Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Kvæði eftir Gísla Engilbertsson, III. hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
5. Minningar- og saknaðarljóð


Jón Einarsson frá Garðsstöðum,
dáinn í október 1906 á Eiðinu,
af sjálfdáðum.
Þótt ei sjúkur sýndist Jón
sálin liðið hefur.
Er því horfin ítasjón
undir bárum sefur.


Meðan gékk hann lífs á leið
lék æ bros á vörum
endað hefir æviskeið
undir breyttum kjörum.


Hjartað lamað, sálin særð,
sundurkraminn andi.
Hafði litla von um værð
varð það lífs að grandi.


Allra færi ekki mun
anda manns að skilja
eða renna í það grun
einn, sem hyggst að dylja.


Sorg er vakin, saknað manns,
sem að hvarf í skyndi.
Titrar öldruð ekkjan hans
eins og strá í vindi.


Hún með trúar sjái sjón
sólar guðs í tjaldi.
Náðin ekki nafnið Jón
nemur lífs af spjaldi.


Ofar skýjum inn í höfn
andann náðin leiðir.
Aldrei sundlétt sál í dröfn
sinni guðs mynd eyðir.


Jón vorn studdi heilla hag
hollur félagsmaður.
Hafði vinsælt lundarlag
lipur, hýr og glaður.


Sjós og hamra hægum við
hugur glaðvær brosti.
Unni jafnan félagsfrið
fleiri hafði kosti.


Allir stara eftir þér
Eyja góðir synir.
Sárast leikið eflaust er
ekkjan, dætur, vinir.


Jórunn Jónsdóttir Austmann
dáin fyrsta vetrardag 1906, 86 ára gömul.
Jórunn var dóttir presthjónanna á Ofanleiti, sr. Jóns Austmann
og Þórdísar Magnúsdóttur húsfreyju.
Hún var tvígift. Fyrri maður hennar var Jón Salómonsen í OttahúsI,
en síðari maður hennar var Engilbert Engilbertsson í Jómsborg,
bróðir Gísla höfundar ljóðsins.
Lífið er endað með störf sín og stríð,
strengleikar sorgar og gleði
óma nú saman í eyrum á lýð
ekkjunnar grafar hjá beði.
Opin gröf virðist ei æskunni þekk,
ellinni sýnist hún betri.
Lof sé nú guði að lausn Jórunn fékk
lífsins frá hrímköldum vetri.


Stríðshetjudauðinn loks stöðvaði gang,
stríðshetja var hún til enda.
Átti við sorgir og andstreymi fang,
uns í höfn friðar nam lenda.
Vonin og trúin með tryggðum og ást
trúlega æ henni fylgdi.
Ættrækin, vinunum aldrei hún brást,
uns við heim reynslunnar skyldi.


Brostið er hjartað og biluð er vörn,
burtvikinn leiðtoginn góður
annarra lengi, sem annaðist börn,
allt eins og tryggasta móðir.
Mannorðið lifir, þótt fallinn sé frá
frækornum dyggða hún sáði.
Fullþroska ávexti fær nú að sjá
friðar á blómstrandi láði.


Vetrardag fyrsta hún enti sín ár,
andinn um bústaði skipti.
Líknin, sem græðir öll sorganna sár,
sál upp í hæðirnar lyfti.
Vina í faðminum ferskan við þrótt
fyrir oss hópinn nú býður
góðan dag sérhverjum gef þú og nótt,
guðs náð og himneski friður.


Gísli kaupmaður Stefánsson
fæddur 28. ágúst 1842, dáinn 25. september 1903 í Reykjavík,
fluttur á land í Eyjum 4. október sama ár.
Vegi guðs vont er skilja
virðum á foldu.
Finnst mörgum helnauð að hylja
holdið í jörðu.


Enginn kann feigum að forða
frömuður lista.
Þess vegna báts innan borða
blasti við kista.


Kistan er gjör handa Gísla,
gat þá að líta.
Sviplegan flutning við sísla
sorgmædda íta.


Vel upp sinn verkahring byggði,
varði hann skörðum.
Engan af ásetning styggði,
ástsæll í fjörðum.


Sjóprýðis ferill var fagur,
fór sjaldan villtur.
Híbýlaprúður og hagur,
hygginn og stilltur.


Eyjan, ef ætti hans jafna
einn af tug hverjum,
friðsemin fengi að dafna
fráskilin erjum.


Einatt menn sambúðar sakna,
sorg vill ónáða.
Oft náir að holdið slakna
öryggisráða.


Sonum og dætrum nú svíða
sárin í hjörtum.
Ekkjan má angruð hér bíða
eftir dag björtum.


Dyggðanna dæmin úr heimi
dauðinn ei tekur,
en að menn ávallt þau geymi
örvar og vekur.


Lærum af reynslunni ráðin
raun ef oss mætir.
Framsýni frelsið og dáðin
flest mótdrægt bætir. .


Ljóssins til himneskra hæða
huganum snúum.
Ástvinar enduð er mæða,
ódauðleik trúum.


Föst trú og frjálsborinn andi
frá moldarleiði
sér glöggt á samfundalandi
sól skín í heiði


Kveðjum þanna dána ódauða
dæmin hans munum,
skýlum, að skarðinu auða
skapadóm unum.


Eftir ungbarn
Flaug burtu önd af straumaströnd,
stefnu tók ofar sólar rönd.
Komin er guðs við hægri hönd,
haldið ei gátu jarnesk bönd.


Hátignar guðs við höfuðból,
heldur barns sálin eilíf jól.
Fagnar hún þar á fræðslu stól,
föður og sonar náðar sól.


Vegir guðs eru vísdóms ráð,
vel fer þeim hans, er treysta náð.
Dauðans úr hafi lífs á láð,
líður upp sál á kærleiks þráð.


Eftir barnið Þórarinn Einarsson frá Norðurgarði, f. 1900, d. 1903.
Foreldrar hans voru Árný Einarsdóttir húsfreyja og Einar Jónsson bóndi). (Heimaslóð).
Blómknappur borinn
burt úr garði,
fallin í foldu
fyrr en varði.
Vér blómanna söknum, er sofna um haust,
en sjáum á vorin og reynum
að ei þarf að dvína vort ódauðleiks traust,
þá aftur þeim fjölgar á greinum.
Það minnir oss ætíð á æskunnar rós,
er útspringur lífsins á vori,
og fölnar, en eftirá fagurt skín ljós
svo fram kemst hann dauðans úr spori.


Þá dauðans er sopið úr sárkaldri skál,
ei sorgunum hægt er að varna,
þótt trúum, að englarnir svífi með sál
í samfélagi útvaldra barna
og haldi í guðs dýrðar heimkynnum jól
við hásæti skaparans bjarta,
er skín ofar stjörnum og skammdegis sól,
þess skulum vér minnast af hjarta.


Og lofa þann guð, sem að börnin vor blíð
úr böndunum sjúkdóma greiðir,
sem fóstrar þau upp og fríar við stríð
og faðminn á móti þeim breiðir,
sem kallar oss eitt sinn í kærleikans lund
og kennir oss vonglöðum þreyja,
uns ástvina náum vér ódauðleiks fund,
þars ábati reynist að deyja.


Kristín Jónsdóttir frá Miðhúsum,
dáin 21. desember 1903.

Kristín var fyrst gift Einari Guðmunssyni bónda á Steinsstöðum. Hann hrapaði í Hamrinum 1858. Dóttir þeirra var Ástríður Einarsdóttir húsfreyja á Löndum, móðir Kristins Sigurðssonar þar.
Kristín giftist síðar Ingvari Ólafssyni bónda á Steinsstöðum, síðar á Miðhúsum. Þau voru foreldrar Ólafs Ingvarssonar sjómanns og verkamanns á Miðhúsum. (Heimaslóð).

Svifin er glaðlynd sál til hæða
sefur nú þreytta holdið vært.
Ei duldist henni örðug mæða,
ætíð þó sá hún loga skært
ljósið í ódauðleikans borg
leiðarvísir í gegnum sorg.


Ástvinir henni lífið létu
löngu fyrr en hún skildi við.
Hjálpfúsa arma út þeir réttu
einnig nágrannar veittu lið.
Ævikvöl rósamt átti því,
uns flaug í gegnum duðans ský.


Himinglöð dýrðar heldur jólin
hún, þar sem vísdóms skína ljós.
Lýsandi náðar sannleikssólin
sérhverja vermir dyggða rós.
Ávöxt á himnum hún svo ber,
hávaxin þótt ei sýnist hér.


Vinir þér krans og kveðju senda
köldum þars nábeð hvílir á,
gleðjast, að stríð þitt er á enda,
öndin léttfleyga guði hjá.
Ungum oss sýndir atlot blíð,
enn er ei gleymd sú horfna tíð.


Húsfrú Þórunn Þorsteinsdóttir frá Hrauni
dáin í marz 1903.

Þórunn var fyrri kona Jóns Einarssonar á Hrauni, en þau voru foreldrar Þorsteins í Láufási og Sigrúnar Jónsdóttur húsfreyju á Melstað.

Henni varð aldur ekki að grandi,
yngri þó margur kveður heim.
Friðarins engill lífs frá landi
leið burt með sál um dýrðargeim,
þangað sem eilíf blika blóm
og blíðasta náðin heldur dóm.


Föður sinn ung frá móður missti
með hans líf elding burtu fló.
steinlostinn son hún síðar gisti
sofandi helgri grafar ró.
hugrekki sýndi hels við raun,
hefir nú fengið trúrra laun.


Þolinmóð gegnum strauminn stríða
steig rósöm lífsins hinsta spor.
Hana guðs ótti gjörði prýða
gaf trúin henni stilling, þor
sorgirnar gegnum ljóss á land
liggja sá eilíft tryggðaband.


Héðan hún burtu fer í friði,
föðurland kveður vini og hús.
Í stöðu sinni ei lá á liði,
lífsstörfum gegndi iðju fús.
Ódauðleiks vefja örmum tveim
ástvinir hana, ljóss í heim.


Veldur því ást, að ekkill grætur
ásamt með börnum nú við gröf,
en samt hugfallast ekki lætur
eftir þó sé og mæti töf.
þeir sem að bíða fagnað fá
frelsinu síðar hæðum á.


Ólafur Magnússon frá London
fæddur 1829, dáinn í marzmánuði 1904.
Leið burt ljúfmenni
ljóssins til stranda
andans þrátt áður
undragegn heima
farfugl fljótar
flugu hugmyndir.


Greindur og gætinn
gegndi lífs skyldum,
þrautseigur þéttur
þíður friðvinur,
starfsamur stilltur
stýrði þrátt fleyi.


Hættum mót horfði
hugrakkur glaður,
æðruorð eigi
af munni liðu,
sorg nær að sökkti,
sýndi glöggt þrekið.


Varðist með vopnum
vonar og trúar.
Hélt ávallt hólmi,
högg stór þótt fengi.
Sál ofar sólu
sigurinn hlýtur.


Vinarkveðjur vinum frá
veldi sólna gegnum há
borist honum ljóss með lá
lífs og friðar ströndu á.


Frú Matthildur Magnúsdóttir
fædd 6. janúar 1833, d. 5. marz 1904.
Matthildur var kona Þorsteins Jónssonar læknis.
Beinskeyttur dauði gekk að garði,
gat enginn fyrir honum læst.
Veitt´i henni fjörtjón fyrr en varði,
færði þeim sorg er standa næst
hryggur er makinn, hnípin börn,
höndin mjúk stirðnuð þrotin vörn.


Þess ber að minnast, þótt sé liðin,
þörfunum sinnti laus við prjál.
Hjartað var trúfast, höndin iðin,
hreinskilin, blíð og viðkvæm sál.
Glaðvær og fjörug, frjáls og djörf
fann glöggskyggn manns og barna þörf.


Sigin er lífsins sól í æginn,
sálin er flogin bak við ský
guðs náðar ljóma ljósan daginn
líður hún dýrðar bústað í.
þar finnst sú hönd, sem þerrar tár,
þekkir sín börn og græðir sár.


Þar uppsker hún er áður sáði,
ávextir spretta af trúar rót.
Dyggðirnar blómstra lífs á láði,
ljóskrónur brosa henni mót.
Hlustar nú guði helguð sál,
himnesk á dýrðar tungu mál.


Þar býr hún frí við elli ama,
áhyggjur, sorg og heilsubrest.
Framar kann ekkert fjörið lama,
fagna útvaldir nýjum gest.
Hér skilja leiðir svo um sinn.
Sendu guð, ljós í hjörtun inn.


R.N. Finsen

Niels Ryberg Hannesson Finsen læknir og Nóbelsverðlaunahafi í læknisfræði 1903, fæddur 15. desember 1860 í Færeyjum, dáinn 24. september 1904 í Kaupmannahöfn.
Hann var af íslenskum og dönskum ættum.
Niels Finsen gerði uppgötvanir á jákvæðum áhrifum sólargeisla á mannslíkamann og var brautryðjandi í ljósalækningum. (Heimaslóð).

Sól í sólgeislum
sá að var hulið
milljónum manna
mörg þúsund aldir
voða mót veiki
verndar stór kraftur
sól um fold flytur
fregn í árbækur.


Vann gagn vísindum
vilji ljónsterkur
ókomnar aldir
æ munu njóta
þess er sól sáði
sólar úr ljósi
ljómandi lýsi
legstað hans, geislar.


Eftir barn
Uppeldisskyldan af er tekin
öllum, sem missa börnin smá.
Hún er af mönnum misjafnt rekin,
mörg eru sker er strandar á.
Fár veit því, hverju fagna ber,
framtíð ungbarna dylst oss hér.


Ungum svein barnavinur valdi
vistina ljóssins hæðum í.
Andvörpin hans og tárin taldi,
tók hann svo gegnum dauðans ský.
Ljóssins með börnum leikur sál,
lærir þar himneskt tungumál.


Fræðslu í helgum friðar runni
fær sálin veldisstóli hjá.
Saklaus á engla situr brunni,
sælunnar straumi nærist á.
Foreldraskyldan fellur burt,
frelsarinn vökvar unga jurt.


Finale:
Horf þú til hæða,
harmþrungna móðir.
Sorg gegnum sjáðu,
sonur þinn lifir.


Eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur húsfreyju,
seinni konu Guðmundar vitavarðar í Batavíu
Sorg í lágum sölum vakir,
sefur lík á kistufjöl,
ekki fyrir elli sakir,
endað hefir jarðlífs dvöl.
Æskan, gleðin, þrá og þrautir,
þetta reynast mannsins brautir.


Þín er enduð þraut og mæða,
þér gaf dauðinn heilsubót,
sálin flogin hátt til hæða
haltan sér ei átti fót.
Hún á lífsins vegum vöndum
von og trúna spennti höndum.


Góðlynd, iðin glatt með sinni,
gegndi köllun hels að stund.
Vakir sorg í vina minni,
varir þar til hennar fund
aftur ná, þars ávöxt tryggða
upp hún sker af sáning dyggða.


Huggast láti mæddur maki,
minnist þess hún lifði vel.
Langa á hann leið að baki,
líður tíminn nálgast Hel.
Hann þá aftur hittir svanna
höll í studdur ljóssins ranna.


Börnin móðir gráta góða
grafar stödd við kaldan beð.
Einnig sjá má aðra hljóða,
öllum drottinn veri með.
Náðarsólin sorgum eyði,
sunnu-geislar prýði leiði.


Bjarni og Jón Einarssynir kveðja látna móður
Ingibjörgu Jónsdóttur frá Ysta-Skála, er lést í júní 1906.
Þú sást oft að dauðinn stóð sængina við,
er sjúkdóms þú hvíldir í böndum.
Þú trúðir á eilífan fögnuð og frið
og fullkomnun ljóssins með öndum.
Nú rann upp sá dagur í ódauðleiks átt
við altari guðdómsins bjarta,
að nýrra til athafna andinn fær mátt,
og ávextir dyggðanna skarta.


Við kveðjum þig móðir gegn titrandi tár
og trúfasta umhyggju þökkum.
Þú barst oss á höndunum æskunnar ár,
þess æ minnumst huga með klökkum,
uns drekka hér náum vér dauðans af skál
og dýrðklædda aftur þig finnum,
þars ódauðleiks blómunum sveipast þín sál
í sólar guðs björtu heimkynnum.


Ekkjan Guðrún Ólafsdóttir
Nú er þín ævin á enda,
ei heyrðist stuna.
Gott er þér lúinni að lenda
í ljóss höfn, þars una
elskandi ástkærir vinir,
er við þér taka.
Sér þú, að svo koma hinir,
sem hér enn vaka.


Sér þú frá sólbjörtum hæðum
sorgblandin gleði
vinanna ólgar í æðum
yfir nábeði
þakklátir þér kveðju senda,
þín vilja minnast,
vitandi ævi við enda
ástvinir finnast.

IV. hluti

Til baka