áætlun
um kostnað við byggingu leikfimihúss í sambandi við barnaskólann Vestmannaeyjum, sem er 60 feta langt (18,8 m) og 28 feta (8,2 m) vítt (hvort tveggja að utanmáli), með 16 feta (5 m) háum veggjum, 14 þumlunga þykkum neðst (grunnveggir), en frá stalli („sökkli“) 12 þuml. þykkum; þar með talin þrjú
afhýsi í öðrum enda hússins, sem sé: forstofa, búningsklefi og leikfimiáhaldaklefi.
Leikfimiáhöld ekki talin með. Efni og vinna:
Steinlím, 190 tunnur, 20/00 | kr. 3.800,00 |
Möl, 1000 tunnur, 1/00 | - 1.000,00 |
Sandur, 200 tunnur, 1/00 | - 200,00 |
Kalk, 2 tunnur, 90/00 | - 180,00 |
Ýmisleg áhöld | - 120,00 |
Plankar | - 655,00 |
Klæðningarborð | - 3.250,00 |
Gólfborð | - 900,00 |
Panelborð | - 760,00 |
Efni í sperrur | - 1.455,00 |
Þakjárn | - 1.460,00 |
Pappi | - 400,00 |
Naglar ýmiskonar | - 360,00 |
Gluggar og hurðir | - 630,00 |
Ýmislegt efni | - 580,00 |
Vinnulaun (vinna við múrverk) |
kr. 3.400,00 |
önnur vinna | kr. 3.500,00 |
Vinnulaun samtals | - 6.900,00 |
Samtals | kr.22.650,00 |
- Ásgarði, 29. okt. 1924
- F.h. skólanefndarinnar
- Árni Filippusson.
- Ásgarði, 29. okt. 1924
Til Bæjarstjórnarinnar í Vestmannaeyjum.“
Sumarið 1925 var gerður nýr tillöguuppdráttur að væntanlegu skipulagi á byggingum og götulagningu í bænum norður af Landakirkju og vestur á Heiðina, eins og svæðið vestur af Landakirkju var nefnt í daglegu tali Eyjabúa. Samkvæmt uppdrætti þessum fannst skólanefnd nærri höggið barnaskólanum, og lítils skilnings gæta þar um þarfir skólans á hóflega stóru lóðarsvæði honum til afnota. Þess vegna lét skólanefnd þessa tillögu frá sér fara til bæjarstjórnar:
„Skólanefndin mótmælir því eindregið, að reist verði nokkurt hús eða lagðir nokkrir vegir nokkurs staðar á hinni afmörkuðu lóð skólans nema ræða sé um hús og vegi í þarfir skólans, því að nefndin álítur, að ekki megi á nokkurn hátt skerða þá lóð og þau mannvirki, sem nú fylgja skólanum, en bersýnilegt er, að hinn nýi uppdráttur stefnir að því.“
(Sjá greinina).
Á sama skólanefndarfundi áttu nefndarmenn með sér langar umræður um ýmis vanrækt börn, agalaus og uppeldislaus hér í kaupstaðnum, og væri mikil og aðkallandi þörf á að bjarga þeim, ef þess væri kostur,
eins og það er orðað í fundargjörð skólanefndarinnar.
Síðar á árinu ræddi skólanefndin um það á fundi sínum með skólastjóra, hvað gera ætti við börnin, sem „væru óhafandi með gallalausum börnum sökum óknytta, óhlýðni og gáfnatregðu,“ eins og komizt er að orði í gildri heimild.
Páli skólastjóra var falið að ráða einhvern veginn fram úr öllum þeim vandræðum eins og öðru, þó að smá væru ráð og lítil tök til úrbóta á þeim tímum. Allt framtak í þeim efnum var drepið í dróma sökum fjárskorts og skilningsskorts ráðandi manna, - hinna raunverulegu valdhafa í bænum.
Þegar leið á árið 1926 horfði vænlega fyrir hugsjón þeirri að fá byggt leikfimihús við barnaskólabygginguna. Þá skipuðu þessir menn skólanefndina: Árni Filippusson formaður, séra Jes A. Gíslason, skrifstofustjóri, Páll Kolka læknir, séra Sigurjón Árnason, sóknarprestur, og Hallgrímur Jónasson kennari. Skólanefndin lagði til, að fimleikahúsið yrði byggt við austurstafn barnaskólabygingarinnar og að norðurstafn þess myndaði beina línu við norðurhlið skólabyggingarinnar. - Þannig var líka þessi nýja skólabygging staðsett og byggð.
Byggingarframkvæmdir hófust í júlímánuði 1927. Síðla næsta árs var að mestu lokið byggingu leikfimisalarins, svo að hann var tekinn í notkun og leikfimikennsla felld inn í stundatöflu barnaskólans eftir áramótin 1928/1929. Sumarið 1928 var einnig unnið mikið að efri hæð byggingarinnar. Í fyrstu var það ætlunin að bókasafn bæjarins yrði þar til húsa. En það fór á annan veg. Það var flutt niður í Gefjunarhúsið (Strandstíg 42) og starfrækt þar um árabil, en efri hæð fimleikahússins notuð að fullu í þágu skólanna. Þar var gerð kennarastofa stofnunarinnar og svo tvær kennslustofur. Aðra þá stofu hafði Gagnfræðaskólinn til nota síðari hluta dagsins, meðan hann húsvilltur fékk skjól undir handarjaðri skólastjóra barnaskólans.
Þegar barnaskólanum jókst þannig
húsrýmið, setti skólastjórinn sér mark, að fá færðan niður skólaskyldualdurinn í kaupstaðnum. Þetta var gert. Eyjabörn 8 og 9 ára voru þá skylduð til að stunda nám í barnaskólanum, og var kennaraliðið aukið í hlutföllum við þá fjölgun skólanemendanna.