Michael Marius Ludvig Aagaard

From Heimaslóð
Revision as of 11:13, 17 July 2007 by Daniel (talk | contribs)
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigation Jump to search
M. Aagaard, sýslumaður í Eyjum 1872-1891.
Frú Agnes Aagaard

Michael Marius Ludvig Aagaard var sýslumaður Vestmannaeyja frá 1872 til ársins 1891. Hann var danskur að ætt. Michael kom til Vestmannaeyja einhleypur maður og fékk þá inni í Nöjsomhed.

Þegar hann hafði verið sýslumaður í 2 ár fékk hann slæma ígerð í hægri hönd. Þorsteinn Jónsson héraðslæknir ráðlagði sýslumanninum að sigla um vorið 1874 til Kaupmannahafnar og leita sér fullkominnar lækningar við handarmeininu. Sýslumaðurinn dvaldist þar fram á sumar undir læknishendi og fékk lækningu en þó með þeim hætti að þrír fingur beygðust inn í höndina.

Á meðan Aagaard beið eftir að komast aftur til Íslands felldu hann og dönsk kona af frönskum ættum, Agnes Mathilde Adelaide Grandhean, hugi saman. Þetta ástarlíf hindraði för hans um nokkrar vikur. Þau giftust 26. september 1874. Daginn eftir steig sýslumaður á skipsfjöl og sigldi frá konu sinni heim til Íslands með póstskipinu Díönu.

Þann 5. júní 1875 kom kona Aagaards til Vestmannaeyja og tóku þau að búa í Nöjsomhed. Frú Aagaard hreifst strax af fegurð Eyjanna. Þessar miklu breytingar á högum hennar tóku þó að gera vart við sig skömmu síðar. Einmanaleikinn og innilokunarkenndin gagntók sálarlífið. Þegar maður hennar var að sinna embættinu sat frúin löngum stundum austan við Skansinn þar sem frúnni fannst báran færa sér kveðjur frá fjarlægum sundum. Stundum sat frúin úti á Eiði og hafði þá gjarnan Maríu Bjarnasen hjá sér. Sú litla stúlka undir sér við að kasta steinum út í sjóinn meðan frúin hugleiddi tilveruna og þessi sérkennilegu örlög sín. Henni kom þó ekki til hugar að hverfa frá maka sínum, heldur skyldi hún þola og þrauka. Hjónin bjuggu fyrst í húsi sem hét Nöjsomhed. Seinna fluttust þau í húsið Stafholt sem stendur við Víðisveg 7. Eftir dvölina þar fluttust þau svo í gömlu Uppsali sem stóðu við Vestmannabraut 51 og bjuggu þar þangað til þau fluttust að Vilborgarstöðum.

Hinn 20. júní 1876 fæddi Agnes fyrsta barn þeirra hjóna, dreng sem skírður var Christen Anton Sophus. Einmanaleikinn hvarf um sinn þar sem barnið tók allan hug Agnesar og heimþráin hvarf. Hjónin eignuðust fimm syni. Christen eins og áður segir, Gunnar f. 1878 að Uppsölum í Eyjum, Otto f. 1881 að Uppsölum í Eyjum, Kjartan f. 1884 sem fæddist á Vilborgarstöðum og Kristian sem lést hvítvoðungur.

Um miðjan ágúst 1890 fluttist frú Aagaard til Reykjavíkur með drengina þeirra til þess að veita þeim betri menntun. Aagaard sýslumaður vann áfram í Vestmannaeyjum en hafði sótt um betur launað sýslumannsembætti.

Þegar danska dómsmálaráðuneytið heyrði af því að sýslumannahjónin hefðu ákveðið að frúin færi með drengina til Reykjavíkur til að geta veitt þeim æskilega skólagöngu bauðst Aagaard sýslumanni þegar tvær stöður. Annars vegar sýslumannsembættið í Árnessýslu og hins vegar birkidómaraembættið á Fanö í Danmörku. Það embætti valdi hann frekar því þau hjónin þráðu að flytja aftur til Danmerkur. Hinn 14. maí 1891 var Aagaard skipaður birkidómari í Fanö.

Eitt örnefni í Eyjum er kennt við sýslumanninn Aagaard. Það er Sýslumannsskór framan í Hánni norðan við Hástein. Sagan segir að sýslumaður og þau hjónin hafi á stundum í blíðskaparveðri haft yndi af að ganga vestur að bergopi þessu, sitja þar og virða fyrir sér fegurðina til austurs, Heimaklett, Bjarnarey, höfnina og austurhluta Heimaeyjar, Helgafelli í suðaustur og svo hina heillandi landsýn til norðurs.


Heimildir