Suðurey

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 25. janúar 2006 kl. 11:40 eftir Sigurgeir (spjall | framlög) Útgáfa frá 25. janúar 2006 kl. 11:40 eftir Sigurgeir (spjall | framlög) (Smávegis leiðr.)
Fara í flakk Fara í leit
Suðurey

Suðurey liggur um kílómetra suðvestur af Stórhöfða og er fjórða stærsta úteyjan, um 0.2 km². Eyjan er gyrt háum hömrum að suðurhliðinni undanskilinni, þar sem grasi vaxin brekka nær niður að sjó. Við brekkuna er eini möguleiki á uppgöngu á eyjuna en vegna öldubrots úr suðri er hún stundum erfið. Um miðbik eyjarinnar liggur hryggur, um 161 m hár þar sem hann er hæstur. Mikið gróðurlendi þekur stóran hluta eyjunnar. Veiðikofi Suðureyinga var reistur 1951 norðan megin á eyjunni en miklar endurbætur hafa verið gerðar síðan þá. Fé er haft á beit í Suðurey og úteyjamenn veiða þar lunda. Mynd:Suðurey-kort.PNG Það er sagt bátfært í Suðurey þegar öldur brjóta ekki á sunnanverðri Hænu; þar sem uppgangan er sunnan til á eynni og sést því ekki frá Heimaey.

Úr örnefnaskrá Gísla Lárussonar

III. Suðurey liggur suðvestur af Heimaey, Stórhöfða – ca ¼ mílu. Er hún hömrum lukt á alla vegu, nema að sunnan. Þar er hún afhallandi í sjó niður, og grasivaxin svo langt sem sjór ekki nær. Fyrir ofan hallann er hryggur í austur og vestur, en norðan við hrygginn að brún er sléttlendi. Þykir eyjan vond til hagagöngu, ætluð 100 sauðum en nú á seinni árum aðeins 40-50. Fuglatekja hefir lítið verið stunduð þar seinni árin, áður höfðust ca 10.000 lundar og töluvert af svartfugl.

Á norðurjaðri eyjarinnar, fyrir miðju bergi er nefnt Vatn, en efst í berginu brík, nefnd Hella. Af þessum stað renndu fuglamenn oft færi í sjó niður og fiskuðu alls konar fisk, oft mikið (t.d. þorsk og lúðu). Hæðin 30 faðmar að sjó niður og 12-14 faðmar til botns. Vestan við Vatn er nefnd Skora, en þar vestur af Útnorðursnef; en austan við Vatn Landnorðursnef. Þar suður af, austan megin, er nefndur Hellir, hellismyndun í berginu. En ofar Kórar og þar suður af Eiríksbæli, en Tobbafles þar upp af. Þar ofar Lend, neðst í henni Gamlarétt (bekkur), þar sunnar Landsuðursbæli. Landsuðursnef er nefnt þar suður af; er þar lendingarstaður, en tæp uppganga. Hér suður af er sker í sjó út, Suðureyjarsker. Suðvesturnef eyjarinnar er nefnt Grasanef og austan við það er aðaluppgangan á eyna, en mjög brimsamt. Fyrir norðan nefið er Suðureyjarhellir, en norður af honum Eggjanef og þar norður af Mottukór (motta notuð til þess að slá fyrir fuglinn). En upp af honum við brún er Hvannstóðarbæli og þar upp af Hvannstóðsbekkur, en þar norður af Hvannstóð. Norður af því neðarlega í berginu er Strákakór.


Heimildir