Sólveig Pálsdóttir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 12. júní 2006 kl. 09:37 eftir Margret (spjall | framlög) Útgáfa frá 12. júní 2006 kl. 09:37 eftir Margret (spjall | framlög) (bætti við)
Fara í flakk Fara í leit

Sólveig Pálsdóttir var fædd í Vestmannaeyjum þann 8. október 1821. Foreldrar hennar voru séra Páll Jónsson og Guðrún Jónsdóttir. Þessi presthjón voru bæði komin af merkum bænda- og embættismannaættum og sumir forfeður þeirra eru kunnir í sögu þjóðarinnar.

Sólveig var með fyrstu íslensku konunum sem fóru til Danmerkur til að læra ljósmóðurfræði. Hún útskrifaðist árið 1843 frá Fæðingarstofnuninni í Kaupmannahöfn og var skipuð sama ár sem ljósmóðir í Vestmannaeyjum. Þar hjálpaði hún Peter Anton Schleisner að útrýma ginklofanum í Vestmannaeyjum.

Þessi unga prestsdóttir á Kirkjubæ hlaut það hlutskipti í lífinu að vera veigamikill aðili að þáttaskiptum í lífi sveitunga sinna á sínum tíma, er hinar sorglegustu sjúkdómsþrengingar þjökuðu Eyjabúa.

Sólveig gegndi starfi ljósmóður í Vestmannaeyjum til ársins 1867 en þá fékk hún starf sem ljósmóðir í Reykjavík og gegndi því allt til dauðadags. Sólveig giftist árið 1845 Matthíasi Markússyni, trésmið í Vestmannaeyjum. Sólveig og Matthías byggðu íbúðarhús sitt Landlyst árið 1848. Þau eignuðust 9 börn, sem fæddust öll í Vestmannaeyjum á árunum 1845-1864. Sólveig lést árið 1886 í Reykjavík. Ein dóttir hennar er móðir Ásgeirs Ásgeirssonar, fyrrverandi forseta Íslands.

Leiðin til náms

Um tvítugt ákvað Sólveig að gerast ljósmóðir eins og móðir hennar. Haustið 1842 hélt Sólveig til Kaupmannahafnar til að nema ljósmóðurfræði. Hafði hún fengið undanþágu en skilyrði til þess að mega fara í skólann voru að konan væri gift og ætti barn. En brýn nauðsyn var á að fá ljósmóður til Vestmannaeyja þannig að henni var gefin undanþágu. Hún fékk styrki frá bæði íslenskum og dönskum yfirvöldum.

Að loknu námi

Árið 1843 lýkur Sólveig náminu og kemur heim til að taka við ljósmóðurstarfinu, aðeins 22 ára að aldri. Þar biðu hennar mörg vandamál því ginklofinn geisaði á þessum tíma. En árið 1874 kom læknirinn Peter Anton Schleisner til Vestmannaeyja með það markmið að útrýma ginklofanum. Var þá stofnað fæðingarheimili og með hjálp Sólveigar tókst á fáum árum næstum að útrýma sjúkdómnum. Schleisner fór aftur til Danmerkur árið 1848 og var þá fæðingarstofan flutt á heimili Sólveigar, en hún hafði gifst þremur árum áður, Matthíasi Markússyni, trésmið. Þegar Schleisner var farinn varð læknislaust um tíma í Vestmannaeyjum og sá þá Sólveig um læknisþjónustu í Vestmannaeyjum. Það var svo árið 1867 að Sólveig var sett ljósmóðir í Reykjavík og gegndi hún því alveg til dauðadags. Sólveig var alltaf mjög hreinlát kona og gekk aldrei í for eða leðju, og einnig ef veður leyfði, meðan hún gekk á milli sængurkvenna og prjónaði sokka eða aðrar flíkur.


Heimildir

  • Þorsteinn Þ. Víglundsson. Blik, ársrit Vestmannaeyja. Maí 1967.