Blik 1965/Björn Hermann Jónsson, skólastjóri og Jónína G. Þórhallsdóttir, kennari

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1965



Björn Hermann Jónsson
skólastjóri í Vestmannaeyjum 1914-1920,
og kona hans Jónína G. Þórhallsdóttir, kennari


Björn H. Jónsson,
skólastjóri.

ctr

Frú Jónína G. Þórhallsdóttir og
Jónína Jónsdóttir,
sonardóttir hennar.


Síðla sumars 1914 hófst fyrri heimsstyrjöldin, er stóð til 1918. Íslendingar voru að mörgu leyti ver búnir undir þann hildarleik en ýmsar aðrar þjóðir, — sárfátæk eyþjóð, sem lítinn eða engan átti skipakostinn. Fjölmargir erfiðleikar steðjuðu brátt að þjóðinni. Einn af þeim var eldiviðarleysið, skortur á hita í heimili og skóla.
Mikil gæfa var það barnaskóla Vestmannaeyja og öllu Eyjafólki, að í sæti hins áhrifaríka og gáfaða skólamanns, Steins Sigurðssonar, valdist annar mætur maður, sem reyndist sveitarfélaginu, sem þá var í mjög örum vexti, ötull brautryðjandi og framtakssamur starfskraftur á þeim miklu breytinga- og erfiðleikatímum, er í hönd fóru. Þessi skólamaður var Björn Hermann Jónsson.
Björn var fæddur 24. júní 1888 að Núpsdalstungu í Miðfirði, kominn af merkum og traustum bændaættum í Húnavatnssýslu og Dölum vestur. Foreldrar hans voru Jón bóndi Jónsson og k.h. Ólöf Jónsdóttir.
Björn Hermann vann foreldrum sínum allar stundir, þar til hann var 19 ára. Lengi hafði hann þá þráð framhald þess náms, er hann naut á æskuheimili sínu. Hann hleypti því heimdraganum og hvarf til náms í Flensborgarskólann í Hafnarfirði. Þar lauk hann gagnfræðaprófi 1907. Að því námi loknu leitaði hann heim á æskuslóðirnar og gerðist farkennari í Húnavatnssýslu. Það starf hafði hann á hendi tvö næstu árin. Og í því starfi fann hann sjálfan sig. Hann afréð að gera skólastarfið að ævistarfi sínu.
Árið 1909 hélt Björn Hermann til Danmerkur til framhaldsnáms og dvaldist þar um 5 ára skeið við störf og nám. Efnalítill, sem hann var, hlaut hann að miðla tíma sínum milli starfs, sem gaf tekjur, og náms, eftir því sem kostur gafst og við varð komið. Hann vann fyrir sér ýmist við skrifstofustörf eða sveitastörf, en stundaði annars nám á vetrum. Veturinn 1911—1912 stundaði hann nám í framhaldsdeild lýðháskólans í Friðriksborg. Síðan nam hann næstu tvo vetur (1912—1914) í hinum heimskunna lýðháskóla Dana í Askov. Þar kynntist hann kunnum dönskum skólamönnum eins og Appel, Arnfred og menningarfrömuðinum Holger Begtrup, sem hafði miklar mætur á hinum unga og framgjarna Íslendingi.
Það mun ekki ofmælt, að Björn H. Jónsson hafi orðið gagntekinn af skólahugsjón lýðháskólamanna og séð mikil verkefni heima í hennar anda til þjóðlegs uppeldis og þroska.
Á þessum dvalarárum í Danmörku kynntist hann einnig dönskum bændum furðu náið, einkum Suður-Jótum, sem tóku ástfóstri við hann og hann við þá. Á heimilum þeirra og í félagslífi unga fólksins kynntist hann þeim anda og þeim þroska, sem lýðháskólinn hafði mótað þarna í sveitum Suður-Jótlands. Þarna lifði enn á vörum fólksins kjörorð lýðháskólafrömuðanna eftir tapið mikla 1864, ósigurinn við Þjóðverja: „Hvad udad tabes skal indad vindes.“
Í Danmörku kynntist Björn H. Jónsson annarri þjóðfélagshugsjón, sem sannfærði hann um ágæti sitt til þess að byggja upp félagsþroskað þjóðfélag, þar sem sérstaklega hinir minni máttar í þjóðfélaginu studdu hver annan menningarlega og svo fjárhagslega í framleiðslu og verzlun. Það voru dönsku samvinnufélögin. Hjá þeim vann hann um skeið við góðan orðstír.
Á þessum dvalarárum sínum með Dönum las Björn H. Jónsson mikið góðar danskar bókmenntir frá ýmsum tímum og naut þeirra varanlega. Aukin þekking hans á danskri verkmenningu og andlegu lífi og hugsunarhætti efldi og hreinsaði Íslendingseðlið í honum og kristallaði það.
Þegar Steinn Sigurðsson, skólastjóri, neyddist til að hverfa frá stöðu sinni í Vestmannaeyjum 1914 (sjá Blik 1963), var Björn Hermann einn af þeim 8 skólamönnum, er sóttu um stöðuna; hlaut hann hana með atkvæðum allra skólanefndarmannanna. Björn var síðan skólastjóri í Vestmannaeyjum í 6 ár, áhrifaríkur og ötull, áhugasamur hugsjónamaður, frjálslyndur og víðsýnn og bjartsýnn að eðlisfari og mun ævinlega hafa trúað á það bezta í manneðlinu. Hann mun hafa trúað á boðskap hins nýja tíma um bætt samfélag, hagnýtingu tækninnar og alhliða ræktun þeirra hæfileika, sem mannfólkið býr yfir til eflingar fögru mannlífi í samhjálp og samvinnu. Þess vegna urðu Birni skólastjóra það yfirþyrmanleg vonbrigði, er áhrifaöfl í Vestmannaeyjum tóku að bera hann opinberlega sökum, sem hann átti enga hlutdeild í og hafði í eðli sínu andstyggð á (sjá 5. kafla Fræðslusögunnar hér í ritinu).
Sveitarfélagið í Vestmannaeyjum hafði tekið miklum og örum vexti frá upphafi vélbátaútvegsins þar (1906) til þess tíma (8 ár), er Björn H. Jónsson gerðist þar skólastjóri. Aðstreymi fólks til Eyja á þeim miklu afla og uppgangstímum varð þess m.a. valdandi, að húsrými barnaskólans þar reyndist brátt alltof lítið. Barnið óx en brókin ekki. Engin ráð önnur voru varanleg til þess að bæta úr húsnæðisvandræðum barnaskólans en að byggja nýtt skólahús. Þær menningarframkvæmdir féllu í hlut Björns skólastjóra. Varð hann þannig brautryðjandi í Vestmannaeyjum um byggingu nýs og varanlegs barnaskólahúss, eins og rætt er um í 5. kafla fræðslusögu byggðarlagsins sér í ritinu. Úrræðasemi Björns skólastjóra, dugnaður og brennandi áhugi fyrir velferð þeirrar stofnunar, sem honum hafði verið trúað fyrir, brást ekki.
Haustið 1915, er Björn skólastjóri sá, að ekkert gekk né rak um undirbúning að byggingu nýs skólahúss í sveitarfélaginu, bauð hann skólanefnd að útvega lán til framkvæmdanna og stjórna þeim. Þetta boð skólastjórans þáði skólanefnd einróma.
Brátt tókst Birni skólastjóra að tryggja hreppnum lán til byggingarframkvæmdanna. Þar naut hann góðvildar og framtakshugar Gísla J. Johnsen, sem var formaður Sparisjóðs Vestmannaeyja, sem Eyjabúar stofnuðu 1893. Sparisjóðurinn hét láni kr. 50.000,00 til skólabyggingarinnar.
Vorið 1916 hófst síðan Björn skólastjóri handa um byggingarframkvæmdirnar og vann þar öðrum þræði sjálfur, þegar honum hentaði það, sérstaklega að innbúnaði hússins, 1917, en hann var smiður að námi og eðlisfari og þess nutu Eyjabúar við byggingarframkvæmdirnar. (Sjá 5. kafla fræðslusögunnar hér í ritinu).

Einn þeirra nemenda, sem lauk kennaraprófi við Kennaraskóla Íslands vorið 1913, var Jónína Guðríður Þórhallsdóttir. Hún fæddist í Reykjavík 29. jan. 1891. Á bernsku- og æskuskeiði kom í ljós, að hún var gædd miklum námsgáfum og námshug. Af sjálfsdáðum og dugnaði lagði hún út á námsbrautina, þótt efnalaus væri, og náði í mark vorið 1913. Um haustið s.á. gerðist Jónína G. Þórhallsdóttir heimiliskennari í Vestmannaeyjum hjá Árna Filippussyni í Ásgarði. Jafnframt hafði hún á hendi tímakennslu við barnaskóla Vestmannaeyja. Haustið eftir (1914) var hún ráðin fastur kennari við barnaskólann og hélt þeirri stöðu næstu 5 árin eða þar til hún fluttist úr Eyjum.
Þau Björn skólastjóri og Jónína kennslukona felldu hugi saman og giftust 30. apríl árið 1915.
Þesssi mikilsvirtu og mætu skólastjórahjón önnuðust síðan í sameiningu forustuhlutverk sitt í skólamálum Vestmannaeyinga næstu 5 árin. Þar gátu þau sér vináttu og góðvilja ýmissa góðborgara, sem mátu starf þeirra og mannkosti.
Nefni ég þar sem dæmi Árna Filippusson og fjölskyldu, Pál Bjarnason, ritstjóra (síðar skólastjóra), Gísla J. Johnsen kaupm. og útgerðarmann, Sigurbjörn Sveinsson kennara og rithöfund og bóndahjónin á Kirkjubóli, Guðjón Björnsson og Ólöfu Lárusdóttur.
Þegar Björn skólastjóri hafði náð því marki, að fá fullgert nokkurt húsnæði í nýja skólahúsinu, stofnaði hann til unglingafræðslu í Vestmannaeyjum.
1. okt. 1918 var t.d. barnaskóli Vestmannaeyja settur með 220 nemendum. Jafnframt setti skólastjóri unglingaskóla Vestmannaeyja með 32 nemendum og stýrimannadeild með 8 nemendum. Sú deild var að nokkru leyti í nánum tengslum við unglingaskólann, hluti af honum, þar sem námsgreinir og námsefni fór saman. Markmiðið með deild þessari var að hvetja unga menn í Eyjum til þess að sækja sjómannaskólann í Reykjavík og létta þeim námið þar. Björn skólastjóri sá síaukinni vélbátaútgerð í Eyjum mikla nauðsyn á vaxandi sveit manna, sem kunni til skipsstjórnar.
Á styrjaldarárunum átti Björn skólastjóri oft í miklum erfiðleikum um rekstur barnaskólans sökum eldsneytisskorts, þar sem flutningur kola til landsins var mjög takmarkaður og þau í gífurlegu verði. Þessi eldsneytisskortur bitnaði einnig á þessum vísi hans að unglingaskóla í sveitarfélaginu.
Sumarið 1919 sat Björn skólastjóri fund íslenzkra samvinnumanna á Þingvöllum. Um haustið beitti hann sér fyrir því með Snorra Sigfússyni, fyrrv. skólastjóra og námsstjóra, að barnakennarastéttin í landinu efndi til samtaka með sér um málefni sín, fræðslumálin, uppeldismálin og launamálin. Þessi fundarseta Björns skólastjóra með samvinnumönnum og framtak hans um stofnun kennarasamtaka í landinu vakti mikla athygli með andstæðingum samvinnustefnunnar í Eyjum og svo launastreitu hinna kúguðu stétta þá í þjóðfélaginu. Ýfin öfl yggldu sig og óvild þrútnaði. Höggstaðs var leitað.
Þegar Björn H. Jónsson kom heim frá námi í dönskum lýðháskóla, var hugur hans gagntekinn af lýðháskólahugsjóninni. Hann óskaði landi sínu og þjóð þeirrar blessunar, sem hann taldi lýðháskólann geta veitt þjóðinni í uppeldis- og fræðslumálum samkvæmt danskri reynslu. Það var því ávallt ofarlega í huga hans að fórna kröftum sínum til eflingar lýðháskólahugsjóninni með íslenzku þjóðinni.
Árið 1901 hóf séra Ólafur Ólafsson prestur og prófastur að Hjarðarholti í Dölum að starfrækja unglingaskóla á heimili sínu. Þessu skólastarfi hélt prestur áfram næstu 19 árin. Árangur þessa skólastarfs prestsins var bæði mikill og góður, og alþýðuskólinn í Hjarðarholti, eins og hann var nefndur, orðin þekkt uppeldis og fræðslustofnun.
Þegar séra Ólafur Ólafsson fékk lausn frá prestsembætti sínu 1920 og fluttist til Reykjavíkur, kom til álita um framtíð Hjarðarholtsskólans.
Björn skólastjóri afréð vorið 1920 að breyta til í starfi sínu, gerast bóndi í Hjarðarholti í Laxárdal og reka þar alþýðuskóla í lýðháskólaanda.
Segja má, að annað aflið ýtti á þau hjón að flytja burt úr Eyjum en hitt togaði. Skólastjóri hafði orðið fyrir illkvittni og mannorðsskemmandi getsökum á opinberum vettvangi í Eyjum, og það að ástæðulausu gjörsamlega. Honum var slík mannvonzka viðurstyggð, sem ýtti á og kynti undir burtþrá hans. Hins vegar togaði lýðháskólahugsjónin í hann. Átti hún eftir að verða að veruleika í Dölum vestur? Þangað fluttust þau hjónin 1920. Barnaskólinn í Vestmannaeyjum hafði misst einn hinn áhrifaríkasta og mætasta skólamann, sem þar hefur starfað frá upphafi skólareksturs að öllum öðrum ólöstuðum.
Með skýrslum barnaskólans til fræðslumálastjórnarinnar þau ár, sem Björn H. Jónsson var skólastjóri í Eyjum, fylgdu stundum skólastarfi hans ummæli prófdómara. Þar segir, að börnunum sé „haldið til starfs, þeim kennd kurteisi og háttprýði og þau lúti góðum aga í skólanum.“ Hvað annað gat verið ákjósanlegra í skólastarfi? Þetta var sá orðstír, sem þau hjón höfðu með sér úr Eyjum, þrátt fyrir róg, níð og nöldur vissra manna.
Skólastjórahjónin settust að í Hjarðarholti full vona og eftirvæntingar, hugsjónahreif og bjartsýn.
Tímarnir voru hinir erfiðustu; heimsstyrjöld nýlokið; lýðháskólahugsjónin lítt þekkt hér á landi og opinberir styrkir henni til framdráttar óhugsandi. En skólastjórahjónin trúðu á hugsjónina og unga fólkið, guð og gæfuna, lánið og liðsemd meðbræðranna í fórnfúsu menningarstarfi sínu. Skólastjórinn átti líka frændur í Laxárdal, sem vildu honum vel. Allt lék í lyndi fyrst í stað, þótt engir væru þar gildir sjóðir.
Samhliða fræðslustarfinu var haldið uppi félagslífi í skólanum og öflugri ungmennafélagsstarfsemi í byggðinni. Hjarðarholt varð brátt miðstöð sveitarinnar í menningarlegu tilliti. Þar voru leiksýningar, héraðssamkomur og söngæfingar. Stefán skáld frá Hvítadal var aufúsugestur í Hjarðarholtsskólanum. Hann orti og þýddi kvæði við lög, sem nemendur æfðu og sungu. Skólastjórinn orti einnig kvæði eða þýddi í sama tilgangi. Einn hlustandinn hefur tjáð mér, að eftirminnilegust sé sér ein stund í skólanum eftir hartnær 40 ár. Sú stund var helguð Hallgrími skáldi Péturssyni, trúarskáldinu og manninum. Persónusagan var látin orka á sálarlíf tilheyrendanna í anda lýðháskólans, og skólastjórinn hafði sjálfur orðið. En til þess að sameina hugina um málefnið og verkefnið söng allur hópurinn fyrst kvæði Matthíasar:
„Atburð sé ég anda mínum nær“. Sami áheyrandinn minnist gönguferða nemendanna að vorinu með skólastjóra í fararbroddi. Áin var að ryðja sig. Skólastjóri nemur staðar við ána og flytur tölu. Efnið er leysingin — vorleysingin, — líka í þjóðlífinu íslenzka. Atburðir sögunnar og fyrirbrigðin í ríki náttúrunnar eru sambærilegar hliðstæður, sama aflið, „sem bærir vind og vog og vakir í listanna heilugu glóð.“

„Allt vaknar, sem að vetrinum svaf,
er vorið kemur sunnan um haf;
og áin brýtur böndin af sér,
og brýzt um fast eins og sjóðandi hver.“

En vinsældir skólastjórahjónanna í Hjarðarholti og áhrifaríkt uppeldis- og menningarstarf nægði vissulega ekki til þess að halda lífinu í alþýðuskólanum í Hjarðarholti. Fjárhagur var þröngur mjög, gestanauð mikil og í engu sparað, að sem bezt færi um alla, sem að garði bar. Gestrisni skólastjórahjónanna, manngæzka og höfðingslund nægði skólanum heldur ekki til lífs. Þar skorti afl þeirra hluta, sem skjóta stoðum undir allt mannlegt framtak, fé og aftur fé. Þessa staðreynd virtust vinir skólans og þeir sem hans nutu í ríkum mæli, ekki skilja eða gera sér grein fyrir. Þessar staðreyndir urðu skólanum að aldurtila.
Sár voru þau vonbrigði hinum fórnfúsa hugsjónamanni. Kaldur veruleikinn var nístingskaldur.
Frá Hjarðarholti fluttust skólastjórahjónin til Ísafjarðar sumarið eða haustið 1925. Þar fékk Björn H. Jónsson kennarastöðu við barnaskólann. Jafnframt var hann skólastjóri iðnskólans.
Ísfirzkir forustumenn í fræðslu- og félagsmálum lærðu brátt að meta hæfileika Björns, starfshæfni hans og drengskap, dugnað hans og gáfur.
Árið 1930 varð Björn skólastjóri barnaskóla Ísafjarðar. Þeirri stöðu gegndi hann við góðan orðstír í 27 ár.
Mörg trúnaðarstörf hlóðust á Björn skólastjóra þau ár, er hann dvaldist á Ísafirði. Hann var þar um árabil yfirskattanefndarmaður, var í sáttanefnd, vann mikið í félagslífi í kaupstaðnum, var sáttasemjari í vinnudeilum og í barnaverndarnefnd um aldarfjórðungsskeið. Um árabil var Björn skólastjóri forustumaður í félagssamtökum vestfirzkra kennara.
Frú Jónína G. Þórhallsdóttir, kona Björns skólastjóra gerðist kennari við barnaskóla Ísafjarðar 1925 og var það í mörg ár.
Ég hygg, að allt of fáir geri sér fulla grein fyrir því, hve ríkan þátt mikilhæf og góð eiginkona getur átt og á iðulega í mikilvægu og vandasömu starfi eiginmanns síns. Þannig var þessu varið með frú Jónínu konu Björns skólastjóra. Vissulega var hún ávallt hægri hönd manns síns í vissum skilningi. Nákunnugur segir mér: „Hún var verndarandi heimilisins, sem helzt engin orð fá skilgreint, — ævinlega reiðubúin til að fórna sér fyrir börnin sín og heimilið, — þrekmikil, fastlynd og réttsýn, — mikilhæf kona og heilsteypt, hagsýn og myndarleg.“
Heimili þessara skólastjórahjóna á Ísafirði var bæði kærleiksríkt og áhrifaríkt menningarheimili, þar sem ríkti friður og göfgi og haft var yndi af söng og ljóðum og öðrum þjóðlegum andans auði. Allt heimilið bar vott um ríkt fegurðarskyn hjónanna, smekkvísi og háttprýði.
Árið 1957 sagði Björn skólastjóri lausri stöðu sinni á Ísafirði. Þá var líkamsheilsu hans og starfsorku tekið að hraka.
Skólastjórafjölskyldan fluttist þá til Reykjavíkur. Þar dreifði Björn skólastjóri tímanum við ýmislegt þjóðlegt grúsk, og þá helzt ættfræði. Hann hélt hins vegar andlegri heilsu og þrótti til hinztu stundar.
Björn H. Jónsson, skólastjóri, lézt í Reykjavík 4. júní 1962, 74 ára. Frú Jónína G. Þórhallsdóttir lifir mann sinn og á heimili sitt í Silfurtúni í Garðahreppi.
Börn skólastjórahjónanna:
1. Ólafur læknir á Hellu, f. 14/11 1915;
2. Svava, f. 2/12 1921;
3. Jón rafvirki, f. 3/8 1924, — látinn;
4. Haraldur, f. 4/8 1926, verkam. á Keflavíkurflugvelli.
(Heimildir: Fundargerðir skólanefndar Vestmannaeyja; ýmsir Eyjabúar, fyrrv. nemendur skólastjórahjónanna, — ísfirzkir vinir þeirra og velunnarar; Ísl. kennaratal; nákomnir ættingjar).

Þ.Þ.V.