Árni Árnason (Grund)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 9. ágúst 2013 kl. 23:19 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 9. ágúst 2013 kl. 23:19 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið nafnið „Árni Árnason


Árni Árnason

Árni Árnason var fæddur 14.júlí 1870 að Vilborgarstöðum og lést 19. janúar 1924. Hann var sonur Árna bónda þar Árnasonar, er drukknaði af opna skipinu Gauk 13. mars 1874. Móðir Árna og kona Árna eldra var Vigdís Jónsdóttir, f. 1844. Þegar Gaukur fórst, tók Árni Einarsson hreppstjóri á Vilborgarstöðum og Guðfinna kona hans Árna Árnason til fósturs og dvaldist hann þar til tvítugsaldurs.

Árni kvæntist Jóhönnu Lárusdóttur á Búastöðum. Börn þeirra voru:


Heimildir

Frekari ymfjöllun

Árni Árnason bóndi, sjómaður og verkamaður á Grund, fæddist 14. júlí 1870 og lést 19. janúar 1924.
Foreldrar hans voru Árni Árnason bóndi á Vilborgarstöðum, f. 6. ágúst 1843, drukknaði af bátnum Gauki 13. mars 1874, og kona hans Vigdís Jónsdóttir húsfreyja, f. 10. júní 1845, lést Vestanhafs.

Árni var í foreldrahúsum á Vilborgarstöðum 1870.
Hann fluttist til Utah 1892 og bjó þar í 5 ár með Jóhönnu konu sinni, en kom aftur.
Hann var húsbóndi á Grund með Jóhönnu 1910, með börnin Bergþóru, Árna og Guðfinnu hjá sér, en Lárus var hjá Júlíönu og Pétri móðurbróður sínum á Búastöðum vestri.

Kona Árna á Grund var Jóhanna Lárusdóttir, f. 23. september 1868, d. 8. desember 1953.
Börn Árna og Jóhönnu voru:
1. Lárus G. Árnason bifreiðastjóri, f. 11. maí 1886, d. 15. febrúar 1967, kvæntur Sigríði Jónatansdóttur. Þau skildu, barnlaus.
2. Bergþóra Ástrós húsfreyja, f. 13. september 1898, d. 17. október 1969, gift Jóhannesi Long.
3. Árni símritari, f. 19. mars 1901, d. 13. október 1962, kvæntur Katrínu Árnadóttur.
4. Guðfinna Ástdís húsfreyja, f. 19. nóvember 1903, d. 5. október 1990, gift Kristni Bjarnasyni.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Lífsstörf Árna voru margvísleg. Hann fór til Bandaríkjanna og var þar í 5 ár, vann við brautarlagningar, vann í kolanámum, stundaði búskap o.m.fl. Hér heima var hann sjómaður, kyndari við Gúanó o.fl. Hann var afbragðs skytta og stundaði það mikið með sjóferðum sínum.
Strax í barnæsku fór Árni að stunda fuglaveiðar og bjarggöngur fyrir fóstra sinn Árna Einarsson, alþingismann á Vilborgarstöðum, ásamt sonum hans. Átti jörðin mikil ítök í björgum Eyjanna, sem nytjaðar voru til hins ýtrasta, bæði á heimalandi og úteyjum. Varð Árni því snemma afbragðs veiðimaður og fjallagarpur, sem ávallt mun verða talinn til hinna stóru og stærstu.
Sigamaður og bjarggöngumaður var hann prýðisgóður. Hann lagði veg upp á Bládranginn, en árið eftir hrundi dranginn (1895). Síðustu árin var hann heilsutæpur og lést aðeins 53 ára gamall.
Hann hafði verið í öllum úteyjum hér til lunda, en við aðra fugla- og eggjatöku í flestum eyjum og dröngum Eyjanna, Eldey og víðar, – hvarvetna við góða dóma félaga sinna.
Árni var maður meðalhár, dökkhærður, nokkuð þrekinn um herðar, sterkur vel, snar og kattliðugur. Hann var léttur í lund og öllu fasi, söngvinn ágætlega og hljómelskur.
Hann var vinmargur og vellátinn, góður samstarfsmaður og félagi, iðjusamur við störf og ósérhlífinn. Hann var uppáhald allra nýsveina í úteyjum og var þeim mjög innan handar um allt, er að vellíðan þeirra laut og veiðiúthaldi.
Hann var mjög góður veiðimaður, sem mun lengi minnst í veiðimanna- og bjargveiðisögu Eyjanna. Góður drengur, sem fór of fljótt til feðra sinna.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir



Myndir