Blik 1960/Nýborgarheimilið, II. hluti

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1960ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Nýborgarheimilið


Hjónin Sigurður Sveinsson og
Þóranna Ingimundardóttir
(Framhald)


Árið 1845 fluttist 16 ára piltur að Stóragerði í Vestmannaeyjum til hjónanna Helga Jónssonar og Kristínar Ólafsdóttur. Piltur þessi hét Ingimundur Jónsson. Hann var fæddur í Reynissókn. „Bókhæfur rétt vel,“ segir prestur um hann. Næstu 10 árin var Ingimundur Jónsson vinnumaður á Miðhúsum hjá Sigurði bónda þar, stefnuvotti og meðhjálpara, og konu hans Sesselju Helgadóttur. Hjá þessum hjónum mótaðist Ingimundur Jónsson á þessum árum og varð hinn mesti efnis- og myndarmaður. Um Sesselju húsfreyju á Miðhúsum er það sagt, að hún hafi verið gáfuð kona og vel að sér. Á heimilinu var mikið um góðar bækur, eftir því sem þá gerðist. Hjónin sögð trygglynd og góð.
Á þessum árum bjuggu á Gjábakka hjónin Jón Einarsson og Sigríður Sæmundsdóttir. Þau eignuðust nokkur börn. Árið 1835, 27. maí, fæddist þeim Gjábakkahjónum dóttir, sem skírð var Margrét. Hún þótti snemma efnileg, og er hún var 12 ára gömul, segir prestur hana „rétt vel að sér“ og „búna prýðilega.“
Þegar hér er komið sögu, er Margrét Jónsdóttir heimasæta að Gjábakka tvítug að aldri. Sveinar voru þá ekki margir á duggarabandsaldrinum í Eyjum. Því olli ginklofinn, sem geisað hafði þar til ársins 1847, er Schleisner læknir uppgötvaði orsakir hans (Sjá Blik 1957).
Ingimundur Jónsson, vinnumaður á Miðhúsum, og Margrét Jónsdóttir, heimasæta á Gjábakka felldu hugi saman. Árið 1855 ól heimasætan á Gjábakka vinnumanninum á Miðhúsum barn, einkar efnilegan dreng, sem skírður var Jón. Síðar var sá Jón kenndur við Mandal hér í Eyjum. Árið eftir flutti Ingimundur Jónsson föggur sínar að Gjábakka og gerðist vinnumaður hjá þeim hjónum, Jóni og Margréti, hinum væntanlegu tengdaforeldrum sínum. Tveim árum síðar, 15. okt. 1858, gengu þau Ingimundur og Margrét í hjónaband. Þau voru næstu ár i húsmennsku hjá Jóni og Sigríði, foreldrum Margrétar.
Þegar Jón bóndi Einarsson dó, 11. apríl 1861, gerðist Ingimundur Jónsson ábyrgur búandi á Gjábakkajörðinni í skjóli tengdamóður sinnar, þar til hann fékk byggingu fyrir jörðinni 1868. Þegar Ingimundur Jónsson og Margrét Jónsdóttir minntust gullbrúðkaups síns 1908, tóku flestir málsmetandi Eyjabúar þátt í fagnaði þeim, gáfu Ingimundi bónda og hreppstjóra fagran og veglegan göngustaf*** og þökkuðu þeim hjónum báðum gott og vel unnið ævistarf í þágu byggðarlagsins, því að þau höfðu alla búskapartíð sína verið hin mætustu hjón og sómi sinnar stéttar í sveitarfélaginu.
Árið 1859, 16. janúar, fæddist þeim hjónum Ingimundi og Margréti annað barnið. Það var stúlkubarn og skírt Þóranna. Árin liðu og Þóranna Ingimundardóttir á Gjábakka þroskaðist til líkama og sálar og varð á sínum tíma ein af efnilegustu heimasætum í sveitarfélaginu, væn og fríð. Hún var 17 ára, er Sigurður Sveinsson byggði Nýborg og hóf búskap þar.
Árið 1881 réðist Þóranna Ingimundardóttir vinnukona að Nýborg. Svo sem fyrr segir, slitnaði upp úr með þeim Sigurði og Guðrúnu Árnadóttur þetta ár. Gerðist þá Þóranna bústýra í Nýborg, þá 22 ára. Sigurður var um það bil 18 árum eldri en hún. Í þann tíð var það mjög algengt í Vestmannaeyjum, að framgjarnir og framtakssamir yngri menn hæfu búskap og atvinnurekstur ógiftir, en réðu til sín svo kallaðar bústýrur til þess að annast heimilishald og búið innanstokks. Mjög oft leiddi þetta til þess, að bændur þessir gátu börn með bústýrum sínum og það fleiri en eitt og tvö sumir. Þannig eru sumir af kunnustu Eyjaskeggjum seinni tíma óskilgetnir í fyrstu en urðu síðan skilgetnir, þegar foreldrarnir giftust, sem æði oft varð, þegar frá leið. Hinum þjónandi presti í Eyjum var í alla staði hvimleitt þetta „siðferðisástand“ hinna mektarmeiri bænda, en fékk ekkert aðgert. Varð að láta sér nægja að skrá börnin „óskilgetin“ í kirkjubækurnar og geta þar jafnframt um tölu „legorðsbrotanna“.
Árið 1884, 4. júní, ól bústýran í Nýborg, Þóranna Ingimundardóttir, húsbónda sínum fyrsta barnið. Það var meybarn og skírt Þórunn Anna Jóhanna.

Ólafur Magnússon, vinnumaður í Nýborg, formaður á opna skipinu Blíðu um margra ára skeið, kunnur hagyrðingur og mikil aflakló, f. 1845, d. 4. okt. 1927.

Búrekstur Sigurðar í Nýborg stóð nú með miklum blóma. Starfslið hafði hann mikið, þrjá vinnumenn og þrjár vinnukonur sem fyrr.
Fyrir tveim árum hafði ráðizt til hans lausamaður, sem hét Ólafur Magnússon. Hann var síðan hálfan 5. tug ára vinnuhjú Sigurðar Sveinssonar og Nýborgarheimilisins, kunnur sjósóknari og hagyrðingur og formaður á hinu opna skipi Sigurðar, Blíðu, um langt árabil.
Rétt er einnig hér að geta þeirrar vinnukonu, sem vann Sigurði Sveinssyni og Nýborgarheimilinu 33 ár. Hún hét Herdís Magnúsdóttir. Hún réðist fyrst vinnukona að Nýborg árið 1879. Þá var hún þar í tvö ár. Næstu tvö árin var hún vinnuhjú á Oddsstöðum hjá Árna bónda Þórarinssyni og k.h. Steinunni Oddsdóttur. Þá ræðst hún aftur að Nýborg og er þar vinnuhjú samfleytt til dauðadags, 1914. Kunn að dugnaði og dyggri þjónustu við Nýborgarheimilið.
Sigurður Sveinsson rak nú útgerð, hafði mikla garðrækt, átti margt fjár í Yztakletti, leigði Eyjabúum þar slægjur og beit fyrir drjúgan pening, lét vinnumenn sína stunda þar eggjatekju og fuglaveiðar að sumrinu, róa til fiskjar á veturna og vorin og þess á milli hirða um fénað heima við. Sjálfur stundaði húsbóndinn húsasmíðar öllum stundum, því að engan veiðiskap stundaði hann sjálfur.
Sigurður Sveinsson gréri að álnum ár frá ári og varð nú brátt einn af ríkustu mönnum í Vestmannaeyjum.
Þegar hér er komið sögu, hefur Anna Benediktsdóttir, prests Magnússonar að Mosfelli verið ljósmóðir í Vestmannaeyjum yfir 20 ár. Hún var nú á sextugsaldri (f. 1831) og fremur heilsutæp. Þessi mæta kona vakti máls á því við Þorstein Jónsson héraðslækni árið 1884, að ekki væri hyggilegt að draga það lengur að hugsa fyrir annarri ljósmóður í Eyjum, með því að hún treysti sér naumast til að þjóna þar lengur ein, eins og heilsu hennar var þá varið. Það ár var þó ekkert gert til þess að tryggja sveitarfélaginu ljósmóður við hlið Önnu Benediktsdóttur.
Árið eftir, 1885, ámálgaði Anna ljósmóðir á ný beiðni sína í þessum efnum. Skrifaði þá héraðslæknir um sumarið bréf til sýslunefndar og hvatti hana til að gera ráðstafanir og ráða stúlku til að læra „yfirsetukvennafræði,“ eins og héraðslæknir orðar það, í Reykjavík. Jafnframt bendir héraðslæknir sýslunefnd á „stúlkuna Þórönnu Ingimundardóttur í Nýborg,“ sem gefið hafði Önnu Benediktsdóttur kost á að verða eftirmaður hennar í starfinu.
Á fundi sínum 28. júní 1885 samþykkti sýslunefnd Vestmannaeyja að leggja fram fé til þess að Þóranna Ingimundardóttir kæmist til Reykjavíkur í tæka tíð til þess að hefja námið, en ljósmæðrafræðslan skyldi hefjast um miðjan ágúst það sumar. Ætlun sýslunefndar var að fá námsfé Þórönnu endurgreitt úr landssjóði, en síðan skyldi Þóranna endurgreiða sýslunefnd námskostnaðinn að svo miklu leyti, sem landshöfðinginn féllist ekki á að greiða reikninginn að fullu.
Um haustið 1885 mun Þóranna hafa lokið náminu, því að námstími ljósmæðra þá var aðeins nokkrar vikur. Síðan lengdist hann smámsaman í 3 mánuði, og með lögum um nám ljósmæðra, nr. 15. 1912, varð námstíminn 6 mánuðir. Þegar leið á haustið, voru því tvær lærðar ljósmæður búsettar í Vestmannaeyjum. Þetta ár 1885 hafði Anna Benediktsdóttir verið ljósmóðir í Eyjum í 22 ár. Um leið og sýslunefnd samþykkti að hjálpa Þórönnu Ingimundardóttur fjárhagslega til þess að nema ljósmóðurfræði, leit nefndin svo á, að Þóranna væri fastráðin ljósmóðir í Eyjum. Það gerði Þóranna líka og tók því til starfa að loknu námi. Um leið og það varð eða nokkru síðar veitti amtið Önnu Benediktsdóttur lausn frá embætti. Sýslunefnd samþykkti þá að veita henni kr. 30,00 árlega eftirlaun úr sýslusjóði eftir 23 ára starf, sem hún hafði innt vel af hendi og óaðfinnanlega í alla staði, eins og sýslunefnd tekur fram.
Nú gerðust ýmis fyrirbrigði með barnshafandi konum í Eyjum. Næstum engin þeirra vildi láta sækja Þórönnu til sín, heldur vildu þær allar hafa Önnu Benediktsdóttur áfram, þótt hún gæti naumast sinnt störfum sökum lasleika og langvarandi heilsuleysis. Þá var Anna Benediktsdóttir hálf sextug. Þessar óskir kvenna almennt í Eyjum leiddu til þess, að Anna ljósmóðir var ráðin aftur að starfinu við hlið Þórönnu, og skyldi inna það af hendi eftir því sem kraftar leyfðu.
Í þann tíð voru ljósmóðurstörfin í Eyjum greidd með samtals 60 kr. á ári úr opinberum sjóði. Ljósmæðurnar Anna og Þóranna skyldu skipta árslaunum þessum jafnt á milli sín.
Svo er þessum málum komið eftir tæp þrjú ár, að 9. júní 1888 skrifar Þorsteinn læknir sýslunefnd og tjáir henni þau vandræði, að konur fáist ekki til að láta sækja Þórönnu til sín, heldur hvíli mest allt starfið á Önnu Benediktsdóttur. Fyrir það hafi hún hálf laun en hin hinn helminginn launanna fyrir ekkert starf. Segir læknirinn, að með þessum hætti hljóti Þóranna að gleyma ljósmóðurfræðinni og verða óhæf til þeirra starfa, þegar hún taki að öllu leyti við af Önnu Benediktsdóttur.
Sýslunefndin tók þetta vandamál fyrir á fundi 8. ágúst um sumarið. Oddviti nefndarinnar, Aagaard sýslumaður, lagði þar fram frumvarp að reglugjörð um rétt ljósmæðra í Eyjum til að „neita kalli“. Hvor hinna tveggja ljósmæðra skyldi aðeins skyldug til að „þjóna við annanhvorn barnsburð nema í löglegum forföllum hinnar.“ Reglugjörð þessi skyldi sem sé tryggja Þórönnu starf að hálfu við Önnu.
Séra Stefán Thordersen, sóknarprestur, og Gísli Stefánsson bóndi í Hlíðarhúsum gátu ekki fallizt á frumvarp þetta eða þessi ákvæði, og féll svo mál þetta niður. Hinsvegar afgreiddi sýslunefndin mál þetta þannig að þessu sinni, að hún veitti 20 króna árlegt viðbótarframlag úr sýslusjóði til ljósmæðranna, og skyldu þær krónur vera árslaun Þórönnu, en Anna hafa hin árslaunin öll kr. 60,00.
Fyrir sýslunefndarfundi 7. sept. 1894 lá bréf frá Önnu Benediktsdóttur, þar sem hún óskaði viðbótar launa. Hallæri var þá framundan í Eyjum vegna aflaleysis og óþurrka. Á þessum fundi lætur sýslunefnd þess getið, að misráðið hafi verið að ráða tvær yfirsetukonur í sveitarfélaginu og vill skora á Þórönnu að segja af sér. Að öllum líkindum hefur Þorsteinn læknir hindrað það, að Þóranna færi að þeim óskum sýslunefndar, því að Anna tók nú að eldast fast og eiga æ erfiðara með að sinna öllum köllum og vanafestu barnshafandi kvenna í Eyjum. Sá tími var skammt undan, að konur í Eyjum lærðu að meta að verðleikum hæfileika Þórönnu Ingimundardóttur í ljósmóðurstarfinu. Störfin færðust nú æ meir á hennar herðar og var hún síðan ljósmóðir í Eyjum við mjög góðan orðstír um 30 ára skeið eða þar til 1924 að Þórunn Jónsdóttir tók við af henni og var skipuð ljósmóðir í Vestmannaeyjum.
*** Göngustafur þessi er geymdur í Byggðarsafni Vestmannaeyja.

ctr

Hjónin frá Nýborg, Þóranna Ingimundardóttir, ljósmóðir, og
Sigurður Sveinsson, snikkari.

Svo sem áður er á drepið, þá eignuðust þau barn saman 1884 Sigurður og Þóranna. Ekki verður annað vitað, en að Sigurður hafi frá þeim tíma ætlað sér að giftast henni og stofna þannig til ævilangrar sambúðar.
Í marzmánuði 1886 var hafinn undirbúningur að giftingunni. Fengu þau þá konunglegt leyfisbréf til að giftast. Það var dagsett 22. marz þ.á. En þá kom babb í bátinn.
Ein af vinnukonum Sigurðar í Nýborg var um þessar mundir Sigríður Sighvatsdóttir bónda Sigurðssonar á Vilborgarstöðum. Í marzmánuði þetta ár var vinnukona þessi tekin að þykkna undir belti. Einhvern veginn lá það nú í loftinu, að Sigurður húsbóndi hennar væri faðir að barninu. Hann mun hafa játað það fyrir Þórönnu heitmey sinni.
Ég læt lesendur mína um það að gera sér grein fyrir andrúmsloftinu í Nýborg um þessar mundir. En aldrei reyndi meira á Þórönnu Ingimundardóttur en nú. Giftingunni var skotið á frest að minnsta kosti. En Þóranna sannaði mannkosti sína, þroska og skynsemi á þessum mótgangstímum. Hún var sjálf ljósmóðir að þessu barni unnusta síns. Þetta var stúlkubarn og skírt þrem nöfnum að þess tíðar sið, Júlíana Guðríður Ingveldur. Hún er enn á lífi, þegar þetta er skrifað, ekkja Péturs bónda Lárussonar hreppstjóra Jónssonar á Búastöðum, myndarfólk og mannkosta.
Næstu tvö árin eftir að Sigríður ól barnið, hafði svo Þóranna Ingimundardóttir þessa barnsmóður Sigurðar unnusta síns í Nýborg hjá sér með barnið, eða til ársins 1888.

Árin liðu í Nýborg sem utan veggja hennar með miklum athöfnum, umstangi og gróða. — Tíminn græðir flest sárin, og mannkostakonan mikla, Þóranna Ingimundardóttir fyrirgaf unnusta sínum veiklyndið í kvennamálunum og sættist við hann, því að andanum unni hún, hvað sem holdinu leið. Þóranna ól honum annað stúlkubarn 15. nóv. 1890. Það var skírt Jónína Steinunn og er hin góðkunna kona og móðir Jónína á Háeyri hér í Eyjum. — Ári síðar eða 1891 giftust þau Sigurður og Þóranna og áttu þá eftir að lifa saman í hjónabandi í hart nær 40 ár. Svaramenn voru þeir Þorsteinn læknir Jónsson og Bryde kaupmaður, tveir af mestu höfðingjum Eyjanna þá á veraldlega vísu. Þá var heimilisfólkið í Nýborg 17 manns, þar af 6 vinnumenn og 4 vinnukonur, svo að mikið var vinnuaflið, enda mikið starfað. Stóð þá á mörgum fótum fjárafli Sigurðar Sveinssonar, svo sem sagt er um landnámsmanninn á Borg á Mýrum. — Undanfarin 10 ár hafði þá Sigurður borið hærra sveitarútsvar í Vestmannaeyjum en flestir aðrir einstaklingar þar. Sat hann þar á bekk með fáum öðrum ríkustu mönnum Eyjanna, svo sem Þorsteini héraðslækni, séra Brynjólfi Jónssyni, meðan hann lifði, og Þorsteini hreppstjóra og alþingismanni í Nýjabæ. Eitt þessara ára greiddi Sigurður Sveinsson hæst útsvar í hreppnum. Einnig greiddi hann þar hæsta lausafjártíund árið 1889 og 1890.
Hver tómhúsmaður mátti hafa matjurtagarða að stærð 200 ferfaðma (rúmlega 700 fermetra) án sérstaks endurgjalds. Greiða skyldi sérstakt gjald fyrir það, sem umfram var að flatarmáli.
Um 1890 námu matjurtagarðar Sigurðar í Nýborg 517 ferföðmum að stærð eða um 1833 fermetrum. Aðeins einn maður í Eyjum þá komst um það bil í hálfkvisti í garðrækt við Sigurð í Nýborg. Það var Sigurður Sigurfinnsson skipstjóri í Boston.
Um margra ára skeið áttu Nýborgarhjónin stóran matjurtagarð sunnan við troðningana, sem lágu inn að vatnspóstinum í Botninum. Síðar var verzlunarhús Vélsmiðjunnar Magna byggt í garði þessum. Þennan garð kallaði Sigurður Eden. Nafnið á garðinum er sprottið af fyndni Sigurðar bónda og hnyttni, sem hann átti í ríkum mæli og beitti stundum með græskulausu gamni.
Austan við Eden áttu þeir garð bændurnir Eyjólfur Eiríksson á Kirkjubæ og Árni Þórarinsson á Oddstöðum. En vestan Edens var stór garður, er þeir áttu Gerðisbændur, bræðurnir Guðlaugur og Jón Jónssynir.
Gegnt Eden, norðan við traðirnar, var stór garður, sem þeir áttu saman bóndinn í Nýjabæ og Ólafshúsum. Á því svæði standa nú hús Dráttarbrautarinnar og verkstæði Vélsmiðjunnar Magna.
Því aðeins er þessara garða getið hér, að þessir bændur sönnuðu með garðrækt sinni frjósemi lands á Heimaey, og ágæti til garðræktar. Í landhagsskýrslum árið 1911 er það tekið fram, að í Vestmannaeyjum fáist ein tunna af rótarávöxtum af hverjum 16,99 ferföðmum. Næst er svo Vestur-Skaftafellssýsla með 17,79 ferfaðma, Árnessýsla með 20,7 ferf., Ísafjörður með 24,20, Reykjavík 25,12. Í öðrum landshlutum þarf tvöfalt meira flatarmál garðs og meira miðað við Vestmannaeyjar til þess að gefa af sér eina tunnu rótar ávaxta. Vitaskuld hefur einnig veðráttan sín áhrif á vöxtinn, svo og áburðurinn.
Árið 1909 nam uppskera Vestmannaeyinga af kartöflum og rófum samtals 1005 tunnum. Akureyringar uppskáru þá 946, Hafnfirðingar 244 tunnur, Seyðfirðingar 73 tunnur og Ísfirðingar 63 tunnur. Ef byggja má á þessum tölum, sem teknar eru úr landhagsskýrslum, sanna þær, hve Vestmannaeyingar stóðu framarlega í garðrækt í þennan mund og voru þeir næstum hálfdrættingar þar um uppskeru við sjálfan höfuðstað landsins, Reykjavík. Með því að Nýborgarhjónin höfðu um langt skeið rúmlega tvöfalt stærri garða en sá Vestmannaeyjabóndi, sem næstur þeim gekk á því sviði, áttu þau á sínum tíma ekki lítinn þátt í þeim hróðri, sem Eyjabúar gátu sér fyrir ræktun garðávaxta, með því að uppskera þeirra hjóna var árlega í fyllsta samræmi við flatarmál garðanna. Þar var vel um vélt eins og um allt annað í þeirra búskap.

III. hluti

Til baka