Blik 1963/Saga séra Brynjólfs Jónssonar, V.

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1963ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Saga séra Brynjólfs Jónssonar
prests að Ofanleiti
(Fimmti hluti)


Hin styrka stoð fátæklinga
og nauðleitarfólks

Svo bauð Friðrik konungur VI. í 2. gr. reglugerðar um „Fátækra málefna lög og stjórn ... á Íslandi“, dags. 8. jan. 1834, að sóknarprestur hver skyldi stjórna fátækramálum í sókninni, og svo hreppstjórinn honum til aðstoðar. Væru þeir tveir, (eins og í Vestmannaeyjum) skyldu þeir báðir annast fátækramálin með presti.
Umhyggja séra Brynjólfs fyrir fátæklingum í Vestmannaeyjum var mikil, enda voru þeir margir, þar sem einokunarverzlunin hafði haft betri aðstöðu til hins efnahagslega kverkataks á almenningi en nokkurs staðar annars í landinu, ekki sízt sökum einangrunarinnar. Öll var þó stjórn fátækramálanna undir yfirstjórn og umsjá sýslumanns.
Fátækrasjóður gat öðlazt tekjur eftir 8 leiðum samkv. nefndri reglugerð. Ekki komu þær allar til greina í Vestmannaeyjum. Helztu tekjuliðir voru þessir:

1. Eftirlátnar reytur þurfalings, sem þá voru seldar á uppboði.
2. Fimmti hluti afla af skipi því, sem reri til fiskjar á helgum degi, hvort sem veiðarfærið var öngull eða net.
3. Framlög hreppsins til fátækrasjóðs.
4. Sektir alls konar.
5. Tíund af föstum fjármunum og lausum.

Presti bar sérstaklega að vaka yfir hlut af skipi því, sem stundaði veiðar á helgum degi, því að þar var öðrum þræði farið í bág við helgidagalög og siðvenjur, sérílagi ef róið var fyrir messutíma eða legið til veiða, meðan á guðsþjónustu stóð. Oft þurfti prestur að tilkynna sýslumanni slíkar helgidagsveiðar og leita hjálpar hans um að krefja inn aflahlutinn í fátækrasjóðinn.
Óskráðir og óreiknaðir voru þeir bitar, sem fátæklingar og þurftafólk fengu úr búi prestshjónanna á Ofanleiti. Á hverju sumri um margra ára skeið var t.d. saltaður lundi í tvær tunnur eða kagga á prestsheimilinu, og var það fuglakjöt ætlað fátæklingum, þegar þá bar að garði í bjargarbón.
Á áratugnum 1860-1870 voru mikil aflaleysisár í Eyjum, svo að til hallæris horfði, sérstaklega síðari hluta áratugsins og fram til 1873. Þetta voru þau árin, sem Bjarni E. Magnússon var þar sýslumaður. Hörmungar fólksins surfu að og komu ekki minnst við sýslumann og prest, sem bar skyldu til að sjá um að halda einhvernveginn lífinu í nauðþurftarfólki, sem enga gat björg sér veitt eða aflað sér lífsviðurværis. Ekkert gaf úr sjó eða sárlega lítið. Margir heimilisfeður fengu þau árin aðeins 50—80 fiska í aflahlut sinn á vertíðum. Sá afli var megintekjuliður þeirra og björg heimilanna.
Á sultartímum þessum og hallæris höfðu þeir prestur og sýslumaður náið samstarf sem oftar og réðu ráðum sínum í félagi.
Árið 1870 tókst sýslumanni að fá 500 ríkisdala styrk frá stjórnarvöldunum til atvinnubóta í Vestmannaeyjum til þess þannig að geta haldið lífi í nauðstöddustu fjölskyldunum. Fyrir fé þetta lét sýslumaður rækta Nýjatún. (Sjá um það á öðrum stað í ritinu).
Ekki sízt munu þessi sáru og erfiðu ár hafa valdið því, að Bjarni E. Magnússon, sýslumaður, fluttist burt úr Eyjum árið 1872, en prestur þraukaði enn um stund. Þó kom að því, að einnig hann hugðist flytja burt úr sveitarfélaginu og leita sér brauðs annars staðar. Þá hafði svo að honum sorfið neyð fólksins og bjargræðisskorturinn m.m.
Þegar Bjarni sýslumaður hafði flutzt úr sveitarfélaginu, var Þorsteinn Jónsson, héraðslæknir, settur sýslumaður þar um stund. Þá var hallæri yfirvofandi í Vestmannaeyjum. Ég læt hér til frekari áréttingar máli mínu fljóta með eitt bréf til sýslumanns frá séra Brynjólfi og hreppstjórunum tveim, fátækrastjórninni, — varðandi matvöruskortinn og efni til að afla sér fæðis og klæðis.

Bréf þetta er svohljóðandi:

„Þar fátækrastjórnin hefur fulla ástæðu til að óttast fyrir, að á næstkomandi vetri, ef ekki þegar í haust, verði mjög mikill, ef ekki algjörður matvöruskortur í verzlunarstöðunum hér á eyju, svo að jafnvel hinir efnaðri, er annars kynnu að hafa lánstraust, því síður fátæklingar, er ekkert lánstraust hafa, geti fengið það, er þeim nægir af matvöru til næsta vetrar, ef þær matvörubirgðir, sem nú eru fyrir hendi, yrðu að mestu leyti uppseldar, að mestu leyti til landmanna í kauptíðarlok, og ekki verður á næsta hausti send nein kornvara hingað til Eyjanna, finnur hún sér skylt að leiða athygli yðar svo sem setzt sýslumanns að því, hvílíkt vandræðaástand liggi hér fyrir dyrum, ef ekki verður í tíma gerð nein ráðstöfun til þess, að á næstkomandi hausti verði hér fyrirliggjandi nokkurn veginn nægilegar kornbirgðir, ekki einungis handa Eyjabúum sjálfum, heldur og handa þeim 2—3 hundruðum landmanna, er hingað eru vanir að koma út til fiskveiða. Verði hér ekki nægileg matvara fyrir sjálfa Eyjabúa, eru þess lítil líkindi, að sjómenn sæki hingað út af landi, hvorki til þess að halda hér út eigin skipum, né til þess að róa á vegum skipaeigenda hér á eyju. Liggir þá í augum uppi, hvílíkt tjón að sé búið, ekki aðeins sjálfum fiskveiðunum og þar með almennings bjargræði, heldur einnig verzlun kaupmanna, er stendur í nánu sambandi við fiskveiðarnar.
Skyldi hér og ennfremur vera skortur á færum, sjóskóleðri og öðru, er ómissanlegt er til skipaútgerðar (sem brýn nauðsyn ber til að rannsakað sé nú þegar), þá er það hið annað vandkvæði, sem fátækrastjórnin verður að leiða athygli yðar að, með því að vöntun þeirra hluta, er heyra til skipaútgerðar og fiskveiða, auðsjáanlega hlýtur að leiða til hinna mestu vandræða, gjöra mönnum ómögulegt að leita sér bjargar, þó byðist, eða borga þær miklu skuldir, er þeir standa í bæði við kaupmenn hér og umboðsmann hins konunglega jarðagóz.
Með tilliti til ofanskráðs leyfir fátækrastjórnin sér því hér með fastlega að skora á hinn setta sýslumann, að yður mætti þóknast að gjöra það, er í yðar valdi stendur til þess að á næstkomandi vetri verði hér nægar birgðir kornvöru og þeirra hluta, sem að öðru leyti eru ómissanlegir til þess, að fiskveiðum tálmunarlaust verði fram haldið.

Fátækrastjórn Vestmannaeyja 8. júlí 1872
Virðingarfyllst
Br. Jónsson
Þ. Jónsson -- L. Jónsson
Velbornum
Herra héraðslækni Þ. Jónssyni, um tíma settum sýslumanni í Vestmannaeyjum.“

Bréfið vitnar um fyrirhyggju prestsins og vakandi hug um skyldustörfin. Hreppstjórarnir eru þeir Þorsteinn Jónsson, bóndi í Nýjabæ, og Lárus Jónsson, bóndi á Búastöðum.


Séra Brynjólfur og mormónarnir.

Fyrir miðja 19. öldina fóru tveir ungir menn, ættaðir úr Rangárvallasýslu, til Kaupmannahafnar til þess að læra þar iðn. Annar þeirra var búsettur í Vestmannaeyjum. Sá hét Þórarinn Hafliðason (Sjá kafla um hann í Bliki 1960). Þórarinn lagði stund á trésmíðanám. Í höfuðborginni kynntist hann sérstökum trúflokki, sem fest hafði rætur í Danmörku. Það voru mormónarnir. Hinn Íslendingurinn, sem hér kemur við sögu, hét Guðmundur Guðmundsson og hafði um árabil stundað gullsmíðar í Höfn, fyrst nemandi og síðan sveinn í iðninni. Einnig hann tók mormónatrú í Höfn.
Báðir þessir menn komu heim til ættlandisins upp úr miðri öldinni og settust að í Vestmannaeyjum, Þórarinn í Sjólyst, en Guðmundur í Þórlaugargerði. Eftir komu sína til Eyja tóku þessir menn að boða mormónatrú þar, svo að fara fór um sóknarprestinn séra Jón Austmann, sem hafði þá í alla staði erfiða aðstöðu til að vernda söfnuð sinn fyrir vágesti þessum, svo heilsulaus sem hann var orðinn, þungfær, sjóndapur og ellihrumur. En sýslumaður og nokkrir mektarbændur í Eyjum stóðu fast í ístaðinu með presti, hvattir til öflugrar andstöðu í bréfum frá prófastinum í Odda og stiptyfirvöldunum, þótt þeim væri vandi á höndum, þar sem trúarbragðafrelsi var viðurkennt í landinu. Til styrktar allri þessari mormónaandstöðu sendu svo stiptyfirvöldin séra Jóni Austmann aðstoðarprestinn séra Brynjólf Jónsson, þá nývígðan að Reynisstaðarklaustri í Skagafirði.
Sama ár sem séra Brynjólfur fluttist til Eyja, drukknaði Þórarinn Hafliðason mormóni, sem fyrstur Íslendinga hafði fengið einskonar veitingarbréf til að vera mormónaprestur á Íslandi, boða trúna, skíra, taka fólk til altaris og boða fyrirgefningu syndanna í Jesúnafni öllum þeim, sem játuðust mormónskri trú og létu skírast.
Eftir að Þórarinn Hafliðason drukknaði og séra Brynjólfur settist að í sókninni, hafði Guðmundur Guðmundsson mormóni sig lítt í frammi um trúboðið, en hann mun þó hafa haft samkomur á laun. Öðru hvoru bárust presti fréttir af sóknarbörnum sínum, sem setið höfðu samkomur hans. Þá fór um prest. Ekki var vitað til fulls, hversu marga mormónar gátu sannfært. Víst er um það, að einhver gáfaðasti bóndinn í Eyjum, og mikils virtur þegn, Loftur Jónsson, bóndi í Þórlaugargerði, lét skírast til mormónatrúar sumarið 1851, um það bil sem Eyjamenn kusu hann sem fulltrúa sinn á Þjóðfundinn. Það leiddi til þess, að Loftur sat aldrei fund þann. Þessi trúarsannfæring og umbreyting Lofts Jónssonar dró nokkurn dilk á eftir sér um útbreiðslu mormónatrúar í Vestmannaeyjum, því að Loftur var áhrifaríkur persónuleiki, sem naut trausts margra Eyjabúa. Þess vegna óttaðist prestur veðrabrigði hans í trúarlegum efnum og kenningar.
Árið 1855 voru þessir mormónar mest áberandi í Eyjum: Loftur Jónsson bóndi í Þórlaugargerði og kona hans Guðrún Hallsdóttir¹) og sonur hennar en stjúpsonur Lofts Jón Jónsson. Í mormónasöfnuðinum voru einnig áberandi hjónin Magnús Bjarnason og Þuríður Magnúsdóttir.
Kaptein Kohl var þá sýslumaður í Eyjum, stjórnsamt og afgerandi yfirvald, sem stóð fast gegn mormónum með presti, og þeir óttuðust.
Prestur hafði jafnan náið samband við prófastinn í Odda um gjörðir sínar allar gegn mormónum, eftir því sem þeir gátu komið bréfum á milli sín, en samgöngur lágu gjörsamlega niðri milli lands og Eyja 2—4 mánuði ársins a.m.k. Prófastur hvatti til öflugrar andstöðu gegn mormónum í bréfum sínum.

Úr bréfi prófasts dags. 2. sept. 1857 til séra Brynjólfs:

„... að þér í sameiningu með herra sýslumanni og öllum góðum mönnum í yðar sókn eins hér eftir sem hingað til gjörið það þér getið til að útrýma þessari óskiljanlegu trúarvillu, ef hún ekki þegar er alveg útdauð, og ef mögulegt er alveg að útrýma henni. Þykist ég viss um, eins og hér með innilega vil áminna yður um að þreytast ekki í þessu efni að fylgja því fast fram, sem embættisskylda yðar býður og lög ítrast leyfa...“

Mormónarnir höfðu þann sið á árunum 1855—1857, meðan Loftur var foringi þeirra í Eyjum og lærifaðir, að ganga fylktu liði í Landakirkju eftir samkomur þeirra í Þórlaugargerði hjá Lofti bónda. Þegar séra Brynjólfur fór að þreytast á þessari storkun þeirra, tók hann þá oft „til bæna“ í stólræðum sínum og hellti stundum yfir „villutrúarhreyfinguna“ ókvæðisorðum, þó að honum væru þau ekki töm, svo háttprúður maður og orðvar sem hann var í daglegu lífi. En svo má brýna deigt járn að bíti, stendur þar.
Loks hættu mormónarnir að storka presti og sækja til hans kirkju. Þeir afréðu síðan að flytja burt úr Eyjum og fara alla leið til Utah í Ameríku. Það gerðu frammámenn þeirra sumarið 1857. Þessa brottför þeirra tilkynnti prestur prófasti í bréfi í september það haust. Þá var sem þungu fargi væri af honum létt. Prestur var líka sigurglaður í bréfi sínu til prófasts:

„... Að endingu vil ég fullvissa yður um, að svo framt þessi oftnefnda mormónavilla, eða hver helzt önnur, vill ryðja sér til rúms, meðan mér auðnast að vera hér, þá skal það vera mér hugleikið að sporna við öllu því, sem verða mætti til þess að trufla menn í þeirra trúarefnum. Að undanförnu hefur verið mitt mesta áhyggjuefni, hvernig ég mætti stemma stigu fyrir, að þessir úlfar í sauðaklæðum yrðu hjörðinni að tjóni...“

Svo liðu 16 ár.
Í júlímánuði 1873 bar gesti að garði í Vestmannaeyjum. Þar var kominn Loftur Jónsson, fyrrum bóndi og smiður í Þórlaugargerði, og Magnús Bjarnason, mormóni, sem fyrr getur. Þeir bjuggust til að dveljast um tíma í Eyjum að þessu sinni. Loftur fékk inni í Stakkagerði hjá hjónunum Árna Diðrikssyni og Ásdísi Jónsdóttur, en Árni var bróðir hins kunna mormóna Þórðar Diðrikssonar, rithöfundar, og hefur Loftur Jónsson ef til vill notið þess í Eyjum að þessu sinni. Magnús Bjarnason fékk leigt húsnæði að Löndum.
Nokkru eftir komu þessara gesta til Eyja, kom berlega í ljós, að þeir voru sendir frá Utah til þess að boða mönnum mormónska trú, þó að þeir í fyrstu vildu trauðlega við það kannast, eins og séra Brynjólfur orðar það í bréfi til sýslumanns dags. 25. okt. 1873.
Þessir trúboðar mormóna höguðu nú útbreiðslustarfi sínu nokkuð á aðra lund en áður fyrr. Þeir gáfu fólki mormónarit, er þeir höfðu með sér í allstórum upplögum. Síðan vöndu þeir komur sínar inn á heimili manna, sérstaklega þar sem þeir hugðu lítillar andstöðu von. Engar opinberar samkomur héldu þeir í byggðarlaginu.
Frá Eyjum fóru þeir síðan trúboðsferðir til meginlandsins, Suðurlandsundirlendisins, og boðuðu þar trú sína á sama hátt. Þannig var það t.d. í október 1873.
Með bréfi dags. 25. okt. það haust til Aagaards sýslumanns óskar séra Brynjólfur þess, að sýslumaður geri allt, sem í hans valdi standi til að aftra því, að trúboðum mormóna líðist, „að ganga inn á heimili manna og trufla fólk í trúarlegum efnum.“ Til áherzlu og réttlætingar á þessari ósk sinni til sýslumanns vitnar prestur í bréf dómsmálastjórnarinnar til stiptamtmanns, dags. 29. júní 1864 og 30. ágúst 1865, þar sem prestur kveðst leggja þann skilning í orðin, að engum hér á landi „sé leyfilegt að gjöra tilraunir til að draga þá, sem eru landsins trúar, yfir á sína trú,“ eins og prestur orðar það, „enda þótt hverjum einum sé hér frjálst að rækja trú sína án allrar hindrunar.“
Trúboðum mormóna mun hafa orðið tiltölulega mikið ágengt í Eyjum að þessu sinni presti til sárrar gremju. Þó nokkrir Eyjamenn tóku mormónatrú og bjuggust síðan til Ameríkuferðar. Það var veturinn 1872-1873. Sumar heimildir telja, að allt að 60 manns, flest ungt fólk, hafi þá látið skrá sig til Ameríkuferðar. Ekki voru þeir þó nærri allir frá Vestmannaeyjum. Flestir þeirra höfðu tekið mormónatrú fyrir atbeina Lofts Jónssonar og Magnúsar Bjarnasonar, enda þótt séra Brynjólfur og Aagaard sýslumaður vilji ekki gera mikið úr áhrifum þeirra í bréfum sínum til yfirvaldanna.
Úr þessari Ameríkuför varð þó aldrei það árið sökum þess, að farkosturinn kom ekki til landsins. Hver ástæðan var, er mér ekki kunnugt. En trúboð Lofts Jónssonar og félaga dró dilk á eftir sér fyrir marga, þó að kunnust sé giftingarsaga Magnúsar Kristjánssonar. Hann varð heitbundinn Þuríði Sigurðardóttur, vinnukonu á Oddsstöðum, eftir að hann hafði tekið mormónatrú. Þuríður var einnig mormónatrúar. Loftur Jónsson gifti þessa elskendur mormónskri giftingu. Það vissi prestur, að var ekki lögum samkvæmt. Hann kærði því yfir „hneykslanlegri sambúð“ Magnúsar og Þuríðar, sem bjuggu saman og samrekkjuðu í krafti hins mormónska hjónabands. Sýslumaður sendi síðan kæruna Bergi Thorberg amtmanni. Og amtmaður lét ekki lengi standa á „aðvörun“ sinni, sem hreppstjórarnir voru látnir birta hjónaleysunum. Hún var svohljóðandi:
„Bergur Thorberg amtmaður í Suður- og Vesturamtinu kunngerir: að sýslumaðurinn í Vestmannaeyjasýslu hefur tilkynnt amtinu eftir skýrslu hlutaðeigandi sóknarprests, að húsmaður Magnús Kristjánsson og Þuríður Sigurðardóttir, sem ekki eru löglega gift, búi saman í hneykslanlegri sambúð, þá aðvarast hér með og áminnast ofangreindar persónur að slíta sambúð sinni innan viku frá birtingu þessa úrskurðar og mega síðan ekki vera til heimils á sama bæ. Ef þau þrátt fyrir þessa aðvörun amtsins slíta ekki sambúð sinni, mega þau búast við opinberri kæru til straffs eftir 90. gr. hinna íslenzku hegningarlaga.“
Eftir að hreppstjórarnir höfðu birt Magnúsi „aðvörunina“, tók hann að hugsa mál sitt. Við Þuríði vildi hann ekki skilja, hvað sem það kostaði. Sá hann ekki annað ráð vænna, en að láta bæta lútherskri giftingu ofan á hina mormónsku. Hann fékk sér því svaramenn, Gísla kaupm. Engilbertsson og Þorstein lækni Jónsson. Síðan arkaði hann á fund séra Brynjólfs og beiddist hjónavígslunnar. Prestur svaraði því til, að hann brysti heimild til að gifta persónur, sem væru ekki lútherskrar trúar. Svo fór um sjóferð þá. Þannig skyldi knýja Magnús til að kasta trúnni eða missa Þuríði ella.
Nú voru góð ráð dýr. Með brögðum fékk Magnús Kristjánsson nú leikið á hreppsnefnd og prest með vitund og hjálpsemi Þorsteins læknis, sem var hreppsnefndaroddviti og fann til með Magnúsi og Þuríði. Oddviti boðaði hreppsnefndarfund í Þinghúsinu. Þar samþykkti nefndin einum rómi áskorun til prests að gifta þau Magnús og Þuríði þegar í stað, „ella verði hann að bera afleiðingarnar, því að Þuríður missi vitið, verði hún skilin frá Magnúsi. Það sé þegar farið að sýna sig,“ stóð þar. Þuríður var sem sé látin leika vitskerta konu, sem líkleg yrði til þess að verða tvöfaldur ómagi á fátækrasjóði hjá presti, ef hann léti ekki undan og pússaði þau saman, skötuhjúin.
Með ráðum og dáð Þorsteins læknis fengu þau sambúðarleyfi yfirvaldsins og prests fyrst um sinn.
Grunur leikur á, að Þorsteinn læknir hafi bent Magnúsi á þá staðreynd, að skv. 7. gr. stjórnarskrárinnar skyldi enginn missa neins af borgaralegum réttindum sakir trúar sinnar. Samkvæmt þessu ákvæði skrifaði svo Magnús landshöfðingja bréf og bað hann að gera ráðstöfun til þess, að sóknarpresti Vestmannaeyja yrði boðið og uppálagt að gifta þau Magnús og Þuríði. Þetta bréf var skrifað í desember 1874. Lítill vafi leikur á því, að Þorsteinn læknir stílaði bréfið, því að skriflegar beiðnir aðrar varðandi réttindi Magnúsar og Þuríðar hefi ég í höndum með rithönd læknisins.
Landshöfðingi hugleiddi þetta mál, sem honum fannst ekki litlum vanda bundið. Hann viðurkenndi, að presturinn í Eyjum hefði á réttu að standa. Honum bar ekki skylda til að gifta hjón, sem játuðu aðra trú en hina lúthersku. Hinsvegar mælti stjórnarskráin svo fyrir, að enginn skyldi líða í landinu fyrir trú sína. Hvernig varð því fullnægt, þegar svo stóð á sem hér? Hér var „gat“ í lögum landsins.
Með bréfi dagsettu 5. maí 1875 skaut landshöfðingi þessu vandamáli til yfirmanns síns, ráðherrans í Kaupmannahöfn. Eftir mikla yfirvegun gekk síðan ráðherrann á konungsfund til þess að benda honum á þetta mikla „gat“ í lögum og rétti landsmanna eða þá hitt, að hér ræki sig hvert á annars horn. Konungur fann þegar tappa í lagagatið: Þegar annað hvort hjónaefnanna eða bæði játuðu aðra trú en hina lúthersku, skyldi sýslumaður gefa þau saman. Síðan gaf konungur úrskurð samkv. þessari ákvörðun 25. okt. 1875. Í desember um haustið skipaði síðan landshöfðingi sýslumanni Vestmannaeyja að gifta þau Magnús og Þuríði samkv. konungsúrskurðinum. Var síðan konungsúrskurðurinn birtur hjónaefnunum, sem fögnuðu honum hjartanlega, eins og nærri má geta. Magnús gaf sér nú góðan tíma til að kynna sér hann rækilega og allar reglur lútandi að þessari fyrstu borgaralegu hjónabandsathöfn á Íslandi.
Loks 3. marz 1876 skrifar Þorsteinn læknir fyrir Magnús Kristjánsson beiðni til Aagaards sýslum. um hjónavígsluna.
Beiðnin er svohljóðandi:

Ég undirskrifaður Magnús Kristjánsson leyfi mér hér með að mælast til þess, mín og ekkjunnar Þuríðar Sigurðardóttur vegna, að þér, herra sýslumaður, vilduð gefa okkur saman í hjónaband sem fyrst samkvæmt konungsúrskurði 25. október 1875, og bið yður að tiltaka þann tíma og þann stað, hvar það á að fara fram.

Vestmannaeyjum, 3. marz 1876
Magnús Kristjánsson.“

Magnús skrifaði undir beiðni þessa eigin hendi en sjálf er hún skrifuð með rithönd læknisins.


Þinghúsið í Vestmannaeyjum 1857—1904.
Þetta þinghús sýslunnar lét kaptein von Kohl, sýslumaður, byggja á árunum 1856—1857. Við austurenda þess var fangageymsla og fangagarður, sem sést á myndinni. Í Þinghúsinu hafði Herfylking Vestmannaeyja bækistöð sína. (Sjá einnig 2. kafla í Sögu barnafrœðslunnar í Bliki 1960).
Þetta þinghús var rifið til grunna 1904 og á stæði þess byggt þinghús og barnaskóli undir einu þaki (sjá bls. 126).
Engilbert Gíslason gerði myndina.
Sýslumaður afréð síðan brúðkaupsdaginn, stað og stund. Skyldi vígslan fara fram í þinghúsi sveitarfélagsins (sjá bls. 66) kl. 12 á hádegi, 30. marz. Eftir stuttan tíma vissu þetta allir Eyjabúar. Forvitni þeirra vaknaði. Allir vildu geta komizt fyrir í þinghúsinu til þess að geta séð þessa einstæðu athöfn, sem sprottið hafði af andstöðu prestsins og þjóðkirkjunnar gegn „annarlegum“ trúarskoðunum og trúarjátningum. Á tilsettum tíma fylltist þinghúsið af forvitnum áhorfendum og annar eins hópur varð að gera sér að góðu að standa utan dyra, meðan athöfnin fór fram. Séra Brynjólfur stóð þögull og þungbúinn á útidyraþröskuldi þinghússins, meðan sýslumaður gaf brúðhjónin saman. Presti munu hafa fallið þungt þessi málalok.
Að athöfninni lokinni minnti sýslumaður prest á það, að honum bæri að geta athafnarinnar í kirkjubókinni.
Nú ber heimildum illa saman um hina trúarlegu framtíð þeira hjóna Magnúsar og Þuríðar.
Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi, sem átti tal við Magnús Kristjánsson um aldamótin síðustu og er heimildarmaður að frásögninni um hjónavígsluna, fullyrðir eftir Magnúsi, að þau hjón hafi ávallt haldið fast við mormónatrú sína og haft helgisiðaathafnir sínar og -æfingar í kyrrþey, enda var enginn söfnuðurinn til að starfa í. Samt greiddi Magnús skyldugjöld sín til þjóðkirkjunnar tregðulaust.
Í bréfi séra Brynjólfs til prófastsins í Odda dags. 4. jan. 1877, eða tæpum tveim árum áður en hjónin Magnús og Þuríður fluttu burt úr Eyjum, segir prestur orðrétt: Hjónin Magnús Kristjánsson og Þuríður Sigurðardóttir, er skömmu áður höfðu verið gefin saman í borgaralegt hjónaband, og hjónin Runólfur Runólfsson og Valgerður Níelsdóttir, hafa yfirgefið mormónafélag og eftir ósk sinni opinberlega verið tekin inn í vort evangelisk-lútherska kirkjufélag.“ Í sama bréfi fullyrðir prestur, að 11 persónur í Vestmannaeyjum játi þá mormónska trú og eigi nokkur ungbörn, sem „hættan vofi yfir.“
Einn af þeim Eyjabúum, sem hafði náið samneyti við Loft mormóna Jónsson árið 1873 og grunaður var um mormónsku, var Guðmundur Ögmundsson í Borg eða Stakkagerði vestra (afi Litlabæjar bræðra). Hann bjó með Margréti ekkju Halldórsdóttur. Þau voru ekki gift. Þau áttu börn saman. Þessi hjú kærði séra Brynjólfur fyrir „hneykslanlega sambúð.“ Amtmaðurinn yfir Suður- og Vesturumdæmi Íslands lét mál þetta til sín taka og skrifaði sýslumanni Vestmannaeyja bréf dags. 24. nóv. 1873, þar sem hann skipar sýslumanni að áminna nefndar persónur um að slíta ,,hinum hneykslanlegu samvistum og skilja innan fjögurra vikna frá því að þessi áminning amtsins hefur þeim birt verið.“ Það er athyglisvert, að Guðmundur Ögmundsson fær þó fjögurra vikna frest til að skilja við Margréti en frestur Magnúsar Kristjánssonar —var aðeins ein vika.
Ef til vill hefur þetta valdboð amtmannsins verið lengi til Eyja. Ef til vill hefur líka sýslumanni fundizt nóg um afskiptasemina. Víst er það, að Guðmundur fékk að sofa óáreittur hjá Margréti sinni fram á vor 1874, því að hreppstjórarnir birtu honum ekki áminningu eða valdboð amtmanns fyrr en 7. apríl um vorið (1874). Þá hafði hann mánuð til stefnu. Endirinn varð sá, að þau gengu í heilagt hjónaband, og þá vígslu framkvæmdi séra Brynjólfur mótþróalaust, enda höfðu þau hvorugt játazt opinberlega mormónskri trú.
Hinum mikla ama séra Brynjólfs Jónssonar af trúboði og hvarf sóknarbarna hans frá Lútherstrú að „mormónskri villukenningu,“ eins og hann orðaði það, var síður en svo lokið við brottför trúboðanna Lofts Jónssonar og Magnúsar Bjarnasonar af landinu í maílok 1874.
Hin nýja stjórnarskrá 1874 kvað svo á (47. gr.), að landsmenn skyldu eiga rétt á að stofna félög til þess að þjóna guði með þeim hætti, er bezt eigi við sannfæringu hvers og eins, en megi þó eigi kenna eða fremja neitt, sem er gagnstætt góðu siðgæði og allsherjar reglu. Enginn skyldi tapa neinu í borgaralegum eða þjóðlegum réttindum fyrir trúarskoðanir sínar. Eftir að stjórnarskráin nýja var kunn almenningi, færðust mormónar í Vestmannaeyjum í aukana. Nú tóku þeir að halda opinberar samkomur með predikunum og söng. Áður en Loftur og Magnús hurfu af landinu, höfðu þeir skírt 4 Eyjabúa, sem voru því vaxnir að halda uppi safnaðarstarfinu. Það voru þeir Jón Bjarnason, bróðursonur Magnúsar trúboða, Runólfur Runólfsson, húsmaður, Einar gullsmiður Eiríksson og Magnús Jónsson húsmaður frá Lambalæk í Fljótshlíð. Það var á vitorði almennings, að Magnús trúboði átti tvær konur í Ameríku. Önnur var tengdamóðir Sveins Þórðarsonar beykis frá Löndum. Báðar höfðu konurnar flutzt með Magnúsi Bjarnasyni til Utah fyrr á árum.
Þessir menn, sem tóku við hinu mormónska trúboði af Lofti og Magnúsi, sannfærðu ýmsa um ágæti trúar sinnar, svo að vanlíðan prests fór vaxandi. „Ég veit satt að segja ekki, hvar þetta ætlar staðar að nema,“ segir prestur. „Vesturfararhugurinn ærir svo marga. Það mun aðalorsökin til þess, að fólk lætur engu viti fyrir sig koma gagnvart villukenningum mormóna. Margir Íslendingar ímynda sér, að Ameríka sé „Gósen“.“
Prestur skrifaði prófasti og leitaði ráða. Prófastur sendi biskupi erindi prests og harmakvein. Biskup fór gætilega í sakirnar, m.a. vegna ákvæða stjórnarskrárinnar. Hann taldi engin tilefni til að gera neinar sérlegar ráðstafanir gegn mormónum, sem engin stjórnarskrárbrot yrðu sönnuð á.
Sveinn Þórðarson beykir eignaðist barn með konu sinni. Hún var einnig mormóni. Sveinn skírði barnið sjálfur. Þetta frétti séra Brynjólfur og skrifaði Sveini beyki um lagabrot þetta, því að prestleg embættisverk höfðu mormónar ekki leyfi til að fremja. Sveinn Þórðarson svaraði presti hortugt:

„... Hvað skírn snertir, þá stendur mér á sama, hvort þér skírið barnið eða ekki, en ef þér hafið beinlínis skikkan til þess, þá eruð þér sjálfráður.“
Þetta atvik kærði prestur fyrir prófasti. Og hann svaraði: „Ef þetta tilfelli kemur fyrir (þ.e. mormónar vanrækja að láta prestinn skíra börn sín), væri bezt að setja foreldrunum vissan frest, innan hvers þeir létu skíra barnið, og ef þeir óhlýðnuðust, að klaga þá fyrir sýslumanni og uppástanda fjársekt fyrir hvern dag, sem þeir óhlýðnuðust.“
Smámsaman fjöruðu áhrif mormónanna út í Eyjum, svo að presti varð léttara.
En sagan endurtekur sig, stendur þar.
Sumarið 1880 kom enn til Eyja trúboði frá mormónum. Hann hafði með sér mormónarit í stóru upplagi og gaf það á heimilin. Hann dvaldist í Eyjum við „iðju sína“ um 8 vikna skeið presti til sárrar hugarkvalar. Þessi trúboði mormóna hét Jón Eyvindsson. Hann fór til landsins til trúboðsstarfa síðari hluta júnímánaðar. Þá hafði honum tekizt að snúa tveim kvenmönnum í Eyjum til mormónskrar trúar og skírt þær.
Þegar Jón Eyvindsson var horfinn úr Eyjum, skrifaði prestur prófasti og sagði honum frá Eyjadvöl þessa „Mormóna-villubróður,“ eins og hann kallaði hann, og bað prófast að „stemma stigu við því, að Jón Eyvindsson fái far til Eyja aftur á komandi hausti.“ ...„Mundi það ekki á valdi prófasts að banna öllum formönnum í Rangárvallasýslu að flytja þennan Jón hingað út, þar sem hann er sjálfsagður að beita sínum villuboðunartilraunum og ekki fortakandi, að honum kunni eitthvað ágengt að verða.“ Ekkert sannar betur tilfinningar prests gagnvart mormónatrúboðinu en þessi skrif hans til yfirboðara sinna.
Og enn endurtók sagan sig.
Haustið 1882 kom til Vestmannaeyja mormónatrúboðinn Gísli Einarsson. Hann fór ekkert leynt með trúboð sitt. Ef til vill af þeim sökum, hversu geist hann fór í boðun „hins hreina Evangelium,“ eins og hann nefndi það, þá varð honum lítið ágengt, minna en nokkrum öðrum mormónskum trúboða, sem til Eyja hafði komið fyrr. Bar ýmislegt fleira til þess. Séra Brynjólfur beitti þegar harðri andstöðu gegn trúboði Gísla Einarssonar og var nú harðari í horn að taka en nokkru sinni fyrr gagnvart mormónum, enda hafði prófasturinn, séra Ásmundur Jónson í Odda, brýnt hann áður duglega og sagt honum þá sannfæringu sína, að honum fyndist prestur of gæfur og athafnalítill gagnvart trúboði mormóna. Prestur hafði til þessa gert meira af því að kæra þá fyrir sýslumanni og prófasti en ganga til trúarlegrar atlögu við þá og opinberrar baráttu, enda ætíð hinn mesti friðsemdarmaður, sem óskaði einskis fremur en sáttar og samlyndis.
Gagnvart Gísla trúboða Einarssyni skyldi nú reyna aðrar leiðir.
Á jólaföstu 1882 festi prestur upp á opinberum stað alllangan kafla þýddan úr bók, sem rituð hafði verið gegn mormónum, og gafst þannig öllum, sem vildu, kostur á að lesa hann. Þetta framtak prests varð Gísla mormónatrúboða hrösunarhella, því að hann brást reiður við. Hann festi upp á sama opinbera staðnum harðorð mótmæli gegn hinum þýdda bókarkafla prestsins og lýsti þar m.a. yfir því, að þýðandinn væri „lygari og lyginnar höfundur,“ eins og hann orðaði það. Jafnframt tilkynnti Gísli trúboði, að hann myndi birta meira í sama dúr, ef hið uppfesta blað prestsins yrði ekki þegar látið hverfa.
Í stað þess að láta skelfast við þessar hótanir, festi prestur upp annað blað með öðrum kafla þýddum úr sömu bók. Þá var sem „botninn“ dytti gjörsamlega úr trúboðanum. Hann fann nú andstöðuna gegn kenningu sinni magnast dag frá degi í prestakallinu, ekki sízt eftir árásina á prestinn, þýðanda kaflanna, sem var svo ástsæll þá og mikils virtur af Eyjamönnum, að þess munu fá dæmi um embættismann. Var það ekki minnst að þakka bindindisstarfi séra Brynjólfs og þeirri blessun, sem það hafði leitt af sér inn á fjölda heimila í sókninni. Með árunum höfðu Eyjamenn lært að meta það að verðleikum. Jafnvel áfengisneytendurnir sjálfir og þrælar nautnarinnar viðurkenndu þetta starf sóknarprestsins.
Í reyndinni varð Gísla Einarssyni ekki meira ágengt í Eyjum en það, að hann endurskírði þrjár „kvensur“ ógiftar, og höfðu tvær af þeim „saurgað sinn mormónska kyrtil með barneign,“ eins og það er orðað í gildri heimild. Hin fjórða var ekki skírð áður mormónskri skírn. Þrjár konur í Eyjum höfðu verið yfirlýstar mormónatrúar frá því Loftur Jónsson boðaði trúna 1873. Þær ásamt hinum 4 voru meginsöfnuður Gísla Einarssonar, meðan hann dvaldist í sókninni. Þó hélt hann opinberar samkomur næstum hvern sunnudag allt haustið 1882 og lengur þó.
¹) Leiðr. Heimaslóð.

VI. hluti

Til baka