Guðmundur Karlsson (Reykholti)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Guðmundur Karlsson, framkvæmdastjóri og alþingismaður.

Guðmundur Karlsson fæddist í Vestmannaeyjum þann 9. júní árið 1936. Hann var alþingismaður Vestmannaeyja á árunum 1978-1983. Hann var kosinn af lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi 1978 og var landskjörinn þingmaður 1979. Foreldrar hans eru Karl Guðmundsson skipstjóri og útgerðarmaður, og Unnur Jónsdóttir. Guðmundur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1953. Hann lagði stund á lögfræði um tíma, en gerðist svo verksmiðjustjóri hjá Vinnslustöðinni hf. og síðar framkvæmdastjóri fyrir Fiskiðjuna hf. í Vestmannaeyjum árið 1967-1992. Guðmundur var í framkvæmdastjórn í Vestmannaeyjum fyrir stjórn Viðlagasjóðs á meðan eldgosið á Heimaey stóð yfir og síðar við hreinsun bæjarins af ösku og gjalli að gosinu loknu. Hann var framkvæmdastjóri fyrir Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna í Tokyo í Japan, Iceland Sea-Products Co., Ltd., frá 1974 til 1975. Þá var Guðmundur formaður Eyverja, félags ungra sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum 1965—1966 og bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum 1970—1974.


Heimildir

  • Guðlaugur Gíslason: Eyjar gegnum aldirnar. Frásagnir af mannlífi og atburðum í Vestmannaeyjum frá gamalli tíð og nýrri. Reykjavík, 1982.

Frekari umfjöllun

Guðmundur Karlsson frá Reykholti, framkvæmdastjóri, alþingismaður, forstöðumaður fæddist þar 9. júní 1936.
Foreldrar hans voru Karl Guðmundsson skipstjóri, f. 4. maí 1903 í Reykjavík, d. 10. maí 1993, og kona hans Unnur Sigrún Jónsdóttir frá Reykholti eldra, húsfreyja, f. þar 6. júní 1912, d. 16. febrúar 1995.

Börn Unnar og Karls:
1. Jón Karlsson, f. 12. ágúst 1934, d. 12. maí 2003.
2. Guðmundur Karlsson, f. 9. júní 1936.
3. Karl Ellert Karlsson f. 5. desember 1944, d. 13. apríl 2022.

Guðmundur var með foreldrum sínum í æsku.
Hann lauk landsprófi í Gagnfræðaskólanum 1953, stúdentsprófi í Menntaskólanum á Laugarvatni 1957. Guðmundur nam lögfræði í 2 ár í Háskóla Íslands.
Hann var framleiðslustjóri í Vinnslustöðinni hf. 1963–1967, framkvæmdastjóri Fiskiðjunnar í Vestmannaeyjum 1967–1992, framkvæmdastjóri Viðlagasjóðs í Vestmannaeyjum 1973.
Guðmundur var markaðsstjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna í Japan 1974–1975, forstöðumaður veiðieftirlits Fiskistofu frá 1992.
Guðmundur var formaður Eyverja, félags ungra sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum 1965– 1966, bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum 1970–1974, formaður Vinnuveitendafélags Vestmannaeyja 1984–1985 og 1991–1992. Hann sat í í varastjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna 1976–1985, í stjórn Sölumiðstöðvarinnar 1986–1992, í stjórn sölufyrirtækis SH í Bandaríkjunum, Coldwater, 1971–1992.
Guðmundur var alþingismaður Suðurlands 1978–1979, landskjörinn alþingismaður (Suðurlands) 1979–1983 fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Þau Ásta Guðbjörg giftu sig 1990. Þau búa í Kópavogi.

I. Kona Guðmundar, (9. nóvember 1990), er Ásta Guðbjörg Þórarinsdóttir frá Nýborg við Njarðarstíg 17, húsfreyja, f. þar 1. nóvember 1938.
Börn þeirra:
1. Guðmundur Hörður Guðmundsson upplýsingafulltrúi Háskóla Íslands, f. 1. nóvember 1977. Sambúðarkona hans Ása Briem.
2. Karl Óðinn Guðmundsson starfaði hjá Icelandair, f. 2. október 1982. Kona hans Steinunn Fjóla Birgisdóttir.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.