Sigríður Sæmundsdóttir (Gjábakka)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 18. október 2013 kl. 20:27 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 18. október 2013 kl. 20:27 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit


Sigríður Sæmundsdóttir húsfreyja á Gjábakka fæddist 1796 á Sámsstöðum í Fljótshlíð, var á lífi 1870.
Foreldrar hennar voru Sæmundur bóndi á Vestustu Sámsstöðum 1801, f. 1752, Jónsson og kona hans Jódís húsfreyja, f. 1755 í Finnshúsum í Fljótshlíð, d. 18. ágúst 1821 á Götum í Mýrdal, Jónsdóttir.

Sigríður var hjá foreldrum sínum á Sámsstöðum 1801. Hún var vinnukona á Torfastöðum í Fljótshlíð 1816. Þá var Jón Einarsson vinnumaður á einum bænum.
Sigríður var komin að Gjábakka í Eyjum 1832, með Jóni Einarssyni.
Á Gjábakka var þá einnig bóndi Jón Einarsson eldri, 46 ára með konu sinni Margréti Vigfúsdóttur 40 ára og börnum þeirra, Grími 17 ára, Margréti 10 ára og Kristínu 14 ára. Jón var hálfbróðir Jóns yngri.
Við manntal 1840 var Sigríður húsfreyja á Gjábakka með dótturinni Margréti 6 ára, Margréti bróðurdóttur Jóns Einarssonar 15 ára (foreldrar hennar höfðu látist 1836 og 1838). Einnig var þar Margrét Sæmundsdóttir systir Sigríðar húsfreyju, ógift 52 ára.
1845 var Sigríður húsfreyja á Gjábakka með Jóni og Margrétunum, dóttur þeirra 11 ára og bróðurdóttur Jóns 20 ára vinnukonu.
1850 og 1860 var hún húsfreyja þar með sama liði, en faðir Jóns, Einar Ormsson var hjá þeim 1850, ekkill 89 ára.
1860 var Sigríður þar 63 ára með Jóni. Þar var Guðmundur Erlendsson 22 ára vinnumaður. Margrét dóttir þeirra var þar húskona með Ingimund húsmann og börnin Jón, Þórönnu og Stefán.
1870 var Sigríður ekkja og húskona þar.

Maður Sigríðar var Jón Einarsson, f. 1792, var á lífi 1860.
Barn Sigríðar og Jóns hér:
1. Guðrún Jónsdóttir, f. 7. ágúst 1832.
2. Margrét Jónsdóttir húsfreyja á Gjábakka, f. 26. maí 1835, d. 6. febrúar 1916. Maður hennar var Ingimundur Jónsson bóndi, formaður og hreppstjóri.
3. Kristín Jónsdóttir, f. 13 júní 1842, d. 21. júní 1842.


Heimildir