Blik 1962/Kapítóla Jónsdóttir, minning

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1962



ctr

Nokkur minningarorð



Kapítóla Jónsdóttir.

Hinn 4. júlí f.á. andaðist að heimili sínu Sólhlíð 6 hér í bæ Þuríður Kapítóla Jónsdóttir eftir stutta sjúkdómslegu. Í daglegri önn og samskiptum nefndu Eyjabúar hana gælunafninu Kap.
Hún var fædd í Dalbæ í Eyjum 16. nóvember 1905. Foreldrar hennar voru hjónin Jón útgerðarmaður og bóndi í Hlíð hér við Skólaveg (fæddur að Borgarhóli í Landeyjum) og Þórunn Snorradóttir frá Svaðbæli undir Austur-Eyjafjöllum.
Kapítóla Jónsdóttir var elzt hinna 7 Hlíðarsystkina í Eyjum, sem öll urðu gerðarfólk og mennilegt.
Foreldrar Kapítólu ráku um langt skeið hér í Eyjum útgerð og búskap af miklum dugnaði og atorku. Sá atvinnurekstur krefst mikils vinnuafls, sem var að miklu leyti fengið að og framfært að mestu leyti heima á heimilinu, eins og þá var tíðast gert hér í bæ. Hlíðarheimilið var því jafnan mannmargt flesta tíma ársins og mikið aðhafzt þar.
Börnin í Hlíð voru snemma látin leggja barns- og unglingshendina á plóginn og inna af hendi eitthvert gagn, eftir því sem hentast þótti aldri þeirra hvers um sig og orkan leyfði. Að sjálfsögðu var Kapítóla, elzta barn hjónanna, þar fremst í flokki, enda fannst mér hún bera þess merki frá fyrstu tíð, er ég kynntist henni, að vinnan „settu á manninn mark, meitluðu svip og stældu kjark,“ eins og þar segir. Vinnuhugurinn, eljan og atorkan voru ríkar eigindir í skapgerð og sálarlífi Kapítólu Jónsdóttur. Það leit helzt út fyrir, að hún ynni sér aldrei hvíldar. Og öll hennar störf voru innt af hendi af frábærri samvizkusemi og alúð, ósérhlífni og skyldurækni. Um þetta get ég borið persónulega, þar sem hún var starfsmaður Gagnfræðaskólans í 9 ár, ræsti hann daglega, meðan starfað var hvert ár. Það starf innti hún af hendi af frábærum mannkostum og trúmennsku.
Árið 1927, 17. des., giftist Kapítóla Jónsdóttir Jóni Þorleifssyni, bifreiðarstjóra.
Fyrstu átján hjúskaparárin bjuggu þau hjón að Uppsölum eða Faxastíg 7 hér í bæ, voru leigjendur hjónanna þar, Finns Sigmundssonar og Þórunnar Einarsdóttur.
Árið 1945 byggðu þau hjón Kapítóla og Jón, sér íbúð að Sólhlíð 6.
Þeim hjónum varð ekki barna auðið, en árið 1930 tóku þau til fósturs eitt af börnum hjónanna Guðmundar Eyjólfssonar á Eiðum og Árnýjar Árnadóttur, Árna, er mikil og sár veikindi steðjuðu að því heimili. Þau reyndust honum sem beztu foreldrar og börnum hans og konu hans, Jónu Hannesdóttur, — ástrík og umhyggjusöm „amma og afi“.
Kapítóla Jónsdóttir hafði aldrei hátt um sig í lífinu, en hún vann störf sín öll, eins og fyrr segir, af frábærri skyldurækni og samvizkusemi. Greiðakonu sérstaka segja þeir, sem til hennar leituðu í vandræðum sínum, kærleiksríka og barngóða. Þess er okkur öllum ljúft að minnast og tengja nafninu hennar alúðarfyllsta þakklæti.

Þ.Þ.V.