Geir Jón Þórisson
Geir Jón Þórisson fæddist 24. apríl 1952. Foreldrar hans eru Þórir Geirmundsson og Kristrún Skúladóttir. Eiginkona Geirs Jóns er Guðrún Ingveldur (Inga) Traustadóttir, dóttir Trausta Guðjónssonar frá Skaftafelli. Börn þeirra eru Þórir Rúnar (f. 1978), Narfi Ísak (f.1981), Símon Geir (f. 1984) og Ragnheiður Lind (f. 1987).
Þegar Geir Jón var 21 árs flutti hann til Vestmannaeyja. Geir Jón starfaði í lögreglunni hér í Eyjum um árabil og naut hylli hvers manns. Hann vann einnig um tíma sem verslunarstjóri í Virkni og Magnabúð. Auk þess söng hann í kirkjukór Landakirkju. Geir Jón tók þátt í starfi Hvítasunnukirkjunnar og lék körfubolta með ÍV.
Fjölskyldan bjó að Stóragerði 7. Þau voru fyrstu eigendur þess húss en þau fluttu inn á níunda áratugnum. Þau fluttu til Reykjavíkur árið 1991 og bjuggu í Grafarvogi. Geir Jón var yfirlögregluþjónn í Reykjavík. Árið 2012 fluttu Geir Jón og Inga aftur til Vestmannaeyja.
Frekari umfjöllun
Geir Jón Þórisson vélvirki, lögreglumaður, yfirlögregluþjónn fæddist 24. apríl 1952.
Foreldrar hans voru Þórir Geirmundarson frá Þorsteinshúsi á Ytri-Höfða í Stykkishólmi, bifreiðastjóri og verkstjóri hjá Sorphirðu Reykjavíkur, f. 8. október 1927, d. 18. apríl 2019, og kona hans Kristrún Skúladóttir frá Langholtskoti í Hrunamannahreppi, húsfreyja, ritari, skrifstofukona, verkakona, f. 8. febrúar 1927, d. 24. apríl 2014.
Geir Jón var með foreldrum sínum í æsku, en var í sveit í Efra-Langholti í Hrunamannahreppi á sumrum.
Hann lauk gagnfræðaprófi í Verknámsskólanum í Brautarholti og Ármúla, nam vélvirkjun í Vélsmiðjunni Héðni og varð sveinn.
Geir Jón sótti um skeið nám Tækniskólanum.
Hann nam síðar í Lögregluskóla ríkisins og lauk námi 1979.
Þá nam hann söng í Söngskólanum í Reykjavík og tók þar sönggráðu.
Geir Jón vann í Héðni í fjögur ár, rak Verslunina Virkni í Eyjum 1974 og síðan rak hann verslun Vélsmiðjunnar Magna í um tvö ár. Síðan var hann lögreglumaður í Eyjum í sextán ár, var varðstjóri og lögreglufulltrúi.
Geir Jón varð aðalvarðstjóri í Reykjavík, þá aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirlögregluþjónn árið 2000, var 37 ár í lögreglustarfi.
Hann sat í stjórn Lögreglufélags Vestmannaeyja, Landsambandi lögreglumanna, Félagi rannsóknalögreglumanna og var formaður Félags yfirlögregluþjóna. Þá sat hann í stjórn Lögreglukórsins og Karlakórs Vestmannaeyja.
Hann var um skeið forseti Gideonfélagsins og formaður í Gideondeildum.
Hann starfaði í Oddfellowreglunni í 40 ár.
Geir Jón var formaður Rauða Krossdeildarinnar í Eyjum og hefur setið í stjórn Náttúrulækningafélags Íslands.
Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu, gullmerki félags yfirlögregluþjóna og nokkrum heiðursmerkjum við komu erlendra þjóðhöfðingja.
Þau Guðrún Ingveldur giftu sig 1975, eignuðust fjögur börn. Þau bjuggu í Stóragerði 7 frá 1974 til 1992, þá í Reykjavík til 2012, er þau fluttu til Eyja og búa þar á Heiðarvegi 46.
I. Kona Geirs Jóns, (1. nóvember 1975), er Guðrún Ingveldur Traustadóttir (Inga) frá Hjarðarholti við Vestmannabraut 69, húsfreyja, sjúkraliði, f. 5. mars 1954.
Börn þeirra:
1. Þórir Rúnar Geirsson lögreglumaður, rafvirki í Eyjum, f. 1. júní 1978. Fyrrum kona hans Steinunn Steinþórsdóttir. Kona hans Guðrún María Jónsdóttir.
2. Narfi Ísak Geirsson kennari búsettur í Kópavogi, f. 17. mars 1981. Fyrrum kona hans Guðrún Hlín Bragadóttir.
3. Símon Geir Geirsson kennari, lögreglumaður í Eyjum, f. 5. desember 1984. Fyrrum kona hans Eydís Berglind Baldvinsdóttir. Kona hans Júlíana Andersen.
4. Ragnheiður Lind Geirsdóttir sjúkraliði, snyrtifræðingur í Eyjum, f. 30. júlí 1987. Maður hennar Brynjar Ólafsson.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Geir Jón.
- Íslendingabók.
- Morgunblaðið.
- Prestþjónustubækur.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.