Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Sannir íþróttamenn

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Sannir íþróttamenn


Ritað eftir handriti, sem Guðjón Ármann Eyjólfsson skrifaði eftir frásögn Eyjólfs Gíslasonar föður síns.

Fjallaferðir og fuglaveiðar voru hér í Eyjum annar aðal atvinnuvegurinn allt fram á síðustu tugi ára. Hinn var fiskveiðarnar.
Í fjallaferðir þurfti menn, kjarkmikla og lipra, og voru það íþróttamennirnir hér áður fyrr. Enda kepptu allir ungir menn að því að verða góðir fjallamenn og sjómenn. Ungir drengir gátu ekki hugsað sér meiri frama en að verða það. Í fjallaferðum reyndi oft sérstaklega á kjark og lipurð manna.
Hér koma tvær sannar sögur, sem Gísli Eyjólfsson sagði syni sínum Eyjólfi formanni Gíslasyni á Bessastöðum hér.

Það var jarðskjálftahaustið 1896 (28. ágúst), að verið var til fýla í öllum fjöllum, bæði úteyjum og á Heimaey. Í Álsey voru þennan dag Gísli Eyjólfsson Búastöðum, Guðjón Eyjólfsson bróðir hans á Kirkjubæ og Einar Jónsson bóndi í Norðurgarði, (ásamt fimum öðrum). Voru þessir 3 nefndir menn niðri í miðju bergi að ,,aðsækja“, sem kallað var, þ.e.a.s. að drepa fýlungan með álnarlöngum sköftum, sem nefndir voru keppir (fýlakeppir). Þegar þeir nú voru í óðaönn og af mesta kappi að drepa fýlinn, hittist svo á, að þeir voru allir staddir á nokkuð stórum graskekki eða torfu. Kom þá snarpur jarðskjálftakippur og skipti það engum togum, að grastorfan, sem mennirnir voru á, losnaði frá berginu og fór á ferð. Það mun hafa orðið þeim til lífs, að bræðurnir Guðjón og Gísli voru fljótir að hugsa og framkvæma. Hlupu þeir eins og kólfi væri skotið sinn til hvorrar hliðar á næstu kekki eða grastær, er fastar voru. En stóri kökkurinn með Einari fór af stað, en stoppaði á smákekki nokkru neðar og var Einari þar með borgið líka. Það töldu þeir víst, að kökkurinn hefði ekki stoppað, ef þeir hefðu allir þrír staðið á honum.

Önnur frásögn Gísla er þannig:

Það mun hafa verið um síðustu aldamót, er verið var til fýla í Geldungnum að venju. Farið var í þetta skipti á teinæringnum ,,Gideon“.
Formaður á bátnum var Hannes Jónsson lóðs á Miðhúsum. Á meðan göngumennirnir, en svo voru þeir nefndir (fjallamenn), sem fóru upp í björg og voru uppi í berginu við fugladrápið, þá hvessti á austan og gerði veltubrim. Þegar mennirnir sem uppi voru, 4 að tölu, komu niður að steðjanum, þ.e. uppgöngunni í Eyjuna, mátti heita alófært að ná þeim. Samt tókst það fyrir hina alkunnu snillistjórn formannsins Hannesar, og hinna fífldjörfu og fræknu fjallamanna og sjómanna, sem þarna voru saman komnir og uppaldir voru við hætturnar og svaðifarirnar allt frá bernsku.
Í steðjanum á Úteyjunum eru reknir boltar, 4-8 þuml. járnboltar, ½ til 1 þuml. í þvermál, kallaðir fjallaboltar, og eru þeir hafðir til þess að kasta á lykkju af bandinu. Það kallast steðjaband og er brugðið á boltann, þegar farið er niður.
Í Geldungnum hagar þannig til sem víðar hér, að steðjaboltarnir eru tveir, annar eins neðarlega við sjó sem fært þykir, en hinn það ofarlega, að þungabrim nái honum ekki, og hægt sé að draga bandið af, þegar allir menn eru komnir á bát. Í gamla daga þekktist það sem sé ekki að skilja band eftir á bolta og það þótt líf manns eða manna lægi við.
Þennan umrædda dag var brimið svo mikið við Geldunginn að hafa varð bandið á efri boltanum, sem mun vera 10-11 faðmar frá sjó.
Venjulega voru allra fræknustu mennirnir valdir til að fara fyrstir af skipi og síðastir í skip. Að þessu sinni fóru þeir síðastir Árni Árnason á Grund (faðir Árna Árnasonar símritara og þeirra systkina) og Guðjón Eyjólfsson, Kirkjubæ, sem báðir voru mjög fræknir fjallamenn og afburða góðir lundaveiðimenn.
Þessir menn voru á líkum aldri og þá innan við þrítugt. Báðir urðu þeir að halda sig við efri boltann vegna brimsins. En þegar lagið kom eða hikið á sjóinn, tóku þeir báðir jafnsnemma hlaupið og svo eitt heljar mikið stökk, sem lengi var í minnum haft. Og svo hnífjafnir voru þeir í hlaupinu að þeir komu sinn á hvorn skipskinnunginn og tóku þar fangbrögðum, sem sannir fóstbræður.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit