Blik 1971/Hjónin í Heiðardal, Arnleif og Guðmundur

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1971



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Hjónin í Heiðardal,
Arnleif og Guðmundur


Þannig óska ég að nefna þessi fáu orð mín, er ég bið Blik mitt að geyma fyrir mig um hin mætu hjón, er um árabil bjuggu í Heiðardal hér í bæ, húseigninni nr. 2 við Hásteinsveg.

Guðmundur Sigurðsson.

ctr

Arnleif Helgadóttir.


Þegar við hjónin fluttumst hingað haustið 1927, kynntumst við bráðlega hér litlum hópi mætra manna og kvenna. Í kunningjahópnum voru hjónin Guðmundur Sigurðsson og frú Arnleif Helgadóttir, sem þá bjuggu í Heiðardal. Húseign þessa byggðu þau sjálf af litlum efnum, en með mikilli atorku og trausti samborgaranna á árunum 1919-1922. Það hefur margur Eyjabúinn gert síðan.
Frú Arnleif Helgadóttir var glæsileg kona að vallarsýn og gáfuð. Vel gerð var hún einnig, og urðum við þess þrásinnis áskynja, að þeirra eiginleika hennar nutu ýmsir í bæjarfélaginu, ekki sízt þeir máttarminni efnalega, fátækasta fólkið. Arnleif Helgadóttir var t.d. í barnaverndarnefnd um árabil. Þar nutu fátæk og vanmáttug börn á ýmsa lund umhyggju hennar og góðs skilnings, þegar heilsuleysi eða heimilisböl þrengdi kosti þeirra, gerði þeim lífið lítt bærilegt.
Þá lét frú Arnleif sig skipta hag og fágun Landakirkju og fórnaði margri stund til að skreyta hana og aðlaða kirkjugestum.
Frú Arnleif Helgadóttir fæddist að Grímsstöðum í Vestur-Landeyjum 29. jan. 1882, dóttir hreppstjórahjónanna þar, Helga bónda Árnasonar (f. 21. des. 1851, d. 5. febr. 1901) og Sigríðar húsfreyju Eiríksdóttur bónda Jónssonar í Eystra-Fíflholti. Sigríður húsfreyja var fædd 22. des. 1841 og hafði því 10 konuárin yfir bónda sinn.
Sjö ára missti Arnleif móður sína. Og 19 ára var hún, er faðir hennar féll frá. Nokkru eftir lát hans fluttist hún til Reykjavíkur og vann þar á Hótel Ísland. Öðrum þræði stundaði hún nám í Reykjavík.
Öðru hvoru átti hún svo leið austur í Austur-Landeyjar, þar sem systir hennar var húsfreyja á næsta bæ við Litlu-Hildisey, þar sem bóndasonurinn Guðmundur Sigurðsson var stoðin og styttan við búskapinn. Örlögin láta ekki að sér hæða, og bóndasonurinn sá varð hennar draumaprins og síðan vökuvinur.

Í Litlu-Hildisey í Austur-Landeyjum fæddist efnissnáði 11. okt. 1881. Foreldrar hans voru bóndahjónin þar Sigurður Guðmundsson og Steinunn Ísleifsdóttir. Þessi hjón bjuggu við nokkra fátækt fyrstu árin, en höfðu sérstakt orð á sér fyrir mikla vinnusemi og dugnað og svo heiðarleik og háttprýði í öllu lífi sínu.
Ekki hafði Sigurður bóndi búið lengi í Litlu-Hildisey, er hann eignaðist vertíðarskip og stofnaði til útgerðar frá Landeyjasandi. Sjálfur var hann formaður á skipinu og farnaðist vel. Efnahagur þeirra hjóna fór batnandi ár frá ári. Þá tók Sigurður bóndi til að bæta jörð sína með aukinni ræktun og þúfnasléttun. Þannig blómgaðist efnahagur þessara hjóna með harðsækni til sjós og lands.
Sveinninn nýfæddi var vatni ausinn fljótlega að þess tíðar sið, og hlaut hann nafn föðurföður síns. Guðmundur Sigurðsson segir þannig sjálfur frá bernskuárum sínum og uppeldi í foreldrahúsum í LitluHildisey:
,,Ég fæddist í Litlu-Hildisey í Austur-Landeyjum 11. okt. 1881 ... Bærinn var ekki háreistur og fátækt mikil. Engin upphitun var í bænum. Mæðurnar sváfu með kornbörn sín á brjóstum sér, þegar frost var mest. Ég fékk líka að bragða á hörkunni strax, því að næsti vetur hefur verið kallaður frostaveturinn mikli, en þar á eftir kom mislingaveturinn, og má segja, að þeir hafi runnið saman, þessir vágestir. Ætli ekki dugnaður, fórnfýsi og hjartahlýja föður og móður hafi komið í stað margs þess, sem nútímafólk álítur, að ekki sé hægt að vera án, og þá bjargað, að ekki slokknaði á veikum kveik nýtendraðs ljóss?
Allt frá því, að ég man fyrst eftir mér, var eingöngu hugsað um að vinna og spara, enda var það eini mátinn til þess að halda sultinum frá dyrum sínum.
Ég óx upp við vinnu og hugsaði eingöngu um vinnu. Ég lék mér lítið, þurfti þess ekki, því að vinnan kom í stað leika. Hún var alvöruleikur okkar barnanna frá blautu beini. Og ekki tafði skólagangan. Ég lærði að mestu að lesa og skrifa heima, en fékk, að mig minnir, kennslu hjá farandkennara einn mánuð í tvo vetur. Og þetta hefur enzt mér. Ég átti heima í Litlu-Hildisey til ársins 1917, eða þar til ég var 36 ára. Ég hafði unnið heima og farið til útróðra, og margt hafði gerzt á þessum aldarfjórðungi. Það var farið að rofa til. Margvíslegar framfarir höfðu átt sér stað.“
Þetta voru orð Guðmundar sjálfs um bernsku og æskuárin.
Á þroskaárum sínum í Litlu-Hildisey lærði Guðmundur Sigurðsson söðlasmíði hjá söðlasmíðameistara á Stokkseyri. Þessi meistari í handverkinu var jafnframt mikill jarðyrkjumaður. Eitt sinn fékk hann verðlaun fyrir þau heillastörf sín. Verðlaunin voru plógur, er hann hafði í rauninni ekkert við að gera sjálfur, með því að hann hafði ræktað allt land sitt, er hann hlaut þessa viðurkenningu. Þetta leiddi til þess, að Guðmundur, nemandi hans í söðlasmíðinni, fékk plóginn keyptan við vægu verði og flutti hann austur Hildisey. Þar kom hann að gagni hjá þeim feðgum við jarðræktarframkvæmdirnar.
Eins og ég drap á, þá varð draumaprins þjónustustúlkunnar á Hótel Ísland að vökuvini í fyllingu tímans, svo að ekki leyndist lýðum.
Guðmundur Sigurðsson, bóndasonurinn í Litlu-Hildisey, kvæntist hreppstjóradótturinni frá Grímsstöðum í Vestur-Landeyjum 12. nóvember 1909. Þau hófu búskap sinn í Litlu-Hildisey í félagi við foreldra hans. Ekki löngu seinna lézt Sigurður bóndi, og varð þá Guðmundur og þau hjónin bæði ellistoð móður hans, ekkjunnar á bænum.
Árið 1917 afréðu hjónin að hverfa frá búskapnum í Litlu-Hildisey og flytja til Vestmannaeyja.
Er hjónin fluttu hingað til Eyja, fengu þau inni í Birtingarholti við Vestmannabraut (nr. 61). Það hús hafði Ísleifur Sigurðsson, bróðir Guðmundar bónda, byggt þá fyrir nokkrum árum að hálfu við Ágúst Guðmundsson, er síðar byggði Ásnes (nr. 7) við Skólaveg. Í Birtingarholti bjuggu hjónin næstu 5 árin. Hér stundaði Guðmundur sjó á vélbátum fyrstu árin. Svo dró að því, að hann keypti fjórða hluta í vélbáti og gerðist útgerðarmaður. Um svipað leyti hófu hjónin að byggja sér íbúðarhús. Það var 1919. Það er húseignin Heiðardalur (nr. 2 við Hásteinsveg). Þeim byggingarframkvæmdum luku þau eftir þrjú ár eða 1922.
Svo liðu árin fram að kreppunni miklu. Þá tók að halla undan fæti fyrir mörgu útgerðarfélaginu í þessum bæ sökum mikils verðfalls á sjávarafurðunum. Ekki fóru þeir félagar, útgerð Guðmundar Sigurðssonar í Heiðardal og sameignarmanna hans, varhluta af útgerðartöpunum og erfiðleikunum. Þeir misstu mikinn hluta eigna sinna í töp og skuldir. Allir þeir erfiðleikar verða flestum minnisstæðir fram á hinzta dag, enda þótt ævin verði löng. Svo mun það vera um Guðmund frá Heiðardal. En þol og þrautseigja reynast oft meðfæddir eiginleikar Íslendingsins. Þeir eiginleikar reyndust búa með Guðmundi Sigurðssyni í ríkum mæli. Og þeir eiginleikar samfara fjárhyggjuviti, sparsemi og heiðarleik í öllum viðskiptum urðu honum notadrýgstir til bjargálna á nýjan leik. Þetta mætti æskulýðurinn okkar hugleiða og stinga hjá sér.
Neyðin kennir naktri konu að spinna, segir máltækið. Eins var það um Eyjafólk í heild. Fjárhagskreppan mikla og fjárþröngin sveigði hugi Eyjafólks að grasnytjum og mjólkurframleiðslu til heimilisnota. Mjólkurneyzlan tryggði heimilisfólkinu heilsu og starfskrafta, þegar svo margt vantaði og varð ekki keypt sökum skorts á kaupgetu.
Á árunum 1927-1935 var heimilisfeðrum í Eyjum úthlutað miklu landi til ræktunar, eftir að samningar höfðu tekizt við Eyjabændur um skiptingu ræktanlega landsins á Heimaey. Þessar ræktanlegu skákir, sem gera skyldu að túnum, lágu suður um alla Heimaey.
Árið 1924 stofnuðu bændur og aðrir jarðræktarmenn í Eyjum búnaðarfélag, Búnaðarfélag Vestmannaeyja (stofnað 26. maí 1924). Guðmundur Sigurðsson í Heiðardal var kosinn formaður félagsins á stofnfundi þess. Hann gegndi síðan þessu trúnaðarstarfi næstu 4 árin og ruddi brautir í ræktunar og búnaðarmálum Vestmannaeyinga með öðrum áhuga- og dugnaðarmönnum í stjórn Búnaðarfélagsins, þeim Páli skólastjóra Bjarnasyni, Þorbirni Guðjónssyni, bónda, séra Sigurjóni Árnasyni sóknarpresti að Ofanleiti og Jóni Gíslasyni, útvegsbónda í Ármóti.
Verkefnin voru óþrjótandi, svo sem efling jarðræktar, fræðsla um ræktun og aðra þætti landbúnaðarins, bygging safnþróa til aukinnar hirðingar á áburðarefnum, svo sem fiskslógi, hagstæð innkaup mjólkurframleiðenda á fóðurbæti, tilbúnum áburði og grasfræi, kaup á verkfærum, bæði hestaverkfærum og vélknúnum tækjum, kaup á efni til girðinga og samvinna um að koma þeim upp o.fl.
Ekki veigaminnsta atriðið í stefnu og starfi Búnaðarfélags Vestmannaeyja var það, að fá lagða svokallaða ræktunarvegi um hin ræktanlegu lönd, svo að áburði og öðrum nauðsynjum til ræktunarinnar yrði komið í áfangastað og svo afurðunum vandræðalaust heim af ræktaða landinu.
Ég leyfi mér að efast um, að nokkru sinni hafi aðrar stjórnir félagssamtaka í Eyjum reynzt athafnasamari en fyrstu stjórnir Búnaðarfélags Vestmannaeyja að öllum samtakastjórnum Eyjabúa ólöstuðum. Eftir fyrstu fjögur árin tók Þorbjörn bóndi Guðjónsson við formennsku Búnaðarfélagsins, en Guðmundur Sigurðsson var áfram í stjórninni þar til þeir hættu þar störfum eftir 15 ár eða 1939. Þá var stjórnarkosningin gerð pólitísk. Andstæðingar þessara athafna og forustumanna til eflingar landbúnaði Eyjabúa þóttust nú þurfa og geta tekið við forustuhlutverkinu, til að efla m.a. stjórnmálaflokk sinn og pólitíska aðstöðu. Þetta tókst þeim um stundarsakir. En öllum rekstri landbúnaðar í Eyjum fór nú brátt hnignandi, allt varð það margþætta heillastarf eins og undirlagt doða og deyfð og aðeins sjón hjá því sem áður var. Fleira kom þar til en dáðleysi æstra pólitíkusa. Heimsstyrjöldin hafði geysileg áhrif til hækkunar á afurðaverði útvegsins, svo að ekki þótti jafngróðavænlegt eða hagstætt sem áður að ,,púla uppá kúgras“. Þannig fækkaði jarðræktarmönnum í Eyjum úr 105 árið 1938 í 12 menn árið 1946.
Árið 1929 eða þar um bil hófst lagning ræktunarvegar kring um Helgafell, en umhverfis það lágu flestar ræktunarskákirnar, ræktunarlöndin, sem væntanlegir jarðyrkjumenn í Eyjum og mjólkurframleiðendur vildu rækta. Þá gerðist Guðmundur í Heiðardal vegaverkstjóri.
Eftir þessa verkstjórn varð vegaverkstjórn megin atvinna hans um árabil, bæði fyrir bæ og þó sérstaklega ríki, og þá í þágu vegamálastjóra ríkisins. Vegaverkstjórn annaðist Guðmundur Sigurðsson fyrir íslenzka ríkið bæði undir Eyjafjöllum og á Austurlandi.
Mér hefur veitzt sú ánægja að sjá bréf, sem vegamálastjóri ríkisins, Geir Zoega, skrifaði Guðmundi Sigurðssyni, er hann annaðist vegaverkstjórn fyrir hann austur í Vopnafirði. Efni bréfsins og orðaval vegamálastjóra vottar, hversu mikils trausts og tillits Guðmundur verkstjóri hefur notið hjá yfirmanni sínum við trúnaðarstörfin á Austurlandi.
Á Vopnafjarðarsvæðinu, ef við getum kallað það þannig, annaðist Guðmundur verkstjórnina á árunum 1937-1945. Um þetta verkstjórastarf sitt þar hefur hann látið skrá þetta eftir sér: „Við settum Vopnfirðingana í vegasamband, og á vegasambandinu byggðist framtíð héraðsins og þá þeirra sjálfra. Ég man það sumar, er Vopnfirðingar höfðu fengið vissu fyrir því, að þetta stórmál þeirra kæmist í heila höfn. Þá var haldin veizla á hverjum bæ í sveitinni, er við náðum þangað með veginn. Þegar við náðum svo alla leið að Möðrudal, var efnt til stórveizlu. Það var einna líkast því, að fólkinu fyndist, að við værum að frelsa það. Mikið var ánægjulegt að vinna að því að tengja fólkið saman og sjá svo góðan árangur þeirrar vinnu.
Er hjónin Guðmundur og Arnleif höfðu búið tvö ár í Litlu-Hildisey, skákuðu örlögin Guðmundi bónda inn í dálítinn þátt í framtaks- og menningarsögu Vestmannaeyjabyggðar, trúðu honum fyrir hlutverki þar. Það gerðist, er Eyjamenn lögðu sjálfir símalínu í sjó og á landi milli Eyja og Garðsauka. Það gerðist árið 1911.
Til þess að tengja sæsímann við stöðina í Garðsauka, þurfti marga símastaura. Þessa staura flutti norskt skip til Eyja frá Noregi um sumarið. Síðan voru þeir fluttir norður að strönd meginlandsins, dregnir af vélbátum. Þá tók hlutverk bóndans í Litlu-Hildisey við. Hann flutti símastaurana úr Hallgeirseyjarsandi og dreifði þeim á „línuna“ alla leið upp að Garðsauka. Léttustu staurana flutti hann á klakk eins og forfeðurnir fluttu um aldir timbrið úr verzlunarstöðunum heim til sín, en þyngstu staurana og þá gildustu flutti bóndinn á kerru, þar sem annar endi staursins dróst með jörðu. Þegar svo unnið var að því að fleyta enda sæsímastrengsins á land á Bakkafjörum og getið er um í nefndri grein, lánaði Guðmundur bóndi í Litlu-Hildisey sexmannafarið sitt til snúninga við það verk. Þannig gegndi hann sínu hlutverki, er Eyjamenn stigu hið markverða framfaraspor á eigin spýtur.
Hjónin Arnleif Helgadóttir og Guðmundur Sigurðsson eignuðust 6 börn. Af þeim eru tvær dætur á lífi: Frú Ásta Guðmundsdóttir, gift Hrólfi Benediktssyni prentsmiðjustjóra í Reykjavík, og frú Lilja Guðmundsdóttir, gift Gunnari Árnasyni kaupmanni á Akureyri.
Frú Arnleif Helgadóttir lézt Reykjavík 8. marz 1956.
Við fráfall hennar orti tengdamóðir Lilju Guðmundsdóttur Sigurðssonar, frú Jóhanna Magnúsdóttir, þetta fagra ljóð:

(Lag: Nú legg ég augun aftur)
Skjótt fölnar brosið blíða,
þá breytist von í kvíða
og lífið skiptir lit.
Guðstrú og bænin bjarta
bezt hugga mannlegt hjarta
við dauðans þunga vængjaþyt.


Ó, móðir mild, við þökkum
með huga sorgar klökkum
þér alla elsku og tryggð.
Úr fjötrum ertu farin,
þér fagnar englaskarinn
ódauðleikans björtu byggð.


Þú kunnir ei að kvíða,
þú kunnir glöð að bíða,
við munum mál þitt vel:
Ei sigrar myrkrið svarta,
senn kemur ljósið bjarta,
og allt ég góðum guði fel.


Að kvöldi kölluð varstu,
þinn kross með prýði barstu,
þótt værir þreytt og þjáð.
Þín móðurhöndin mjúka
fékk miklu starfi að ljúka,
að lokum fékkstu lausn í náð.


Þín barnabörn þig gráta,
en brátt þau huggast láta
í blíðri barnatrú.
Þau beina hug til hæða,
til herrans allra gæða,
því þar er elsku amma nú.


Að hjarta sorgin sverfur,
Við söknum þín, sem hverfur
um dauðans dapra stig.
Við þökkum þér öll árin,
þinn kjark og móðurtárin,
og biðjum guð að blessa þig.
J.M.


Frásögn Guðmundar verkstjóra
Sigurðssonar

Svo sem lesendum Bliks er kunnugt um, þá ann ritið öllum sögulegum fróðleik, sem það kostar kapps um að halda til haga og vernda frá glötun. Nokkurn fróðleik um bernsku- og æskuár sín hefur Guðmundur Sigurðsson gefið Bliki. Fer sá sögulegi fróðleikur hér á eftir, sem hann skráði haustið 1969.
„Ég er nú orðinn gamall maður, 88 ára. Heilsan má heita góð, þegar tekið er tillit til aldursins, sjón og heyrn farin að dofna, en má þó heita allgóð; minnið er nokkuð gott. Ég man vel margt frá yngri árum. Það má segja, að ég muni tímana tvenna, enda eldri öllum „aldamótamönnum“.
Já, mikil er breytingin síðan ég man fyrst eftir, hvernig lífið var þá, nokkuð fyrir síðustu aldamót. Ég býst við, að margir af yngri kynslóðinni trúi því tæplega, hvernig lífskjörin voru í þá daga.
Í minni sveit, Landeyjum, var til dæmis enginn vegarspotti, engin farartæki nema blessaðir hestarnir og sleðar, sem voru notaðir, þegar ísinn kom. Þá voru varla til hjólbörur, engir vagnar, engir bílar og því síður flugvélar. Þá voru engir bátar með mótorum eða vélum, aðeins áraskip af mismunandi stærðum og gæðum. Íveruhúsin voru þessar svokölluðu baðstofur, torfkofar með sperrum þakinu og klætt á þær borðum, og klæðningin kölluð súð. Þá kom mjög þykkt þak úr torfi, sem oft vildi þó leka, þegar mikið rigndi, en þá þekktist ekki þakjárnið. Gluggar voru mjög litlir og oftast var moldargólf, að minnsta kosti hjá fátæka fólkinu. Til þess að lýsa upp þessi híbýli var hafður lýsislampinn með fífukveiknum, sem lýsti nú ekki vel upp, en var bó betri en myrkrið. Mikil var ánægjan, þegar olíulamparnir komu, sem varð þó að fara mjög sparlega með, því að steinolían var vara sem vissulega þurfti að spara, eins og raunar flest annað. Í þá daga var rafmagnið bara draumórar.
Þar sem ég þekkti til, voru túnin við bæina víðast hvar mjög lítil og sást varla í þeim sléttur blettur; þau voru kargaþýfð, sem kallað var. Þá bjóst ég ekki við að lifa það, að túnin yrðu eins stór og nú er orðið, og hvergi sæist þúfa í túni. Það var verið að byrja að slétta bletti í þeim, en áhöldin til þess voru svo frumstæð, að þetta gekk mjög seint. Það var varla til nothæf skófla, oftast tréspaðar, járnvarðir að framan (þá voru ekki komnar til sögu hinar svokölluðu stálrekur).
Á næsta bæ við mig var ungur piltur sendur á Flensborgarskólann í Hafnarfirði, og það voru nú heldur fáir, sem urðu fyrir svo miklu láni. Þessi ungi piltur var Steinn Sigurðsson frá Fagurhól. Hann varð síðar kennari hér í Vestmannaeyjum. Hann var skáld og gáfumaður.
Um vorið, þegar hann kom heim úr skólanum, kom hann fljótt í heimsókn til okkar kunningjanna. Þá vorum við úti á túni eitthvað að fást við að slétta yfir nokkrar þúfur. Þá sagði hann okkur, að í ferð sinni hefði hann séð áhald, sem væri farið að nota til að skera þökurnar af þúfunum. Þetta var bara ofanafristuspaðinn, sem allir þekkja nú.
Þetta áhald fékk faðir minn sér mjög fljótlega eftir þetta, og það var nú hinn mikli munur að nota hann heldur en rekuna og torfljáinn.
Það var erfitt og seinlegt að heyja þá daga, og það varð að nota vel hverja stund, ef eitthvað átti að fást í heygarðinn. Þá voru engar heyhlöður.
Að hafa eitthvað að bíta og brenna var oft erfitt. Ég man, að stundum var talað um heimili, sem voru bæði matar- og eldiviðarlaus. Þá var ekki kol að fá. Það var bara þurrkaður haugur, helzt frá sauðfé, og nefndist skán, og svo mór og torf. Þetta gaf nokkuð góða glóð í hlóðunum, ef af nógu var að taka, en þetta þurfti líka að spara.
Ég ætla ekki að vera margorður um, hvaða matur var þá venjulega á borðum, en verð að segja það, að nú til dags þætti það heldur laklegt, en sulturinn gerir sætan matinn. Og ekki þarf ég að segja, að ég hafi oft verið svangur. En ekki áttu allir því láni að fagna.
Það var bóndi ekki langt frá okkar bæ, sem þótti dálítið skrítinn í orðavali sínu, einkanlega þegar hann var með víni, sem kom nú nokkuð oft fyrir.
Eitt sinn, er þannig stóð á fyrir honum, sagði hann þessar setningar: „„Það er bágt að eiga svanga sonu,“ sagði ég við Drottinn minn, og kýrnar brást, en þeir berja sér líka sem báru með vetri.“ Það má ráða í meiningu þessara orða, þó að setningin sé einkennilega fram sett, og hún segir þó sína sögu um, hvernig ástandið var. Ég man, að talað var um, þegar kom fram á útmánuði, að það væri farið að sjá á fólkinu.
Þá áttu Landeyingar mörg skip, stór og smá, og afkoman fór mikið eftir því, hvort fiskaðist út frá Sandinum. Það mátti vel segja um Landeyinga eins og fleiri: Fast þeir sóttu sjóinn. Oft var beðið með óþreyju eftir því, að brimið lægði. Og það vildi nú oft dragast allt of lengi.
En þegar sjórinn dó, sem kallað var, var ekki beðið lengi að leggja frá landi, og oft þurfti ekki að fara nema rétt útfyrir brimgarðinn til þess að fá nógan fisk. Stundum var svo mikið af þorskinum, að það mátti heita að fiskur væri strax kominn á öngulinn um leið og færið var komið í sjóinn. Og það kom fyrir, að á einum degi fengjust tveir til þrír farmar, því stutt var á miðin.
Þegar þessi blessun barst á land, flaug fljótt fiskisagan. Fólk úr nærliggjandi sveitum kom þá oft fram í Sandinn, sem kallað var, og það voru margir fiskar sem þetta fólk flutti með sér heim til sín. Margir áttu vini og ættingja meðal þessa fólks, og það var stundum farið að fækka fiskunum hjá sjómönnunum, þegar farið var heim að kvöldi. Það þótti sjálfsagt að láta engan fara allslausan heim til sín, meðan eitthvað var eftir. Fátæklingum var oft gefið af aflanum, en margir betri bændur borguðu oft í ýmsum varningi. Um peninga var þá varla að tala.
Það var oft gaman að róa út frá Sandinum þó að brimlendingin væri áhættusöm; hún var líka ævintýraleg og stórbrotin. Og ekki veitti af að taka á öllu sínu. Það var oft sagt, þegar mikið var á sig lagt, að það væri eins og að róa brimróður.
Þegar ég lít nú yfir farinn veg, get ég ekki annað en undrast allar þær miklu framfarir, sem orðið hafa hér á þessum árum, sem liðin eru, og við megum sannarlega þakka guði og góðum mönnum fyrir þetta allt.
Það yrði of langt mál að fara að telja upp allar þessar breytingar, en þar sem ég er nú orðinn einn af gamalmennunum, get ég ekki annað en minnzt á muninn á líðan gamla fólksins þá og nú. Það er átakanlegt, að hafa lifað það, þegar gamla fólkið var boðið upp eins og fénaður. Á almennum hreppsfundum voru kölluð upp nöfn þessara útslitnu gamalmenna, sem ekkert áttu til og engir gátu eða töldu sér skylt að sjá um. Sá bóndinn, sem vildi taka þetta fólk fyrir minnst gjald frá hreppnum, var látinn fá það til framfærslu.
Stundum vildi enginn bjóða í gripinn. Þá var þetta fólk dæmt til að ganga milli bæjanna og dvelja svo sem einn mánuð á hverjum bæ. Þetta voru kallaðir niðursetningar. Um líðan þessa fólks ætla ég ekki að ræða hér, en þegar við sækjum ellilaunin okkar, þá megum við gjarnan hugsa til þeirra drenglyndu manna, sem mest og bezt hafa barizt fyrir málum okkar.
Ég ætla svo að enda þetta rabb með því að minnast á þá mörgu sjúkdóma, sem læknavísindin hafa nú létt af fólkinu. Sullaveikin, holdsveikin, berklaveikin og margir aðrir sjúkdómar, sem lágu á mörgum, mega nú teljast úr sögunni. Ég, og margir aðrir, misstum börnin okkar og aðra ástvini úr lungnabólgu og öðrum sjúkdómum, sem læknum nú til dags gengur auðveldlega að ráða bót á. Þetta ber sannarlega að þakka og því ekki að gleyma.
Og þið ungu menn og konur, sem eruð að taka við af okkur gamla fólkinu, hugleiðið hvað áunnizt hefur í okkar tíð. Ykkur finnst sem vonlegt er, mörgu ábótavant, en minnist þess þá líka sem unnizt hefur.
Ég óska og vona, að ykkar dagsverk blessist fyrir land og lýð og verði ekki minna en okkar; helzt miklu meira.“

Þetta voru orð Guðmundar frá Heiðardal sjálfs um æskuár sín og líf og störf jafnaldra hans á æskuárum hans, svo og líf og aðbúnað bændafólksins í Landeyjum á löngu liðnum tímum og fram undir og fram yfir síðustu aldamótin.
Ekki hafði Guðmundur í Heiðardal dvalizt mörg ár í Eyjum, er hann uppgötvaði með sjálfum sér, að hann í lífsbaráttunni ætti í hug og hjarta samleið með fátækari og fátækasta hluta þess fólks, sem byggði þetta bæjarfélag. Hann vildi svo feginn mega leggja fram krafta sína og hyggjuvit þessu fólki til styrktar og lífsbóta. Það taldi hann bezt gert með verzlunarsamtökum alþýðumanna og verkalýðssamtökum verkamanna og verkakvenna til sóknar og varnar í baráttu fyrir bættum lífskjörum. Á þeim árum, er hann hóf hér merkið ásamt nokkrum öðrum mönnum í sömu stétt varð þetta félagsstarf hér í Eyjum nálega einhliða: Það var næstum einvörðungu sóknarstarf fyrir málstað hins undirokaða til mannsæmandi lífs á flestum sviðum.
Guðmundur Sigurðsson og félagar hans létu hér ekki sitja við hugsunina eina og orðin tóm í þessum efnum. Hann og hans nánustu félagar, svo sem Eiríkur Ögmundsson í Dvergasteini, Guðlaugur Hansson á Fögruvöllum og Guðmundur Magnússon smiður á Goðalandi og nokkrir aðrir einlægir og mætir verkalýðssinnar í bæjarfélaginu bundust samtökum til sóknar um þessi hugsjóna- og hagsmunamál verkalýðsins og smáútvegsmannanna í bænum, sem áttu hér flest undir högg að sækja um atvinnurekstur sinn.
Árið 1920 beittu þessir verkalýðsforingjar og svo smáútgerðarmenn sér fyrir stofnun Kaupfélagsins Drífanda og réðu ungan og framsækinn Vestmannaeying til forustunnar og framkvæmdanna með sér. Það var Ísleifur Högnason fyrrverandi hreppstjóra Sigurðssonar í Baldurshaga (nr. 5 við Vesturveg).
Nokkru fyrr en þeir stofnuðu hér K/f Drífanda til sóknar fram á verzlunarsviðinu, beittu þeir sér fyrir stofnun Verkamannafélagsins Drífanda. Verkamannafélag var óþekkt fyrirbrigði þá í þessum bæ. Sumir atvinnurekendur litu á stofnun þess eins og glæp gegn atvinnulífinu. Þegar nokkrir áhrifamestu atvinnurekendurnir voru í þeim hópi, má fara nærri um, hve félagsstarf þessara brautryðjanda hér í verklýðsmálunum varð blómum stráð. Hatur, ofsóknir, kúgun. Verkamannafélagið Drífandi átti lengi vel mjög erfitt uppdráttar og árangur félagsstarfsins sorglega lítill. Kom þar margt til, þó að baráttuvilji forgöngumannanna væri einlægur. Öll þessi samtök í landinu voru á bernskuskeiði þá. Við ofurefli fjármagns og óbilgirni var að etja fyrstu ár þessarar fyrirbrigða í þjóðfélaginu. Þeir eiginleikar umhverfisins leiddu af sér hatur og ofbeldishneigð sumra verkalýðsforingjanna, sem létu þá hallast að stefnum, sem æstu öfl til pólitískra átaka á vettvangi félagssamtakanna. Jafnframt þeim innbyrðisdeilum fór þeim heimilum í Eyjum fjölgandi, þar sem stytta af Stalín var látin prýða „stássstofuborðið“ eða borðin.
Þessi óheillaþróun náði hámarki hér, er 6 af baráttumönnum verkalýðssamtakanna í Eyjum voru reknir úr Verkamannafélginu Drífanda. Sá brottrekstur var banabiti þess. Þannig voru verkamenn þá tældir til að saga sundur greinina, sem þeir sjálfir sátu á. Trúgirni manna er stundum þeim sjálfum fyrir verstu.
Einhversstaðar lét Guðmundur frá Heiðardal prenta þetta eftir sér:
,,Ég var einn af stofnendum verkamannafélagsins Drífanda, og síðan hefi ég verið þátttakandi í verkalýðsfélögunum. Einu sinni var ég rekin ásamt fleirum úr verkamannafélaginu. Það þótti þá eina ráðið til að losna við áhrif okkar sem ekki vildum hrinda verkafólkinu út í tvísýn ævintýri.
Ávallt hefur það farið þannig, að flest hefur brotnað niður, sem reynt hefur verið að hrófla upp á grunni ofstækis og haturs, en hitt hefur tórt af, já, lifað.“
Guðmundur Sigurðsson frá Heiðardal var í hópi kunnustu Eyjabúa á sínum manndóms- og baráttuárum. Það er ekkert oflof, að hann hefur ávallt reynzt raunsýnn þjóðfélagsþegn, gætinn, einlægur og heiðarlegur í hugsun og athöfnum, enda jafnan notið trausts og halds samborgara sinna í hvívetna langan ævidag.
Sá er þetta ritar, var einn af þeim sex, er vikið var úr verkamannafélaginu hér á tímum nýrra trúarbragða, þegar þeim Eyjabúum fór fjölgandi ár frá ári, er skreyttu heimili sín með styttum af Stalín sáluga.