Blik 1960/Gengið á reka

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 3. október 2013 kl. 16:59 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 3. október 2013 kl. 16:59 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1960



ÁRNI ÁRNASON:


Gengið á reka


Árni Árnason, höfundur greinarinnar.

Fyrir nokkru síðan heyrði ég eftirfarandi vísubrot:

Nú er hún gamla Gudda dauð,
getur ei lengur unnið brauð,
unnið, spunnið ull í föt ...

Ekki vissi sá, er fór með þetta vísubrot, hvaðan það var eða hver hefði ort það, en taldi, að það væri frá Eyjum. Sagði hann, að ógerlegt mundi að grafast fyrir höfund vísunnar og framhald hennar.
Mér fannst það harla ótrúlegt, að ekki mætti finna þetta með tíð og tíma og hugsaði mér að ganga á reka og sjá hvað kæmi á fjörurnar.
Ég hóf starf mitt í kyrrþey með því að tala við gamla Eyjaskeggja og fróða um fyrri tíma, en varð þess brátt vísari, að þetta ætlaði að verða strembið. Þó kom svo, að böndin fóru að berast að vistmönnum í Nýborg. Þar var fyrrum margt um manninn og heimilið á sínum tíma eitt af beztu heimilum þorpsins og byggilegasta húsið, myndarheimili og vel að efnum búið. Þar bjó Sigurður Sveinsson í Nýborg snikkari, hinn mesti búhöldur, giftur Þórönnu Ingimundardóttur, ljósmóður frá Gjábakka.
Nýborg var byggð árið 1876. Stendur hún enn á sínum upprunalega stað við Strandveginn, en nokkuð breytt frá sinni fyrstu gerð og hafa flestar þær breytingar farið fram hin síðari ár. Innviðir munu hinsvegar flestir vera óbreyttir.
Ég ætla að skyggnast snöggvast inn í Nýborg kringum aldamótin síðustu og athuga, hvort þar er að finna höfund vísunnar meðal fólksins.
Fyrst rekst ég þar á Sigga karlinn bonn, þann, er umgetur í vísunni alkunnu

„Syngur messu sjós á trjánum
Siggi bonn á freðnum hnjánum ...“

Hann hét annars Sigurður Guðmundsson skellis og Margrétar Sigurðardóttur. Ekki fannst Sigga bonn neitt athugavert við viðurnefni sitt. Hann vissi, að það var franskt orð, sem þýðir fallegur, og var ánægður með nafngiftina. Siggi karlinn bonn gerði stundum vísur og bragi, svo að jafnvel héraðsfleygt varð. Þó gat ekkert af því kallazt skáldskapur. Allir kannast t.d. við

„Bryde er kominn, býst ég við,
bragnar mega sjá hann
með báða syni sína og sig
sitt hús lætur prýða hér.
Til hákarla í Vestmannaeyjum
fara þeir norðan gaddi í.
Hálfkaldir koma þeir að landi,
upp í vertshúsið skunda þeir.
Sína sjóblautu vettlinga
verða þeir að setja upp grútuga.“

Þetta var og er enn mikið sungið undir alþekktu sálmalagi. Gæti það kallast tækifærissöngur Eyjaskeggja. — Þrátt fyrir allt var Siggi bonn að sumu leyti merkilegur maður. Hann flutti oft fyrirlestra um ýmisleg mál og sagðist oft vel. Hafði hann stundum allmarga áheyrendur, sem létu þá einhverja aura af hendi rakna fyrir skemmtanina. Í þann mund héldu ekki margir fyrirlestra, og þeim fáu var Siggi enginn eftirbátur í mælsku. Ég hygg þó, að hann hafi varla getað gert óbjagaða vísu og alls ekki gat hann átt vísuna um Guddu gömlu.
Í Nýborg hitti ég líka Árna gamla frá Miðbælisbökkum, venjulega kallaðan Árna gamla á Bökkunum, Magnússon. Hann var mikið í Eyjum og stundaði vinnu hér. Hann var vel þekktur Eyfellingur og formaður frá Fjallasandi á fyrri árum. Hann stundaði hér ýmiskonar vinnu á seinni árum og þá ekki alltaf sem hreinlegasta, og fór hreinlæti hans nokkurnveginn eftir því. Hann var ekki með neinn tepruskap í þá átt. Ekki mun Árni gamli hafa fengizt neitt við ljóðagerð, en sagður var hann vel viti borinn, skemmtilegur í viðræðum og afar orðheppinn. Herdís systir hans var einnig í Nýborg, trútt hjú og sívinnandi, en naumast tók hún Árna bróður sínum fram um hreinlæti við sjálfa sig. Fannst Árna því nóg um, er hún fór eitt sinn að vanda um við hann vegna sóðaskapar. Þá svaraði Árni gamli; „Ja, sei, sei, bragð er að, þá barnið finnur, Dísa systir.“ Þótti svar hans gott og eiga vel við og var því lengi viðbrugðið hér í daglegu tali. Ekki hafði Dísa gamla neitt fengizt við skáldskap, svo að ekki áttu þau vísuna um Guddu gömlu, sem ekki gat spunnið ull í föt.
Meðal annarra starfa hér vann Árni gamli við lifrarbræðsluna hjá Gísla J. Johnsen. Mun Sigurlínus Stefánsson frá Norðfirði þá hafa verið bræðslumeistari þar.
Verk Árna gamla á Bökkunum var m.a. að fara með grútarpokana frá grindinni í lifrarbræðslunni á Nausthamri og hvolfa úr þeim norðan við skúrinn í Klappirnar. Þetta var all sóðaleg vinna, en Árni var ekkert að fárast yfir því eða gæta sín fyrir grútnum. Hann bar pokana í fanginu, en breiddi þó stundum strigapoka framan á sig.
Eitt sinn sem oftar var hann að rogast með grútarpoka á bryggjunni við Nausthamar. Þröng var þar af fólki vegna skipakomu og var Gísli J. Johnsen þar á meðal. Mætast þeir nú Árni gamli og Gísli og rakst grútarpokinn eitthvað í Gísla, svo að hann óhreinkaðist eitthvað smávegis. Gísli sneri sér þá snöggt að Árna og sagði: „Hvaða bölvaður sóðagangur er í þér, Árni, þú klínir mann allan út í þessum fjandans grút.“ Ekki varð Árni neitt uppnæmur við orð Gísla en svaraði með mestu hægð: „O, sei, sei, Gísli sæll, þetta er bara tárhreinn grútur, sem þú átt sjálfur. Ekki mundi ég sakast um, þó að eitthvað örlítið slettist á mig af eignum þínum, sei, sei, nei.“
Gísli brosti í kampinn, þótti svarið gott og rétti Árna gamla eina krónu, sem var mikill peningur í þá tíð.
Jón Jónsson í Hlíð lenti einu sinni í orðakasti við Árna gamla. Sagði Jón m.a., að Árni væri alltaf að flækjast í Eyjunum og tæki þar vinnu frá mönnum, sem þyrftu hennar með. Sveitamenn ættu að vera í sinni sveit og amstrast þar við sitt litla búhokur. Þessir smábændur væru aldrei heima hjá sér, svo að ekki væri von, að búrekstur þeirra væri beysinn.
Árni tók þessu masi Jóns með mestu rósemi og mælti: „O, sei, sei, Jón, ekki ertu nú hærri en Heimaklettur ennþá, veslings stubburinn.“ Þaðan mun viðurnefni Jóns komið, Jón stubbur, sem lengi var við persónu hans loðandi.
Gömul kona var í Nýborg, sem aldrei var kölluð annað en „Lauga á alnum“, mesta myndar gamalmenni, iðjusöm og góð sál. Hún var rúmliggjandi í mörg ár vegna fótarmeins. Þegar Nýborg var lagfærð árið 1907 komst Lauga gamla studd heim að Litlabæ og var þar lengi eftir það. Komst hún þar á fætur eftir nokkurn tíma og hafði lengstum ferilsvist. Ekki hafði Lauga gamla fengizt neitt við ljóðagerð, svo að ekki var hún höfundurinn, sem ég leitaði að í Nýborg. Hún hafði áður fyrri Búið í Smiðjunni. Það var hús efst í Sjómannasundi, sem nú er, en flutti í ellinni til Sigurðar í Nýborg, sem tók hana með sveitarmeðlagi. Þaðan fór hún svo að Litlabæ, sem áður getur.
Helgi Ingimundarson var um eitt skeið í Nýborg. Hann var bróðir Sigurðar Ingimundarsonar í Skjaldbreið hér og Árna þess, er fórst með m/b Ástríði 1908. Helgi þessi var mesti fjörkálfur, vel gefinn og skemmtilegur. Var sagt, að hann hefði komið því upp, ,,að Sigurður Sveinsson ætti í sekknum gull“. Getur þessa í gamalli vísu, sem mun vera eftir Ólaf Magnússon skáld, kveðin fyrir munn Sigurðar:

„Frá Ástralíu átti ég málm,
ekki sá við hrekknum,
er Helgi með sitt handarfálm
hönkina skar frá sekknum.“

Ekki er trúlegt, að auður Sigurðar hafi verið kominn frá Ástralíu, en ríkur var hann sagður og kunni vel með auð sinn að fara.
Lengi lá við í Nýborg Tómas Ólafsson frá Leirum undir Austurfjöllum. Var hann þar ýmist sjálfs sín eða vinnumaður Sigurðar. Tómas var faðir Magnúsar fisksala frá Gerði, en móðir Magnúsar var Magnúsína Magnúsdóttir. Ekki voru þau þó gift, og var Magnúsína lengi þénandi í Frydendal. Þar er Magnús fisksali fæddur, en alinn var hann upp í Gerði hjá Jóni Jónssyni, og konu hans Guðbjörgu Björnsdóttur frá Kirkjubæ Einarssonar. Fór Magnús þangað 3ja vikna gamall. Tómas flutti síðar til Seyðisfjarðar. Þar lenti hann í skipshrakningi og lézt af völdum þessa. Magnúsína flutti einnig austur á land og ílengdist í Mjóafirði. Þar giftist hún Jóni Sigurðssyni. Þau eignuðust tvo drengi. Magnúsína kom hingað síðar, missti hér annan son sinn og fór þá aftur alfarin úr Eyjum til Austfjarða. Hún dó á elliheimilinu í Neskaupstað fyrir nokkrum árum.
Ekki var Tómas neitt við skáldskap kenndur og sagður hinn mesti rólegheita maður, eins og vísan bendir til:

„Tómas aldrei hefir hátt,
hátt þó aðrir masi,
situr, brosir, segir fátt
Sigurðar við þrasi.“
Ólafur skáld Magnússon.

Býsna lengi bjó í Nýborg Ólafur skáld Magnússon frá Vilborgarstöðum og lézt þar fyrir nokkrum árum. Ólafur var snillings sjómaður og afbragðs formaður, en hætti formennsku eftir að hafa misst af sér einn mann við Klettsnef í róðri. Hann var einn af þessum mönnum, sem kallaður var netfiskinn, enda brást honum aldrei fiskur. Hann stundaði sjóinn fram til síðustu æviára. Hagyrðingur var Óli ágætur, og eru margar vísur hans með snilldarbrag alþýðuskáldsins, sem lifa munu um ókomin ár, og bera óræka sönnun skáldskapargáfu hans, enda þótt hann, eins og hann sjálfur segir: „Hefir Óli aldrei í Edduskóla gengið.“
Nokkuð hefir birzt á prenti af kveðskap Ólafs, en mest af honum mun þó hafa glatazt, er hann, að sögn, brenndi syrpu sína skömmu fyrir andlát sitt.
Sem sýnishorn set ég hér:

„Heyrðu, kæri korðaver,
komdu nær og sjáðu hér,
það eru tvær að tína ber,
tækifærið hentugt er.
Pían kokka puntaða
pilt vill lokka án trega
Honum smokka hárauða
hún gaf þokkalega.
Grænum móa gekk ég á
gleðin bjó þar staka
ungan spóa ég þar sá
yfir lóu vaka.“

En þrátt fyrir ljóðagerð Ólafs hafði hann ekki gert vísuna um Guddu gömlu og fór mér nú ekki að lítast á blikuna. Hélt ég, að aldrei mundi mér takast að hafa upp á höfundi hennar sem og áframhaldi vísunnar. En þegar verst gekk, kom einn vistmaður Sigurðar Sveinssonar í leitirnar, já, og meira að segja systir hans líka og bæði snilldarvel hagmælt. Hún hét Guðrún og var Gísladóttir skálds frá Felli í Mýrdal Thorarensen.
Hennar getur í vísunni frá Nýborg, hvar segir:

Eg þó hrasi öls við glas,
aðrir þrasið kunna,
„saman masa málafjas,
Matthías og Gunna.“

Guðrún var bæði hraðkvæð og fríkvæð og lét aldrei knésetja sig í orðaleik. Var sagt, að fáir sæktu gull í greipar henni. Hún var fríð stúlka og fönguleg, en ekki hafði hún gert vísuna um Guddu.
En þá var að finna sagnir af bróður hennar, sem var Páll Gíslason vinnumaður Sigurðar í Nýborg. Hann var góður hagyrðingur en þótti nokkuð níðskældinn, sérlega ef hann var kenndur. Hann hafði verið fríður maður, stór og föngulegur, gefinn vel, svipmikill, en hélt um of af gamla Bakkusi konungi. Varð hann þá stundum nokkuð stirfinn í umgengni. Ekki mun samkomulag þeirra Sigurðar húsbónda hans hafa verið sem ákjósanlegast, því að margar vísur Páls benda ótvírætt á allmikla samveruerfiðleika. Er trúlegast, að þetta muni mikið til hafa verið af völdum Páls, því að sagður var Sigurður enginn illindamaður, en Páll hinsvegar ófyrirleitinn og stríðinn undir áhrifum víns.
Þarna fann ég loks höfund vísunnar um Guddu gömlu og er vísan þannig:

„Nú er hún gamla Gudda dauð,
getur ei lengur unnið brauð,
unnið, spunnið ull í föt
ekki gert skó né stagað göt.
Siggi tapaði en sveitin vann
er sálin skildi við líkamann.“

En hver var hún, þessi Gudda gamla? Ekki ósennilegt hún hafi verið niðursetningur, sem sveitin hefir greitt fyrir til Sigurðar, sem og vísan ber með sér. Annars hét hún Guðbjörg Jónsdóttir og hafði verið gift manni þeim, er Hannes hét. Hann hafði viðurnefni eins og margir fleiri Eyjamenn í þann tíma. Sennilega hefir Hannes fengið viðurnefni sitt af því, að hann var oft að snatta í fýl sem er oft nefndur sladdi. Það þurfti á þeim tímum ekki stórt tilefni til uppnefningar og má segja, að hver maður hafi borið sitt viðurnefni. Flest voru þau runnin frá útlendu kaupmönnunum og verzlunarþjónum þeirra og haldið við af þeim og oftast gefin í óvirðingarskyni.
Hannes hrapaði einu sinni úr Bensanefi í Stóraklifi, er hann var þar til fýla, en slapp vel frá þeim voða, þótt hann meiddist nokkuð mikið.
Oftast lét hann búðarþjóna fá afla sinn af fýl og eggjum gegn einhverri greiðslu. Aðal eggjageymsla hans í þessum eggjafærsluferðum, (sem hann auðvitað gerði í trássi við lög og rétt) var hatturinn hans, sem hann vitanlega bar á höfðinu.
En einu sinni varð honum hált á þeirri geymslu. Þá kom hann inn í Austurbúð, en margir búðarstöðumenn voru þar fyrir eins og oft vildi vera fyrrum. Þeim fannst hattur Hannesar gamla eitthvað svo bústinn og fyrirferðarmikill, svo að þeir klöppuðu á kollinn á karli þéttingsfast. Við það brotnuðu eggin, er þar voru geymd, og rann rauða og hvíta niður allt andlit hans í stríðum straumum, sem klepraði skegg hans og hár. Hannes reiddist ákaflega og höfðu galgoparnir nóg að gera að verjast honum og eggjaslettum hans. Ekki lét Hannes gamli af starfa sínum við fýlinn þrátt fyrir þetta óhapp, og sagt var, að hann hefði aldrei verið ástundunarsamari við fýlabyggðina í Klifinu en eftir þetta.
En það var varla von, að Hannes gamli slyppi við glens búðarstöðumanna. Það var alltaf fullt af þeim í verzlununum og mjög haft þar í glensi og allskonar galgopahætti. Höfðu faktorar oft gaman af öllu saman og jafnvel egndu til áfloga fyrir utan borð.
Einu sinni kom maður inn í Austurbúð, er margir búðarstöðumenn voru þar fyrir, og sat Pétur faktor fyrir innan borð og tók þátt í glensi manna. Þá sagði sá nýkomni, en sá hét Sigmundur:

„Pétur situr hátt í höllu
í Helvítanna krá ...“

Pétur var víst ekki hagmæltur, svo að hann kallar fram í búðina: Blessaðir piltar, botnið nú fyrir mig.“ Og það stóð ekki á því. Árni skáld Níelsson var þarna staddur og segir:

„En Sigmundur er allt í öllu
andskotanum hjá.“

Gudda gamla var blind í ellinni. Hún var mjög mikil tóvinnukona, svo að efalaust hefir hún með iðni sinni bætt töluvert upp það framlag, sem sveitin lagði með henni, því að prjónles hverskonar var ávallt í góðu verði. Gudda hafði all einkennilega siði. T.d. hreyfði hún aldrei og bannaði að hreyfa við undirsæng sinni nema aðeins á gamlárskvöld. Ástæðurnar vissi enginn, en boði hennar varð að hlýða, ef vel átti að fara.
Páll Gíslason réri um tíma með Hannesi lóðs á skipinu Gideon. Róðrartímabil sitt endaði Páll þannig að kasta sjóklæðum sínum og handfæri fyrir borð. Kom þetta til af því, að Hannes formaður, sem var mesti æringi, spurði Pál í lokaróðrinum: „Hvað heldurðu, að Sigurður í Nýborg segði, ef þú kæmir allslaus heim, fisklaus, sjóklæða- og færislaus?“
,,Það veit ég fjandann ekki,“ svaraði Páll. „Við skulum sjá, hvað hann segir.“ Áður en nokkur gat áttað sig á tiltektum Páls, hafði hann hent fyrir borð sjóklæðum sínum og handfæri.
Ekki er kunnugt, hvað Sigurður sagði við þessu, en varast hafa það verið blessunarorð, því að hann lagði Páli til sjóklæði, handfæri með sökku og öngli og var þetta nokkuð dýrt.
Páll Gíslason fór héðan austur á land og ílengdist á Seyðisfirði. Þar drukknaði hann í fiskiróðri ásamt Árna Magnússyni frá Vilborgarstöðum og Arnbjargar Árnadóttur frá Ömpubæ. Hún var alltaf nefnd Ampa í Ömpubæ eða Ömpuhjalli. Er og ekki ósennilegt, að Ömpustekkir séu við gælunafn hennar kenndir, og hafi Ampa þá fært þar frá, er hún var á Vilborgarstöðum.
Páll Gíslason gerði töluvert af lausavísum allskonar og lifa margar enn á vörum almennings, en flestar munu þó glataðar og verða því vart skráðar úr þessu.

Árni Árnason.