Sjómannadgsblað Vestmannaeyja 1978/ Skólarnir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 15. febrúar 2016 kl. 15:58 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 15. febrúar 2016 kl. 15:58 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (br>)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Skólarnir


Stýrimannaskólinn:

Starfi skólaársins 1976 - 1977 lauk með skólaslitum 21. maí 1977, og luku þá 2. stigs nemendur prófum. Úrslit urðu sem hér segir:

1. Sigmar Gíslason 9.10 ág. eink.
2. Ólafur Örn Ólafsson 8.98 1. eink.
3. Benoný Færseth 8.38 1. eink.
4. Ægir Örn Ármannsson 8.24 1. eink.
5. Erlendur Þórisson 8.00 1. eink.
Fleiri nemendur stunduðu ekki nám á 2. stigi að því sinni.


Skólaárið 1977 - 1978 hófst 1. október 1977. Nemendur voru alls 25, 11 á fyrsta stigi og 14 á öðru stigi. Prófum fyrsta stigs lauk 22. apríl s.l., og fara hér á eftir hæstu einkunnir:
1. Róbert Guðfinnsson, Siglufirði 8,81, 1. eink.
2. Guðmundur Adólf Adólfsson, Vestm. 8,06, 1. eink.
3. Magnús Jónsson, Þórshöfn 7,94. 1. eink.

Annars stigs próf standa nú yfir, en skólaslit fara fram 27. maí. Er því ekki unnt að þessu sinni að birta úrslit annars stigs prófa.
Skólinn starfaði mjög með svipuðum hætti og verið hefur undanfarin ár. Nemendur fóru árlega ferð með „Lóðsinum“ og æfðu sig m.a. í því að taka sólarhæðina. Ennfremur heimsóttu þeir Óskar Sigurðsson, vitavörð, í Stórhöfða og kynntu sér tæki og búnað við gerð veðurskýrslna. Þá fóru þeir ferð með v/s Ægi og voru 1½ sólarhring um borð. Kynntu þeir sér tækin og annan búnað, sem nú er á varðskipunum, og í skýrslu skipherrans, Sigurðar Árnasonar, til Landhelgisgæzlunnar segir um frammistöðu nemenda:


„Nemendur virtust mjög ánægðir með dvöl sína um borð í varðskipinu, og var með ólíkindum, hve fljótir þeir voru að kynnast hinum flókna útbúnaði varðskipanna.“
Ennfremur sóttu þeir árlegt svonefnt ratsjárlíkinámskeið við Stýrimannaskólann í Reykjavík, og var leiðbeinandi þeirra á því námskeiði Guðjón Ármann Eyjólfsson, fyrrv. og fyrsti skólastjóri Stýrimannaskólans hér. Í greinargerð hans um námskeiðið segir m.a.:
„Þetta var sérstaklega samstæður og áhugasamur hópur nemenda. Þeir stunduðu allir námið af kappi og áhuga og voru skóla sínum og byggðarlagi til mikils sóma.“

Árlega koma ýmsir gestir í heimsókn í skólann og flytja þar erindi. Á þessu skólaárikomu yfirmenn b/v Vestmannaey, þeir Eyjólfur Pétursson, skipstjóri, Sverrir Gunnlaugsson, 1. stýrimaður, og Sigurgeir Ólafsson, 2. stýrimaður, og fluttu góð og sérlega fróðleg erindi um störf sín sem skipstjórnarmenn - fræðandi starfserindi.


Jónas Hallgrímsson, sem stundar nám í veiðarfærafræði við háskóla í Japan, flutti erindi um nám sitt og fiskveiðar Japana. Í heiminum eru aðeins þrír háskólar, sem kenna veiðarfærafræði, þ.e. einn í Tromsö í Noregi, annar í Þýzkalandi og sá þriðji í Japan. Japanski skólinn hefur umráð yfir og gerir út þrjú skólaskip, eitt 3000 lestir, annað 800 og það þriðja 500 lestir.
Ennfremur kom Jón „Bondó“ Pálsson, sem verið hefur á framandi slóðum við fiskveiðar og leiðbeiningar í fiskveiðum. Flutti hann fróðlegt erindi um fiskveiðar í Persaflóa.
Nokkuð er um það, að nemendur, sem lokið hafa fyrsta stigi fyrir nokkrum árum, koma nú aftur og ljúka annars stigs prófi. Þess má einnig geta um einn nemanda, sem lauk fyrsta stigs prófi í vor, Guðmund Adólf Adólfsson, að hann lauk samtímis prófi í fagteikningu við Iðnskólann, enda er hann trésmiður.
Skólastjóri Stýrimannaskólans er Friðrik Ásmundsson.


Vélskólinn:

Í haust kom til framkvæmda nýtt fyrirkomulag við kennslu í Vélskólanum. Tekið var upp annakerfi, þ.e. skólinn skiptist í tvær annir, haustönn og vorönn. Nemendur, sem ætla að komast í vorönn, verða að standast próf að lokinni haustönn, en þeir, sem ná ekki tilskildum lágmarksárangri, geta þá sótt svonefnd úrbótanámskeið og tekið úrbótapróf og þannig bætt sér upp til að komast áfram.
Að þessu sinni innrituðust samtals 18 nemendur, 9 í hvort stig, en 16 héldu námi áfram, þ.e. 8 á hvoru stigi.
Hæstu einkunnir á 2. stigi í vor hlutu þessir:
1. Grímur Gíslason Vestmannaeyjum 8,44, 1. eink.
2. Pétur Andersen, Vestmannaeyjum 8,27, 1. eink.
3. Rafn Jónsson, Þórshöfn 8,00, 1. eink.
Einn nemandi á eftir að ljúka prófi. Hann á rétt á úrbótaprófi, en það hefur tafið, að hann lagðist á sjúkrahús vegna smálæknisaðgerðar.
Á þessu skólaári hófst kennsla 12. september í þeim greinum, sem sameiginlega eru kenndar við Gagnfræðaskólann, en önnur kennsla hófst nokkru síðar.


Tekin var í notkun ný kennslustofa fyrir verklega kennslu, þ.e. rafmagnsfræðistofa. Er hún mjög vel búin tækjum, samskonar og eru við Vélskólann í Reykjavík, og hér er glímt við sömu verkefni og þar. Þeir, sem nú luku annars stigs prófi, eru hinir fyrstu, er ljúka þess konar prófi eftir 1973 - eftir gos. Er það mjög góðs viti og stuðlar að því að festa skólann í sessi sem fasta stofnun í bænum.
Skólanum barst að gjöf í vetur gangráður af Woodward-gerð úr Sæbjörgu. Að öðru leyti má geta þess, að skólanum bættist ný vél, sem var raunverulega búið að kasta á hauga. Var það rafstöð með ónýtri aflvél, en piltarnir náðu í hana og gerðu hana upp. Ennfremur náðu þeir í vél úr jarðýtu, sem átti fyrir sér sömu örlög, og settu hana endurnýjaða í samband við rafstöðina.
Ákveðið hefur verið, að elzta vél skólans, gamli „Gouldnerinn“, verði sett upp á Byggðasafni Vestmannaeyja. Fróðir menn telja, að önnur af sömu gerð kunni að liggja á sjávarbotni í Víkinni. Hún var þá komin um borð í uppskipunarbát, sem hvolfdi þar, en þegar þannig tókst til, var önnur vél fengin í staðinn, sú, sem nú er hér. Skólastjóri Vélskólans taldi hugsanlega nokkra líkur á því, að unnt mundi að finna vélina og ná henni upp. Það hefur hinsvegar ekki verið kannað enn þá, en hann hefur fullan hug á að rannsaka málið.
Kennarar við skólann voru, auk skólastjóra:
Vilhjálmur Sigurðsson, kenndi verklega vélfræði. Hrafn Steindórsson, kenndi vélsmíði. Baldur Böðvarsson, kenndi rafeindatækni. Kristinn Sigurðsson, kenndi eldvarnir. Unnur Gígja Baldvinsdóttir, kenndi skyndihjálp.


Ennfremur kenndu við skólann bræðurnir Gísli og Snorri Óskarssynir bókleg fræði, tungumál, stærðfræði, eðlis- og efnafræði.
Kjarnagreinar eru kenndar sameiginlega með Gagnfræðaskólanum.
Þá kenndi og Lýður Brynjólfsson viðbótarstærðfræði á 1. stigi.
Hæstu einkunnir á 1. stigi hlutu þessir:
1. Sveinn Grímsson, Self. 8,33, 1 .eink.
2. Þorsteinn Júlíusson, Vestmannaeyjum 8,20, 1.eink.
3. Friðrik Björgvinsson Vestmannaeyjum 7,66, 1.eink.


Breyting var gerð á skipulagi smíðakennslustofu, þannig að betri nýting hefur fengist á rými, en frágangi er þó enn ekki að fullu lokið.
Skólanum bættist allmikið af nýjum tækjum vegna eðlis- og efnafræðikennslu, einkum til verklegra tilrauna.
Skólastjóri Vélskólans er Kristján Jóhannesson.