Blik 1961/Gísli Engilbertsson, verzlunarstjóri, kona hans og börn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 10. febrúar 2010 kl. 16:37 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 10. febrúar 2010 kl. 16:37 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Blik 1961/Gísli Engilbertsson, verzlunarstjóri, kona hans og börn“ [edit=sysop:move=sysop])
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1961




Gísli Engilbertsson verzlunarstjóri

kona hans og börn


ctr


Gísli Engilbertsson, verzlunarstjóri, kona hans og börn.

Fremri röð frá vinstri: Engilbert Gíslason, málarameistari, f. 12. okt 1877.
Gísli Engilbertsson, f. 14. ágúst 1834 að Syðri-Mörk, Eyjafjöllum, d. 8. ágúst 1919.
Ragnhildur Þórarinsdóttir, f. 14. okt 1844, frá Neðri-Dal, Eyjafjöllum, d. 12. maí 1925.
Aftari röð frá v.: Þórarinn Gíslason, gjaldkeri, f. 4. júní 1880, d. 12. febr. 1930.
Elínborg Gísladóttir, húsfreyja í Laufási, f. 1. nóv. 1883, kona Þorsteins Jónssonar, fyrrv. skipstj. og útgerðarmanns.
Guðfinna Gísladóttir, f. 15. júlí 1870, d. 2. ágúst 1955. Var gift Halldóri Guðmundssyni, rafmagnsfræðingi í Reykjavík.
Katrín Gísladóttir, f. 20. jan. 1875. Var gift Páli Ólafssyni, verzlunarmanni.
Árið 1869 fluttist Gísli Engilbertsson til Vestmannaeyja með heitmey sína Ragnhildi Þórarinsdóttur. Þau fluttu frá Mörk undir Eyjafjöllum og settust að í Sjólyst í Eyjum. Á jóladag sama ár voru þau gefin saman í hjónaband eftir að lýst hafði verið með þeim þrívegis í Landakirkju.
Eftir að Gísli Engilbertsson fluttist hingað, gerðist hann verzlunarþjónn við Tangaverzlun eða Verzlunina Júlíushaab, eins og hún hét þá. Hann reyndist dyggur og trúr í starfi og hygginn í verkum og viðskiptum Hann var starfsmaður fyrstu árin hjá J.P.T. Bryde, sem eignaðist verzlunina 1852, þá tvítugur að aldri. Þegar faðir hans, N. N. Bryde, dó, 9. ágúst 1879, erfði J.P.T. Bryde Garðsverzlun í Eyjum. En með því að enginn mátti eiga tvær verzlanir í Eyjum, eða reka tvær verzlanir á sama stað, leigði J.P.T. Bryde Gísla Engilbertssyni Júlíushaabverzlun. Það gerðist 1880. Næstu 9 árin rak síðan Gísli Tangaverzlunina á sínu nafni, en það ár gaf J.P.T Bryde syni sínum Herlug Bryde Tangaverzlunina. Eftir það var Gísli talinn verzlunarstjóri þeirrar verzlunar, þar til H. Bryde hætti verzlunarrekstri 1893.
Síðustu æviárin dvöldust þau hjón, Gísli og Ragnhildur, hjá syni sínum Þórarni gjaldkera að Lundi í Eyjum og konu hans Matthildi Þorsteinsdóttur (leiðr.).
Gísli Engilbertsson var góður hagyrðingur. Við birtum hér eilítið sýnishorn af kveðskap hans.

BRÚÐKAUPSKVÆÐI
ort, er Þorsteinn Jónsson í Laufási og
Elínborg Gísladóttir, dóttir Gísla
verzlunarstjóra, giftu sig, 22. nóvember 1903.
Saklaus gleðin helg og hrein,
hún skal með oss vera,
ávöxt mun á grænni grein
guðs í nafni bera.
Látum brosin lauga kinn
ljóss í geislum björtum,
syngjum gleði í sálir inn,
sorg og hryggð úr hjörtum.
Gott er ei, var Adam tjáð,
einsamall að búa.
Þótt sé gamalt þetta ráð,
því samt flestir trúa.
Meðan varir vatn og grund,
vermir sól og eldur,
sér mun festa halur hrund.
Helg því ástin veldur.
Undra máttar gegnum geim
gengur náðarljóminn.
Hann í sálarsólar heim
sýnir kærleiks blómin.
Sýnir tryggð sem grein við grein,
guðs með krafti styður,
út svo breiðast blöðin hrein.
Blómstri hjónafriður.
Tryggðum bundin hjá oss hjón
hér sem blóm nú standa
ung og fjörug, fríð i sjón,
frjáls og hrein í anda.
Eiga þau sér græna grein,
guð sem blessað hefur.
Móðurástin helga. hrein
hana örmum vefur.
Hjálpar lifðu engir án,
öllum dug þótt beittu.
Barnavinur barnalán
börnum þínum veittu.
Drottinn hjónum leggi lið
lífs í sæld og þrautum,
að þau víki aldrei við
út af skyldubrautum.
Guðdómsnáðar geislasól
gleðji hjón og blessi,
trú og von og vinaskjól
vegum á þau hressi.
Guð vors auðs síns gnægtum af
gjafir veiti hjónum.
Sólin, loftið, láð og haf
líti þau hýrum sjónum.
Drottinn okkar blessi byggð,
blessi hjónafriðinn,
upp mót sólu, dáð og dyggð
dagur unz er liðinn.


S T Ö K U R .
Vínið og vitið
Brennivíns nú bunar lind
bragnar róminn hækka.
Ýmsra fýkur vit í vind,
við það krónur fækka.
Jómfrúhitinn
Jómfrúhitinn ekki er
orðinn á marga fiska.
Einhver skollinn burt hann ber,
bágt er á að gizka.
Eftír 1. des. 1918
Danir Ísland vingast við,
vilja hvorir annars frið.
Árin líða, tími og tíð,
tekur enda sérhvert stríð.
Vertu iðinn
Sé iðjusemin okkur kær,
oft í sálu friður grær,
þá margur háu marki nær
og margur hjálpað öðrum fær.
Iðjuleysi eyðir þrótt,
iðjuleysi svæfir drótt.
Oft því fylgir eyðslusótt,
óhóf, svall og slark um nótt.
Iðjusemi um ævistund
oft hún færir gull í mund,
iðulega styttir stund,
styrkir heilsu, gleður lund.



RITNEFND BLIKS að þessu sinni skipa:
Þorsteinn Þ. Víglundsson, formaður.
Sigríður Jakobsdóttir, 3. bóknáms.
María Gunnardóttir, 3. bekk verkn.
Áki Haraldsson, 1. bekk C.
Kristján Eggertsson, 1. bekk B.
Stefán Jónsson, 1. bekk A.
Kristján Óskarsson, 2. bekk A.
Rut Óskarsdóttir, 2. bekk B.
Steinar Árnason, 2. bekk C.
Prentsmiðja Þjóðviljans h.f.

S P A U G

Þrír strákar fóru á vakningarsamkomu. Þegar henni lauk, var komið til þeirra með samskotabauk. Þá leið yfir einn, en hinir báru hann út.

Sonurinn: „Pabbi, hvað er eiginlega fjármálasnillingur?“ Faðirinn: „Það er maður, sem aflar meiri peninga en konan hans getur eytt.“