Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Kvikmyndataka í Súlnaskeri og víðar

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Kvikmyndataka í Súlnaskeri og víðar


Þann 21. júní fórum við eftirtaldir með Kaftein Dam, danskan kvikmyndatökumann, suður í Súlnasker til myndatöku.
Farið var með m/b Ingólfi VE-216.
Þeir, sem voru í förinni:
Skipstjóri: Eiríkur Jónsson.
Vélstjóri: Jón Ísak Sigurðsson.
Háseti: Sigurður Valdason.
Farþegar voru Viggó Björnsson bankastjóri, Þorsteinn Einarsson kennari, Stefán Árnason lögregluþjónn.
Göngumenn voru: Svavar Þórarinsson, Pétur Guðjónsson, Gísli Fr. Johnsen, Hjálmar Jónsson, Kaftein Dam.
Uppganga í eyna gekk með afbrigðum vel þó að Kaft. Dam væri með, og má það undur kallast, þar sem hann hefur aldrei stigið fæti utan í fjöll, fyrr en í þetta skifti, og er það nærri einsdæmi, að hann skyldi ekki vera hræddur, sem hann var alls ekki.
Fengum við mjög gott og afar bjart veður, svo að myndatakan tókst afar vel. Var kafteinninn mjög lukkulegur yfir því. Teknar voru myndir af fuglalífi eyjarinnar, sem er mjög fjölskrúðugt, ásamt myndun af lundaveiði í háf og landslagi eyjarinnar.
Niðurgangan gekk líka mjög greiðlega, en samt sagði kafteinnin þegar niður kom: „ Þetta færi ég ekki aftur, hvað sem í boði væri.“ Og var honum það ekki láandi, því að þetta er mjög ógreiðfær leið og afar há.
Að kvöldi var okkur boðið á hótel Berg uppá wiskí og sóda.
Næsta dag fórum við aftur suður í Sker, því að hann þurfti að taka myndir af upp- og niðurgöngu, en gat það ekki daginn áður vegna þess að liðið var á daginn, og þar af leiðandi skuggi, þar sem upp er farið, en það er á móti suðaustri, - og gekk það líka mjög ákjósanlega.
Sama dag var farið austur í Bjarnarey og teknar þar myndir. Vorum við látnir lesa landferðamannabænina og tekin af því mynd á meðan við lásum. Einnig var tekin mynd af bjargsigi til sóknar svartfuglseggja, og svo hvernig sigmaður er bundinn í vað, hvernig honum er gefið niður í bjargið, og hversu margir gefa, og hvernig hann er dreginn upp aftur og af hve mörgum. Líka voru teknar myndir af útbúnaði, bæði klæðaburði og ílátum, sem eggin eru geymd í. Fengum við allan tímann mjög gott veður. Kunnum við mjög vel við kafteininn, því að hann er mikið prúðmenni. Vorum boðnir á hótel Berg um kvöldið. Viskí & sódi og vindlingar.

H. Jónsson


Á ferð með Dam flugforingja í Súlnasker


Árni Árnason skrifar svohljóðandi formála að eftirfarandi grein sem fjallar um sama atburð og greinin hér á undan:
„Hér birtist fyllri frásögn um ferð Kapt. Dam út í Súlnasker. Er hún skrifuð af Gísla Friðrik Johnsen, sem var einn þátttakandinn, og birt hér með hans leyfi.“

Árið 1939 kom hinn kunni höfundur Íslandskvikmyndarinnar, flugkapteinn Dam, til þess að taka lokaþátt þeirrar kvikmyndar, fuglalífið og sig í Vestmannaeyjum.
Voru fengnir bestu sigmenn Eyjanna, þeir Hjálmar Jónsson, sem fyrr var nefndur, og Svavar Þórarinsson, sem yngstur mun sigmanna í Eyjum, en af mörgum talinn þeirra snjallastur.
Skyldi lagt í Súlnasker, þverhníptan klett, um 170 metra háan, allstóran og grasi gróinn uppi.
Auk þess var með í för Pétur nokkkur Guðjónsson, en hann var einn af þeim, sem leggja átti í bjargið, og ég, aðstoðarmaður við myndatökuna og túlkur.
Á bátnum var frítt lið og vel búið, því að auk bátverja, var sjálfur bankastjóri okkar Eyjamanna, Viggó Björnsson, Þorsteinn Einarsson íþróttafulltrúi og hálft lögreglustórskotalið Eyjanna, þ.e. Stefán Árnason.
Átti hann að sjá um, að öll viðskipti okkar við Skerprestinn færu löglega fram. En um það ganga munnmæli, að í Skerinu búi verndarvættur einn, er Skerprestur nefnist. Eru honum færðar fórnir af þeim, sem upp fara ár hvert, en það eru koparskildingar, sem stungið er í vörðu eina efst á skerinu, þar sem presturinn býr.
Er við nálguðumst hið fræga Súlnasker, skeði sá dularfulli atburður, að skerið hvarf okkur sjónum með öllu og týndist, en glaða sólskin og heiðskírt allt í kring.
Var þetta fyrirburður sá, er þoka nefnist, og er ekki mjög tíður gestur hjá okkur. Vildu sumir kenna þetta Skerprestinum og þótti ills viti, klerki ekki litist á þangaðkomu okkar og viljað afstýra henni með vélabrögðum þessum. Fannst Dam fátt um slíkar útskýringar og skipaði, að áfram skyldi haldið og inn í þokuna.
Þótt við vissum, að Skerið hlyti að vera mjög nálægt, fundum við það samt ekki. Við höfðum að vísu ekki nein nýtísku hlustunar- eða þeftæki, því að annars hefðum við getað „hlustað“ Skerið, eða fuglagargið í því, eða þefað gúanólyktina, en vonandi verður ráðin bót á þessu fyrir næsta stríð.
Biðum við þarna dorgandi svo sem þrjár klukkustundir, en keyrðum þá í norðausturátt til Eyja.
Eftir skamma stund komum við aftur í glaða sólskin og var þá ákveðið að breyta áætlun og heimsækja Hellisey í staðinn fyrir Skerið. Er þangað kom, varð einhverjum litið aftur, og sjá: Súlnasker stóð baðað í sumarsólinni. Hefir þá Skerklerkur breytt um skoðun og bauð okkur nú heim, og stóð þá ekki á okkur að þiggja boðið.
Var nú „kúvent“ í flýti, þó áliðið væri dags, og lagt að Skerinu í léttbátnum. Gekk landtakan prýðilega, eins og vænta mátti, þar sem Skerpresturinn verndar alla gesti. Var nú lesin bæn á svokölluðum Bænabring, en hann er í allflestum úteyjum Vestmannaeyja, og er þetta ævagömul venja og gefst vel.
Að vísu hrapaði einu sinni maður nokkur, er Jón hét, ofan af Skerinu, þar sem það er lægst, um sextíu metra hæð, og kom niður í sjóinn skammt frá sókningsbátnum án þess að snerta bergið, því að þarna er loft. Er honum skaut upp úr kafinu, bað hann bátsverja að gefa sér í nefið og spurði um leið: „Kom mikill dynkur, piltar?“ Lifði hann lengi og var kallaður Jón dynkur, en skakkur var hann nokkuð upp frá því.
Var nú lagt af stað upp bergið, og var Dam hafður á milli þeirra Hjálmars og Svavars í bandi, ef hann skyldi missa fótfestu, því að þverhnípt er uppgangan. Fórum við svona stall af stalli og miðaði sæmilega.
Á efsta stallinum spurði ég flugforingjann að því, hvernig honum líkaði lífið þarna, og kvaðst hann öllu heldur kjósa flugvélina fyrir verustað, en vera á þessu ferðalagi, og ekki kvaðst hann í annað sinn mundi fara slíka för. En óhræddur var hann með öllu og hinn vonbesti. Vorum við nú dregnir eins og vankaðir gemsar upp síðasta áfangann, af þeim Hjálmari og Svavari og Skerpresturinn kvaddur að vanda með fórn nokkurra koparpeninga.
Voru þá myndatökuáhöld Dams dregin upp á bandi og kapteinninn undirbjó myndatökuna og fór að engu óðslega. Gaf þarna að líta einhverja þá mestu paradís villtra fugla, sem fyrirfinnst á jörðu hér, enda notaði Dam sér óspart af því og var síður en svo nískur á filmur. Tók hann þarna um 600 metra filmulengd.
Auk fuglanna léku þeir Svavar, Hjálmar og Pétur, sem orðinn var nærri óvígur, vegna þess að á uppleið náði ein súlan að stinga hann í augnakrókinn, og mátti litlu muna að ekki hlytist stórslys af, eða hann missti augað, því að súlubroddurinn er hvass, enda lá hann marga daga, er heim kom, af áverka þessum. Fannst mér þeir „leika“ prýðilega, er Dam lét þá hlaupa á eftir súlunum, til að fá meira líf í myndina, eða veiða lunda í háf, sem engin Hollywoodstjarna hefði gert betur.
Ég var nokkurs konar þræll Dams, bar kvikmyndatæki hans á milli og túlkaði fyrirskipanir hans til „leikendanna“, piltanna.
Er öllu þessu var lokið, búið að gefa hinar dýrmætu filmur niður á bát, var hvílst um stund. Sagði Dam þá, að þetta yrði perlan úr Íslandskvikmyndinni, ef heppnaðist, og lofaði dýrlegum veislufagnaði, er í land kæmi, ef allt gengi slysalaust niður. Eru þetta nefndar „útlátaveislur“.
Var heitið á Skerprestinn að duga okkur sem best, og síðan lagt af stað niður. Gekk allt að óskum. Er niður kom voru þeir, er biðu, alls kostar fegnir afturkomu okkar. Höfðu þeir þá dúsað í bátnum í 12 klukkustundir og voru orðnir sárleiðir á lífinu.
Er í land kom, efndi Dam dyggilega loforð sín um veislufagnað og hélt ekki aðeins eina, heldur tvær, þar sem sumir úr ferðinni gátu ekki mætt fyrra kvöldið.
Árangur af ferð þessari var með ágætum að sögn Dams sjálfs, en filman „strandaði“ úti í Danmörku vegna stríðsins, en þó er þess að vænta, að Íslendingum gefist kostur á að sjá hana bráðlega.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit