Gísli Lárusson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 14. júlí 2016 kl. 10:11 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 14. júlí 2016 kl. 10:11 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Gísli Lárusson, Stakkagerði.
Gísli Lárusson.
Gísli Lárusson.
Gísli.

Gísli Lárusson fæddist 16. febrúar 1865 á Kornhóli í Vestmannaeyjum og lést 27. september 1935. Hann var bóndi, gullsmiður og útgerðarmaður í Stakkagerði. Foreldrar hans voru Lárus Jónsson hreppstjóri og Kristín Gísladóttir.

Gísli nam gullsmíði og tók sveinsbréf 1885. Hann starfaði sem gullsmiður og úrsmiður í Eyjum. Jafnframt var hann bóndi í Stakkagerði, formaður á áraskipinu Frið og fróðleiksmaður. Hann var fjölfróður um sögu byggðarlagsins og sérstaklega um dýralífið í sjónum kringum Eyjarnar og fuglalífið í björgum þeirra. Gísli tók saman mikið örnefnasafn sem hefur verið varðveitt í handritasafni Fornleifafélagsins og hjá Örnefnastofnun Íslands. Þetta örnefnasafn hans var notað m.a. af Þorkeli Jóhannessyni sem tók saman rit um Örnefni í Vestmannaeyjum. Hluti Örnefnasafns Gísla birtist einnig hér víða á þessum vef.

Hann átti sæti í hreppsnefnd og sýslunefnd, var í stjórn ýmissa félaga í Vestmannaeyjum s.s. Ísfélags, Björgunarfélags, togarafélagsins Draupnis og kaupfélagsins Herjólfs. Hann var framkvæmdastjóri kaupfélagsins Bjarma í 10 ár. Hann var einn af stofnendum Framfarafélags Vestmannaeyja

Gísli var meðlimur Góðtemplarareglunnar í 50 ár.

Eiginkona og afkomendur

Eiginkona hans var Jóhanna Sigríður Árnadóttir, dóttir Árna Diðrikssonar í Stakkagerði og konu hans, Ásdísar Jónsdóttur frá Djúpavogi. Jóhanna var forstöðukona Kvenfélagsins Líknar.

Börn Gísla og Jóhönnu voru:
1. Theodóra Ásdís húsfreyja, f. 23. mars 1887, d. 1920, giftist dönskum manni og flutti til USA.
2. Árni bókhaldari, hafnargjaldkeri, f. 2. mars 1889, d. 8. september 1957, bjó síðar í Rvík, kvæntur Sigurbjörgu Sigurðardóttur húsfreyju frá Hólalandi í Borgarfirði eystra, f. 1. október 1886, d. 25. janúar 1967.
3. Lárus Kristján Gíslason, f. 13. janúar 1891, d. 3. mars 1891.
4. Lárus Kristján, f. 12. nóvember 1892, d. 5. maí 1912, ókvæntur.
5. Kristín húsfreyja, f. 26. október 1897, d. 17. desember 1957, gift Bjarna Sighvatssyni bankastjóra, f. 22. júlí 1892, d. 20. ágúst 1953.
6. Georg Lárus kaupmaður, f. 24. ágúst 1895, d. 27. febrúar 1955.


Önnur umfjöllun á Heimaslóð: Ritverk Árna Árnasonar/Gísli Lárusson


Heimildir

  • Páll Eggert Ólason. Íslenskar æviskrár, frá landnámstímum til ársloka 1940, V. bindi. Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag, 1952.
  • Prestþjónustubækur.
  • Ýmsir. Gullsmiðatal 1991, Reykjavík, Félag íslenskra gullsmiða, 1991.
  • Þorsteinn Þ. Víglundsson. Blik, Ársrit Vestmannaeyja 1972, Vestmannaeyjum, Þorsteinn Þ. Víglundsson, 1972.