Háfur
Fiskar |
---|
Önnur sjávardýr |
Háfur (Squalus acanthias)
Stærð: Háfurinn getur náð um 120cm lengd, en er sjaldan lengri en 80-100cm.
Lýsing: Háfurinn er langvaxinn og straumlínulaga. Hann er hæstur rétt framan við fremri bakugga, haus er lítill og trjóna mjó. Kjafturinn er lítill, en tennur allstórar og eins í báðum skoltum. Bakuggar eru allstórir og gaddar upp úr þeim framanverðum. Eyruggar eru í meðallagi, kviðuggar frekar litlir og raufarugga vantar. Sporðblaðkan er allstór, húðtennur eru mjög smáar og rákin er greinileg. Litur er dökkgrár eða mógrár að ofan, en ljós að neðan.
Heimkynni: Heimkynni háfsins er beggja vegna N-Atlantshafsins frá ströndum Múrmansk að austan, suður með allri Evrópu og allt í Miðjarðarhaf og Svartahaf. Hann er við Bretlandseyjar, Færeyjar og Ísland. Við SV-Grænland og meðfram ströndum N-Ameríkufrá Labrador suður til N-Karólínu. Í N-kyrrahafi við Kaliforníu og norður með Ameríku, við Japan og Kína er hann einnig. Við Ísland finnst Háfurinn allt í kringum landið en er þó mun sjaldséðari við norðanvert landið og Austfirði en í heita sjónum sunnan- og suðvesturlands.
Lífshættir: Háfurinn er botnfiskur á leirbotni og mest á 10-200 metra dýpi. Hann er góður sundfiskur, flækist víða um og er oftast í torfum. Á veturna heldur háfurinn út á djúpið og birtist síðari hluta vetrar á miðunum.
Fæða: Háfurinn er gráðugur fiskur og alls konar fiskar verða fyrir barðinu á honum. Hann verður ýmsum stærri fiskum á bráð eins og háfiskum, stórum beinfiskum en einnig selum og háhyrningum.
Got: Háfurinn á lifandi unga, venjulega 4-6 í einu, 20-33 cm langa. Gotstöðvarnar eru sennilega á djúpmiðum sunnan- og vestanlands. Ekki er vitað hvenær ungarnir fæðast hér við land en rannsóknir frá Kanada gefa til kynna að eggin séu frjóvguð milli febrúar og júlí og meðgöngutíminn getur verið alltað 2 ár.
Nytsemi: Áður fyrr var háfurinn veiddur vegna lifrarinnar en núna er hann víða étinn og kemur á markaðinn undir ýmsum dulnefnum.