1973 Allir í bátana/Frásagnir, greinar og viðtöl tengd Heimaeyjargosinu/Það er gos og jörðin er að rifna
Það er gos og jörðin er að rifna
Eldgosið kom upp rétt austan við húsið Einland. Þar bjuggu Guðbjört Guðbjartsdóttir og synir hennar Guðbjartur og Guðjón Herjólfssynir.
Guðbjört (Guðbjartsdóttir) á Einlandi og synir hennar, Guðbjartur og Guðjón, sáu þegar gosið byrjaði og sprungan opnaðist. Guðbjört er ekkja [[Herjólfs Guðjónssonar verkstjóra frá Oddsstöðum, sem fórst í flugslysinu mikla 1951, er flugvélin Glitfaxi fórst á leið frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur með 20 manns. Herjólfur byggði Einland árið 1932 og var vel metinn og virtur dugnaðarmaður.
Einland stóð beint suður af Oddsstöðum. Þaðan var víðsýnt yfir austurhluta Heimaeyjar og Kirkjubæina. Austan við husið voru tún Þorbjörns á Kirkjubæ. Mánudagskvöldið 22. janúar hafði Guðmundur Karlsson frá Reykholti sem oftar komið í heimsókn að Einlandi. Hann sat fram eftir kvöldi, en Guðmundur og þeir bræður eru góðir kunningjar. Hafa þeir oft verið saman við lundaveiði í Álsey.
Guðmundur kvaddi á tólfta tímanum og hafði stuttu áður orðið var við einhverja óvanalega hreyfingu, að því er honum fannst. ,,En ég var nú það ónæmur fyrir þessu" - segir Guðbjartur, ,,að mér fannst, að þetta hlyti að vera eitthvað út frá miðstöðinni, svo að þetta var ekki mikil hreyfing. Þegar Guðmundur var farinn og ég var kominn upp í og var að lesa, fann ég einhverja smáhreyfingu; eins og eitthvað væri á seyði í næsta herbergi. Þá hefur klukkan verið um hálf eitt.
Um hálf tvö fann ég svo, að eitthvað meira var að gerast og varð nú var við greinilegan jarðskjálftakipp. Maður lét sér detta í hug eldgos. Guðjón bróðir, sem svaf austurherbergi uppi á lofti, hafði blundað og vaknaði við þennan kipp. Ég fór þá upp til mömmu, sem var vakandi og leit síðan inn til Guðjóns. Við bræðurnir fórum að velta því fyrir okkur, hvað þetta gæti verið, Hekla, Katla eð Surtur." ,,Ég sagði strax, að þetta væri meira en jarðskjálfti, þetta væri eldgos" - segir Bjarta. - Hvernig fannstu, að þetta var eldgos en ekki ,,venjulegur" jarðskjálfti eins og t. d. við jarðhræringarnar við Kleifarvatn árið 1968, og í september 1973 i Reykjavik, þegar allt skalf og nötraði?
,,Ég fann það á því, að það var stöðug ókyrrð, engir kippir, en húsið og jörðin nötraði." Klukkan var nú rúmlega hálf tvö. Þeir bræður fóru út á tröppurnar, sem voru á móti norðri. Þeir horfðu út í myrkrið til landsins og gættu að, hvort þeir sæju nokkra elda við Heklu, sem í góðu skyggni blasti við frá Einlandi. Þeir sáu ekkert úti í skammdegisnóttinni, nema ljós í næstu húsum, sem sýndu að fleiri höfðu orðið varir við eitthvað óvenjulegt en þau á Einlandi.
,,Við fylgdumst nú vel með, þar til mamma kallaði til okkar niður, að jörðin væri öll að rifna austur á túnum og það væri komið gos. Örskömmu síðar sáum við niður á Urðum, hvar jörðin rifnaði og svörðurinn tættist upp og eldurinn eins og flæddi upp um sprunguna og æddi niður eftir. Það tók nokkurn tíma að okkur virtist, þar til sprungan náði til sjávar og svo komu þeytigos upp úr sprungunni. Þessu fylgdi mikill gnýr og þytur, svo að tók í eyrun". Bjarta hafði gengið austur a loftið og stóð við stóran austurgluggann á herberginu, sem var undir súð, og horfði í áttina til Mýrdalsjökuls og Kötlu. Bjarta segir svo frá:
,,Þá blasir þetta allt í einu við mér - en jörðin rifnar upp - og eldurinn ægilegur. En upp við girðingu á Axlarsteini sé ég eins og þúfur, sem þeytast upp í sprengingum og allur austurhimininn er uppljómaður." ,,Það er gos og jörðin er að rifna", segi ég, og stend eins og stirðnuð þarna við gluggann. Þegar þeir Guðjón og Guðbjartur koma í dyrnar, er herbergið allt orði rautt í bjarmanum frá eldinum. Sprungan var öll eins og glóandi renna niður eftir og líkast því, að hún ætlaði að stefna á Kirkjubæ. Þetta var hryllingur að horfa upp á. Við yfirgáfum húsið skömmu síðar.
- Þegar við hlupum vestur götu, segi ég við drengina: ,,Ég ætla aðeins að líta á þetta - einu sinni enn - og ég leit við. Þá sá ég skuggamyndir og húsið í síðasta sinn." Guðbjört og synir hennar fóru til lands með Gjafari. Gjafar var 230 rúmlesta skip, smíðað í Hollandi 1964, afburða sjóskip og glæsilegt. Gjafar fórst síðar á vertíðinni 1973 við innsiglinguna inn til Grindavikur.
Með Gjafari í þessari einstöku ferð voru 430 manns. Það er undravert, hve margt fólk komst með bátnum. Þar var fólk í hverjum kima. Uppstilling fjala í lestinni, sem hólfa hana niður, var tekin í burtu og síðan hópaðist fólk ofan í lest. Fólk var í borðsal, í göngum, klefum aftur í og fram í. Á aðalþilfari, bátaþilfari og í nótakassa stóð hópur fólks.
,,Við stóðum uppi á bátapalli, og þar stóð fólk eins þétt og komst", segir Guðjón. ,,Við stóðum svo þétt saman, að enginn gat hreyft sig alla leiðina til Þorlákshafnar, en ferðin þangað tók rúma fjóra tíma. Það sem hjálpaði var lognið, en það var sjóveikiveður og þungur sjór. Á aðalþilfari var fullt af fólki, en sem betur fer var engin ágjöf. Gjafar var kominn til Þorlákshafnar klukkan rúmlega sjö um morguninn."
Skipstjóri þessa ferð var Hilmar Rósmundsson, þekktur aflamaður og sjómaður í Eyjum.
Heimildir
- Guðjón Ármann Eyjólfsson. VESTMANNAEYJAR, BYGGÐ OG ELDGOS. Ísafoldarprentsmiðja 1973
Heimildir