1973 Allir í bátana/Frásagnir, greinar og viðtöl tengd Heimaeyjargosinu/Lilja Sigfúsdóttir og Pétur Guðjónsson Það er eitthvað ægilegt að gerast hérna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 7. október 2025 kl. 18:47 eftir Frosti (spjall | framlög) Útgáfa frá 7. október 2025 kl. 18:47 eftir Frosti (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

,,Það er eitthvað ægilegt að gerast hérna"

Lilja Sigfúsdóttir og Pétur Guðjónsson bjuggu austast i Kirkjubæjarhverfinu, 100-200 metra frá eldsprungunni. Svefnherbergi þeirra sneri beint á móti móanum, þar sem gosið hófst. Lilja segir svo frá gosnóttinni:

,,Ég vaknaði við þyt og drunur. Ég hélt í fyrstu, að þyrla væri yfir húsinu, en fannst þó óeðlilega bjart í svefnherberginu. Í þessu heyrðist eins og sprenging og síðan sá ég einkennilega fjólubláan eldsbjarma og blossa. Ég fór að aðgæta þetta nánar, og þá sá ég eldsúlur teygja sig tugi metra upp í loft. Mér varð að orði: ,,Guð hjálpi mér, hvað er að gerast?" Mér fannst, að ég gæti ekki sagt, að þarna væri eldgos. Petta væri svo voðalegt orð. Ég vek Pétur og segi: ,,Það er eitthvað ægilegt að gerast hérna".

Pétur svaraði til að róa konu sína: ,,Svona, vertu ekki að þessu, kona, þeir eru að brenna sinu. Sérðu ekki bílljósin".

,,Við fórum síðan að klæða okkur í bjarmanum af gosinu. Ég var alltaf að smálíta út um gluggann. Gosið var alltaf að færast í aukana, og maður sá bláa loga, sem teygðu sig til norðurs. Eldurinn magnaðist á meðan, en sprungan var þó ekki komin niður á Urðirnar. Ég flýtti mér síðan upp á loft til Brynju dóttur okkar, sem bjó þar ásamt tveimur börnum sínum, og síðan í kjallarann til Mörtu systur minnar, sem þar bjó. Einnig hringdi ég í Bíbí dóttur okkar, sem bjó a Oddsstöðum. Hún spurði: ,,Er allt í lagi með ykkur, mamma?" En frá þeim að sjá stefndi sprungan á Kirkjubæ, hús Péturs og Lilju.

,,Síðan töluðumst við ekki meira við eða hittumst fyrr en í Reykjavík næsta dag. Við fórum síðan út til að horfa betur á þessar hamfarir. Það hefði ég aldrei átt að gera, áður en ég hafði tekið til það nauðsynlegasta, sem ég hefði gjarnan viljað hafa með mér. Ég varð miður mín og treysti mér aldrei inn aftur. Við töpuðum því mörgu. Við tókum bókstaflega ekkert með okkur. Þar sem við stóðum á hlaðinu og horfðum agndofa á eldinn, kom til okkar bílstjóri og bauð okkur far niður á lögreglustöð. Það þáðum við, en þegar þangað kom jafnaði ég mig og vildi komast heim aftur og ná í ýmislegt inni í húsinu, en þá var engan bíl að fá, og stuttu síðar var öllum bannað að fara austur á Kirkjubæi.

Stuttu síðar fórum við svo öll saman með vélbátnum Arnari til Þorlákshafnar.



Heimildir

  • Guðjón Ármann Eyjólfsson. VESTMANNAEYJAR, BYGGÐ OG ELDGOS. Ísafoldarprentsmiðja 1973



Heimildir