Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1981/Ísfélag Vestmannaeyja h.f. 80 ára 1901-1981

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 24. febrúar 2016 kl. 15:20 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) Útgáfa frá 24. febrúar 2016 kl. 15:20 eftir StefánBjörn (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Ísfélag Vestmannaeyja hf. 80 ára
1901-1981


Á fullveldisdegi Íslendinga, þann 1. desember næst komandi, mun Ísfélag Vestmannaeyja h.f. standa á merkum tímamótum. En þann dag verða liðin 80 ár frá stofnun þess. Ísfélag Vestmannaeyja, sem er eitt elsta starfandi hlutafélag landsins, á sér langa og merkilega sógu, sem hér verður reynt að gera nokkur skil. Saga Ísfélagsins speglar í raun einnig þá öru þróun, sem átt hefur sér stað í atvinnumálum landsmanna undanfarna áratugi.
Grein þessi er að meginhluta samhljóða stúdentsritgerð höfundar við Menntaskólann á Akureyri vorið 1977, en í ritgerðinni var rakin saga Ísfélagsins fyrstu 75 árin.

I.


í kjölfar kreppu og aflaleysis á seinni hluta 19. aldar hófust vesturflutningar Íslendinga. Í þessum hópi vesturfara voru þeir Jóhannes Guðmundsson Nordal og Ísak Jónsson. Þar vestur frá kynntust þeir ýmsum tækninýjungum og þar á meðal hvernig Kanadamenn notuðu ísinn til matvælageymslu. Þeir byggðu íshús eða frosthús og framleiddu kulda í þau með ís og salti.
Árið 1888 skrifar Ísak Jónsson heim til Íslands og segir frá hinni nýju tækni og gildi hennar, en viðbrögð voru neikvæð. Það var því ekki fyrr en 1894, þá fyrir atbeina Tryggva Gunnarssonar bankastjóra, að þeir Jóhannes og Ísak voru kvaddir heim, til þess að leiðbeina við byggingu íshúsa. Leiðbeindi Jóhannes við byggingu Nordalsíshússins í Reykjavík, en Ísak hélt austur á land og leiðbeindi við byggingu 12 íshúsa á Austur- og Norðurlandi á árunum 1894-1896. Voru meðal annars reist íshús á Mjóafirði, Norðfirði og þrjú við Seyðisfjörð. Á Norðurlandi voru íshúsin reist við Húsavík og tvö við Eyjafjörð.
Tilkoma íshúsanna hér á landi hleypti nýju blóði í sjávarútveg landsmanna, þó sérstaklega austanlands, þar sem línuveiðar voru hvað mest stundaðar. Nú var línuveiðitímabilið, sem aðeins hafði verið nokkrar vikur lengt upp í 4-5 mánuði, þar sem nú var unnt að geyma beituna utan veiðitíma hennar.

II.


Með tilliti til þessara nýju viðhorfa í atvinnumálum Austfirðinga tók fólk að fara þangað á vorin og sumrin í atvinnuleit. Þá var það, að Magnús Guðmundsson frá Vesturhúsum fer ásamt tveimur félögum sínum til Austfjarða og stunduðu þeir línuveiðar þar í tvö sumur og aflaðist þeim vel.
Þegar til Eyja kom haustið 1896 snéru Magnús og félagar sér til Framfarafélags Vestmannaeyja, með beiðni um að það léti athuga hvort ekki skyldi reisa fliús í Eyjum. Af reynslu sinni frá Austfjörðum skildu þeir nú, hve línan jók hagsæld Austfirðinga. En til þess að veiðar þessar mættu blessast þurfti beitu, næga og góða beitu og íshús til að varðveita hana í.
Það var því hinn 15. nóvember 1896 að boðaður var fundur í Framfarafélagi Vestmannaeyja. Fyrir fundinum lá tillaga að stofnun íshúss, en hún var felld og lágu til þess allmargar forsendur. Meginforsendan var sú að gerðar höfðu verið tilraunir með línu við Eyjar, en engan árangur borið. Hafði Hannes lóðs lagt línu um veturinn og aðeins fengið einn fisk, en „mjór er mikils vísir" segir íslenskur málsháttur og átti það eftir að sannast.
Línuöldin hófst síðan í Eyjum þann 10. apríl 1897, er þrír bátar lögðu línu og fengu ágætan afla. Þar með var ísinn brotinn. Upp frá þessu fór áhugi fyrir línuveiðum vaxandi, en helstu vandamál við veiðarnar voru beituskortur og aðstöðuleysi við geymslu hennar. Höfðu útvegsmenn víða reist snjókofa til að varðveita beituna, en sú geymsla var mjög ótrygg.
Sú stund rann nú upp, að mönnum varð ljósara að nota þyrfti nýjustu tækni við varðveislu beitunnar og því skyldi reist íshús. Þessi göfuga hugsjón varð samt ekki að veruleika fyrr en árið 1901, er Ísfélag Vestmannaeyja h.f. var stofnað.

III.


Það var sunnudaginn 15. september 1901, að haldinn var almennur fundur í Vestmannaeyjum og efni fundarins var að íhuga og ræða, hvort hægt yrði að reisa íshús sem þjónað gæti öllu kauptúninu. Upphafsmenn máls þessa voru þeir Magnús Jónsson sýslumaður og Árni Filippusson verslunarmaður. Fundur þessi var allfjölmennur og umræður fjörugar. Þegar var athugað, hve margir vildu gerast hluthafar í slíku félagi og gáfu sig fram 45 menn, er lofuðu alls um 1400 kr. í hlutafé. Síðan var kosin 5 manna undirbúningsnefnd og áttu sæti í henni auk þeirra Magnúsar og Árna þeir Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri, Gísli Lárusson útgerðarmaður og Magnús Guðmundsson Vesturhúsum. Nefndin hóf þegar að undirbúa stofnun félagsins og var því lokið fyrir nóvemberlok 1901.
Þann 1. desember 1901 var loks boðað til stofnfundar Ísfélagsins. Undirbúningsnefndin lagði fram á fundinum drög að lögum félagsins, teikningu af væntanlegu íshúsi og áætlun um byggingarkostnað þess. Hin fyrstu lög félagsins voru samþykkt á fundinum, og um tilgang þess segir í 1. grein:
„Félagið er hlutafélag og nefnist Ísfélag Vestmannaeyja. Heimili þess og varnarþing er í Vestmannaeyjum. Fyrirætlun þess er að safna ís, geyma hann til varðveislu matvælum og beitu, versla með hann og það, sem hann varðveitir, og styðja að viðgangi betri veiði aðferðar við þær fisktegundir og beitutegundir, sem ábatasamt er að geyma í ís."
Einnig segir í lögum félagsins. að stjórn þess skuli skipuð þrem hluthöfum, og í fyrstu stjórn félagsins sátu eftirtaldir menn: Þorsteinn Jónsson læknir, formaður, Árni Filippusson gjaldkeri og Gísli J. Johnsen ritari. Varamaður var kosinn Magnús Guðmundsson Vesturhúsum.
Þegar hóf stjórn Ísfélagsins undirbúning aö byggingu hins nýja íshúss. Fljótlega kom þó í ljós að nokkuð fjármagn vantaði til íshússbyggingarinnar og því var kannaður vilji hjá hinum danska selstöðukaupmanni, J.P.T. Bryde, til að kaupa hlutabréf í Ísfélaginu, en hann rak þá umfangsmikla verslun í Vestmannaeyjum. Í svari sínu kvað Bryde það hug sinn að kaupa 20 hlutabréf í félaginu fyrir 500 kr. og krafðist þess einnig að verslunarstjóri hans í Eyjum, Anton Bjarnsen, sæti í stjórn félagsins.
Á öðrum fundi Ísfélagsins, þann 30. janúar 1902, var lögð fram áætlun um efniskostnað í hið nýja íshús að upphæð kr. 2.080. Þá höfðu aðeins innheimst kr. 1165 af lofuðu hlutafé, svo sýnt var að mikið fé vantaði til byggingarinnar. Eftir nokkrar umræður samþykkti fundurinn að taka tilboði Brydes kaupmanns, því bygging hússins þá stundina var vart hugsandi án hans framlags. Með tilliti til þessarar samþykktar varð að breyta lögum félagsins nokkuð og var þá einnig samþykkt að stjórn félagsins skyldi nú skipuð fimm hluthöfum í stað þriggja áður og var Árni Filippusson kosinn formaður stjórnarinnar. Loks var ákveðið að panta efni í íshúsið, sem yrði 15 álna langt (9,4m), 10 álna breitt (6,3m) og 6 álna hátt (3,7m).
Í mars 1902 var síðan Friðrik Bjarnsen ráðinn aðalsmiður við íshúsið. Í samráði við hann var húsinu valinn staður vestan við Lönd eða Landaskálagarð, þar sem húsið Ingólfshvoll stóð, en það hús hvarf í iður jarðar í eldsumbrotunum 1973. Smíði hússins hófust þá um vorið og var Gísli Stefánsson frá Hlíðarhúsi falin verkstjórn. Svo kappsamlega var að verkinu staðið, að smíði hússins lauk að mestu í september sama ár og var kostnaður við smíðina þá orðinn kr. 3200 eða um 1000 kr. rneiri en áætlað var.
Á aðalfundi Ísfélagsins hautið 1902 var ákveðið að auka hlutafé félagsins, þannig að unnt yrði að greiða byggingarskuldirnar að fullu. Var mikill hugur í félagsmönnum og létu þeir í ljós ánægju með, hve vel hefði til tekist með byggingu hússins.
Starfsemi hins nýja íshússins var síðan hafin um veturinn. Í fyrstu gekk öflun íss erfiðlega og kom þar margt til. Ber þar fyrst að nefna að íshúsið skorti algjörlega rekstrarfé, þannig að ekki var unnt að greiða laun vegna ístökunnar. Reynt hafði verið að auka enn hlutafé félagsins, en vegna þeirra kvaða, sem fylgdu hverju hlutabréfi, var áhugi á þeim lítill. Var þá hluthöfum skylt að vinnu endurgjaldslaust að ísöflun þegar þess var þörf. Annað sem olli sérlegum erfiðleikum við ísöflun var veðrið. Þar sem Vestmannaeyjar eru syðsti hluti landsins, kom oft ekki ís á tjarnirnar fyrr en liðið var á vetur. Í Eyjum voru þá tvær tjarnir, önnur var Vilborgarstaðatjörn, en hin Daltjörnin, og sökum fjarlægðar hennar frá íshúsinu var ístakan þaðan erfið.
Annað meginverksvið Ísfélagsins var að útvega beitu til handa útgerðarmönnum. Var þetta oft erfitt verk þar sem síldina þurfti að fá langt að og engin sérstök kæliskip voru fyrir hendi til flutninga á henni. Ár hvert pöntuðu útgerðarmenn síld hjá félaginu eftir þörfum hverju sinni. Stjórn félagsins brást ekki félögum sínum og reyndi að verða útgerðarmönnum úti um beitusíld, þó til annarra landa þyrfti að leita í því skyni. En vegna fjármagnserfiðleika útgerðarinnar gat hún oft ekki greitt síldina á tilsettum tíma og því þurfti hið fjárvana Ísfélag að greiða hana. Vegna þessa komst félagið oft í stórskuldir. Og þegar verst lét lögðu hinir óeigingjörnu forystumenn félagsins oft fram fé til beitukaupa, því að án beitu var vá fyrir dyrum og atvinnuleysi.
Á aðalfundi í ársbyrjun 1904 var Gísli J. Johnsen kosinn formaður stjórnar Ísfélagsins og hafði það starf með höndum allt til ársins 1927, að tveimur árum undanskildum. Fyrsta verk hins nýja framfarasinnaða formanns og stjórnar hans var að láta byggja snjókofa við íshúsið, með það í huga að safna í hann snjó á vetrum til þess að drýgja ísinn.
Í ársbyrjun 1905 voru erfiðleikar sem fyrr um útvegun síldar, og því hreyfði Gísli J. Johnsen formaður þeirri hugmynd að Ísfélagið keypti vélbát til veiða á beitusíld fyrir félagið. Af þessu varð nú ekki, því Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja treysti sér ekki til að taka bátinn í tryggingu. Þannig varð að halda áfram á sömu braut og afla síldar annars staðar frá.
Með tilkomu vélbátanna á árunum 1905-1906 fór þörfin fyrir beitu ört vaxandi, enda var línan þá orðin eitt aðalveiðarfærið í Eyjum. Hið litla íshús Ísfélagsins var þegar fullnýtt og var því orðið nauðsynlegt að stækka og endurbæta hús félagsins til að mæta vaxandi þörfum útgerðarinnar fyrir stærra íshús til beitugeymslu.
Á stjórnarfundi Ísfélagsins 18. desember 1906 var rætt um á hvern hátt hús félagsins yrðu endurbætt og stækkuð. Þá bar formaður þess, Gísli J. Johnsen, fram tillögu um að reist yrði nýtt íshús, þar sem kælivélar yrðu notaðar til frystingar. Hafði Gísli kynnst þessari nýju tækni á ferðum sínum erlendis og hrifist mjög af. Ef af þessum breytingum yrði myndi hin óvinsæla og erfiða ístaka falla niður og rekstur hússins yrði betur tryggður. Á fundinum var samþykkt að fela Gísla að kynna sér verð á efni og tækjum til slíks húss, jafnframt því er félagsmenn lofuðu fjárframlögum til byggingar hússins ef til framkvæmda kæmi.

IV.


Segja má að framtíð Ísfélagsins hafi verið ráðin á aðalfundi þess í árslok 1907. Var þá samþykkt að reisa nýtt íshús með nýtísku kælivélum, hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Fól stjórn félagsins [Gísli J. Johnsen|Gísla J. Johnsen]] formanni þess allan vanda um kaup á frystivél, aflvél og efni í hið nýja íshús.
Um veturinn 1908 hélt Gísli J. Johnsen utan til að kaupa vélar og efni í nýja íshúsið. Með Gísla í förum var Högni Sigurðsson íshúsvörður frá Heiði. Skyldi Högni kynna sér meðferð þeirra tækja og véla er keyptar yrðu. Högni var fyrsti starfsmaður félagsins og hóf störf sem íshúsvörður frá 1903. Nú lá fyrir Högna að verða vélgæslumaður í nýja íshúsinu og starfaði hann við það til ársins 1931.
Hinu nýja íshúsi var valinn staður á Nýjabæjarhellu, sunnan Strandvegar. Var bygging hússins hafin vorið 1908 og henni lokið í október sama ár. Skömmu síðar var hið glæsta íshús tekið í notkun.
Um byggingu þessa fyrsta vélknúna íshúss á Íslandi kemst Þorsteinn Þ. Víglundsson svo að orði:
„Þessar framkvæmdir voru sérstæðar með íslensku þjóðinni. Fyrsta vélknúna frystihúsið á Íslandi var risið af grunni og tekið til nota. Skotið hafði verið fyrstu stoðinni undir hinn risavaxna útveg Íslendinga á þessari öld, sem hefur leitt af sér bætta afkomu á öllum sviðum og stórkostlegar framfarir í efnahagslífi og menningarmálum þjóðarinnar."
Þó að þetta stórmerka framtak stjórnar Ísfélagsins yrði útvegi Eyjanna mikil lyftistöng, varð stjórnin nú að glíma við afleiðingar gjörða sinna og ráða fram úr hinum erfiða fjárhag félagsins. Bygging hússins varð dýr og ekki höfðu hluthafar og útgerðarfélög staðið við gefin loforð um greiðslu fjár til til framkvæmdanna. Þannig hafði Gísli J. Johnsen lánað félaginu kr. 19.000 úr eigin vasa til framkvæmdanna, sem var um helmingur alls byggingarkostnaðar hússins. Því gat Gísli alveg eignað sér hið nýja íshús, en öll rök hníga að því, að eiginhagsmunir hans hafi aldrei vakað fyrir honum. Félagið var almenningseign og því skyldi hið nýja íshús vera það einnig og það auka velferð og hagsæld Eyjanna.
Vegna umfangs þessara framkvæmda Ísfélagsins dróst að gera upp reikninga þess fyrir árin 1908-1909. Var mikill kurr í félagsmönnum gegn stjórninni og formanni hennar Gísla J. Johnsen.
Sennilega hafa þeir látið hæst, er áttu vangoldnar skuldir sínar við félagið.
Í stjórnarkosningu á aðalfundi Ísfélagsins í febrúar 1910 var Gísli J. Johnsen felldur úr stjórninni og Gunnar Ólafsson kosinn formaður stjórnarinnar í hans stað. Ekki veit ég ástæðuna fyrir falli Gísla úr stjóminni, en á þennan hátt launuðu hluthafar félagsins honum hans mikla og fómfúsa starf í þágu þess. Hafði Gísli bæði fórnað fé og fyrirhöfn í þágu félagsins og Eyjanna, en varð að víkja vegna rógs einstakra félagsmanna.

V.


Eftir hina stórkostlegu byltingu, sem varð er hið nýja og glæsilega íshús var tekið í notkun, steðjuðu margvíslegir erfiðleikar að Ísfélagi Vestmannaeyja á næstu áratugum. Átti félagið til dæmis í sífelldum fjárhagserfiðleikum til loka seinni heimsstyrjaldarinnar, en þá hófst uppbygging hraðfrystiiðnaðarins. En með vilja og dugnaði forystumanna félagsins var því snúið til vaxtar og viðgangs og umsvif þess jukust ár frá ári.
Eitt aðalverksvið Ísfélagsins var sem áður að afla beitusíldar, geyma hana og versla með til útgerðarmanna. Var þetta eins og áður var sagt mjög vandasamt, þar sem öflun síldar varð æ erfiðari og notkun hennar fór vaxandi ár frá ári samfara vaxandi útgerð. Sökum síldarskorts varð oft að vetri til að grípa til skömmtunar á síld, og var slíkt óvinsælt meðal útgerðarmanna. En vandi stjórnar Ísfélagsins var mikill. Væru síldarbirgðirnar of miklar þegar loðnan tók að veiðast, varð hætta á halla vegna síldarkaupa og á rekstrinum í heild. Til þessara aðstæðna tók almenningur oft ekki tillit, þakkaði vart er vel gekk, og sparaði ekki stóryrðin ef illa gekk í þjónustu félagsins við útgerðina, því oft var sökin meir hennar.
Í marsmánuði 1910 byrjaði Ísfélagið verslun með kjöt og kjötvörur. Einnig geymdi félagið þessi matvæli fyrir bæjarbúa í frystiklefum íshússins. Var þessari verslun með kjöt og kjötvöru fram haldið til ársloka 1956, en þá var hún lögð niður.
Á aðalfundi Ísfélagsins í júní 1912 lýstu félagsmenn að nýju trausti á Gísla J. Johnsen í stöðu formanns stjórnar félagsins. Var Gísli nú formaður félagsins næstu 15 árin eða til ársins 1927 að hann lét af starfi sínu vegna aukinna umsvifa í atvinnurekstri í Eyjum og víðar.
Árið 1914 var íshús Ísfélagsins á Nýjabæjarhellu stækkað verulega, en fyrra hús félagsins var orðið alltof lítið fyrir starfsemi þess. Nam stækkun hússins allt að helmingi og var allur vélakostur íshússins bættur verulega.
Árið 1915 var rafmagn tekið í notkun í húsum Ísfélagsins og þá aðeins til raflýsingar. Frá því hafði verið horfið tveimur árum áður að nota rafmagn til að knýja frystivélar hússins, þar sem það þótti dýrara en notkun gasvéla í sama skyni. Árið 1920 var fyrst farið að keyra frystivélar hússins með díselvélum.
Eftir að Gísli J. Johnsen lét af starfi formanns Ísfélagsins árið 1927, tók Jón Hinriksson kaupfélagsstjóri við starfi hans. Gegndi Jón starfinu til dánardags 15. maí 1929. Eftir fráfall hans var Ólafur Auðunsson frá Þinghól kosinn formaður Ísfélagsins. Ólafur var dugandi og framfarasinnaður stjórnandi og í hans tíð var lagður grunnur að breytingu á íshúsi félagsins í hraðfrystihús.
En árin liðu og á ný var íshús Ísfélagsins orðið of lítið fyrir starfsemi þess. Því var sumarið 1930 ráðist í stækkun á íshúsinu og byggð 220 ferm. viðbygging við eldra hús félagsins. Voru þá sem fyrr fengnar frystivélar frá Árósum, en þær höföu reynst félaginu vel alla tíð.

VI.


Fyrsti vísir að breytingu á íshúsi ísfélagsins yfir í hraðfrystihús varð til á aðalfundi félagsins sumarið 1934. Þá hreyfði formaður félagsins, Ólafur Auðunsson, því að nauðsynlegt væri að stækka íshús félagsins enn á ný. Á fundinum var staddur Viggó Björnsson bankastjóri og lét hann í ljós þá skoðun sína, að vegna þess að saltfiskmarkaðurinn myndi þregjast, þyrfti að huga meir að aðstöðu til ferskfisksölu og því þyrfti að byggja íshús með fullkomnum hraðfrystitækjum. Í fundarlok var síðan samþykkt að fela stjórninni að kanna hvort unnt yrði að reisa slíkt hraðfrystihús.
Sökum fjárhagskreppu, bæði til lands og sjávar, sofnaði málið þar til í mars 1937. Fékk stjórn Ísfélagsins þá Ingólf Espólín til þess að gera tillögur um að breyta íshúsinu yfir í hraðfrystihús, og skilaði Ingólfur tillögum sínum til stjórnar félagsins þá um haustið. Með hliðsjón af þessum fyrirhuguðu breytingum leitaði stjórn Ísfélagsins til fiskimálanefndar um lán, í því skyni að hefja byggingaframkvæmdir, en ekki tókst að fá heit nefndarinnar í það skiptið.
Á aðalfundi Ísfélagsins í október 1937 voru tillögur Ingólfs Espólíns mikið ræddar, en þær miðuð að því að keypt yrðu hraðfrystitæki sem afköstuðu 5 lestum af fiski á sólarhring. Kom fram á fundinum tillaga um að fresta byggingaframkvæmdum, en stjórnin bar fram breytingartillögu svohljóðandi:
„Félagsfundur samþykkir að fela væntanlegri stjórn að halda áfram að vinna að því að fá lán hjá fiskimálanefnd til endurbóta og breytinga á húsinu í þá átt sem skýrsla Espólíns leggur til." Var þessi tillaga samþykkt og því markaði þessi aðalfundur mikilvægt spor um framtíð Ísfélags Vestmannaeyja, en varð upphaf að nýtísku fiskiðnaði félagsins í stórum stíl.
Það var ekki fyrr en í október 1938, að fiskimálanefnd veitti Ísfélaginu 25.000 kr. lán til byggingaframkvæmdanna, en þær höfðu hafist þá um vorið. Var þá steyptur kjallari og hæð nýja hússins. Síðan var byggingu hússins fram haldið og í þessu húsi félagsins var heilfrysting fisks hafin árið 1940.
Í árslok 1938 lét Ólafur Auðunsson af formennsku í félaginu og við tók annar framfarasinnaður og dugandi stjórnandi, Tómas M. Guðjónsson. Með Tómasi sátu í stjóm félagsins næstu tíu árin, þeir Kjartan Guðmundsson, Ársæll Sveinsson, Helgi Benediktsson og Georg Gíslason. Framundan voru miklir uppgangstímar í fiskiðnaði landsmanna enda tækniþróun ör á stríðsárunum. Þetta skildi og skynjaði hin nýja stjórn Ísfélags Vestmannaeyja og vildi því enn endurbæta hús og tæki félagsins í samræmi við takt tímans.
Eftir hinar miklu hafnarframkvæmdir á árunum 1940-1945 myndaðist stórt athafnasvæði norðan við hús Ísfélagsins. Því ákvað stjórn félagsins þann 30. ágúst 1945 að sækja um byggingalóð á hinu nýja athafnasvæði og fékk félagið þar mikinn lóðarauka. Var þar fyrirhugað að reisa hið nýja hraðfrystihús félagsins.
Á stjórnarfundi í júní 1946 var ákveðið að sækja um lán til Stofnlánadeildar sjávarútvegsins til að unnt yrði að hefja byggingu hússins. Var Stofnlánadeildinni sent símskeyti svo hljóðandi:
„Leyfum oss að sækja um 2 milljóna króna lán til nýbyggingar, stækkunar og vélakaupa í frystihús vort. Upplýsingar um væntanlegar framkvæmdir hjá Nýbyggingarráði."
Eftir að stjórn Ísfélagsins hafði fengið loforð Stofnlánadeildar sjávarútvegsins um lán að upphæð kr. 900.000, var hafist handa um byggingu hússins haustið 1946. Svo vel á veg var bygging þess komin, að á vertíð 1947 var hraðfrysting fiskflaka hafin. öllum byggingum og endurbótum var síðan lokið um sumarið.
Á næstu árum var endurbótum og breytingum á húsum og eignum félagsins fram haldið ár frá ári, enda fór tækja- og færibandanotkun ört vaxandi í húsunum.
Lögum Ísfélags Vestmannaeyja var breytt til samræmis við breytta tíma á aðalfundi þess árið 1949. Um hlutverk þess segir í 2. grein félagslaga:
„Hlutverk félagsins er að kaupa, vinna úr og hagnýta sem best hverskonar íslenskar afurðir, svo og að flytja þær út og selja erlendis, að kaupa og flytja inn erlendar verslunar- og efnisvörur, og yfirleitt að versla með hverskonar vörur, jafnt innlendar sem erlendar, taka til geymslu hverskonar matvæli og síld, eftir því sem aðstæður leyfa og stjórn félagsins þykir hagkvæmt.
Félagið getur rekið útgerð, ef lögmætur félagsfundur er því samþykkur."
Sé þessi grein félagslaganna borin saman við samsvarandi grein félagslaga árið 1902, sem birtist hér að framan, sést að að baki orðalagsins er heil saga um breytta atvinnuhætti og stóraukinn tilgang fiskiðnaðarins í íslensku efnahagslífi. Nú var Ísfélag Vestmannaeyja orðið útflutningsfyrirtæki er framleiddi fiskafurðir á erlendan markað.
Árið 1942 gerðist Ísfélag Vestmannaeyja aðili að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem er umboðs- og útflutningsaðili fyrir allar þær freðfiskafurðir sem félagið framleiðir. Auk þess hefur Sölumiðstöðin stuðlað að auknum þrifnaði í frystihúsnum og verið þeim innan handar með ýmsar tæknilegar breytingar, er sparað gætu vinnuafl og létt verkafólki hið daglega starf þess.
Mikil stjórnarbylting var gerð á aðalfundi Ísfélagsins þann 28. desember 1956. Hafði rekstur félagsins gengið heldur erfiðlega þá undanfarin ár og m.a. hafði húsið skort hráefni til vinnslu, þannig að það var ekki fullnýtt. Var mikill áhugi á því að snúa reksti þess til betri vegar. Var samþykkt á fundinum að auka hlutafé félagsins út tæpri hálfri milljón króna í tvær og hálfa milljón króna.
Auk þess var húsinu tryggt hráefni, en tekist hafði að fá allt að tíu nýja heimabáta í viðskipti við félagið. Þannig átti að koma rekstri félagsins á réttan kjöl á ný og til að fylgja því eftir var stjórn þess endurnýjuð að mestu og hlutu þessir menn kosningu: Magnús Bergsson formaður, Björn Guðmundsson varaformaður, Jóhann Pálsson ritari, Tómas M. Guðjónsson og Einar Sigurjónsson. Var Einar Sigurjónsson síðan ráðinn framkvæmdarstjóri félagsins. Tók Einar við stafinu af Jóhannesi Brynjólfssyni, er gegnt hafði starfi framkvæmdarstjóra félagsins frá árinu 1933.
Hin næstu ár liðu nú í krafti athafna og aukinna bygginga, því umsvif félagsins jukust til muna eftir að hin nýja stjórn tók við völdum.
Árið 1964 var byggð verbúð fyrir það starfsfólk félagsins, sem utan af landi kemur og leitar vinnu hingað í vaxandi mæli, sérstaklega á vertíð. Var verbúðin byggð ofan á frystihúsið, sem þriðja hæð. Um svipaó leyti byggði Ísfélagið saltfiskverkunarhús á tveimur hæðum og því valinn staður á horni Strandvegar og Bárugötu.
Árið 1972 var enn hafist handa við byggingu húss, og þá reist glæsilegt saltfiskverkunarhús á Klappar- og Mandalslóð sunnan Strandvegar. Það hús varð að víkja undan fargi elds og hrauns í eldsumbrotunum 1973, en var endurreist ári síðar.

VII.


Í eldgosinu er hófst í janúarmánuði 1973 lagðist öll starfsemi Ísfélags Vestmannaeyja niður um sinn. Var þá nýlokið gagngerum endurbótum á aðalvinnslusal hússins. Ekki þótti annað ráðlegt en að flytja öll tæki hússins á brott úr Eyjum og tókst sá flutningur giftusamlega.
Þrátt fyrir þetta stóra áfall lögðu Ísfélagsmenn ekki árar í bát. Stuttu eftir komuna til Reykjavíkur ákvað stjórn félagsins að kaupa frystihús Júpíters og Mars á Kirkjusandi, er þá var í eigu Tryggva Ófeigssonar. Í þessu frystihúsi hélt Ísfélagið uppi starfsemi í tvö ár, en þá var húsið selt Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Sýndi stjórn Ísfélagsins mikið áræði með kaupum þessum og án efa létti þessi rekstur á þeim erfiðlikum sem sköpuðust vegna eldgossins.
Þegar eldgosinu lauk sumarið 1973 var strax hafist handa um að koma tækjum fyrir í húsum Ísfélagsins hér í Eyjum. Var þá suðaustur horn hússins endurbyggt, en það skemmdist er hraun lagðist að því. Starfsemi Ísfélags Vestmannaeyja hófst síðan á ný í Eyjum á vetrarvertíð árið 1974.
Eins og fyrr segir var saltfiskverkunarhúsið á Klappar- og Mandalslóð endurreist árið 1974. Þremur árum síðar eða árið 1977 var hafist handa um að stækka nýja saltfiskverkunarhúsið til suðurs meðfram Kirkjuvegi og var þeim framkvæmdum að fullu lokið á árinu 1979. Hafa þessi nýju húsakynni gert alla saltfiskverkun auðveldari og hagkvæmari.
Á árinu 1975 hófst síldarsöltun aftur í Vestmannaeyjum og það ár saltaði Ísfélagið 2367 tunnur af síld. Síðan hefur þessi þáttur í starfseminni aukist verulega og skapað mikla atvinnu að haustinu til, en það er sá árstími sem Ísfélagið hefur helst skort annað hráefni. Ísfélagið hóf fyrst fiskvinnsluhúsa að vélvæða síldarsöltun og er síldarsöltunarkerfið hannað og smíðað af starfsmönnum Ísfélagsins. Hefur hin nýja söltunaraðferð breiðst verulega út og víða hefur handsöltun síldar verið aflögð. Einnig hefur síldin verið vélflökuð í nokkrum mæli og hefur síldarflökunin sem og síldarsöltunin farið fram í nýja salthúsinu.
Vegna erfiðleika í bátaútgerð, svo og vegna fækkunar báta í Vestmannaeyjum, hafa fiskvinnslustöðvarnar í Eyjum farið inn á nýjar brautir í hráefnisöflun. Fyrsta skrefið í þessum málum var stigið þegar þrjú frystihúsanna í Eyjum ákváðu að láta smíða skuttogara í Póllandi. Skipið, sem hlaut nafnið Klakkur VE 10, kom til landsins árið 1977, og var eignarhlutur Ísfélagsins einn þriðji. Var þetta í fyrsta skipti í 76 ára sögu Ísfélagsins að það tók þátt í útgerð. Átti þessi þáttur starfseminnar eftir að aukast verulega á næstu árum. Sannaði skipið strax ágæti sitt og jafnaði aðstreymi afla sérstaklega að haustinu og í byrjun vertíðar. Á öðrum tímum má segja að þörfin sé ekki jafhbrýn.
Næsta skrefið í útgerðarmálum ísfélagsins var þegar félagið keypti 40% í skuttogaranum Vestmannaey VE 54 af Huginn hf. árið 1978. Frá árinu 1974 hafði ísfélagið keypt þriðja hluta afla Vestmannaeyjar en eftir kaupin tók Ísfélagið við nær öllum afla skipsins. Um svipað leyti hafði Fiskimjölsverksmiðjan í Vestmannaeyjum eignast skuttogarann Sindra VE 60 og loðnu og skutskipið Breka VE 61. Skiptist aflinn af þessum skipum oftast á milli Fiskiðjunnar og Vinnslustöðvarinnar. Sökum þessa barst frystihúsunum þremur oft svo mikill togaraafli í einu að til vandræða horfði. Þess vegna, og eins vegna aukinna erfiðleika í rekstri togaranna ákváðu Ísfélagið, Vinnslustöðin, Fiskiðjan og Fiskimjölsverksmiðjan, í árslok 1979, að stofna sameignarfélag um rekstur togaranna þriggja, Breka, Klakks og Sindra. Var eignarhluti Ísfélagsins ákveðin 25%. Fær Ísfélagið nú þriðja hluta þess afla, sem togararnir fjórir bera að landi, því að afli Vestmannaeyjar VE skiptist nú einnig milli stöðvanna þriggja. Á þennan hátt hefur tekist betur að samræma landanir togaranna og móttökugetu húsanna til hagsbóta fyrir alla.
Þannig hefur hin mikla fækkun í bátaflota Eyjamanna knúið Ísfélag Vestmannaeyja, sem og önnur frystihús, til enn frekari þátttöku í útgerð til að tryggja jafnara aðstreymi hráefnis. Þó að erfiðleika gæti í rekstri togaranna, þá er enn dýrara að láta stór og dýr fiskvinnsluhús standa verkefnalaus um lengri eða skemmri tíma.
Mörg undanfarin ár hefur Ísfélagið tekið á móti yfir 10 þús. tonnum af fiski til vinnslu og framleiðir freðfisk, saltsíld, saltfisk og skreið til útflutnings. Hefur saltfiskverkunin aukist nokkuð hin síðustu ár vegna góðra markaðs-aðstæðna. Aftur á móti hefur skreiðarverkun verið nær engin undanfarin ár, en þar sem markaðshorfur eru nú góðar, hefur mikið af fiski verið hengt upp til herslu á vertíðinni í ár. Enn er freðfiskframleiðslan þó mikilvægasta afurðin, og er Ísfélagið eitt af framleiðsluhæstu húsum innan Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Á árinu 1979 veitti Sölumiðstöðin Ísfélaginu viðurkenningu fyrir vandaða framleiðslu og segir það meira en mörg orð um vandvirkni starfsfólksins.
Þrátt fyrir hið slæma efnahagslíf í landinu, sem bitnað hefur verulega á fiskvinnsluhúsunum, hefur rekstur Ísfélags Vestmannaeyja gengið nokkuð vel. Kemur þar einkum tvennt til, annars vegar er ísfélagið gamalgróið fyrirtæki, sem stendur á gömlum merg, og hins vegar að við stjórn félagsins eru nú dugmiklir og atorkusamir menn, sem vaxa með hverju verkefni.
Nú eru uppi ýmsar ráðagerðir meðal forráðamanna Ísfélagsins, svo að efla megi og styrkja félagið fyrir átök komandi tíma. Meðal þeirra er flutningur á flökunarvélasal yfir á efri hæð vesturhússins, sem svo er kallað, en á neðri hæðinni er verið að ljúka frágangi á kældri fiskgeymslu. Þá er og verið að stækka vesturhúsið.
Auk fiskvinnslunar rekur Ísfélagið vélaverkstæði, rafmagnsverkstæði og trésmíðaverkstæði er sjá um allar viðgerðir og endurbætur á húsa- og tækjakosti félagsins. Einnig rekur Ísfélagið verbúðir og mötuneyti, sem einkum er ætlað aðkomufólki.
Starfsmenn Ísfélagsins eru allt að 200 þegar flest er og hefur Ísfélagið ávallt haft dugmikið starfsfólk. Hafa sumir starfsmennunnið svo áratugum skiptir hjá félaginu. Mætti þar nefna Boga Matthíasson, sem starfað hefur í nær 50 ár hjá ísfélaginu, Matthías sonur hans, yfirmaður vélaverkstæðis, Sigurjón Auðunsson yfirverkstjóra 1963-1973, Eyjólf Martinsson skrifstofustjóra síðan 1961, yfirverkstjórana Ólaf Gíslason og Egil Jónsson, Guðlaug verkstjóra í vélasal, Lárus Kristjánsson smið, Elías Berg Guðjónsson og Sigurfinn Einarsson, svo einhverjir séu nefndir.
Framkvæmdarstjóri Ísfélags Vestmannaeyja er Einar Sigurjónsson, varaformaður stjórnar, og hefur hann gegnt því starfi með prýði um 25 ára skeið eða frá árinu 1956.
Eins og getið var um í upphafi greinarinnar verður Ísfélag Vestmannaeyja hf. 80 ára 1. desember næst komandi. Með stofnun þess fyrir tæpum 80 árum var brotið blað í útgerðar- og atvinnusögu Vestmannaeyja, en allt frá upphafi hefur Ísfélagið verið ein dyggasta stoð atvinnulífsins í bænum, bæði til lands og sjávar.
Í fyrstu var Ísfélag Vestmannaeyja dvergvaxið og máttvana fyrirtæki, en vegur þess breikkaði ár frá ári. Er þessum vexti félagsins ekki síst að þakka dugmiklum og víðsýnum stjórnendum þess. Í þessi nær 80 ár hafa 4 menn lengst haldið um stjórnvölinn á félaginu. Þeir eru Gísli J. Johnsen 1904-1912 og 1914-1927, Ó1afur Auðunsson 1929-1938, Tómas M. Guðjónsson 1938-1956 og Björn Guðmundsson, sem hefur verið fromaður stjórnar Ísfélagsins síðan 1959. Einnig vil ég nefna Árna Filippusson, er gegndi stjórnarstörfum í nær 30 ár, 1901-1931, lengst af sem gjaldkeri. Hafa þessir menn, ásamt samstarfsmönnum sínum, unnið ómetanlegt starf til eflingar félaginu og stýrt því í gegnum ólgusjó aldarinnar af stakri prýði. Þannig leggur Ísfélag Vestmannaeyja ávallt stærri og stærri skerf til eflingar byggð og efnahag landsins.
Frá stofnun Ísfélagsins hafa verið haldnir 879 stjórnarfundir, en í stjórn félagsins sitja fimm menn og skipa hana nú þessir heiðursmenn: Björn Guðmundsson formaður, Einar Sigurjónsson framkvæmdarstjóri varaformaður, Eyjólfur Martinsson ritari, Emil Andersen og Kristinn Pálsson. Varamenn í stjórn eru: Bergur Elías Guðjónsson og Sigurður Kristjánsson.
Að lokaorðum mínum vil ég gera þessi orð Þorsteins Þ. Víglundssonar, er birtust í Bliki 1971, er hann ritaði um Ísfélagið í tilefni 70 ára afmælis þess:
,,Við Vestmanneyingar óskum þess af heilum hug, að Ísfélag Vestmannaeyja megi eflast í atvinnurekstri sínum og treysta alla aðstöðu sína atvinnulífi bæjarins til ómetanlegs hagræðis og öllum bæjarbúum til trausts og halds í daglegri lífsbaráttu, daglegri sókn til sjálfsbjargar og efnalegs sjálfstæðis. Ekki mun skuturinn eftir liggja ef vel er róið í framrúmum. Á þessa leið mælti Grettir forðum. Eins vil ég fullyrða að ekki lætur verkalýður Vestmannaeyja til sjós og lands sitt hlutverk eftir liggja, ef vel og hyggilega er stjórnað, vel og markvisst er á málum haldið".

Heimildaskrá
1.Fundargerðarbók Ísfélags Vestmannaeyja 1939-1980.
2.Helgi Benónýsson: Ísfélag Vestmannaeyja, úr bókinni Fjörtíu ár í Eyjum: frásagnir úr atvinnulífi í Eyjum. Reykjavík 1974.
3.Morgunblaðið: Ísfélag Vestmannaeyja 75 ára. 63. árg. 263. tbl. Reykjavík, 1. des. 1976.
4.Þorsteinn Jónsson: Aldahvörf í Eyjum, ágrip af útgerðarsögu Vestmannaeyja 1890-1930. Reykjavík 1958.
5.Þorsteinn Þ. Víglundsson: Saga Ísfélags Vestmannaeyja, 1.-3. kafli. Blik, ársrit Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum. 21., 22. og 23. árg. Vestmannaeyjum 1960, 1961 og 1962.
6.Þorsteinn Þ. Víglundsson: Saga Ísfélags Vestmannaeyja, 4. kafli. Blik, ársrit Vestmannaeyja, 28. árg. Vestmannaeyjum 1971.