Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Kvæði eftir Gísla Engilbertsson, II. hluti
Jump to navigation
Jump to search
- 3. Heillaóska- hátíða- og hvatningarljóð.
- Þjóðhátíðin 11.ágúst 1906
- Lag: Fanna skautar faldi háum..
- Mun sturlunga aldar andi
- ekki finnast meðal vor,
- þótt hann ei með beittum brandi
- blóði liti saklaus spor.
- Hann reið fyrrum hart í skörðum
- heillum illum blés að þjóð,
- undan frelsis vegvörðum
- villubraut svo þunga tróð.
- Eflaust stórgjört orða ríkið
- andans skyggir fyrir sjón,
- þjóðréttinda þegar strikið
- þræða ber og forðast tjón.
- Eins og fyrr kann aflið þrjóta,
- ef vér slítum bræðralag,
- sannleikaástin flæmd til fóta
- fyrir völd og eigin hag.
- Vörum okkur, vinir góðir,
- vandrötuð er frægðar leið.
- Munum feðra fornu slóðir,
- frelsið glatað, svarinn eið,
- Munum kúgun, þrældóm þrautir,
- þjóðarlífsins dauðastríð.
- Leggjum aftur bjartar brautir
- búum niðjum sælli tíð.
- Vor ei mega grísir gjalda,
- gjörum ekki að framtíð seið.
- Skoðum vítin eldri alda
- að sem þrengdu manndóms leið.
- Bægjum sundrung burt til hliðar,
- bregðumst ekki sannleiks ást.
- Sígi frelsis sól til viðar,
- sigurhæðir aldrei nást.
- Helveg troði illur andi,
- eflum frið á meðal vor.
- Framkvæmdir í feðra landi
- frelsi tengdar, greikka spor.
- Félagsandinn í oss vaki
- og til starfa kalli þjóð.
- Hver í annars hendur taki,
- helgi ættjörð líf og blóð.
- Trúarlíf og tryggur hugur
- tengi saman hjörtu vor.
- Viska, menntun, dáð og dugur,
- drenglund, skyldurækni og þor.
- Áfram þjóð í orði og verki
- uns að sigurhæðir nást
- undir feðra fögru merki
- frelsi, manndáð, sannleiks ást.
- Þjóðhátíð Vestmannaeyja 1910
- eftir G.E., líklega Gísla Engilbertsson
- Hátíð þessa fögnuð fyllum,
- félagsauða ræktum blóm.
- Syngjum dátt hjá sólskins hillum
- sinnum fögrum bergmálsóm.
- Viljakraftinn veikan hressum,
- vörumst allt, sem boðar grand.
- Framtíðar þá börn vér blessum.
- Blessum vora þjóð og land.
- Hátíð þessa fögnuð fyllum,
- Ýtum menning upp á skaftið
- allt að húni frelsis voð.
- Tökum af oss tjóður haftið,
- tíminn gefur út þau boð.
- Þjóðin öll á verði vaki,
- virði, elski, feðra láð.
- Íþróttirnar að sér taki,
- efli menntun, listir, dáð.
- Ýtum menning upp á skaftið
- Syngi, dansi hrund og halur,
- himin-glöð í fögrum dal.
- Grænlitaður glímusalur
- geymir Eyja kappaval.
- Hér má sjá í sól og skugga,
- sumardýrðin blikar hrein.
- Huldufólkið gegnum glugga
- gægist undir hverjum stein.
- Syngi, dansi hrund og halur,
- Huldufólkið, fagur búið,
- fagnar því, sem dýrðlegt er.
- Héðan ekki fær það flúið,
- finnst því Ameríka hér.
- Þótt í dag vér það ei sjáum,
- þar um tölum ekki hót.
- Öðrum ræðum eyru ljáum,
- áminningar festi rót.
- Huldufólkið, fagur búið,
- Dýrð sé guði hátt í hæðum,
- heill og friður meðal vor.
- Manndómsþrá í andans æðum
- ávallt stigi heillaspor.
- Orð og verkin látum ljóma,
- læðumst enga skuggabraut.
- Göngu hækki sólin sóma,
- svífi yfir holt og laut.
- Dýrð sé guði hátt í hæðum,
- Þjóðhátíð Vestmannaeyja 12. ágúst 1911
- Eflist hér byggð og bú,
- blessun og velgengni dafni.
- Verndi þig Vísir á hæð,
- vinhlýja sægirta Ey.
- Eflist hér byggð og bú,
- Með blómum í laufgrænni laut
- og ljómandi söngfugla kliðinn,
- árshringinn árla og síð
- Eybúum skemmtun, sem ljær.
- Með blómum í laufgrænni laut
- Þú ert svo fögur og fríð
- með fjöllin og hnjúkana græna,
- að allir, sem augum þig sjá,
- óska, að þú dafnir sem best.
- Þú ert svo fögur og fríð
- Vér horfum á hátíðarstund
- á hátignarkórónu þína,
- og óskum, að gefi þér guð
- gengi um eilífa tíð.
- Vér horfum á hátíðarstund
- Það skal vort einkunnarorð
- á meðan Eyjarnar standa,
- umgirtar ólgandi sæ,
- og ómar þeim brimið við strönd.
- (Höf. ókunnur, en sennilega G.E.).
- Það skal vort einkunnarorð
- Þjóðminningardagur 1915
- (Þjóðhátíðarkvæði árið 1915)
Kvæði þetta mun vera ort af Gísla sál. Engilbertssyni og mun það nú í fárra höndum.
Það á við allra tíma þjóðhátíðir, eins 1949 sem 1915, gullfallegt að efni, hugsun og gerð
og fannst mér þess vegna rétt að koma því fyrir almenningssjónir á ný. Á.Á.
- Vér, sem búum heims á hala,
- höldum tryggð við feðramál,
- elskum Frón með dætrum dala
- drenglund, sem að göfgar sál.
- Lifa þarf í allra æðum
- eldheitt frelsis hetju blóð.
- Brautir manndóms, mennta þræðum
- magnist líf í kærleiks glóð.
- Björgin óma af endurminning
- Ísafoldar þennan dag.
- Það á skylt við þjóðarminning
- þarfir láðs og niðja hag.
- Lítum fram og líka aftur,
- land vort reyndi marga þraut.
- Fjörgi blóð vort frelsiskraftur,
- fjölgi líf á sigurbraut.
- Ef vér réttinn eigum forna,
- ei má þjóðin hika spor.
- Móti beittum broddum sporna,
- burt með hálfvolgt sannleiks þor.
- Ráðum bót á brýnum þörfum,
- byggjum landið skynsemd með.
- Hlynnum vel að Íslands örfum,
- andans þroski stilli geð.
- Milli fjalla og fiskimiða
- félagsanda strengjum band.
- Fylgjum vel þeim fyrirliða
- feðra, sem að elskar land,
- sem í orðum eins á borðum
- eflir, styrkir þjóðarhag.
- Sannleiksást í sæti skorðum
- sæmdar til hvern ævidag.
- Fagurt aldrei niður níðum,
- náttúrunnar hjálpum hönd.
- Tún og grundir grösum prýðum,
- græðum út og ræktum lönd.
- Móðurlandsins blómin bliki,
- beri vott um þrek og dáð.
- Sjómenn eins á sæmdarstriki
- safni gulli, prýði láð.
- Herjólfsdalur
- Lag: Eldgamla Ísafold...
- Hingað í Herjólfsdal,
- háfjöllum gyrtum sal,
- safnast nú sjöt (les sjót).
- Blátær lind brosir við,
- blómhlíðin árnar frið
- fögrum með fuglaklið.
- Fagnar hal, snót.
- Glitra í geislum fjöll,
- gullroða slær um völl,
- sól gyllir sæ.
- Hér blundar hjörðin rótt
- heiðskæra sumarnótt.
- Skriðuhlaup forðum fljótt
- faldi hér bæ.
- Eitt sat þá úti sprund,
- ítum gaf vatn í mund,
- fannst það hugfró.
- Herjólfs er hrundi bær,
- hrafn kom að dyrum nær,
- feigð til að forða mær
- flaug burt með skó.
- Frjálsborna feðraþjóð
- frægar með sögur, ljóð,
- dáleidd ei dó.
- Blóð rennur æðum í,
- er frelsis sól á ný
- rís upp og roðar ský,
- reifar land sjó.
- Afskipta enginn sér
- íta, sem byggðu hér,
- dug, þreki, dáð.
- Fram með allt fagurt, þarft,
- friðarins klætt í skart,
- af því svo ótal margt
- enn skortir það.
- Ítar með afl í mund
- oft lifa glaða stund,
- kappróður kljá.
- Í festi fara þeir
- forðum sem Skorargeir.
- fjölmargur fugl oft deyr,
- fellur í sjá.
- Hér sjást mörg hugljúf fljóð.
- Höldar í glímumóð
- fráum með fót
- geisast um grænan völl,
- glymur í klettahöll,
- hlustar á hlátrasköll
- hárfögur snót.
- Fjólugræn ofar öll
- eru þín skikkjuföll,
- heiðskýr hafmær.
- Þú fæðir hal og hrund,
- hjúkrar á marga lund,
- sólfaðir signdu grund,
- sem oss er kær.
- Fylgi í framtíð þér
- friður, sem gott af sker,
- tryggð, laus við tál.
- Vaki í vorri byggð
- virðing í hreinni dyggð.
- Við allskyns last og lygð
- losist hver sál.
- Falli burt frelsishaft
- (Kvenfélagið Líkn)
- Falli burt frelsishaft
- fyrir jafnréttis kraft,
- drenglund og dáð,
- aldanna sendan dóm
- upp rísa kvennablóm.
- Líknin ei lækkar róm,
- leggur góð ráð.
- Allir vér óskum þess
- að kvenþjóð frjáls og hress,
- friðsöm og fríð,
- oss standi hög við hönd,
- helg flétti líknar bönd
- sól meðan sæ og lönd
- sveipuð fær blíð.
- Líknin er guðleg gjöf
- græðir um lönd og höf
- margskonar mein.
- Sjónarhóll hjartað er,
- hún þaðan kaunin sér,
- smyrslin í brjósti ber,
- blíð stöðvar kvein.
- Líknin er lífsins sól,
- ljómar upp foldar ból
- geislanna glóð.
- Margar í móðurást
- myndir guðs líknar sjást,
- af sem að eigi mást,
- eiga þær fljóð.
- Líknin með listahönd
- leggur sín græði-bönd
- mannlífs á mein.
- Reisir við fallinn fót,
- faðminn þeim breiðir mót,
- sem vantar björg og bót,
- byrgja þó kvein.
- Líknin með líf og fjör
- lifi við frelsis kjör
- ey vorri á.
- Verum í verki með,
- vantar oft konur féð
- sjúkum að búa beð,
- bæja neyð frá
- Kvenfélags kærleiks starf.
- Konur hér fá í arf
- heiður og hrós.
- Ráðsnjöllum runnið frá
- raungóðri hugsun á.
- Lífsblóm vor læknir sá
- líknar á rós.
- Heillaósk
- Magnús Þórðarson og Guðríður Bjarnadóttir.
- (Magnús var síðari maður Guðríðar. Fyrri maður hennar var
- Guðjón Jónsson formaður, hafnsögumaður og sýslunefndarmaður.
- Hann fórst 1906 við störf sín). (Heimaslóð).
- Það vilja flestir finna ró
- og frið í raunum vöndum
- og leiddir vera um land og sjó
- af láns og vina höndum.
- Og fár vill eftir augnablik,
- að ástir slíti fundum
- og trúskap eyði tál og svik
- sem truflar frið á grundum.
- Það vill þá ást, sem ekki er tál
- en á sér djúpar rætur,
- er girnist tengja sál við sál
- á sorgum vinna bætur.
- Og hér vill ástin sæti sitt
- í særðu brjósti taka
- og gleðin, sem fær stundir stytt
- með styrk hins unga maka.
- Sem fram vill ganga í föður stað
- og fleiru miðla en bitum,
- með ást, sem skrifar efst á blað
- eg ei vil skipta litum.
- En vér með ást og ekkert tál
- á öllu viljum taka,
- að helga þeirra hjóna skál
- og heilla óskir baka.
- Að gæfan hjóna blessi braut
- og brjóstum að þeim snúi,
- svo falli í þeirra forða skaut
- af fiskum aragrúi.
- Svo aldrei bresti búið neitt
- en blessun fylgi auði,
- og hjónin séu ætíð eitt,
- ei annað skilji en dauði.
- Jól
- Drottins náðar sala sól
- sendir mönnum heims um ból,
- friðargeisla fögur jól
- frá guðs kærleiks tignarstól.
- Þessi lífs og ljóssins sýn
- lýsi öllum guð til þín
- vegin, uns að dagur dvín,
- dauðann bak við röðull skín.
- Kveðja til hjónanna Jóhanns P. Bjarnasen og
- konu hans Margrétar Þorsteinsdóttur
- 26. ágúst 1900
- Vér sjáum nú, að sólargangur lækkar
- og sumarblómum óðum líka fækkar,
- að fuglar burtu fljúga
- með fjaðragullið skraut
- og loftið gegnum líða
- á ljósri vinda braut.
- Fram við sjá fastir vér þá stöndum,
- horfum á hafið girt að löndum,
- horfum á.
- Kveðja til hjónanna Jóhanns P. Bjarnasen og
- Vér söknum þess, að fugli og blómum fækkar
- og fögur sólin göngu sína lækkar.
- En þegar vinum vorum
- er varpað sætum úr,
- þá er sem óholl dynji
- oss yfir krapaskúr.
- Opnast þá ár og liðnar stundir,
- allir sjá unaðs strjálna fundir,
- allir sjá.
- Sem fugl með ungum fer úr grænum hlíðum
- eins fara hjón af æskustöðvum blíðum
- með börn á bernskuárum,
- sem brjóstin móður við
- æ sáu sól í heiði,
- og sungu ljóss í frið.
- Biðjum guð blessa mann og konu,
- biðjum guð blessa dætur, sonu,
- biðjum guð.
- Og hver mun sá að sakna nú ei megi,
- er samleið áttu hjónum með á vegi.
- Því minnumst þeirra og munum
- á meðan varmt er blóð,
- þótt endi öl á könnum,
- og óskum framtíð góð.
- Leyfi þeim lífsins góða njóta,
- leyfi þeim lánið barna hljóta,
- leyfi þeim.
- Nú endurteknar óskir vorar hljómi
- með ást og virðing, þakkar blíðum rómi,
- því viljinn var svo góður
- og viðmót blítt og kátt,
- og rausn í hjóna ranni
- menn reyndu á margan hátt.
- Út á við augum líknar renndu,
- út á við einatt gjafir sendu,
- út á við.
- Þar gleðin skín nú glatt í vorum hjörtum,
- svo gerist nótt að sólskinsdegi björtum,
- en bros á kinnum blika,
- er blómstra út frá sól,
- þá látum hendur hefja
- upp heiðursgesta skál.
- Glaðir hér gamlan vinskap yngjum,
- glaðir hér glösum saman klingjum,
- glaðir hér.
- Eitt sinn í afmælishófi Þorsteins læknis Jónssonar
- Þá sólroðin skýin við sjóndeildarhring
- vér sjáum með ljósbrosin hýru,
- og vindarnir halda sín vorblíðu þing
- á veggsvölum Demeter skýru,
- þá varpar sér andinn af vetrarins skör
- í vonarfaðm sumarsins skjótur sem ör.
- Ó, fagurt er sumar í sólgylltum hjúp
- með sólhýru brosin á kinnum,
- en nú er það vetrarins dýrðþrungið djúp
- í draumum og vökum, er sinnum,
- og ljósöldu brimið það lyftir upp sál,
- en leiftur og eldingar tala guðs mál.
- En nær sem er andkalt, þá finnum vér frið
- og frelsi í hýbýlum inni,
- og höllumst að vinanna vermandi hlið,
- þars velferðar drukkið er minni,
- og sjáum oft tryggða ósvikulu bönd
- við sólstafi festa nær gleðinnar hönd.
- Þótt vorið sé horfið með laufgrænan lund,
- samt lesum ei forlaga rúnir.
- Við erum hér staddir á afmælisfund
- með upphafðar glaðlegar brúnir.
- við etum og drekkum, en allt, sem er veitt,
- álítur gestrisnin sé ekki neitt.
- En einungis samt er það ei vegna þess,
- vér óskum að Þorsteinn vor lengi
- með frú sinni og ástvinum heilbrigður, hress,
- haldist í auðnunnar gengi,
- og ráðin oss gefi frá hygginda hæð,
- því hér vantar blóðkorn í framfara æð.
- Til stúlku ...
- Þú yfirgefur æskublóma haga
- og eitt sinn lokast foreldranna skaut.
- Þú átt ei víst um alla þína daga
- að ávallt gangir rósum stráða braut.
- Ef studd ert þú af sterkum vinararmi,
- er stefnir rétt og leitar móti straum,
- þeim vin, sem leggur brjóst þitt sér að barmi
- í blíðu og stríðu, vöku jafnt sem draum.
- 1905
- Horfir nú hættan við,
- harsnúið stjórnarlið
- bönd að oss ber.
- Upp með þig Íslands þjóð,
- áður en kólnar blóð,
- frelsis ei farga sjóð
- fenginn sem er.
- Minni kvenna
- Á Þjóðhátíð 12. ágúst 1905
- Lag: Ó, þá náð að eiga Jesúm
- Gleðljós og gæfuboði
- guðhrædd kona reynist oss,
- árdagssól og aftanroði
- ung og gömul mannsins hnoss.
- Friðarbogi um börn og maka,
- bros og tár á óskastund,
- gætin vill til greina taka
- glöð, þótt missi væran blund.
- Fögur sól og friðsöm kona
- ferðamanna lýsa braut,
- ljóma meðal landsins sona,
- leggja græðiblóm við þraut.
- Báðar mörgu böli eyða,
- báðar vinna kraftaverk
- Eins og systur líf framleiða,
- ljær þeim máttinn hönd guðs sterk.
- Konur með oss bagga búa,
- bera þolnar hlutinn sinn.
- Veikri æsku þær að hlúa
- oft með bros og tár á kinn.
- Von og gleði, missir, mæða
- mörgum sinnum skiptist á.
- Móðurástin oft má þræða
- allt það gagn með sigurþrá.
- Aukum kvenna andlegt frelsi,
- eflum þeirra sældarhag.
- Þrífum burtu þrældóms helsi,
- þær svo líti bjartan dag.
- Þar sem menntagyðjan glaða
- glæðir viskuljósin þrátt,
- lofum þeim með hugann hraða
- hefja flug í lærdóms átt.
- Árnum heilla öllum konum,
- auga gefum þeirra hag.
- Gleymum ei, þær safna sonum
- seint og árla, nótt og dag,
- eins og fluglinn ungum sínum
- undir hlýja vængi sér.
- Enginn fær í lausum línum
- lýst, hvað móðurhjartað ber.
- Brúðkaupskvæði dætra höfundar 14. október 1905
- Þær Katrín Gísladóttir og Guðfinna Gísladóttir giftu sig 1905,
- en Elínborg hafði gifst 1903. (Heimaslóð).
- Þó að hausti og halli degi,
- hverfi blómin, lækki sól,
- ástin helg á vonar vegi
- vakir lífs í burðarstól.
- Hún með blómstur haust og vetur
- hjörtun undir framtíð býr.
- Sínar listir sýnt oss getur
- saklaus gegnum brosin hýr.
- Hamingjan þeim áfram aki
- ávallt glöðum lífs á braut.
- Standi ei sem Björn að baki
- brjóstum á, ef skellur þraut.
- Sendi þeim úr sælu lindum
- sigurgjafa höndin sterk
- svaladrykk í sól og vindum
- sín þá skyldu vinna verk.
- Brúðhjón tvenn í vonarveldi
- vinum brosa mót í kvöld.
- Vermd af kærleiks ástareldi,
- er í brjóstum hefir völd.
- Hann þar bjartur haldi sæti,
- hjörtum veiti ró og frið,
- eins þá hallar undan fæti
- ævibrautin niðurávið.
- Þegar börn sem blóm á greinum
- brosa gegnum saklaus tár,
- móðurást í huga hreinum
- hugsar um þau daga og ár.
- Hana blessi, henni svali
- himnesk barnavinar náð,
- styrki hjónin, upp svo ali
- afkvæmin með helgri dáð.
- Halldór og Guðfinna (við sama tækifæri)
(Halldór Guðmundsson raffræðingur og Guðfinna Gísladóttir Engilbertssonar). (Heimaslóð).
- Lag: Þið þekkið fold
- Er Hafnarslóðum hugðu frá
- og hingað stafni beita,
- og líkt sem fugl með ferðaþrá
- að fornum stöðvum leita,
- þá brosti ást í böndum klökk
- á bjartri vinarstundu,
- sem færa ljóssins föðurþökk
- að feðra litu grundu.
- En samt ei héldu í sömu átt,
- þótt saman fundum beri,
- en geymdu tryggð, sem hafði ei hátt
- og hvorugt braut á skeri.
- Með ást og von frá óskastund
- þau aftur sjást nú heima,
- að sækja hingað helgan fund
- og hans svo minning geyma.
- Þau vilja tryggða binda bönd
- við blómland feðra sinna,
- og drottinn gaf þeim haga hönd
- og hugvitsgagn að vinna .
- En hjónin vantar enn þá auð
- þótt afl sé nóg í fossum,
- sem gæti úr steinum bakað brauð
- og bjargað gullnum hnossum.
- En samt er auður ei það mið,
- sem alla farsæld veitir,
- þótt mörgum sínum leggi lið,
- er lífsbaráttan þreytir.
- Við óskum því, að eining, tryggð
- um ævi hjónin leiði.
- Á vegum blómstri dáð og dyggð
- og drottinn stýri skeiði.
- Til hjóna
Vonarglöð hjón, | Bjartsýnu hjón, | |
elskunnar afl hafa fundið, | sólina sjá milli skýja, | |
auðnum ei hjörtu sín bundið, | senda út geislana hlýja, | |
vonarglöð hjón. | bjartsýnu hjón. |
Sólnanna guð, | Gleðinnar sól, | |
geisla með gleðina sendir, | skúrum og skuggunum eyði, | |
geislinn á skaparann bendir, | skínandi ávallt í heiði, | |
sólnanna guð. | gleðinnar sól. |
Ástkæru hjón, | Nýgiftu hjón, | |
trústjarna veg ykkur vísi, | árvökur iðjið og biðjið, | |
vonstjörnur fram undan lýsi, | ykkur við kærleikann styðjið, | |
gleðjandi sjón. | nýgiftu hjón. |
Friðbundin hjón, | Brosandi hjón, | |
leiðist um bugðóttar brautir, | bindið með böndunum tryggða | |
bugast ei látið við þrautir, | blómhringi úr rósunum dyggða, | |
elskandi hjón. | fegursta sjón. |
Barnanna lán, | Föðurlands ást, | |
búið þið börn ykkar undir, | friðarins frækornum safni, | |
blómstrandi framtíðarstundir, | frelsið svo blómgist og dafni, | |
ættjarðarlán. | framfara ást. |
- Hjónabands ást,
- lifi með dugnaði og dáðum,
- drenglyndi og velsæmis ráðum,
- Guðborin ást.
- Til Þorsteins læknis Jónssonar 21. október 1905,
- er hann hafði starfað 40 ár að heill og hagsæld eyjabúa.
- Kvæðið sungið í samsæti, er honum var þá haldið.
- Til Þorsteins læknis Jónssonar 21. október 1905,
- Lag: Þú vorgyðjan svífur...
- Með hreinskilna fjörsál og föðurlandsást
- um fjórar var tugina ára,
- í framkvæmdum vakandi, og vinum ei brást
- og vann mest að græðslunni sára.
- Hann sókndjarfur reyndist í sérhverri þraut
- og sæmd fyrir dugnað af konungi hlaut.
- Sá enginn fyrr læknir á eyjunni var,
- sem eins mörgum liðsinni veitti,
- og fátækra jafnþunga byrðina bar
- og bjargráða meðala neytti.
- Hann bjó svo í haginn, að börn yrðu menn,
- og bera hér eyjarnar menjar þess enn.
- Hann gekk þrátt á undan með andlegum dug,
- en aldrei þó vélráðum beitti.
- Nú slíðrar hann vopnin með heilbrigðum hug,
- til heilla oss vitsmuna neytti.
- Og fjörið og kjarkurinn kvað oft við raust,
- þótt kappanum stýri nú aldur í naust.
- Hann glaður og frjálslyndur gengur sitt skeið
- og gleður oss fróðleiks með orðum.
- Af baktali aldrei hér yfir hann leið,
- svo enn þá ber höfuð í skorðum.
- Til heiðursgests drekkum því hamingju skál
- og heilræðin þökkum, er veglynd gaf sál.
- Því vér það glöggt finnum, hann vann oss í hag,
- og viljum þess minnast, og biðja,
- að alvaldur blessi hann dag eftir dag
- og dauðann í gegn nái styðja.
- En nafnið hans bergmáli fjöllin vor fríð
- og flytji það langt inn í ókomna tíð.
- Tryggðin
- Þegar tryggð er heil og hrein,
- hún er ekki í förum sein,
- grípur oft úr götu stein,
- græðir ótal vina mein.
- Fram í veginn friðgjörn sér,
- fyrirsást þá búin er,
- einbeitt sína vini ver,
- voða nær að höndum ber.
- Vamm ei tryggðin vita kann,
- vina slæðist inn í rann.
- Holl ráð gefur æ þeim ann,
- áður falli þeir í bann.
- Tryggðin styður stórt og smátt,
- styrkir félagsböndin þrátt,
- Fyndist hún í allra átt,
- eflaust mundi vanta fátt.
- Tryggðin hrein, ef heldur sér,
- á höndum aðrar dyggðir ber.
- Sofni hún, þá sjáum vér
- synd á hæla komin er.
- Vísa skorin á bitafjöl
- Frið leiði friður,
- farsæld og gæfa
- haldist í hendur,
- höpp úr sæ fanga .
- ráð, dáð og dugur
- drottins í nafni.
- 4. Ádeilukvæði
- Án heitis
- Kaupa villtir súra saft,
- sómann trylltir skerða.
- Staupafylltir kyngikraft
- karlar spilltir verða.
- Hæða vini, traðka tryggð,
- trufla friðinn mæta.
- Slæða niður dáð og dyggð,
- dómum þungum sæta.
- Vegna staupa lækkar lán,
- losna heilsu-böndin.
- Þegna virðing smittar smán
- smígur gegnum löndin.