Suðurey

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 4. nóvember 2005 kl. 16:49 eftir Frosti (spjall | framlög) Útgáfa frá 4. nóvember 2005 kl. 16:49 eftir Frosti (spjall | framlög) (Gísli Lárusson)
Fara í flakk Fara í leit
Suðurey

Suðurey liggur um kílómetra suðvestur af Stórhöfða og er fjórða stærsta úteyjan, um 0.2 km². Eyjan er gyrt háum hömrum að suðurhliðinni undanskilinni, þar sem grasi vaxin brekka nær niður að sjó. Við brekkuna er eini möguleiki á uppgöngu á eyjuna en vegna öldubrots úr suðri er hún stundum erfið. Um miðbik eyjarinnar liggur hryggur, um 161 m hár þar sem hann er hæstur. Mikið gróðurlendi þekur stóran hluta eyjunnar. Veiðikofi Suðureyinga var reistur 1951 norðan megin á eyjunni en miklar endurbætur hafa verið gerðar síðan þá. Fé er haft á beit í Suðurey og úteyjamenn veiða þar lunda. Mynd:Suðurey-kort.PNG Það er sagt bátfært í Suðurey þegar öldur brjóta ekki á sunnanverðri Hænu; þar sem uppgangan er sunnan til á eynni og sést því ekki frá Heimaey.

Úr örnefnaskrá Gísla Lárussonar

III. Suðurey liggur suðvestur af Heimaey, Stórhöfða – ca ¼ mílu. Er hún hömrum lukt á alla vegu, nema að sunnan. Þar er hún afhallandi í sjó niður, og grasivaxin svo langt sem sjór ekki nær. Fyrir ofan hallann er hryggur í austur og vestur, en norðan við hrygginn að brún er sléttlendi. Þykir eyjan vond til hagagöngu, ætluð 100 sauðum en nú á seinni árum aðeins 40-50. Fuglatekja hefir lítið verið stunduð þar seinni árin, áður höfðust ca 10.000 lundar og töluvert af svartfugl.

Á norðurjaðri eyjarinnar, fyrir miðju bergi er nefnt Vatn , en efst í berginu brík, nefnd Hella . Af þessum stað renndu fuglamenn oft færi í sjó niður og fiskuðu allskonar fisk, oft mikið (t.d. þorsk og lúðu). Hæðin 30 faðmar að sjó niður og 12-14 faðmar til botns. Vestan við Vatn er nefnd Skora , en þar vestur af Útnorðursnef ; en austan við Vatn Landnorðursnef . Þar suður af austan megin, er nefndur Hellir , hellismyndun í berginu. En ofar Kórar og þar suður af Eiríksbæli , en Tobbafles þar upp af. Þar ofar Lend , neðst í henni Gamlarétt (bekkur), þar sunnar Landsuðursbæli . Landsuðursnef er nefnt þar suður af; er þar lendingarstaður, en tæp uppganga. Hér suður af er sker í sjó út, Suðureyjarsker. Suðvesturnef eyjarinnar er nefnt Grasanef og austan við það er aðaluppgangan á eyna, en mjög brimsamt. Fyrir norðan nefið er Suðureyjarhellir , en norður af honum Eggjanef og þar norður af Mottukór (motta notuð til þess að slá fyrir fuglinn). En upp af honum við brún er Hvannstóðarbæli og þar upp af Hvannstóðsbekkur , en þar norður af Hvannstóð. Norður af því neðarlega í berginu er Strákakór.


Heimildir