Ýsa

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 15. júní 2006 kl. 15:07 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 15. júní 2006 kl. 15:07 eftir Daniel (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Sjávardýr
Fiskar
Önnur sjávardýr

Ýsa (Melanogrammus aeglefinus) tilheyrir þorskaætt (Gadidae)

Stærð: Hámarkslengd ýsunnar er um 100 cm, 14 kg og 20 ár. Ýsur lengri en 80 cm eru samt sem áður sjaldséðar. Við Ísland verður ýsan kynþroska 4-5 ára gömul, um 50 cm löng.Ýsan er flokkuð eftir stærð og kölluð eftir því, smáýsa kallast sú ýsa sem er á bilinu 25-45 cm, miðlungs – eða kurlýsa er 45-60 cm stór og stórýsa er stærri en 60 cm.

Lýsing: Ýsan er straumlínulaga og allþéttvaxin, gildust um miðjan bol og fer smámjókkandi þaðan og aftur eftir. Haus er meðalstór og beinaber. Ýsan er undirmynnt og með lítinn kjaft. Tennur eru smáar og á höku er lítill þráður. Augu ýsunnar eru stór. Bakuggar eru þrír og raufaruggar tveir. Sporður er sýldur. Eyr- og kviðuggar eru vel þroskaðir. Hreistur er allstórt og rákin er svört og greinileg. Þá er ýsan einnig auðþekkt á svörtum bletti yfir eyruggum.Ýsan er grá eða blágræn á baki, en silfurgljáandi á hliðum með fjólubláurri slikju. Kviður ýsunnar er hvítur.

Heimkynni: Heimkynni ýsunnar eru í N – Atlantshafi, N – íshafi, Barentshafi, Norðursjó, við Bretlandseyjar, Færeyjar og Ísland. Við Ísland er ýsan algeng allt í kringum landið, en einkum þó við suður – og suðvesturströndina, þar sem sjórinn er hlýrri.

Lífshættir: Ýsan er grunnsævis – og botnfiskur og heldur sig mest á leir – og sandbotni á 10-200 metra dýpi, en þó verður hennar einnig vart á enn dýpra svæði.

Fæða: Fæða ýsunnar er margbreytileg og sem dæmi má nefna sandsíli, smásíld, loðna, spærlingur, rækja, krabbadýr og allskonar smáskeldýr og kuðungar.

Hrygning: Hrygning ýsunnar fer fram á 50-200 metra dýpi, byrjar um miðjan apríl og er lokið um maílok. Fjöldi eggja er frá þúsund og upp í milljón, fer allt eftir stærð hrygnunnar. Eggin eru sviflæg, vatnstær og um 1,5 mm í þvermál. Klak tekur um 12-14 daga og er lirfan um 4,5 mm við klakið. Ýsuseiðin leita til botns 2-3 mánaða gömul og eru þau þá 4-5 cm löng.

Nytsemi: Ýsan er mjög vinsæll matfiskur en ýsuafli landsmanna hefur verið mjög misjafn milli ára en er nú yfirleitt nálægt 50.000 tonnum.