Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Úteyjahóf

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search




Úr fórum Árna Árnasonar


Úteyjahóf


Sá hefur verið háttur úteyjamanna, um langan aldur, að gera sér glaðan dag, eftir að úthaldi lýkur. Ákveðin hefð skapaðist fyrir því samkomuhaldi, sem hefur haldist allt fram til okkar daga, en lundaballið er arftaki úteyjahófsins, sem haldið var að hausti, þegar úteyjamenn blésu til samfagnaðar.
Ekki er með vissu vitað, hvenær úteyjahófin urðu skipulagðar samkomur, með borðhaldi, skemmtidagskrá og dansi. En í blaðinu Fylki, 19. október 1951, ári áður en Félag bjargveiðimanna var stofnað, er greinargóð lýsing á hófi ársins 1951. Sá sem þar segir frá skrifar stafina A.H.J. undir og ekki með vissu, vitað hver þar er á ferð.

Allsherjar úteyjahóf


Laugardaginn 6. okt. sl. var haldið í Alþýðuhúsinu hóf fuglaveiðimanna þeirra, er í úteyjunum voru í sumar og nokkurra veiðimanna af heimalandinu, er boðin var þátttaka, þó aðeins þeirra er stunduðu veiðarnar þar að jafnaði. Hóf þetta var hið myndarlegasta á allan hátt og fór fram, mér liggur við að segja, í kyrrlátum samfagnaði nær 100 manna og sýndi sannarlega, að eyjamenn kunna að skemmta sér og að ekki er alltaf nauðsynlegt að kaupa skemmtikrafta hingað og þangað að. Undirbúningsnefndina skipuðu einn maður úr hverri útey, þ.e. Hlöðver Johnsen úr Bjarnarey, sem var formaður nefndarinnar, Pétur Guðjónsson úr Elliðaey, Árni Árnason úr Álsey og Ágúst Ólafsson úr Suðurey.
Skemmtiskráin var mjög fjölbreytt, m.a. var til skemmtunar: Ræðuhöld, kvikmyndasýning, dans og Úteyjaþættir, þar sem veiðimenn hverrar eyjar skemmtu með ræðum, kórsöng og tvísöng, skemmtiþáttum, upplestri o.m.fl.; og langar mig að geta hér einstakra atriða skemmtiskrárinnar að nokkru. Heiðursgestir hátíðarinnar voru elztu veiðimenn eyjanna, sem starfað hafa að veiðum allt fram á síðustu ár og fram á þennan dag, en þeir voru Guðjón Jónsson, Oddsstöðum, Jón Jónsson, Brautarholti, Magnús Guðmundsson, Vesturhúsum og Kristján Ingimundarson, Klöpp.

Pétur Guðjónsson setti hátíðina og bauð heiðursgesti velkomna með stuttri ræðu. Síðan hófst borðhaldið og var matast vel og hressilega, enda var lostætt hangið kjöt á borðum með alls konar meðmat og öli. Eftir kjötið kom svo sannkallað úteyjakaffi og fylgdi því söngur og kátína undir borðum um stund.
Þá fluttu Árni Árnason ræðu, „Fuglaveiðar og veiðimenn“. Hyllti hann í upphafi heiðursgestina í bundnu og óbundnu máli og flutti þeim árnaðaróskir fuglaveiðimanna og þakkir fyrir langt og gott samstarf. Þá minntist hann látinna veiðimanna og sókningsmanna, sem gert höfðu garðinn frægan og bað menn rísa úr sætum til minningar og virðingar við hina föllnu samstarfsmenn. Var það gert og drúptu menn höfði í hljóðlátri minning um hina mætu menn.
Því miður er ekki plássins vegna hægt að fara út í ræðu Árna, sem nokkru nemur, en gaman hefði verið að birta hana orðrétta, því að þar kenndi margra grasa, sem gaman er að kynnast. Ræddi hann um fyrstu háfveiðimennina, taldi upp þá, er skarað hefðu fram úr öðrum að veiðisnilli og lipurð, minntist á fyrsta háfinn, gamlar veiðimannavísur, veiðimagn fyrri ára og gerði grein fyrir skoðunum sínum og annarra þar um og staðreyndum ýmsum viðvíkjandi áætluðum tölum um veiðimagn, lundaveiðar annars staðar á landinu o.m.fl. Þá minntist hann látinna ungra veiðimanna, sem látist hefðu hin síðustu ár, en sem þrátt fyrir ungan aldur hefðu gert garðinn frægan fyrir fjalla-fræknleik og mannkosti alla.
Að síðustu bað hann menn að hylla heiðursgestina fjóra, senda veiðisnillingnum Stefáni Gíslasyni, Sigríðarstöðum, sem ekki gat setið samfagnaðinn vegna vanheilsu, sérstaka kveðju og árnaðaróskir og öðrum fjarverandi veiðimönnum, með ferföldu húrrahrópi, og var það gert ósleitilega og ræðumanni þakkað með dynjandi lófataki.
Eftir ræðuna voru borð upp tekin og sýnd stutt kvikmynd, en síðan dansað um stund. Þá hófst Álseyjarþátturinn. Flutti Jónas Sigurðsson frásögn frá fyrstu úteyjaveru sinni og las upp Álseyjarljóð eftir Á.Á., ort undir lagi Oddgeirs Kristjánssonar tónskálds, en ljóðið er svona (leyfi höf.):

Lag: Ennþá er fagurt til fjalla
„Í vestrinu hátt móti hæðum
heillar mig draumfögur sýn.
Álsey í sefgrænum slæðum
og sindrandi kvöldroða lín.
Og draumsýnin fagra mig dregur
sem drjúpandi ungmeyjar-tár.
Þar hefir og verið minn vegur
og velferð um daga og ár.


Ég hleyp þar um bríkur og bekki,
bringi og rótfúnar tær,
flughratt um fláka og kekki
flesin og brekkurnar tvær¹).
Hér finn ég þann unað og yndi
og annað er veitir mér þor,
fegurð og lífið í lyndi
leikandi um sólbjartast vor“.

¹) Í Álsey er aðeins talað um tvær brekkur, „Bólbrekkuna“ og „Lækjarbrekku“.

Síðan hófst harmonikuleikur, og spiluðu þeir Hjálmar Jónsson og Árni Árnason, en síðan stuttur gamanþáttur úr kofanum í Álsey, o.fl. Að þættinum loknum var aftur dansað um stund, samanspjallað og skálað af hjartans lyst og kæti, en þá hófst Bjarnareyjarþátturinn með kórsöng, tvísöng, skemmtiþætti, guitarleik og söng. Sungið var hátíðaljóð Bjarnareyinga eftir Á.Á., ort undir laginu „Hreðavatnsvalsinn“ og var það mikið sungið á skemmtuninni, enda létt til söngs. Ljóðið er svona (leyfi höf.):

Hátignar frjóland fríða,
friðsæla vanadís
með skrúðgræna brekku blíða,
blómanna Paradís.
Hún glóir í glitvefs klæðum
og gullhlað um enni ber
í kvöldroðans kynjaglæðum
hún kallar mig að sér
Í Bjarnarey gisti og böl af mér hristi
um bjartan sumardag,
eykur yndis hag
auðugt vængjaslag.
Útsýni fegra, allt stórglæsilegra
ég aldrei fann um kring,
fegri fjallahring,
fyllri algleyming.
Ástsöngur hljómar með yndi og ómar
frá eyjunnar fuglakór,
blóm dansa á hillum, bekkjum og syllum,
brummar svo undir sjór.
Lognsærinn glitrar, í tíbránni titrar
hver tindur Eyjalands,
heillar huga manns
Heimaeyjar glans.

Dansinn hófst nú að nýju og samanrætt var um stund undir dynjandi leik hljómsveitar Haraldar Guðmundssonar, sem auðvitað spilaði gömlu danslögin, marzurka, polka, vals, two-step, vínarkruss og hvað það nú heitir, en síðan hófst þáttur Elliðaeyinga með gamanþætti o.fl. Þar voru veiðivísur eftir Óskar Kárason, en því miður var hann sjálfur fjarverandi og þótti öllum miður og mikið vanta, en vel áttu vísur hans við hófið og var vel tekið. Hér er sýnishorn af vísunum:

Elliðaeyjar-kerlingin
Á Suðurbrún við sævartún
sólarrúnum kafin,
situr hún með silfurdún
sinn um búning vafin.
Eyjar gætir gyðjan mæt,
glæst í sæti fjalla,
meyjan bætir sinnið sæt,
sveina kætir alla.
Aldrað sprundið út við sund
eitt á grundu bíður,
enn óbundið það er þund
því um stundir líður.
Kletts í ranni kvikkar mann
kunnur svanni eyja,
þöll með sanni þeirri ann
þessi glanni meyja.
Úr veiðimannavísum
Óskars Kára úr Elliðaey, 1920:
Fyrst ég Guðjón greina má
garpinn Odds- á -stöðum,
eyjar ræður sjóli sá
sveinum fyrir glöðum.
Hans er fyndið fjörugt mál
frítt við angrið leiða,
leggur háf við „Nef“ og „Nál“
njótur frægur veiða.
Elliðaeyjar byggir borg
bræðslumanna sómi,
Einar kátur ekta Norg
okkar félags ljómi.
Fyrður lunda fer á stjá
frægan margan túrinn,
hann ég fuglinn fleyga sá
fanga viður „Búrin“.

Að þessum þætti loknum, sem Ingólfur Guðjónsson frá Oddsstöðum flutti með ágætum, hófst enn dans af mesta fjöri. Mátti þar sjá margar liprar hreyfingar veiðimannanna, er þeir sneru dömunni flughratt um gólfið, veifuðu henni kringum sig eins og fisléttum háf, ef svo mætti að orði kveða. Ekki vantaði Kristján í Klöpp í dansinn. Hann tifaði þarna um gólfið keikur og snar í snúningum, sem sönnum lundamanni sómdi og gaf hinum yngri ekkert eftir í hröðum vals og polka. Þarna var og Jón í Brautarholti með dömu í fanginu, kunni vel tökin á henni og naut sín vel í rælnum, þótt kominn sé hann yfir áttrætt. Má með sanni segja eins og Árni Árnason sagði fyrr um kvöldið í ræðu sinni, er hann talaði um glímu hans við Elli kerlingu: „En hún ræður ekkert við ærsla-Jón frá Holti brautar.“ Að síðustu kom svo Suðureyjarþátturinn. Var það gamanþáttur, snjall og sprenghlægilegur, fluttur og saminn af Vigfúsi Ólafssyni aldeilis snilldarlega, enda vakti þátturinn feikna hlátur og kátínu. Því næst var svo sungið hátíðaljóð Suðureyinga eftir Á.Á. undir lagi Oddgeirs Kristjánssonar „Ennþá er fagurt til fjalla“, því að ekki vildu Suðureyingar vera eftirbátar annarra og eiga ekki sín hátíðaljóð.

Á kyrrlátu blíðsumarkveldi
klæðir sig eyjan í skraut,
er rennandi röðull af eldi
roðar hvern grastopp og laut.
Og særinn í glóðöldum glitrar
og glaðlega hjalar við flár,
en blómgresið blikandi titrar
í brekkum með döggvotar brár.
Í Suðurey tíðum ég tifa
um Tæpunef, Bringi og Haus.
Í Göngurnar keikur ég klifa
svo kátur og áhyggjulaus.
Ég hvergi fann hátignarlegri
hafdýrðarperlu um kring.
Ég hvergi sá fjallgróður fegri
og fegurri Eyjanna hring.

Öll voru ljóðin sungin mikið og þótti hverri ey sitt ljóð best og trúlegt má telja, að fyglingar hverrar eyju tækju einhvern tíma lagið og þætti þá ekki minna til koma að syngja það við raust heima í Úteynni sinni.
Með Suðureyjarþættinum lauk hinni eiginlegu skemmtidagskrá, sem þótti takast með ágætum vel.
Kynnir og stjórnandi skemmtidagskrárinnar var Sigfús J. Johnsen og fórst það prýðilega úr hendi, svo að hvergi var hvikað frá og skemmtiatriðunum vel og haganlega fyrirkomið.
Eftir þetta voru svo frjálsar skemmtanir og veitingar, kaffi, öl og fleira, dansað og sungið, og skemmtu menn sér hið bezta til kl. tvö. Fór allt vel fram og prýðilega, og hef ég ekki önnur orð þar um en lögregluþjónsins, sem dyranna gætti allt kvöldið, „að svona ættu menn að skemmta sér“.
Forgöngumönnum ber þakkir fyrir góðan undirbúning og skemmtiskrá og þátttakendum öllum fyrir góða skemmtun, — einsdæma góða skemmtun.

A.H.J.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit