Sigurgeir Jónsson (Þorlaugargerði)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 17. ágúst 2012 kl. 08:28 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 17. ágúst 2012 kl. 08:28 eftir Daniel (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Björgvin, Ólafur og Sigurgeir í hljómsveitinni Qmen7.

Sigurgeir Jónsson fæddist 26. júní 1942 í Vestmannaeyjum. Sonur Jóns Guðjónssonar frá Oddsstöðum, bónda og skipasmiðs í Þorlaugargerði eystra og Guðrúnar Jónsdóttur frá Suðurgarði.

Sigurgeir lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1965 og kenndi við Barnaskólann í Vestmannaeyjum og Gagnfræðaskólann til ársins 1982 þegar hann réðst sem kennari við Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum en sama ár lauk hann námi í II. stigi þess skóla. Áður hafði hann lokið prófi frá Vélskóla Vestmannaeyja árið 1960. Sigurgeir stundaði sjó, ýmist sem aðalstarf eða yfir sumartímann meðfram kennslu, í 30 ár. Þegar Stýrimannaskólinn sameinaðist Framhaldsskólanum árið 1997 var hann ráðinn sem kennari við Framhaldsskólann og deildarstjori við skipstjórnarbraut skólans þegar henni var komið á 2007.

Sigurgeir stundaði ritstörf og blaðamennsku, m.a. á tímaritinu Vikunni, var ritstjóri Fylkis, málgagns sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum, 1967-1968, blaðamaður og prófarkalesari á vikublaðinu Fréttum um margra ára skeið. Hann var æskulýðsfulltrúi Vestmannaeyja 1978 til 1982 og menningarfulltrúi bæjarins 2003 til 2004. Árið 2007 kom út bókin Nýjar sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum, en þar er að finna 150 gamansögur af þekktum Eyjamönnum sem Sigurgeir hefur safnað. Sigurgeir spilaði á bassa í hljómsveitinni Qmen 7 allan starfstíma sveitarinnar, frá 1976 til 1986.

Hann kvæntist árið 1967 Katrínu Lovísu Magnúsdóttur, úr Dalasýslu, kennara við Hamarsskóla og eru börn þeirra fjögur; Jarl (1967) stýrimaður, Dís (1969) lögfræðingur, Hersir (1972) stærðfræðingur og Dögg Lára (1974) kennari. Fyrir átti Sigurgeir Fanney (1965) bókasafnsfræðing.

Árið 1989 keyptu Sigurgeir og Katrín ritfanga og gjafavöruverslunina Oddinn við Strandveg og ráku hana til ársins 1999 þegar þau seldu hana.

Árið 2001 byggðu þau sér íbúðarhús fyrir ofan hraun og nefndu það Gvendarhús eftir samnefndu býli er þar stóð áður en fór undir flugbrautina þegar hún var lengd til vesturs.

Myndir