Magnús Ásmundsson (Kastala)
Magnús Ásmundsson vinnumaður í Kastala fæddist 1. maí 1795 á Kirkjulandi í A-Landeyjum og lést 15. september 1856.
Foreldrar hans voru Ásmundur Jónsson bóndi á Kirkjulandi í A-Landeyjum, síðar vinnumaður, f. 1766 þar, d. 16. júní 1859 í Borgareyrum u. Eyjafjöllum, og kona hans Ingibjörg Magnúsdóttir húsfreyja og síðan vinnukona, en síðast hjá Gísla syni sínum á Vilborgarstöðum, f. 1766 í Miðey í A-Landeyjum, d. 1. júlí 1840 á Vilborgarstöðum.
Bræður Magnúsar í Eyjum voru:
1. Halldór Ásmundsson bóndi í Stóra-Gerði, skírður 24. júlí 1793, d. 4. maí 1837.
2. Gísli Ásmundsson bóndi á Vilborgarstöðum, skírður 26. mars 1801, d. 23. maí 1844.
3. Jón Ásmundsson vinnumaður á Gjábakka f. 1. desember 1799, drukknaði 3. ágúst 1826.
Magnús var fátæklingur í Fagurhól í A-Landeyjum 1801, niðursetningur á Voðmúlastöðum þar 1816.
Hann var kominn til Eyja 1840 og var þá vinnumaður í Brandshúsi. 1845 var hann ókvæntur vinnumaður í Kastala og í Svaðkoti 1850, í Ottahúsi 1855.
Hann lést 1856 úr „af óþekktum veikleika“, ókvæntur og niðursetningur í Kastala.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.is.
- Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
- Manntöl.
- Prestþjónustubækur.