Blik 1963/Saga séra Brynjólfs Jónssonar, VII.
Frumkvöðull barnafræðslunnar.
Árið 1854 voru 18,66 hundraðshlutar Eyjabúa ólæsir. Næstu ár fór þessi hundraðstala hækkandi. Árið 1860, er séra Brynjólfur Jónsson fékk veitingu fyrir prestakallinu, reyndust tæp 28% af Eyjabúum ólæs. Enn steig þessi hundraðstala og náði 30% 1863. Þá afréð prestur að spyrna við fæti. Þessari öfugþróun gat hann ekki unað lengur. En hvað var hægt að gera? Hvað skyldi hann til bragðs taka?
Heimilum bar að láta kenna börnum og unglingum lestur. Þetta skyldustarf vanræktu foreldrarnir og aðrir aðstandendur hörmulega. Einnig áttu vertíðarannirnar sök sína í því. Veturinn skyldi vera tími náms og lesturs, en varð vegna allra staðhátta mesti annatími ársins, helzti bjargræðistíminn. Lífsbarátta fólksins var hörð, óskaplega hörð, og hver sá, sem halda skyldi þar velli, svo að neyð yrði afstýrt eða skorti, þurfti á öllum sínum tíma að halda mikið lengur en myrkranna milli á vertíðum. Þar var unnið nótt með degi. Fræðsluiðkanir og kennslustörf í heimilunum var gjörsamlega látið sitja á hakanum eins og hvert annað aukaatriði eða tómstundafikt.
Við þetta háttarlag í sveitarfélaginu fékk prestur lítið ráðið. Hér skorti aðhald og hvatningu, svo að heimilisfeður gerðu eða létu gera skyldurnar gagnvart hinni uppvaxandi kynslóð um lestrarkennsluna. Aðeins eitt ráð kynni að duga. Það kostaði prestinn mikið starf, mikla aukna vinnu, mikinn tíma og mikla fyrirhöfn. En hann hafði aldrei sérhlífinn verið um sín skyldustörf, og hann ól með sér metnað gagnvart því fólki, sem honum hafði verið trúað fyrir.
Prestur tók það ráð að húsvitja hvert heimili, þar sem börn og unglingar skyldu læra lestur, þrisvar á hverjum vetri, leggja á ráð um lestrarnámið, útvega bækur, ef þær skorti, og veita alla fyrirgreiðslu. Til þess svo að glæða metnaðartilfinningu og hleypa nokkru kappi í námið, prófaði prestur lestrarkunnáttuna, þegar hann húsvitjaði heimilin, og skráði hjá sér árangur starfsins, svo að fólk sæi, og æskulýðurinn gæti sjálfur þannig fylgzt með framförum sínum. Þessir starfshættir prestsins höfðu áhrif. Árið 1886 hafði lestrarkunnátta Eyjabúa aukizt að nokkrum mun. Þá skrifaði séra Brynjólfur prófasti, séra Ásmundi Jónssyni í Odda (dags. 3. júlí 1866) og tjáði honum ráð sitt til að auka aðhald um iðkun lesturs barna og knýja heimilin til að rækja skyldur sínar sem mest og bezt í þessum efnum. Prófastur gladdist og dáði prest fyrir framtakið og fórnarlundina, áhugann og velvildina til sóknarbarna sinna. Prófastur skrifaði séra Brynjólfi 31. ágúst um sumarið:
„... ég get ekki annað, en í alla staði verið ánægður með þá aðferð, sem þér í áminnztu bréfi segizt hafa brúkað við barnauppfræðingu og er yður samdóma í því, að fleiri húsvitjanir mundu ekki ná tilgangi sínum, eins og ég ekki heldur hefi heyrt þess getið, að nú nokkurs staðar hér á landi sé tíðkanlegt að húsvitja þrisvar á ári á hverjum bæ.“
Þessi orð prófasts bera þess vitni, að hann vissi ekki til, að neinn prestur í landinu legði á sig jafnmikið starf til að auka
lestrarkunnáttu sóknarbarna sinna eins og séra Brynjólfur Jónsson.
Þessu starfi hélt prestur áfram sleitulaust, þrátt fyrir þá erfiðleika, sem atvinnulíf Eyjabúa veitti honum, þar sem saman fór lestrariðkun æskulýðsins og hábjargræðistími almennings. Þegar svo fastur barnaskóli var stofnaður í Eyjum 1880, gat prestur séð þann árangur af hinu mikla starfi sínu, að hundraðshlutar hinna ólæsu höfðu lækkað úr 30% (1863) í 21,15% (1880).
Yfirleitt hafði séra Brynjólfur þann háttinn á að ferma ekki unglinga fyrr en 15 ára gamla, og 16—18 ára aldurinn var þar ekki óalgengur. Með þessu móti fékk hann betri árangur, með því að æskulýðurinn var honum lengur handgenginn, prestur hafði lengur rétt til að skipta sér af lestrariðkunum hans.
Margir foreldrar, sem nokkur efni höfðu, komu unglingum sínum eftir ferminguna til séra Brynjólfs til framhaldsnáms. Þannig atvikaðist það, að presturinn var lærifaðir tveggja sona hjónanna á Vilborgarstöðum, Árna hreppstjóra og Guðfinnu Jónsdóttur Austmann, og með það veganesti einvörðungu urðu báðir þessir bræður kennarar við barnaskóla Vestmannaeyja, sem stofnaður var haustið 1880. (Sjá Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum í Bliki 1962).
Með lögum nr. 2, 9. jan. 1880 um „uppfræðingu barna í skrift og reikningi“ var prestum landsins lögð aukin skylda á herðar.
Séra Brynjólfur Jónsson hafði fylgzt vel með gjörðum ýmissa sveitarfélaga úti um land um stofnun og starfrækslu barnaskóla. Prestur átti sæti í sýslunefnd samkvæmt lögum frá 1872 og beitti nú áhrifum sínum þar. Fékk hann hinn danska sýslumann, M.M. Aagaard, til að fallast á það, að sýslunefndin ynni að stofnun barnaskóla í sýslunni. Víðsýnan framtaksmann eins og sýslunefndarmanninn Gísla Stefánsson bónda í Hlíðarhúsi og síðan kaupmann, þurfti ekki lengi að brýna til að fylgja skólamálinu fram og styðja allar framkvæmdir í því.
Sýslunefnd Vestmannaeyja boðaði til almenns fundar sumarið 1880. Þar var samþykkt einum rómi og með fögnuði að stofna skyldi barnaskóla í Vestmannaeyjum. Hann tók síðar til starfa um haustið (Sjá nánar um þetta starf í fyrrnefndri grein í Bliki 1962).
Séra Brynjólfi var hvarvetna beitt fyrir vagn barnaskólamálsins. Til þess að hvetja Eyjamenn til dugs og dáða um byggingu barnaskólans, hélt prestur tvo safnaðarfundi sumarið 1880. Þar hvatti hann menn óspart til þess að gefa sveitarfélaginu dagsverk við að nema grjót í bygginguna og höggva það. Til þess að ganga á undan í þessum efnum og gera meira en hvetja með orðum, hét hann sjálfur að gefa 6 dagsverk á hvern vinnufæran karlmann hjá sér eða milli 20 og 30 dagsverk til skólabyggingarinnar. Það var fjárhagsleg fórn prestsins til hennar fyrir utan allt annað starf, sem hann innti af hendi til þess að barnaskólinn yrði til og það í eigin húsnæði, áður en langt um liði. Fyrir atbeina prestsins hétu Eyjarmenn að gefa skólabyggingunni alls 600 dagsverk.
Presturinn gerði kostnaðaráætlun um byggingu hins nýja skólahúss samkv. ósk sýslunefndar. Jafnframt sótti hann um lán, kr. 1.500,00 úr landssjóði til skólabyggingarinnar og fékk það. En það voru 75% af áætluðum byggingarkostnaði.
Eftir að barnaskólahugsjóninni var hrundið í framkvæmd, var séra Brynjólfur hinn eiginlegi skólastjóri, þótt hann kenndi ekki við skólann. Stundataflan var samin í samráði við hann. Hann hafði eftirlit með kennslustarfinu fyrir hönd sýslunefndar og var ráðgjafi hennar um allan rekstur skólans og daglegt starf hans, meðan honum entist aldur. Hann var barnaskólanum allt nema daglegur kennari. Þegar prestur svo féll frá (1884), fól sýslunefnd þrem mönnum umsjón skólans í stað prestsins. Það var fyrsta skólanefndin í Vestmannaeyjum, kosin 1885.
Mjög oft notaði séra Brynjólfur sóknarfundina til þess að brýna fyrir feðrum og öðrum aðstandendum barna og unglinga að láta ekki undir höfuð leggjast að sjá þeim fyrir kennslu í lestri, skrift og reikningi. Venjulega hóf prestur það tal sitt með því að þakka hið vel gerða í fræðslumálum þessum, viðurkenna umönnun og störf þeirra foreldra, sem létu sér annt um þetta skyldustarf sitt og nytu síðan ánægju og blessunar af því, að sjá börn sín á framfarabraut í þessum efnum. Á safnaðarfundi 21. júní 1883 t.d. skýrði hann safnaðarfólki frá því, að hann hefði það vor um sumarmálin prófað 34 börn, og hefðu þau öll honum til mikillar ánægju lært eitthvað í skrift og 20 af þeim bæði skrift og reikning. Þó var því ekki að leyna, sagði prestur, að 10 börn á skólaaldri hefðu verið vanrækt gjörsamlega um þessa kennslu.
Elzta gerð Landakirkju. Svipað þessu mun Landakirkja hafa litið út fyrstu 77 árin eða til ársins 1855, er séra Brynjólfur Jónsson og Andreas A. von Kohl, sýslumaður, létu setja turn á kirkjuna og breyta henni að öðru leyti. Teiknimyndina gjörði Bjarni Jónsson, listmálari, eftir málverki af kauptúninu í Eyjum ársettu 1847.
Á síðasta safnaðarfundinum, sem prestur hélt, 11. júní 1884, gat hann glaðzt yfir því í ræðu sinni, að sú hugsjón hans væri að rætast, að Vestmannaeyingar eignuðust barnaskólahús, svo að fastara mót kæmist á rekstur barnaskólans í sókninni en verið hefði að undanförnu. Þá var unnið af kappi að skólahússbyggingunni. (Sjá 3. kafla Sögu barnafræðslunnar í Bliki 1962), og átti prestur drýgstan þátt í þeim markverðu framkvæmdum sýslunnar.
Síðasta vorið sem séra Brynjólfur Jónsson lifði, gat hann gert sér grein fyrir miklum árangri af fræðslustarfi sínu, hinum tíðu húsvitjunum og svo byggingu og rekstri barnaskólans. Það vor reyndust aðeins 12 hundraðs hlutar af Eyjabúum ólæsir, allt börn innan við 10 ára aldur. Með þessu starfi prests, óþrjótandi elju hans og fórnarlund, hafði hundraðshluti hinna ólæsu Eyjabúa lækkað úr 30% árið 1863 (26,9% árið 1873) niður í 11,9% vorið 1884. Meðal þeirra 30—40 barna, sem þreyttu próf við Barnaskóla Vestmannaeyja vorið 1883 voru tvær dætur séra Brynjólfs og frú Ragnheiðar, Sigríður á 15. ári og Ingibjörg á 12. ári. Báðar voru stúlkur þessar í hópi hinna allra beztu eða hæstu við prófið. Þær höfðu fyrst og fremst notið ágætrar kennslu föður síns að Ofanleiti.
Séra Brynjólfur kenndi um margra ára skeið, ef til vill flest starfsárin í Eyjum, unglingum í heimaskóla að Ofanleiti, eins og fyrr er að vikið. Minntust þeir jafnan síðar hinna ágætu kennarahæfileika prestsins og góðu tilsagnar.
Landakirkja í embættistíð séra Brynjólfs Jónssonar.
Kirkjusöngurinn. Presturinn.
Svo sem kunnugt er, var steinkirkja sú í Vestmannaeyjum, sem nú stendur þar, byggð á árunum 1774—1778. Hún er önnur elzta kirkja landsins næst Hólakirkju. Hún var teiknuð af dönskum húsateiknara og byggð turnlaus eins og Hólakirkja.
Eftir að Landakirkja var fullgerð og byggingarreikningar hennar gerðir upp (1780), var lítið eða ekkert að henni hlynnt um 75 ára skeið og engar breytingar á henni gjörðar. Kirkjan var því farin að láta á sjá, er séra Brynjólfur Jónsson gerðist ábyrgur kapellán í Vestmannaeyjum.
Fram á öndverða 19. öld voru dönsku selstöðukaupmennirnir í Eyjum umboðsmenn konungs varðandi Landakirkju, umsjármenn og reikningshaldarar. — Þannig var það, þar til konungsvaldið fól sýslumanni Vestmannaeyja fjárráð kirkjunnar og umsjá.
Séra Brynjólfi var það ljóst, er hann settist að í Eyjum, að kirkjan þurfti mikillar viðgerðar við. Hún fór hrörnandi ár frá ári. Hún hafði ekki verið máluð áratugum saman. Múr- eða sementshúðin var víða dottin af útveggjum. Einnig voru innveggir illa farnir. Kirkjan var öll óvistleg.
Upprunalega var þak kirkjunnar lagt spæni, svo sem algengt var á dönskum húsum. Ýmist var spónninn fokinn af þakinu eða í tætlum á því, svo að þekjan var tekin að fúna mjög og göt dottin á hana. Út um þau mátti telja stjörnurnar á heiðskírum kvöldhimni.
Þegar kirkjan var byggð, var settur gluggi samkv. teikningunni á austurstafn hennar. Um hann sótti vatn mjög inn í austan rigningum. Hann var því bráðlega tekinn af og múrsteinum hlaðið í gluggagáttina.
Þegar séra Brynjólfur kom til Eyja, hafði austurstafn kirkjunnar veðrazt svo, að múrhúðin utan á múrsteinunum í gluggagáttinni var dottin burt og þeir að falli komnir. Þar streymdi því vatn inn í kirkjuna í austanrigningum.
Árið 1853, eða árið eftir að séra Brynjólfur fluttist til Eyja, gerðist danskur lögfræðingur með herkapteinsnafnbót sýslumaður í Vestmannaeyjum. Sá hét Andreas August von Kohl. Hann hafði brennandi áhuga á siðgæðis- og menningarmálum Eyjabúa og stofnaði í þágu þeirra Herfylkingu Vestmannaeyja á árunum 1856—1857. Til þessa röggsama yfirvalds og umboðsmanns konungs var séra Brynjólfi gott að leita með þau áhugamál sín að lagfæra Landakirkju, breyta henni og endurbæta. Á það gat sýslumaður fallizt ljúfum huga. Nokkru eftir komu hans til Eyja sótti hann um leyfi yfirvaldanna til að endurbæta og lagfæra kirkjuna og fá til þess lán úr konungssjóði.
Efst á myndinni sjást grindurnar framan við „Haustmannaloftið“ í Landakirkju. Það var numið burt úr kirkjunni sumarið 1960.
Vorið 1855 höfðu þeir sýslumaður og prestur undirbúið framkvæmdirnar. Þá hófust þær. Þá hafði séra Brynjólfur verið aðstoðarprestur í sókninni 2 ár og 8 mánuði. Frá þessum miklu endurbótum á kirkjunni og breytingu segir í vísitasíu 11. júní 1860. Þar segir svo í stuttu máli:
Landakirkja var síðast lagfærð 1855. Þá var nýtt þak lagt á kirkjuna að sunnanverðu og gjört við norðurþekjuna. Eins og minnzt var á, þá var Landakirkja upphaflega turnlaus og sneitt af stöfnum. En 1855 var reistur áttstrendur turn upp af vesturstafni kirkjunnar með 4 opum, tveim trékúlum og krossi upp af.
Allir þverbitar í kirkjunni nema tveir hinir fremstu voru teknir burt. Í þeirra stað voru settir bogar úr sperrum upp í skammbita og þannig mynduð hvelfing í kirkjuna. Tvær stoðir voru reistar framarlega í kirkjunni við austari bitann. Þær náðu upp að þekju. Þær báru m.m. uppi loft í kirkjunni vestanverðri, en það var á tveim fremstu bitunum frá upphafi. Brátt hlaut það nafnið „Haustmannaloftið“, því að þar voru ekki seld sætaréttindi í kirkjunni sem annars staðar í henni, og sátu þar helzt aðkomumenn eða haustmenn, sem biðu vetrarvertíðar í Eyjum. Á lofti þessu var komið fyrir 7 bekkjum.
Elzti predikunarstóllinn í Landakirkju var listasmíð. Hann var settur myndum og gulllitaður á röndum og listum. Líklega rétt fyrir 1840 hafði hann verið tekinn úr kirkjunni og settur til geymslu sökum hrörleika en annar traustur og óbrotinn settur þar í staðinn. Frá upphafi stóð predikunarstóllinn í kórdyrum, svo sem venja var, og fagurlega gert grindverk út frá honum til beggja hliða þvert yfir kirkjuna. Við lagfæringu þessa á kirkjunni var predikunarstóllinn tekinn burt úr kórdyrum. Altarið var fært frá austurvegg, svo að þar fékkst nokkuð rúm að baki því, og síðan var smíðaður nýr predikunarstóll ofan á altarið. Skrúðhús var síðan gert undir honum að baki altarinu. Það er þar enn í dag.
Yfir predikunarstólinn var settur blár himinn, en á vegginn milli hans og stólsins var sett blámáluð tafla og á hana málað gyllt krossmark. Þessu réði umboðsmaður kirkjunnar, sýslumaðurinn, kaptein Kohl.
Hvelfingin í kirkjunni var máluð blá og gylltar stjörnur málaðar á hana.
Öll þessi lagfæring og breyting á Landakirkju var tekin út 25. nóvember 1857. Þá er kirkjan sögð ein hin prýðilegasta í öllu landinu og mjög vönduð. Þó var um eitt efazt. Ekki þótti nægilega vel gengið frá samskeytum turns og þaks. Þar skorti tök og tækni á þeim tímum. Einnig var frá upphafi illa gengið frá samskeytum þaks og veggja á kirkjunni. Þar lak og myndaðist fúi.
Þegar þessu mikla verki var lokið innan veggja kirkjunnar og svo bygging turnsins, var allt fé til þurrðar gengið, bæði framlag og lán. Þá var eftir að dytta að sjálfum útveggjunum, sem voru mjög illa farnir, eins og áður getur.
Öll þessi lagfæring kostaði mikið fé, og stóð kirkjan í 3.384 ríkisdala skuld 31. des. 1800. Sjálf kostaði hún 5.147 ríkisdali, þegar hún var byggð.
Sökum skulda þessara varð ekki meira gert að kirkjunni í bili. En sumarið 1863 voru útveggir kirkjunnar loks lagfærðir, þeir múrhúðaðir og kalkaðir. Þá hafði einnig turninn nýi verið málaður. Þá þegar hafði komið í ljós leki milli hans og þaksins. Þar myndaðist brátt fúi.
Áratuginn 1860—1870 er Landakirkja talin vera í góðu standi og stundum ágætu, eftir því hvernig prófasturinn vildi láta orða það, þegar hann vísiteraði. En séra Brynjólfi var það ljóst, að sú blessun gat aldrei staðið lengi. Tæknin var léleg, vinnubrögðin illa af hendi leyst og efnið ekki varanlegt í veðurfari Vestmannaeyja.
Í febrúar 1871 lét sýslumaðurinn fram fara skoðun á kirkjunni að beiðni sóknarprestsins. Þá komu þessar skemmdir í ljós:
1. Skarsúðin að sunnan var orðin fúin sökum leka á henni.
2. Allar hliðar turnsins meira og minna fúnar.
3. 18 borð í hvelfingunni að sunnan reyndust fúin og víða fúi í sperrum niður við veggi.
4. Biti, sem lá við austurgafl yfir altari, festur með járnhökum í gegnum steinvegginn, reyndist vatnsósa og grautfúinn. Hann var 16 álna langur.
5. 8 álnir af grindunum fyrir sunnanverðu kirkjuloftinu reyndust fúnar og ónotandi lengur.
6. Tveir gluggakarmar voru fúnir í suðurvegg kirkjunnar og einn í norðurvegg.
7. Þakklæðning víða fúin og með rifum beggja vegna.
8. Múrveggir kirkjunnar að utan mjög illa farnir. Allur kórgaflinn kalklaus með holum svo að segja milli hvers steins, en kirkjan er hlaðin úr höggnu hraungrýti og mósteini. Enn var múrhúðin fallin af múrsteininum í gluggagáttinni gömlu á austurstafninum og múrsteinarnir nærri fallnir.
9. Kalkhúðin fallin af framgafli og hliðarveggjum.
10. Kirkjuna þarf að mála hátt og lágt.
Predikunarstóllinn reyndisi illa settur yfir altarinu, svo að séra Brynjólfur var óánægður með hann þar vegna skugga eða óþægilegrar birtu neðan frá gluggunum. Prestur vildi þess vegna flytja predikunarstólinn að suðurvegg kirkjunnar, þar sem dagsbirtan reyndist þægilegri, eða á sinn upphaflega stað, þ.e. í framanverðar kórdyr. Nú vildi prestur helzt fá aftur í kirkjuna gamla predikunarstólinn, sem var tekinn úr kirkjunni 1855 og alltaf stóð niðri í Þinghúsi¹.
Þessu fékk prestur ekki ráðið.
Þegar endurbæturnar hófust í kirkjunni eftir þessa skoðun, hafði hún greitt allar skuldir sínar frá 1860 og átti í sjóði hjá fjárhaldsmanni sínum, sýslumanninum, 190 ríkisdali og 36 skildinga.
Vorið 1882 þurfti Landakirkja enn mikillar viðgerðar við. — Henni hafði enginn sómi verið sýndur síðasta áratuginn.
¹ Séra Jes A. Gíslason, f. 1872, d. 1960, mundi eftir gamla predikunarstólnum úr Landakirkju, þegar hann var unglingur, þar sem hann stóð í þinghúsinu gamla. Höfðu strákar sér það til gamans að ,,stíga í stólinn“ og létust flytja ræðu þar. Predikunarstól þessum mun hafa verið brennt á sínum tíma eins og grindverkinu úr kór kirkjunnar.
Eikarspónninn á þakinu var ýmist fokinn alveg af eða í tætlum á því, svo að „sjá má sólina á mjög mörgum stöðum í gegnum rifurnar á þakinu,“ eins og séra Brynjólfur orðar það í bréfi til prófasts 3. júlí um sumarið. Einnig voru veggir kirkjunnar illa útlítandi, sementshúðin af þeim dottin víða, sérstaklega þá á vesturgafli, og tengsli þaks og veggja ótraust orðin, svo að bráðrar viðgerðar þurfti við. Um veturinn hafði krossinn fokið af turni kirkjunnar vegna fúa.
Á safnaðarfundi 4. júní um vorið (1882) var presti falið að skrifa fjárhaldsmanni kirkjunnar og tjá honum hina miklu þörf viðgerð hennar.
Sýslumaður bar fyrir sig fjárskort. Ekkert varð gert fyrr en stjórnin hafði veitt fé til framkvæmdanna. Þar var allt klippt og skorið og svo nákvæmt, að furðu gegndi. Þegar gert var við kirkjuna, t.d. fyrir einum áratug, var verki hætt í miðjum klíðum við útveggi kirkjunnar af því að lausaféð var til þurrðar gengið. Ekki mátti svo mikið sem ljúka við að vinna úr hálfri annarri tunnu af sementi, heldur var hún látin skemmast en eytt væri einum ríkisdal til vinnulauna fram yfir það, sem stjórnarvöldin afréðu.
Í tvö ár dróst nú að gera við kirkjuna. Það var ekki fyrr en sumarið 1884 að viðgerðin fór fram. Þá hafði alþingi veitt kr. 1.100,00 til viðgerðarinnar. Þá voru útveggir kirkjunnar lagfærðir með sementi og síðan kalkaðir. Jafnframt var kirkjan „hvíttuð innan“ með kalki og allt tréverk málað. Einnig allar hurðir. Þessar framkvæmdir voru hinar síðustu, sem séra Brynjólfur fékk gjörðar við kirkjuna, því að hann var nú orðinn sjúklingur, þegar hér var komið sögu, og átti fáar vikur eftir ólifaðar. Ekki fékk hann þó krossinn endurreistan á kirkjuturninn, áður en hann andaðist. Loks 1893 var krossinn settur á turninn. Það gerði Friðrik Bjarnasen smiður, bróðir Antons verzlunarstjóra. Sá kross kostaði 25 krónur.
Þegar séra Brynjólfur hafði verið aðstoðarprestur í Eyjum 5 ár, vildi hann bæta sönginn í kirkjunni. Þá hafði sami maður, Jón Samúelsson³) að nafni, verið forsöngvari í Landakirkju undanfarin 20 ár, tekinn að reskjast og röddin að bila, engin ný sálmalög bætzt við, allur söngurinn og söngmenntin í sama mótinu áratug eftir áratug. Árið 1857 réði prestur virðulegan bónda Jóni forsöngvara til aðstoðar, Magnús Pálsson á Vilborgarstöðum.
Jafnan gætti prestur þess, að þeir menn, sem hann réði til starfa við kirkjuna og aðstoða skyldu við guðsþjónustur, væru kunnir að fágaðri framkomu og siðprýði, vandaðir menn og reglusamir, sem sóknarbörnin í heild gátu litið upp til.
Sjálfur var séra Brynjólfur söngvinn og hafði góða söngrödd. Hann átti því nokkurn þátt í að halda uppi söng við messur sínar með því að syngja sjálfur og hlífa sér hvergi. Prestur iðkaði tónlist heima á Ofanleiti, þó að í smáum stíl væri, því að orgelið var ekkert. En hann lék á harmoniku og fleiri lítil hljóðfæri og hafði heimilisfólkið oft ánægju af þeirri iðkan prestsins.
Vorið 1877 efndi prestur til almennra samskota í sókninni til þess að afla fjár til orgelkaupa í Landakirkju. Orgelið skyldi vera í sem fyllstu samræmi við stærð kirkjunnar, sem þá var talið eitt veglegasta guðshús landsins, samkv. því sem yfirvöldum landsins var tjáð. Fjársöfnun þessi nam um 30 krónum. Þá leitaði prestur styrks úr landssjóði kr. 100 til orgelkaupanna, þar sem Vestmannaeyjakirkja taldist þjóðareign. Ekki veit ég, hvort það fékkst. En víst er það, að orgel fékk Landakirkja þetta ár, þótt lítið væri og allt of lítið²
² Sigfús M. Johnsen fullyrðir í Vestmannaeyjasögu sinni, að Bryde hafi gefið kirkjunni orgelið.
³) Leiðr. Heimaslóð.
Fyrsti organleikari við Landakirkju var Sigfús Árnason bónda Einarssonar á Vilborgarstöðum, síðar tengdasonur (1882) prestshjónanna á Ofanleiti og alþingismaður Eyjamanna (1893) og póstafgreiðslumaður að Löndum í Eyjum.
Sigfús var 21 árs, er orgelið var keypt handa Landakirkju. Hann mun þá hafa verið sendur til Reykjavíkur til þess að læra orgelleik. Ekki hafði orgel þetta verið notað mörg ár í kirkjunni, er það þótti of lítið og veiktóna. Þá leigði orgelleikarinn kirkjunni sitt eigið orgel og fékk greiddar 20 krónur árlega fyrir lánið á því.
Séra Brynjólfur Jónsson þótti góður kennimaður, vandaði ræður sínar og var raunsýnn um val á efni í þær. Rétttrúnaðurinn svokallaði stóð djúpum rótum í sálarlífi hans. Hann var alvörumaður í daglegri framkomu, háttprúður og hlýr, sem vann sér traust og virðingu allra, sem honum kynntust eða höfðu eitthvað saman við hann að sælda. Gísli læknir, sonur hans, sem gaf út stutt ágrip af ævisögu föður síns á vegum Fræðafélagsins 1918, segir, að faðir sinn hafi látið eftir sig mikið predikunarsafn. Ekki efa ég það, þó að mér hafi ekki lánazt enn að finna þær fórur, sem það er geymt í.
Yfirleitt voru guðsþjónustur séra Brynjólfs vel sóttar. Árið 1882 hélt hann 59 guðsþjónustur í Landakirkju. Af þeim voru 34 guðsþjónusturnar mjög vel sóttar. Þar að auki messaði prestur 5 miðvikudaga á föstunni og var þá kirkja vel sótt. Þessar föstumessur hafði hann árlega um margra ára skeið eða flest prestsskaparár sín.
Árið 1883 urðu messudagar 60 og fjölmennt við kirkju 36 messudagana, eftir því sem trúnðarmenn safnaðarins staðfestu í skýrslu til prófasts.
Árið, sem prestur lézt, messaði hann alls 31 sinni. Kirkja var vel sótt 20 messudaga. Síðari hluta sumars þ.á. féllu niður messur svo að segja alla sunnudaga eftir trínitatis eða miðjan júnímánuð sökum veikinda prests. Í september um haustið (1884) messaði séra Halldór Þorsteinsson á Krossi í Landeyjum tvo sunnudaga og tók fermingarbörn frá vorinu með fleirum til altaris. Séra Halldór kom með opnu skipi frá Landeyjasandi, er bændur komu til Eyja í verzlunarerindum og dvaldist þar ungann úr kauptíðinni.
Árið 1860 var hafizt handa um að stofna allsherjar-prestsekknasjóð í landinu til styrktar fátækum prestsekkjum. Safnað var fé í Vestmannaeyjum sem annars staðar á landinu í sjóð þennan. Þar söfnuðust 25 ríkisdalir og 1 skildingur, þar af gaf presturinn séra Brynjólfur 8 ríkisdali.