Blik 1972/Þrír hljómsveitarstjórar í Vestmannaeyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 27. apríl 2010 kl. 19:52 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 27. apríl 2010 kl. 19:52 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Ný síða: Efnisyfirlit 1972 ::::: <big><big><big>Þrír hljómsveitarstjórar í Vestmannaeyjum</big></big></big> <br> <br> :::::::::::'''I''' ::::::::<big><big>''Helgi Helgason...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1972



Þrír hljómsveitarstjórar í Vestmannaeyjum



I
Helgi Helgason, tónskáld
Helgi Helgason, tónskáld.

Hann var fæddur 23. janúar 1848. Foreldrar hans voru hjónin Helgi trésmiður Jónsson og frú Guðrún Jónsdóttir, búandi í Reykjavík. Faðirinn var Mývetningur að ætt en móðirin var úr Gaulverjarbæjarhreppi í Flóa.
Helgi Helgason lærði trésmíði af föður sínum og þótti með afbrigðum slyngur maður og afkastamikill. Hann stundaði smíðar öðrum þræði um tugi ára framan af ævi sinni milli þess sem hann helgaði krafta sína og gáfur tónlistinni.
Helgi Helgason sigldi til Kaupmannahafnar árið 1875 til þess að nema tónlist eins og hugur hans þráði frá blautu barnsbeini. Í Höfn lærði hann „hornaleik“ hjá hinum kunna danska tónlistarmanni, Baldvin Dalh, sem stjórnaði hljómsveit í skemmtigarði Kaupmannahafnarbúa, Tívolí. Helgi Helgason er sagður fyrsti Íslendingurinn, sem lærir hornablástur, - lærir að ,,þeyta“ lúðra.
Í Höfn fékk hann vinnu við skipasmíðar og stundaði þær með tónlistarnáminu árið, sem hann dvaldi í borginni.
Þegar hann kom heim frá Kaupmannahöfn 1876, mun hann fljótlega hafa stofnað „Lúðraþeytarafélag Reykjavíkur“, sem hann stjórnaði síðan meira en fimmtung aldar.
Árið 1902 fór Helgi Helgason til Vesturheims og dvaldist þar við „söng og hljóðfæraslátt“ um 14 ára skeið. Með Vestur-Íslendingum stofnaði hann og stjórnaði lúðrasveit, sem hann kallaði Víkinga.
Til Vestmannaeyja fluttist Helgi Helgason 22. nóv. 1917. Bjó hann þá fyrst í húsinu Akurey við Vestmannabraut, leigði þar herbergi, en síðan í Ásgarði hjá þeim kunnu hjónum Gíslínu Jónsdóttur og Árna Filippussyni. Alls dvaldist hann hér í Eyjum fjögur sumur. Hér vann hann á vegum tengdasonar síns, Egils kaupmanns Jakobsen, sem rak hér verzlun frá árinu 1913 (Sjá mynd af fyrstu símstöðinni í Eyjum hér í ritinu) og byggði hér verzlunarhús eftir nokkur ár neðst við Bárustíginn austanverðan. (Sjá verzluarhús frú Önnu Gunnlaugsson, læknisekkju). Öðrum þræði vann Helgi Helgason við byggingu þessa hér á sumrin, dyttaði að henni og málaði.




Verzlunarhús Egils Jakobsen við Bárugötu (Bárustíg); síðar verzlunarhús frú Önnu Gunnlaugsson, ekkju Halldórs Gunnlaugssonar, héraðslæknis, sem rak verzlun í húsi þessu um 40 ára bil. Húsið var rifið fyrir fáum árum og er nú hússtæði þess bifreiðastæði neðst í miðbænum.





Eins og ég drap á, var tónakáld þetta lærður trésmiður og þá sérstaklega húsasmiður. Einnig vann hann mikið að skipasmíðum í Reykjavík á yngri árum sínum. Meðan hann dvaldi í Ásgarði, hafði Árni Filippusson, gjaldkeri, ánægju af að kynnast eilítið fyrri störfum hans við húsa- og skipasmíðar. Þá skrifaði hann upp eftir honum nokkurn fróðleik um skipasmíðar hans. Hér leyfi ég mér að birta það orðrétt:
„Hann (þ.e. H.H.) lærði trésmíði alls konar í Kaupmannahöfn og hóf þá iðn sína í Reykjavík árið 1881. Hann smíðaði fyrsta skipið 1893. Það hét Stígandi, 17 smálestir að stærð. Hann var skarsúða tvístefnungur með kútterasiglingu. Var Stígandi m.a. notaður til vöruflutninga í Faxaflóa, og var Markús Bjarnason (skólastjóri Stýrimannaskólans Reykjavík frá stofnun hans 1890 til æviloka 28. júní 1900) fyrst skipstjóri á honum, en Einar Stefánsson, síðar skipstjóri á v/s Dettifossi, var þá matsveinn á Stíganda.
Annað skip, sem Helgi Helgason smíðaði, var Guðrún, sem hét eftir konu hans. Skip þetta var 26 lestir, sléttsúða og mjög vandað. Var það með litlum gafli á afturskut. Þetta var nýtt í skipasmíði og þótti ekki reynast vel.
Þriðja skipið smíðaði Helgi árið 1896. Það var 30 smálestir og hét Elín eftir landshöfingjafrúnni, og átti Magnús Stephensen, landshöfðingi, helming í skipinu, sem var mjög vandað og hið ágætasta skip. Það var skírt með því að brjóta kampavínsflösku á stefni þess, sem þá var sjaldgæfur atburður við skírn skipa. - Skipið endaði tilveru sína á Siglufirði.
Árið 1897 gerði Helgi Helgason við spítalaskip Frakka, St. Paul, sem rak upp í klettana í Skuggahverfi í ofsaroki í maí 1897 og brotnaði mikið. Þótti viðgerðin takast mjög vel og með ólíkindum og sanna vel smíðahæfni Helga Helgasonar.“
Þessi fróðleiksklausa um skipasmíðar Helga Helgasonar tónskálds er þannig til orðin og til mín komin, að hann gaf Árna í Ásgarði, sem hann vissi að var smiður góður, tvær axir, sem hann hafði með sér hingað til Eyja. Þær hafði hann notað við skipasmíðarnar og svo húsasmíðar um langt árabil. Síðar löngu gáfu systurnar í Ásgarði, Guðrún og Katrín Árnadætur, Byggðarsafninu axir þessar til minningar um hinn mæta gest í Ásgarði, Helga tónskáld, og svo föður sinn, Árna Filippusson, og hin góðu kynni þeirra. Með öxunum fylgdi þessi greinargerð um skipasmíðar hans.
Helgi tónskáld æfði Lúðrasveit Vestmannaeyja af miklu kappi, þegar hann dvaldist hér, og samdi hann jafnframt sönglög og orti ljóð. Oddgeir heitinn Kristjánsson tjáði mér, að hér hefði hann t.d. samið svo nefnt Vestmannaeyjalag og lagið Líkn er þitt heiti, sem helgað er Kvenfélaginu Líkn hér í kaupstaðnum.
Hinn 23. janúar 1918 fyllti Helgi Helgason sjöunda áratuginn. Hinn 30. marz um veturinn efndi Brynjólfur Sigfússon og söngflokkur hans til almennrar söngskemmtunar í Þinghúsinu Borg við Heimagötu. Söngskemmtun þessi var helguð sjötíu ára afmæli Helga Helgasonar tónskálds og hljómsveitarstjóra. Á dagskrá voru 16 lög, og voru þau öll samin af Helga Helgasyni. Hið sjötuga afmælisbarn söng eina sólóna í hinu mikla tónverki þess, sjálfs Gunnarshólma, en kvæðið orti Jónas Hallgrímsson, eins og kunnugt er. Mikið orð fór þegar af samsöng þessum, svo að Eyjabúar fylltu Þingsalinn aftur kvöldið eftir, sunnudagskvöldið 31. marz. Meiri sóma gátu Brynjólfur söngstjóri Sigfússon, söngflokkur hans og Eyjabúar í heild ekki sýnt hljómsveitarstjóranum og tónskáldinu Helga Helgasyni.
Kunnastur mun Helgi tónskáld fyrst hafa orðið, er sönglagabók hans kom út árið 1892. Bókin heitir Íslenzk sönglög.
Kona tónskáldsins var Guðrún Sigurðardóttir frá Þerney. Þau giftust árið 1870.
Helgi tónskáld Helgason fluttist frá Vestmannaeyjum alfarinn 15. maí 1921. Hann andaðist í Reykjavík 14. desember 1922.

II
Hallgrímur Þorsteinsson, tónskáld

Hann var Árnesingur, fæddur að Götu í Hrunamannahreppi 10. apríl 1864. Foreldrar hans voru Þorsteinn bóndi Jónsson í Götu og kona hans frú Guðrún Jónsdóttir hreppstjóra á Galtafelli í Hrunamannahreppi.
Hallgrímur Þorsteinsson var organisti og söngkennari í Hruna á árunum 1887-1893. Fluttist hann þá norður á Sauðárkrók og var þar organisti á árunum 1893-1906. Árið 1907 gerðist hann söngkennari í Reykjavík. Fyrst var hann það sjö ár (1907-1914) og síðar önnur sjö ár (1923-1930).
Í Reykjavík stjórnaði hann kunnum lúðrasveitum, svo sem Lúðrasveitinni Hörpu og Gígjunni o.fl. „hornaflokkum“. Á nokkrum stöðum úti um land stjórnaði hann einnig lúðrasveitum og kveikti tónlistarlíf og efldi, þar sem hann dvaldi, svo sem í Borgarnesi, Stykkishólmi og á Sauðárkróki. Á þessum stöðum, sem ég nefndi, var hann organisti jafnframt. Þá stjórnaði hann einnig söngkórum í Reykjavík.

Hallgrímur Þorsteinsson tónskáld.

Gerð er svo nokkur grein fyrir hinu ómetanlega starfi hans hér Vestmannaeyjum á vissu tímaskeiði fyrir Lúðrasveit Vestmannaeyja. Hallgrímur Þorsteinsson var ávallt boðinn og búinn til þess að fórna starfskröftum til eflingar tónlistarlífi með íslenzku þjóðinni, - ómetanlegur maður á því sviði.
Nokkur sumur var Hallgrímur vegaverkstjóri í Skagafjarðarsveitum. Ekki er það ólíklega til getið, að uppruni konu hans hafi haft einhver áhrif á sumardvalir hans þar, en kona hans hét Margrét S. Björnsdóttir og var skagfirzk að uppruna. Þau giftust 2. október 1896 og eignuðust þrjú börn (sjá Kennaratal á Íslandi I. bindi, bls. 258).
Árið 1910 kom út söngkennslubók handa byrjendum eftir Hallgrím tónskáld Þorsteinsson, og svo 13 sönglög árið 1913.
Hljómsveitarstjórinn og tónskáldið var heiðursfélagi Lúðrasveitar Vestmannaeyja hinnar yngstu. Það kjöri hljómsveitin hann fyrir hin óeigingjörnu störf hans í þágu tónlistar í Vestmannaeyjum á árunum 1925-1928.
Hallgrímur Þorsteinsson tónskáld var fórnfús hugsjónamaður á tónlistarsviðinu og áhrifamikill persónuleiki, sem hinir ungu unnendur tónlistar í Vestmannaeyjum og félagar í hljómlistarlífinu þar dáðu og þökkuðu. Hann vann hér vissulega mikið menningarstarf af ötulleik og miklum áhuga. Fáir kunnu að meta það betur en Oddgeir Kristjánsson og félagar hans við hljómlistarstörfin. Hallgrímur andaðist 9. nóv. 1952.

III
Tónlistarmaðurinn Oddgeir Kristjánsson

Í fyrra birti Blik kafla úr greinum og önnur minningarorð um Oddgeir Kristjánsson, hljómsveitarstjóra og tónskáld, svo og hluta af ræðu prestsins við útför hans. Þá höfðum við orð á því, að eftir væri að minnast að nokkru hins mikla tónlistarstarfs hans hér í kaupstaðnum.
Árið 1924, þegar Lúðrasveit Vestmannaeyja var endurvakin af þyrnirósarsvefni, tóku ungir menn í kaupstaðnum að hugleiða sjálfa sig, hugleiða hneigðir sínar til tónlistar og þátttöku í hljómlistarstarfi í bænum.
Nýtt líf færðist í þessar kenndir, þegar Hallgrímur Þorsteinsson, hinn kunni tónlistarmaður og hljómsveitarstjóri, fluttist til Eyja vorið 1925.
Þá var það sem Oddgeir Kristjánsson frá Heiðarbrún við Vestmannabraut, fermingardrengurinn frá vorinu, tók að hugleiða sjálfan sig og hneigðir sínar til tónlistar. Í rauninni hafði hann uppgötvað áður, að hann hefði bæði hneigðir og getu til þess að iðka tónlist. Hann afréð nú að gerast félagi í hinni nýju, endurreistu lúðrasveit í kaupstaðnum. Oddgeir starfaði síðan í þessari Lúðrasveit Vestmannaeyja í 5 ár samfleytt (1926-1931) undir stjórn Hallgríms Þorsteinssonar, og svo Ragnars Benediktssonar frá Borgareyri í Mjóafirði eystra, þegar aðalstjórnandinn dvaldist utan Eyjanna. Starf Oddgeirs í lúðrasveitinni efldi með honum sjálfstraust og framsækni á tónlistarsviðinu. Hann afréð nám á því sviði, og hóf það í Reykjavík haustið 1931. Hafði hann þá verið ötull starfskraftur lúðrasveitarinnar undanfarin ár, svo að hljómsveitarstjórinn dáðist að honum. Jafnframt var Oddgeir hinn góði og hjálpsami félagi, sem félagar hans hylltust að og báru traust til.
Annar kunnur Eyjabúi, Hreggviður Jónsson frá Hlíð við Skólaveg, hafði gerzt félagi í lúðrasveitinni sama sumarið og Oddgeir og starfað þar af áhuga og getu mikilli undanfarin ár. Hann fluttist nú einnig til Reykjavíkur haustið 1931.
Svo mjög virðist hafa munað um þessa tvo félaga, er þeir hurfu frá „lúðraþeytarastarfinu“ í hljómsveitinni, að hún afbar það ekki. Starf hennar lognaðist nú smámsaman útaf, svo að engin lúðrasveit var starfandi í kaupstaðnum eftir þjóðhátíðina 1932 eða næstu 7-8 árin.

Oddgeir Kristjánsson
tónskáld, stjórnandi
Lúðrasveitar Vestmannaeyja
frá stofnun hennar 1939-1954.

ctr

Frú Svava Guðjónsdóttir.



Aftur fluttist Hreggviður til Eyja eftir nokkurra ára dvöl í Reykjavík. Þá var engu líkara en að sönnuðust á Oddgeiri Kristjánssyni hin kunnu orð skáldsins: „Maðurinn einn er ei nema hálfur, með öðrum er hann meira en hann sjálfur.“ (E.B.). Vissulega efldu þessir tveir tónlistarmenn hvorn annan í þeirri fyrirætlan sinni og hugsjón, að stofna nýja lúðrasveit í Vestmannaeyjum, efla hana og æfa, svo að hún mætti verða gildur þáttur í vaxandi menningarlífi bæjarins og viðleitni Eyjafólks að því marki, að verða jafnokar annarra landsmanna á sviði menningar og mannsæmandi lífs á sem flestum sviðum.
Að þessari hugsjón sinni unnu þeir saman með öðrum nýtum og góðum Eyjabúum, meira en aldarfjórðung. Þá höfðu þeir og hinn samstillti samstarfshópur þeirra Lúðrasveit Vestmannaeyja, tekizt að efla svo tónlistarlífið í bænum, að orðstír hlauzt af og eftirtekt vakti um land allt.

Stofnfundur Lúðrasveitar Vestmannaeyja, hinnar fjórðu í kaupstaðnum, var haldinn 22. marz 1939. Gerðist þá Oddgeir Kristjánsson stjórnandi lúðrasveitarinnar og Hreggviður formaður hennar. Sú skipan hélzt svo lengi örlögin tóku eigi í taumana og skildu þessa tvo menn að.
Þegar Oddgeir hvarf til Reykjavíkur haustið 1931, hóf hann nám í fiðluleik hjá Þórarni Guðmundssyni, hinum kunna fiðluleikara og tónlistarmanni.
Í látlausu starfi fyrir Lúðrasveit Vestmannaeyja við æfingar og útsetningu laga, glæddist með Oddgeiri Kristjánssyni gáfur og löngun til að semja tónverk.
Þá uppgötvaði hann, að þekking í tónfræði væri honum nauðsynleg, svo að smíði tónverkanna yrði lýtalaus og lyti eðlilegum kröfum á því sviði. Þessi þrá hans og kennd og skilningur á takmörkunum sínum, leiddi til þess, að hann stundaði tónfræðinám í Reykjavík veturinn 1944-1945. Kennari hans var dr. Róbert A. Ottóson. Við komum síðar að hinum mikilvæga árangri þessa náms.
Lúðrasveit Vestmannaeyja, undir stjórn Oddgeirs Kristjánssonar gat sér mikinn og góðan orðstír, ekki aðeins í heimabyggð sinni, heldur einnig og ekki síður víðsvegar úti um land. Hún var sannkallaður hróður Eyjanna.
Sumarferðalög lúðrasveitarinnar voru fastur þáttur í starfseminni. Þá kom hún við á ýmsum stöðum á landinu og lék fyrir almenning, svo að orð fór af. Lúðrasveitin lék opinberlega á Vestfjörðum, Austfjörðum, Fljótsdalshéraði, Akureyri og í Reykjavík og nágrenni. Þá ferðaðist hún einnig um Suðurlandssveitirnar og lék fyrir bændur og búalið. Allir luku upp einum rómi um ágæti sveitarinnar og þá miklu ánægju, sem hljómlist hennar vakti með áheyrendunum. Enginn skyldi ætla, að almenningur skilji ekki eða viti, hvað að honum snýr í þeim efnum, þó að tónlistarþekkingu bresti eða þjálfun á því sviði. Þar eru meðfæddar gáfur, náttúran sjálf, náminu ríkari.
Ekki hafði Lúðrasveit Vestmannaeyja starfað mörg ár, þegar sumarferðalag var gert að föstum lið í starfseminni. Sum árin var þá farið með hljóðfærin með sér og leikið á ýmsum stöðum fyrir almenning, en oftar var þó farið til óbyggða og dvalizt þar við náttúruskoðun og náðarmeðul þau, sem ósnortin íslenzk náttúra megnar að veita unnanda sínum.
Maðurinn Oddgeir Kristjánsson var mér jafnan um árabil ríkt umhugsunarefni svona í kyrrþey, er ég gaf mér tíma til að hugleiða samborgara mína og mannlífið í kringum mig. Við lifum og höfum lengi lifað á tímum eiginhagsmunastreitu og sérgæðingsháttar. Líf flestra manna dregur dám af þessari hugsun og athöfnum, sem henni eru samfara. Þessi eldur logar og læsir sig um, en kulnar síðan oftast út í lágkúru og lánleysi. - Og mitt á meðal okkar starfar svo maður, sem virðist ósnortinn af öllum þessum eiginhagsmuna- og sérgæðingshætti. Hann fórnar þrem til fjórum hundruðum tíma á ári hverju fyrir hugsjón sína, ýmist við að stjórna og æfa hljómlistarfélaga sína eða við að setja út lög og tónverk fyrir þá, svo að allt fari sem bezt úr hendi. Hvað ber hann úr býtum fyrir allt þetta starf í meir en aldarfjórðung? Ekkert veraldlegt verðmæti, eins og það er orðað í daglegu tali. Þó uppsker hann laun við unnin afrek: Meðvitundina um það að hafa fórnað starfskröftum til ánægju og velferðar samborgurum sínum og til þroska félögum sínum í lúðrasveitinni á því sviði, sem stundum hefur verið kallað list listanna.
Hin göfuga hugsun að baki þessa mikla fórnarstarfs Oddgeirs Kristjánssonar á tímum óvenjulega mikillar sérgæzku og eiginhyggju, hefur verið mér íhugunarefni um árabil og var það sérstaklega, þegar við unnum saman að tónlistarstarfi nemendanna í Gagnfræðaskólanum og svo í sögu- og byggðarsafnsstarfinu. Og hver hefur svo orðið niðurstaða mín af íhugun þessari? Áður en ég læt hugsanir mínar í ljós, langar mig að birta hér minningargrein, er Björn útgerðarmaður og kaupmaður Guðmundsson frá Miðbæ í Eyjum birti í Morgunblaðinu um Oddgeir Kristjánsson 26. febr. 1966. Þeir Björn og Oddgeir héldu samskiptum sínum og vinsemd til hinztu stundar. Þeir voru aldir upp í nágrenni hvor við annan og var samband þeirra og vinsemd til fyrirmyndar, svo mikið sem þar bar á milli í skoðunum á sumum sviðum mannlegs lífs. Þegar Björn hefur farið nokkrum orðum um starf Oddgeirs heitins fyrir daglegu brauði til framfærslu fjölskyldunni, segir hann:
,,En þetta er aðeins önnur hliðin. Hin er hið mikla og fórnfúsa starf, er hann vann að tónlistarmálum þessa bæjar. Ber þar hæst, er hann 1939 tekur að sér hljómsveitarstjórn við Lúðrasveit Vestmannaeyja. Starf sveitarinnar hafði þá legið niðri um nokkurra ára skeið. Safnaði hann þá saman nokkrum yngri og eldri áhugamönnum. Markið var sett hátt; þetta skyldi verða góð hljómsveit og byggðarlaginu til sóma. Og það tókst. En það gekk ekki erfiðislaust. Kvöld eftir kvöld var setið við æfingar, útsetningu laga eða við ráðagerðir um það, hvernig mætti koma sveitinni yfir þá fjárhagslegu hjalla, er á veginum urðu. Enginn, sem nokkuð til þekkir, fer í grafgötur um það mikla starf, sem hér hefur verið innt af hendi. Og allt þetta var látið í té að loknum venjulegum vinnudegi við erilsöm störf og án nokkurra launa. Og þegar litið er til baka, verður manni e.t.v. það ljósast, hvað þetta starf var í rauninni þýðingarmikið. Eða er í rauninni ekki erfitt að hugsa sér þjóðhátíðina án lúðrasveitarinnar eða önnur manna- og gleðimót í byggðarlaginu. - Starf Oddgeirs heitins í þágu lúðrasveitarinnar var mikið og mun halda minningu hans á loft um ókomin ár. En þó hygg ég, að lögin hans muni vara lengst. Þau gaf hann fyrst og fremst Vestmannaeyingum. Þau verða sungin og spiluð um langa framtíð, þar sem Eyjamenn koma saman. Þau eru í vissum skilningi hluti af Eyjum, hluti af lífi og starfi fólksins, enda samin oft á tíðum í tilefni af hátíðum og hátíðastundum Vestmannaeyinga.
Oddgeir heitinn var gæfumaður í lífinu. Ein mesta gæfa hans var, er hann gekk að eiga eftirlifandi konu sína, Svövu Guðjónsdóttur.
Samlíf þeirra hjóna var með þeim ágætum, að erfitt er að hugsa sér, að það hefði getað verið betra. Minnist ég margra yndislegra stunda á heimili þeirra góðu hjóna. Þar var gott að koma; tíminn var fljótur að líða við músík og söng, skemmtilegt spjall og stundum við það að koma saman gamanbrag. Og þegar ég að lokum kveð þig, kæri vinur, þá er gott að minnast samvistanna við þig allt frá þeim dögum, er við vorum í foreldrahúsum og lékum okkur saman. Þú eldri og hafðir forustuna fyrir okkur strákunum. - Og árin liðu. Gönguferðir út um Eyjuna. Þú tókst gítarinn með og sungið var við raust. Og svo komu fullorðinsárin. Þá koma nýjar hliðar í ljós. Áhugi þinn á ljósmyndun og garðrækt gefur ótal tilefni til skemmtilegra og þroskandi samræðna.“
Og aftur langar mig að vitna í blaðagrein, sem maður nákunnugur Oddgeir heitnum, starfi hans og heimilishögum, skrifaði eftir hans dag. Það var Helgi kaupmaður og útgerðarmaður Benediktsson. Þegar hann hefur farið nokkrum orðum um heildarstarf Oddgeirs í þágu tónlistarinnar, koma þessi orð: ,,En þó er þess enn ógetið, sem skýrir hið mikla ævistarf Oddgeirs. Erfðir og meðfæddir hæfileikar eru að sjálfsögðu grundvöllur þess, sem afrekað hefur verið, en Oddgeir hefur heldur ekki staðið einn í starfi. Oddgeir kvæntist 15. desember 1933 jafnöldru sinni, Svövu Guðjónsdóttur, fæddri 8. febr. 1911. Svava hefur skapað manni sínum það heimili, sem hefur orðið þeim hjónum það skjól, sem gott heimili getur bezt orðið. Þar hafa sannast spakmælin, að „þar er eilíft sumar, er samlyndið býr, og sólskin í glugga, hvert sem hann snýr.“ Umhverfi húss þeirra Svövu og Oddgeirs er fegursti og bezt hirti skrúðgarðurinn, sem til er í Vestmannaeyjum...“
Þetta voru orð Helga Benediktssonar. Orð þessi og niðurstöður hinna kunnu Eyjabúa um hið sérlega og fórnfúsa starf Oddgeirs Kristjánssonar um tugi ára á sviði tónlistarinnar vöktu óskipta athygli mína, er ég las þau. Og hvers vegna það svo sérlega? Vegna þess, að með mér hafði í kyrrþey þróast sama skoðun, sama sannfæringin, hvað olli mestu um hið óvenjulega mikla og fórnfúsa starf þessa manns. Ástin á eiginkonunni og heimilinu í heild glæddi miklar og meðfæddar tónlistargáfur, svo að hann vann þrekvirki á þessu sviði án þess nokkru sinni að líta eftir hinni minnstu umbun fyrir allt þetta starf, sem ég áætla að hafi numið allt að 400 klukkustundum árlega síðustu 27 árin, sem hann lifði.
Árið 1968 komu út í sérstakri bók 26 lög eftir Oddgeir tónskáld Kristjánsson. Eiginkona hans gaf lögin út með fjárhagslegum stuðningi bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Bókin heitir Vor við sæinn. Lögin eru samin við kvæði eftir þessi skáld og hagyrðinga:

Jóhann Sigurjónsson 1 kvæði
Ása í Bæ 9 —
Árna úr Eyjum 5 —
Tómas Guðmundsson 1 —
Loft Guðmundsson 5 —
Örn Arnarson 1 —
Steingrím Thorsteinsson 1 —
Sigurð Einarsson 1 —
Þorstein Valdimarsson 1 —
Ása og Árna 1 —

Sum af þessum lögum höfðu verið prentuð áður, eða á áratugnum 1950-1960.

Þ.Þ.V.