Vilhjálmur Skúlason (prófessor)
Vilhjálmur Grímur Skúlason prófessor fæddist 30. maí 1927 á Skaftafelli og lést 11. janúar 2018 í Reykjavík.
Foreldrar hans voru Skúli Grímsson á Skaftafelli, verkamaður, sjómaður, f. 15. maí 1887, d. 28. nóvember 1964 og kona hans Karólína Margrét Hafliðadóttir húsfreyja, f. 25. júní 1894, d. 26. júlí 1985.
Börn Karólínu Margrétar og Skúla voru:
1. Halldóra Skúladóttir frá Skaftafelli, húsfreyja í Hafnarfirði, f. 27. apríl 1925 í Nykhól í Mýrdal, d. 9. apríl 2004 í Hafnarfirði.
2. Vilhjálmur Grímur Skúlason frá Skaftafelli, lyfjafræðingur, prófessor, f. 30. maí 1927, d. 11. janúar 2018.
Vilhjálmur var með foreldrum sínum í æsku, fluttist með þeim til Hafnarfjarðar 1930.
Hann var í Gagnfræðaskólanum í Flensborg 1941 og 1944-1946, lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1946, stúdentsprófi frá stærðfræðideild þar 1949. Hann hóf nám við Lyfjafræðingaskóla Íslands haustið 1949, stundaði verknám í Hafnarfjarðarapóteki 1949-1951 og í Reykjavíkurapóteki 1951-1952, lauk lyfjafræðingaprófi 1952. Hann varð Cand. pharm. frá Danmarks farmaceutiske Höjskole 1954.
Vilhjálmur stundaði framhaldsnám við University of North Carolina í Bandaríkjunum 1959-1963, lauk mastersprófi þaðan 1963 og doktorspróf í lyfjaefnafræði þaðan 1964.
Hann var lyfjafræðingur í Hafnarfjarðarapóteki 1954-1959 og 1963-1964, sérfræðingur í efnafræðistofu Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands 1967-1969, dósent við H.Í 1969-1972, varð prófessor í lyfjaefnafræði og lyfjagerðarfræði og forstöðumaður rannsóknastofu í lyfjafræði, og sat í ýmsum nefndum og ráðum.
Vilhjálmur sat í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrir óháða flokkinn 1966-1978 og sat þá í nefndum á vegum bæjarins, var m.a. formaður bæjarráðs og fræðsluráðs.
Hann var m.a. formaður Lyfjafræðingafélagsins 1958-59, Norræna félagsins í Hafnarfirði 1979.
Eftir hann liggja mörg rit faglegs og félagslegs eðlis og ritstjóri var hann Tímarits um lyfjafræði 1966-1974 og Borgarans í Hafnarfirði 1966-1976.
Hann kvæntist Kristínu Guðrúnu 1955. Þau bjuggu síðast við Arnarhraun 30 í Hafnarfirði, eignuðust eitt barn.
Kristín Guðrún lést 1996.
Hann bjó með Þórunni frá 1998, en hún lést 2016.
I. Kona Vilhjálms var Kristín Guðrún Gísladóttir húsfreyja, f. 1. nóvember 1919, d. 9. apríl 1996. Foreldrar hennar voru Gísli Gíslason sjómaður, verkamaður í Hafnarfirði, f. 29. janúar 1890, d. 6. október 1974, og kona hans Sigríður Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 15. nóvember 1891, d. 30. desember 1981.
Barn þeirra:
1. Karólína Margrét Vilhjálmsdóttir húsfreyja, hjúkrunarfræðingur, f. 17. september 1957. Maður hennar er Steinar Gíslason.
II. Sambúðarkona Vilhjálms var Ragnhildur Þórunn Óskarsdóttir húsfreyja, starfskona á Hrafnistu í Hafnarfirði, f. 24. febrúar 1926 í Hafnarfirði, d. 27. mars 2016 á Sólvangi þar. Foreldrar hennar voru Óskar Guðmundsson, f. 6. júlí 1899, d. 27. ágúst 1994, og fyrri kona hans Ragnhildur Þórunn Ólafsdóttir húsfreyja, f. 21. maí 1886, d. 28. febrúar 1926.
Þau voru barnlaus.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.is.
- Kennaratal á Íslandi. Ólafur Þ. Kristjánsson og fleiri. Prentsmiðjan Oddi 1958-1988.
- Manntöl.
- Morgunblaðið 26. janúar 2018. Minning.
- Prestþjónustubækur.
- Æviskrár samtíðarmanna. Torfi Jónsson. Skuggsjá-Bókabúð Olivers Steins S.F. 1984.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.