Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1966/ Fyrsta stýrimannanámskeið í Vestmannaeyjum árið 1918

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 27. júní 2016 kl. 11:47 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 27. júní 2016 kl. 11:47 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Guðmundur Helgason


Fyrsta stýrimannanámskeið í Vestmannaeyjum árið 1918


Guðmundur Helgason.
Sigfús V. Scheving.

Samkvæmt tilmælum frá skólastjóra Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum, hr. Ármanni Eyjólfssyni, vil ég hér með gefa stutta lýsingu af fyrsta sjómannanámskeiði, sem haldið var hér í Vestmannaeyjum veturinn 1918.
Fyrir forgöngu Sigfúsar sál. Schevings var stofnsett hér sem fyrr segir fyrsta sjómannanámskeið, sem haldið var í barnaskóla bæjarins. Ofangreint námskeið byrjaði að ég ætla í septembermánuði. Til að byrja með voru á námskeiðinu fleiri nemendur en þeir sem ætluðu sér að taka próf, sem gilti fyrir smáskip, sem þá var ákveðið að gilti í skipum upp að 30 tonnum. Þess vegna byrjaði námskeiðið með kennslu í reikningi og Íslenzku.
Þegar fram í sótti hættu ýmsir nemendur námi, sem eðlilegt var, þar á meðal nokkrir unglingar, bæði karlar og konur, en aðrir, sem ætluðu sér að þreyta námskeiðið á enda, héldu vitanlega áfram.
Í byrjun voru nemendur 9, en af ýmsum ástæðum — sérstaklega veikindum — urðu ekki nema 5, sem gengu undir próf. Þennan vetur gekk hér nefnilega skæðasta farsótt sem geisað hefur í manna minnum, hin svokallaða spánska veiki, sem lagði hér marga vaska drengi að velli, bæði sjómenn og aðra.
Þeir sem hættu við nám í bili voru eftirtaldir menn:

1. Ársæll Sveinsson frá Fögrubrekku.
2. Guðjón Jónsson frá Heiði.
3. Stefán Björnsson frá Skuld.
4. Þorbjörn Guðjónsson frá Kirkjubæ.

Eins og áður er fram tekið munu flestir þessir menn hafa hætt vegna lasleika.
Þeir sem héldu það út voru eftirtaldir menn:

1. Árni Þórarinsson
2. Guðlaugur Brynjólfsson
3. Guðni Sigurðsson
4. Pétur Andersen, og svo sá, sem þessar línur ritar.

Á námskeiðinu voru kenndar 5 greinar: Siglingareglur, sem varð að læra utan að. Siglingafræði; lesin var bók Páls Halldórssonar. Siglingafræðidæmi gaf Scheving sjálfur. Voru notuð kort yfir Norðursjóinn og sett út í þau; dæmin því sennilega úr danskri bók frá skólatíð Sigfúsar fyrir sunnan.
Íslenzka, öll áherzla lögð á réttritun. Málfræði var ekki lesin.
Jón heitinn Ingileifsson kenndi eitthvað Íslenzku til byrja með, þar til hann fékk spænsku veikina og lézt úr henni um haustið, en spænska veikin truflaði mjög allt námið.
Stærðfræði — dönsk bók var notuð og Ias Sigfús upp dæmin.
Heilsufræði kenndi Páll Bjarnason í fyrirlestrum, sérstaklega lagði hann áherzlu á þrifnað, en oft höfðu menn fengið mikið mein vegna blóðeitrunar, sumir jafnvel misst höndina, en þekking manna á meðferð sára og almennum þrifnaði víða ábótavant. Páll var hinn mesti brautryðjandi á ýmsum sviðum.
Hæst var gefið 7, og fengu allir fullt. Áður en þessi námskeið hófust, hlýddi Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri formönnum yfir siglingareglur og eitthvað í siglingafræði, og fengu bátar ekki haffæraskírteini fyrr en Sigurður hafði prófað þá.

Það er alltaf sama fjasið í þér um stóra fiska.

Hvað kennsla var lengi á dag þori ég ekki að fullyrða, en mig minnir að það væru 2—3 tímar. Auk þess hélt Páll heitinn Bjarnason skólastjóri tvisvar fyrirlestra um fræðandi efni. Á tímabili varð að stöðva kennsluna vegna veikinda sumra nemenda. Við þessir fimm, sem héldum það út, tókum próf seint í desember.
Þetta er í stórum og fáum dráttum það helzta, sem gerðist á fyrsta námskeiði í sjómannafræði, sem haldið var hér í Vestmannaeyjum og var þá almennt kallað „pungapróf“. Mun það nafn hafa haldizt allt þangað til að hér reis upp stýrimannaskóli nú fyrir stuttu, en hann tel ég mikils virði fyrir sjómannastétt Vestmannaeyinga.
Þess skal ennfremur getið, að prófdómendur voru Hannes Jónsson, Miðhúsum, og Finnbogi Björnsson, Norðurgarði. Báðir þessir menn voru ólærðir í sjómannafræði, en ég held ég megi fullyrða að þeir höfðu báðir sérstaklega góða innsýn í allt sem að sjómennsku laut.
Að lokum skal þess svo getið að ég tel að Sigfús sál. Scheving hafi verið afburða góður kennari, bæði hvað kunnáttu við kom og hafði gott lag á því að hafa Iétt yfir kennslunni og halda nemendum í góðum „humor“, ef ég mætti orða það svo.
Þetta var að vísu ekki margbrotið nám á móti því sem nú tíðkast, enda varð útkoman sú, að við útskrifuðumst allir með ágætiseinkunn.
Margt hefur mér sjálfsagt gleymzt og sézt yfir, sem ekki er óeðlilegt eftir nærfellt 50 ár, en ég vona að mér hafi tekizt að draga fram í dagsins ljós flest það sem verulegu máli skiptir.