Blik 1956/Kirkjurnar í Vestmannaeyjum

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1956séra JES A. GÍSLASON:


Kirkjurnar í Vestmannaeyjum
frá kristnitöku árið 1000 til vorra dagaSéra Jes A. Gíslason.

Fyrir rúmum þrjátíu árum byrjaði ég að færa í letur ýmislegt varðandi Eyjarnar frá fyrstu tímum Íslands byggðar. Sumt af þessu hefi ég, fyrir mörgum árum síðan, birt í blöðum, sem hér voru gefin út, aðallega þó í blaðinu „Skjöldur“. Í því blaði, 1. árg. þess 1924, tbl. 35, 37 og 38, birti ég kafla um kirkjurnar í Vestm.eyjum frá upphafi. Með því að blað þetta, „Skjöldur“, mun nú í fárra eða engra manna höndum hér, en ýmislegt verið birt síðan á prenti orð að sönnu, um kirkjurnar, sumt miður áreiðanlegt, en sumt aftur á móti, sem skýrir ýmislegt það, sem ókunnugt var um, er ég ritaði kafla mína um kirkjurnar, þá er tilgangur minn með línum þessum að skýra í stórum dráttum frá sögu kirknanna, en einkum að því, er við kemur þeirri spurningu, hve gömul Landakirkja sú muni vera, sem nú stendur.
Áður en kristni var lögtekin hér á landi árið 1000, eru til heimildir fyrir því, að búið hafi verið að reisa hér nokkrar kirkjur, og er þá einkum getið þriggja þessara kirkna: Þorvarður Spakböðvarsson lét reisa kirkju að bæ sínum, Ási í Hjaltadal, 16 árum áður en kristni var lögtekin, og stóð sú kirkja, þá Bótólfur var biskup að Hólum. Örlygur gamli reisti kirkju að Esjubergi á Kjalarnesi (Kristnis. Hauksbókar). Ketill hinn fíflski, sonur Jórunnar mannvitsbrekku, reisti kirkju að Kirkjubæ á Síðu.
Fyrsta kirkjan, sem reist var hér, er kristni var lögtekin, var reist í Vestmannaeyjum á Hörgaeyri, sunnan undir Heimakletti, norðan megin vogsins. Sú kirkja var nefnd Klemensarkirkja, eftir kirkju þeirri, sem Ólafur konungur Tryggvason lét reisa í Niðarósi, og nefnd var eftir og helguð hinum heilaga Klemensi Romanus, sem á að hafa verið fyrsti páfi á Pétursstóli í Róm. Honum á að hafa verið drekkt um árið 100 e.Kr. á þann hátt, að akkeri var bundið við hann. Akkerið er einkenni hans, og hann var talinn dýrlingur sjómanna. Þeir Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason fluttu frá Noregi viðinn í þessa fyrstu kirkju og komu hingað 17. eða 18. júní árið 1000, en höfðu þó áður haft samband við land þennan sama dag, er þeir tóku Eyjar, því að róið var út í þá fram af Dyrhólaósi, en það var þann sama dag, sem Brennu-Flosi reið yfir Arnarstakksheiði á leið til Alþingis og fékk þannig fréttir af förum þeirra og erindi. Um þetta segir svo í Kristnisögu Hauksbókar 12. kap.: „Þeir (nefnil. Gissur og Hjalti) tóku þennan sama dag Vestmannaeyjar og lögðu skipi sínu við Hörgaeyri. Þar báru þeir föt sín á land og kirkjuvið þann, er Ólafur konungur hafði látið höggva og mælt svo fyrir, að kirkjuna skyldi þar reisa, sem þeir skyti bryggjum á land. Áður en kirkjan var reist, var hlutað um (varpað hlutkesti um), hvárum megin vogsins standa skyldi, hlauzt fyrir norðan, þar váru áður blót og hörgar.“
Þeir Gissur og Hjalti dvöldu hér í Eyjum í 2 nætur. Það er því með öllu óhugsandi, að þeir hafi lokið kirkjusmíðinni á þessum 2 dögum. Þeir urðu að hraða sér til þings vegna kristniboðsins og væntanlegrar kristnitöku. Þeir hafa því að öllum líkindum notað þennan stutta tíma til þess að byggja undirstöðuna og leggja þar á undirtrén, og kirkjan síðan reist að haustinu. Einnig virðist það óhugsandi, að þeir hafi ráðizt í að brjóta hörgana, þar sem heiðnir menn voru hér fyrir, og gátu því hefnt þessa, er hinir voru burtu farnir.
Samkvæmt þessum heimildum og öðrum sams konar, má það því telja tvímælalaust, að kirkjan var reist fyrir norðan voginn. Hitt verður ekki ákveðið, hve lengi hún stóð þar. Samkvæmt máldaga Nikulásarkirkju á Kirkjubæ, sem gerður er af Árna biskupi Þorlákssyni árið 1269, sést, að þá er sjór farinn að ganga svo nálægt norðan megin vogsins, að þá er hætt að jarða þar, og virðist mega ætla, að kirkjan hafi verið rifin skömmu síðar eða um 1300 og hvergi byggð upp aftur. Allt sem sagt er um flutning hennar, eftir það að hún er flutt af Hörgaeyri eða Klemensareyri, eða öll rifin, er heimildarlaus hugsmíði, og sama er að segja um beinaflutninginn norður yfir höfnina. Það er líklegt, að kirkjugarður Klemensarkirkju hafi fyrst verið vestan við Eyrina, því að þar virðist jarðvegur hafa verið nægilega djúpur, en síðan hafi kirkjugarðurinn verið fluttur undir Litlu-Löngu, er sjór fór að ganga inn með Eyrinni og brjóta landið þar vestur af og inneftir. Það er margt, er sannar það, að kirkjugarður hafi verið undir Litlu-Löngu.
Aagaard, sem hér var sýslumaður frá 1872—1891, lét grafa undir Litlu-Löngu og fann þar mannabein, og þegar ég var 10 ára að aldri, gekk ég þangað með öðrum pilti dag nokkurn eftir mikinn sjávargang og fundum þar vestan við bólverkið, sem svo er nefnt, þrjár beinagrindur, sem lágu þar óskaddaðar að kalla frá vestri til austurs. Bein þessi voru tekin upp og flutt í kirkjugarð. Síðan fundust þar mannabein, er sundskálinn var reistur þar 1913. Þessi bein gátu ekki hafa borizt yfir höfnina í sjó, og fallið þar niður samföst. Slíkt er fjarstæða, sem ekki þarf frekar að svara.
Næsta kirkja er svo reist að Kirkjubæ, Nikulásarkirkja, helguð hinum heilaga Nikulási, og hefur máldagi sá, er fyrr um getur, sennilega verið fyrsti máldagi hennar.
Í þessu sambandi skal það tekið fram, að það er því rangt, sem stendur í Sögu Vestmannaeyja, bls. 54, að kirkjan á Kirkjubæ hafi verið helguð St. Andrési. Sú kirkja, sem honum var helguð, stóð á Ofanleiti. Það er ennfremur rangt, sem sagt er í sóknarlýsingu séra Jóns Austmanns, bls. 146, og prentuð er í bókinni „Örnefni í Vestmannaeyjum“, að kirkjan á Kirkjubæ hafi heitið Klemensarkirkja.
Þriðja kirkjan var reist að Ofanleiti (kirkjan fyrir ofan leiti, dregið saman í: Ofanleiti). Ekki er víst, hvenær hún var fyrst reist, en helguð var hún heilögum Pétri. Síðar, líklega, er hún var byggð upp, var hún nefnd Andrésarkirkja. Um þessa nafnbreytingu mætti geta sér þess til, að hér hafi að nokkru ráðið veiðiaðferðir Eyjabúa. Pétur var dýrlingur þeirra, sem notuðu handfæri, en sú veiðiaðferð hefur verið notuð hér óslitið frá byrjun fram undir aldamótin 1900.
Árið 1573 verður sú breyting á kirkjunum hér, að þá er reist ein kirkja á Fornulöndum (á hæðinni nálægt,þar sem Ásgarður stendur nú) fyrir báðar sóknirnar, Kirkjubæjar og Ofanleitis, en kirkjurnar þar gerðar að bænhúsum. Bænhús þessi stóðu lengi, einkum á Ofanleiti, því að bænhúsið þar var ekki rifið fyrr en 1850.
Á Fornulöndum stóð kirkja, þangað til Tyrkir brenndu hana 1627, eftir að hafa saurgað hana og svívirt á ýmsan hátt. Það er því rangt, sem segir í sóknarlýsingu séra Jóns Austmanns, þeirri, sem fyrr er vitnað í; er komizt svo að orði þar, bls. 146:
„Síðan var hún byggð í kirkjugarðinum, sem nú er, hvar hún var brennd af Tyrkjum árið 1627.“ Einnig er það rangt í sömu sóknarlýsingu, að kirkjan á Löndum hafi verið reist þar, næst á eftir byggingu Klemensarkirkju, því að það er vitað, að kirkjan á Löndum er sú fjórða í röðinni þeirra kirkna, sem hér hafa verið reistar.
Ekki er vitað með vissu, hvað því réði, að hin nýja kirkja, sem reist var 1573, var færð neðar á Eyjuna. En ekki er það ósennilegt, að því hafi ráðið, að þorp hafði þá verið farið að myndast niður við sjóinn, sunnan megin hafnarinnar, og að þar hafi verið búsettir kaupmenn og verzlunarmenn, auk umboðsmanns og annarra áhrifamanna hér. — Þessi kirkja á Löndum var eins og fyrr getur, fyrir báðar sóknirnar og notuð af báðum prestunum.
Eftir að búið var að brenna kirkjuna á Löndum, var kirkjulaust hér í 4 ár, að undanteknum smákirkjunum á Kirkjubæ og Ofanleiti, sem notaðar hafa verið þetta kirkjulausa tímabil. Eyjabúar vildu ekki byggja kirkjuna upp á Löndum, álitu þann stað vanhelgaðan eftir aðfarir Tyrkja þar. Eftir 4 ár er afráðið að byggja kirkjuna upp í kirkjugarðinum (gamla kirkjugarðinum), sem nú er notaður. —
Kirkjan var byggð að mestu af samskotafé, og var allt ófullkomið, sem við kom endurreisn kirkjunnar, auk þess sem sumt af því vantaði algerlega, sem talið var nauðsynlegt við hverja kirkjulega athöfn. Kirkjan var byggð þar upp þrisvar, fyrst árið 1686 og síðar 1722 og 1749. Sú kirkja entist illa, og var að því komið að byggja yrði hana upp þar í fjórða sinn, svo úr sér var hún gengin að viðum öllum og svo lek, að tæplega var hægt að messa í henni, en þá er horfið að því ráði að byggja kirkjuna upp úr steini þar skammt frá, á flöt þeirri, sem hún stendur nú á, og reynt að notast við gömlu kirkjuna, meðan verið var að reisa hina nýju. Skal nú reynt með sem fæstum orðum að segja sögu þessarar kirkju, eftir þeim heimildum, skráðum og óskráðum, sem ég hef yfir að ráða.
Landakirkja, eins og hún leit út eftir að Andreas Kohl sýslumaður (1853-1860) lét setja á hana turninn og forkirkjan var byggð við hana 1903.

Um 1750 réð stjórnin það af, að láta reisa Landakirkju þá úr steini, sem nú er, en framkvæmdir urðu litlar, þó telur dr. Jón Þorkelsson, að stöpull hennar hafi verið settur í hana 1757 (sbr. Tyrkjaránssögu, bls. xxxv). Mun það ef til vill vera sama og hornsteinn hafi verið lagður að henni, þ.e. fyrsti steinninn, sem lagður var. Teikningu að þessari kirkju mun hafa gert Nicolaj Eigtved, sá, sem stóð fyrir byggingu Amalienborgar í Kaupm.höfn. — Lengra virðist byggingunni ekki hafa miðað áfram að þessu sinni. N. Eigtved andaðist 1754 eða 20 árum áður en byrjað var fyrir alvöru á byggingu þeirri, steinkirkjunni, sem nú stendur hér.
Í skjölum, sem bárust til Íslands frá Danmörku 1928 og geymd eru í Þjóðskjalasafninu, komu fram ýmsar upplýsingar um byggingu Landakirkju þeirrar, sem hér um ræðir. Konunglegur byggingameistari, að nafni Georg David Anthon (f. 1714, d. 1781), sem gert hafði ýmsar teikningar fyrir stjórnina af húsum hér á landi, t.d. stjórnarráðshúsinu, var falið að gera teikningu af kirkjunni, gera kostnaðaráætlun og ráða mann til að standa fyrir byggingunni. Uppdráttinn gerði hann og kostnaðaráætlun jafnhliða. Hann áætlaði, að kostnaðurinn við bygginguna mundi verða 2.735 ríkisdalir, en kostnaðurinn reyndist 5.147 ríkisdalir 69 1/2 skildingur. Það er því ekki ný bóla hér á landi, þótt kostnaður við ýmsar byggingar fari fram úr því, sem upphaflega var áætlað. — Allur kostnaður við bygginguna var greiddur úr ríkissjóði.
Steinsmið réði hann, en af misgáningi réð hann Kristófer Berger, þýzkan steinsmið, til að standa fyrir smíði kirkjunnar, en átti að ráða bróður hans, Johan Georg Berger, sem hafði verið hér á landi við múrsmíðar. Samningurinn var gerður 21. maí 1774 og samþykktur af rentukammerinu 25. maí s.á. Samkvæmt samningnum átti Berger að byggja „Grund Muuret Kirke“ 27 1/2 alin langa og 16 álna breiða. Til kirkjunnar voru auk timburs og áhalda: 1 vagn, 6 hjólbörur, 4 handbörur, 1 sleði og aktygi á fjóra hesta, sendir ellefu þúsund Flensborgarmúrsteinar og 900 tunnur af kalki. Það af efninu, sem ekki var notað hér, var sent til Bessastaða. Reikningur yfir kirkjubygginguna er frá 1781. (Lovsaml. for Isl. IV. 592—93). Með því að kostnaðarreikningur við bygginguna er frá 1781, þá er mjög sennilegt, að byggingunni hafi verið lokið árið 1780, og byggingin því staðið yfir í 6 ár, frá 1774—1780.
Trégrindur voru umhverfis kirkjuna, sem kostuðu 107 ríkisdali 52 skildinga (Lovsaml. for Isl. IV. 592—93).
Útlit kirkju þessarar var í upphafi allt annað en nú. Hún var turnlaus, og klukkurnar því í klukknagrindum á flötinni vestur af kirkjunni, sneitt var af þakburstunum, gluggarnir minni, kórdyr norðan megin undir austasta glugganum og forkirkja engin. Einhver breyting eða viðgerð mun hafa farið fram á kirkjunni um 1840, en aðalbreytingin á henni að utan og innan fór fram á dögum Andreas August Kohl, sem hér var sýslumaður frá l853—60. Ég fer þar eftir því, sem elztu menn hér, skömmu eftir aldamótin, skýrðu mér frá, og sem séð höfðu kirkjuna áður en breyting sú var framkvæmd, sem Kohl lét gera. Kohl lét rífa timburklæðningu þá, sem Abel sýslumaður (hann var sýslumaður hér 1821-1851) hafði látið klæða austurgafl kirkjunnar með, til hlífðar gegn regni og annarri úrkomu. Það mun nýlunda, að klæða útvegg úr steini með timbri. Turn lét hann setja á kirkjuna og flytja þangað klukkurnar.
Ræðustóllinn, sem stóð þar, sem skírnarfonturinn er nú, flutti hann yfir altarið, og mun slíkt fátítt hér á landi. Skírnarfontinn setti hann þar sem ræðustóllinn stóð, en ræðustólinn flutti hann niður í þinghús. Man ég eftir honum þar, innst í fundarsalnum, norðan megin. Ég man ekki eftir, að nokkur stigi þar í pontuna, en gaman höfðum við drengirnir að því, að „stíga þar í stólinn“, ef tækifæri gafst til þess. Hvað um hann varð, veit ég ekki, hann hefur sennilega verið rifinn til eldiviðar. Skilrúm milli kórs og kirkju lét hann rífa, en sú girðing var fágæt, einkum að því leyti, að skilrúm þetta var gert meðal annars af útskornum myndum af postulunum tólf, sex til hvorrar handar, þegar inn í kórinn var gengið. Um þessar postulastyttur veit ég það síðast, að þær voru vistaðar á haustmannaloftinu, þar sem hljóðfærið er nú, og líklega hafa þær að síðustu verið á bál bornar. Postulamyndir þessar skar út Ásmundur Sigurðsson, trésmiður á Tjörnum, Vestur-Eyjafjöllum í Rangárvallasýslu. Kohl lét fjarlægja stúkur þær, sem voru beggja megin í kirkjunni, sem ætlaðar voru embættismönnum hér, kaupmönnum, verzlunarstjórum og skipstjórum. — Svalir voru gerðar beggja megin og fyrir vesturenda. Þær náðu jafnlangt inn eftir kirkjunni og nú, en voru þá miklu mjórri, aðeins ein bekkjaröð. Bekkir voru settir á haustmannaloftið, en áður voru þar engin sæti. Einnig var bekkjum komið fyrir á efsta loftinu, en það loft var áður notað til geymslu ýmiss konar.
Næsta viðgerð, sem nokkuð kvað að, fór fram árið 1903, og stóð Magnús Ísleifsson, trésmíðameistari, fyrir þeirri viðgerð. Skal hér drepið á hið helzta. Þá var látið nýtt járnþak á kirkjuna og klætt með blýþynnum umhverfis turninn, því að þar var þá kominn að leki og tekið að fúna. Gluggarnir voru stækkaðir niður á við. Kórdyrnar, sem voru undir austasta glugganum norðan megin, voru teknar af, og forkirkja úr timbri byggð, en hún var engin áður. Hefði eflaust farið betur á því, að forkirkjan hefði verið gerð úr steini, eins og kirkjan. Að innanverðu var altarið og prédikunarstóllinn gert upp að nýju, látið nýtt gólf í kórinn í stað hins gamla, sem orðið var slitið og fúið og skýldi fjölda músa, sem þar höfðust við. Hvelfingunni, sem áður var blámáluð með gylltum stjörnum yfir kórnum, var breytt í það horf, sem hún nú ber. Svalirnar voru færðar fram, breikkaðar um helming, svo nú eru bekkjaraðir tvær, en áður var aðeins ein bekkjaröð, og söngpallurinn færður fram til muna. Við þessa aðgerð á kirkjunni sást, er gluggunum var breytt, hvernig veggir hennar voru gerðir. Veggirnir eru 125 sentimetrar á þykkt eða 2 álnir og tvíhlaðnir. Ytri hleðslan er úr höggnu hraungrýti, og vönduð steinsmíði, en innri hleðslan er hlaðin upp úr óhöggnu grjóti, en milli ytri og innri hleðslu er fyllt upp með grjóti og kalki; síðan kalkhúðað utan og innan. Bogarnir yfir gluggum og dyrum eru gerðir úr tígulsteini. Tréð í dyraumbúnaðinum er 9 x 9 þumlungar á breidd og þykkt.
Stafnar kirkjunnar eru nokkru þynnri, en eins gerðir og veggirnir.
Flestir telja, að smíði kirkjunnar hafi verið lokið 1780 og því staðið yfir í 6 ár, en hvenær farið var að nota þessa kirkju og sú gamla í kirkjugarðinum rifin, er nokkrum vafa undirorpið. Þó geta eflaust allir orðið sammála um það, að ekki hefir gamla kirkjan verið rifin og sú nýja tekin til notkunar, messugerðar og fleira, áður en hún (nýja kirkjan) var komin undir þak, því að svo skjóllítil sem gamla kirkjan var, hefði þó verið minna skjól í hinni nýju þaklausri.
Til er uppdráttur af Eyjunum (Heimaey), sem birtur er í bókinni „Örnefni í Vestmannaeyjum“, bls. 95.
Uppdrátt þennan gerði séra Sæmundur Magnússon Hólm, sem var prestur í Helgafells-prestakalli í Snæfellsnesprófastsdæmi frá 1789—1819 (eða 1821). Dó 72 ára að aldri. Uppdráttur þessi er gerður 1776, samkvæmt ártali, sem á uppdrættinum er. Uppdrátturinn er eðlilega ekki nákvæmur, borinn saman við nútímauppdrátt af Eyjunum, en hann er fróðlegur og sýnir meðal annars, hvernig og hvar byggðir voru hér, hafskipalegan o.m.fl., og á honum sést gamla kirkjan í kirkjugarðinum, sem þar var fyrst byggð 1631 og síðan endurreist þar þrisvar sinnum. Kirkja þessi er lítið hús, turnlaus, með stöng upp úr fram-(vestur)stafni og veifa á stönginni, en klukkurnar tvær að kirkjubaki, uppfestar á trjám. Af þessu sést, að árið 1776 er kirkja þessi enn notuð og hefur sennilegast verið notuð þangað til lokið var smíði nýju kirkjunnar um 1780. — Nýja kirkjan hefur verið meðal myndarlegustu húsa hér á landi og byggð við vöxt, sem sést á því, að árið 1787 eru hér í Eyjum aðeins 236 íbúar, sem þó fer ört fækkandi, sökum fátæktar, kúgunar og landlægra drepsótta, svo að um 1800 eru íbúar hér aðeins 173.
Landakirkja sú, sem hér um ræðir, er í röð elztu steinkirkna landsins, en aldur þeirra er sem næst því, er hér segir:

1. Viðeyjarkirkja, fullgerð árið 1759.
2. Hólakirkja í Hjaltadal, fullgerð 1763.
3. Landakirkja í Vestmannaeyjum, fullgerð 1780.
4. Bessastaðakirkja, byrjað að byggja hana um 1780, en talin fullgerð 1820. Byggingin því staðið yfir um 40 ár, en vígð 1823.

Um kirkjugarðana hér í Eyjum er vitað, að þeir hafa verið á fimm stöðum:
1. Undir Litlu-Löngu (Litlu-Lönguhlíð).
2. Á Kirkjubæ.
3. Á Ofanleiti.
4. Á Fornu-Löndum.
5. Kirkjugarður sá, sem enn er notaður, er í daglegu máli nefndur nýi og gamli kirkjugarðurinn. Sá gamli er sá hluti hans, þar sem Landakirkja var byggð 1631, eftir að Tyrkir brenndu hana á Fornu-Löndum. Gamli kirkjugarðurinn er í suðvestur horni kirkjugarðsins, má þar sjá grafir ýmissa presta, til dæmis séra Ólafs Egilssonar, sem dó 1639.
Landakirkja eins og hún lítur nú út, eftir að hinn nýi stöpull var byggður við hana á s.l. ári.Þá skal hér að lokum minnast prestanna hér í Eyjum. — Frá siðaskiptum voru 12 prestar á Kirkjubæ, en samtímis 15 prestar á Ofanleiti. Prestarnir voru tveir, þótt kirkjan væri aðeins ein frá 1573. Síðasti tvíprestur á Kirkjubæ var Páll Jónsson, skáld. Prestur hér frá 1822—37. Hann lét af prestþjónustu árið 1837, þegar Eyjarnar urðu eitt prestakall. Séra Páll drukknaði í Rangá árið 1846, 66 ára. Lík hans rak ekki úr ánni, en löngu síðar fannst lík sjórekið vestan Ölvusár. Þóttust menn ráða það af fötum á líkinu, að það væri lík séra Páls. Lík þetta var jarðað að Hjalla í Ölvusi.
Síðasti tvíprestur á Ofanleiti var séra Jón Austmann. Hann var prestur hér frá 1827 til 1858, en þjónaði einn öllum Eyjunum frá 1837.
Af hinum tólf prestum á Kirkjubæ dóu 6 hér, 4 fluttu héðan, en um tvo þá fyrstu, þá Gissur Fúsason (Vigfússon), prest frá um 1545, og Jón Jónsson, prest frá 1583, er ekki vitað, hvar þeir báru bein. — Af prestum á Ofanleiti dóu 14 hér, fjórir fluttu héðan, en um þann fyrsta, Berg Magnússon, sem varð prestur að Ofanleiti 1563, er ókunnugt. Á Ofanleiti þjónar nú 20. presturinn, og hafa því til þessa dags verið 32 prestar samtals á Kirkjubæ og Ofanleiti frá siðabót. Eins og fyrr getur, verður ekkert fullyrt um ævilok tveggja presta á Kirkjubæ og fyrsta prestsins á Ofanleiti.
Hvorki prestatal Daða fróða Níelssonar, sem til er í handriti í Þjóðskjalasafninu og er frá 1849 (formáli handrits Daða er ritaður á Hólum í Hjaltadal 7. jan. 1849), né heldur presta- og prófastatal séra Sveins Níelssonar, gefið út 1869, geta gefið nokkrar upplýsingar um þrjá fyrrgreinda presta.
Sé litið yfir ævistarf þessara 32 Eyjapresta, sem fyrr greinir, þá dylst það engum, að Eyjabúar hafa yfir höfuð verið mjög heppnir með presta sína að mjög fáum undanteknum. Sumir prestanna hafa verið landskunnir merkismenn, eins og til dæmis Jón Þorsteinsson píslarvottur, sálmaskáld — hann var langafi Jóns biskups Vídalíns — og séra Brynjólfur Jónsson, sem var prestur á Ofanleiti frá 1852—1884 (dáinn 19. nóv. 1884), þar af 6 ár aðstoðarprestur hjá séra Jóni Austmann. Allt starf séra Brynjólfs Jónssonar hér var óslitið siðmenningar- og siðfágunarstarf í þarfir Eyjabúa, bæði hinna eldri og yngri.

Ritað í apríl 1948.
J.A.G.