Blik 1972/Jóhann Stígur Þorsteinsson frá Brekkum í Mýrdal

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 28. apríl 2010 kl. 17:09 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 28. apríl 2010 kl. 17:09 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Blik 1972/Jóhann Stígur Þorsteinsson frá Brekkum í Mýrdal“ [edit=sysop:move=sysop])
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1972



Jóhann Stígur Þorsteinsson
frá Brekkum í Mýrdal



Jóhann fæddist að Brekkum 4. september 1897. Foreldrar hans voru bóndahjónin þar Þorsteinn Vigfússon og Sigurbjörg Stígsdóttir, sem voru þá ábúendur jarðarinnar. Þar ólst Jóhann upp og var elztur fimm systkina sinna.
Svo sem venja hefur verið í sveitum landsins fyrr og síðar, urðu börnin á Brekkum brátt að sínu leyti snar þáttur í lífsönn foreldra sinna, sem voru fátæk að efnalegum gæðum. Þegar svo hin yngri systkini uxu úr grasi og vinnuaflið varð meir en heimilið hafið brýna þörf fyrir, var Jóhann látinn leita sér famfæris á öðrum bæjum í sveitinni. Þannig atvikaðist það, að hann gerðist ungur vinnumaður í Garðakoti, þar sem bjuggu hjónin Þorsteinn Bjarnason og Sigurlín Erlingsdóttir.
Og þannig mótast og myndast örlögin og ráðast, þegar stundir líða fram.
Hjónin á Ketilsstöðum í Mýrdal voru Guðmundur bóndi Guðmundsson og Rannveig húsfreyja Guðmundsdóttir. Þau áttu tólf börn og bjuggu vitanlega við mikla fátækt með þessa þungu ómegð. Mýrdælskir bændur og konur þeirra sýndu það jafnan í sambýlinu í sveitinni, að samábyrgð í vissum skilningi var ríkjandi þar í byggðum. Það sannaðist t.d. ljóslega, þegar slys bar þar að höndum, eins og þau áttu sér stað svo átakanlega við sjósókn frá hafnlausri ströndinni.
Eins var því varið, þegar mikil ómegð hlóðst á hjón, svo að þau áttu bágt með að framfleyta fjölskyldunni án skorts og nauða. Þá kom hin hjálpandi hönd til og létti lífið og framfærsluna. Samábyrgðin og samúðin mótaði og myndaði í sameiningu hið fegursta í mannlífinu, samhjálpina og drengskaparkenndina.
Eitt af börnum hjónanna á Ketilsstöðum er frú Kristín Guðmundsdóttir að Strembugötu 4 hér í bæ. Hjónin á Litlu-Hólum í Mýrdal, Friðrik bóndi Björnsson og Halldóra húsfreyja Magnúsdóttir, tóku hana smábarn í fóstur til þess að létta framfærslu hjónanna á Ketilsstöðum. Engin skyldleikasambönd voru þó þar á milli. Aðeins mannúðarkenndin réði þeim gjörðum hjónanna á Litlu-Hólum.

Kristín Guðmundsdóttir.

ctr

Jóhann Stígur
Þorsteinsson.



Þarna ólst Kristín Guðmundsdóttir upp til 19 ára aldurs. En þá höfðu örlagavefirnir spunnizt þannig, að hún og Jóhann vinnumaður á Garðakoti höfðu fellt hugi saman. Kynni voru annars náin á milli bændabýlanna þarna í sveitinni og eru Garðakot og Litlu-Hólar þarna nágrannabæir.
Þessir ungu elskendur þarna í Mýrdalnum afréðu með sér að flytjast til Vestmannaeyja og móta framtíð sína þar, í hinum vaxandi útgerðarbæ, þar sem efnaleg afkoma fólksins fór batnandi ár frá ári, svo að orð var á haft, einnig austur í Mýrdal.
Jóhann Stígur Þorsteinsson stundaði hér sjó um árabil. Hann var þeim gáfum gæddur að geta fljótlega skilið og tileinkað sér notkun ýmissa tæknilegra tækja nútímans, t.d. bátavélina, byggingu hennar og gang. Þannig varð hann hinn bezti vélstjóri, sjálflærður og öruggur, og var hér vélamaður um nokkurt skeið.
Árið 1942, eða þar um bil, hlaut Jóhann Stígur nokkurn hnekk á heilsu sinni, svo að erfiðisvinna varð honum um megn. Fárra átti hann þá kosta völ, eins og hættir stóðu til og mál voru mótuð. Þá greip hann til nokkuð nýstárlegra úrkosta.
Jóhann var listrænn. Hann hafði a.m.k. næmt auga fyrir litum og meðfæddan skilning á notkun tæknitækja, eins og ég drap á. Nú nam hann ljósmyndagerð af sjálfsdáðum. Hann las bækur um hana og tók að þjálfa þessa list. Síðan stundaði hann ljósmyndagerð hér í bæ, öðrum þræði a.m.k., um nokkurt árabil og þótti snjall í þeirri iðn. Þeirrar iðju hans naut Byggðarsafn Vestmannaeyja í ríkum mæli með því að hann gaf safninu allt filmusafn sitt fyrir nokkrum árum. Sú markverða og mikla gjöf, sem skiptir þúsundum filma, mun reynast mikill fengur á vissu sviði í mennigar- og fræðslulífi Eyjabúa, og þá ekki sízt sögulegt verðmæti, þá tímar líða.
Síðustu lífsár sín hér í Eyjum átti Jóhann Stígur við vanheilsu að búa. Þó innti hann skyldustörf sín af hendi eftir því sem kraftarnir framast leyfðu. Síðustu árin vann hann í hópi þeirra manna, sem leitast við að halda bænum okkar hreinum. Svo vel hefur þeim tekizt þau verk, að orð er á haft utan kaupstaðarins. Heill sé þeim í því mikilvæga menningarstarfi.
Jóhann Stígur og Kristín Guðmundsdóttir eignuðust þrjú börn, son og tvær dætur:
Sigurgeir sonur þeirra (fæddur 14. maí 1927) er búsettur hér í bæ eins og kunnugt er, matreiðslukennari við matsveinanámskeið Sjómannaskólans hér í kaupstaðnum, kvæntur Sigríði Guðmundsdóttur.
Ásdís Jóhannsdóttir er búsett á Akureyri, gift Vigni Jónassyni skrifstofumanni þar. Hún er fædd 27. maí 1933.
Fríða Dóra er yngsta barn þeirra hjóna, fædd 18. marz 1939, og er búsett hér í bænum, gift Gunnlaugi Axelssyni forstjóra í Vélsmiðjunni Völundi.
Jóhann Stígur lézt 17. ágúst 1970. Góður er hver genginn, stendur þar, og ekki sízt, ef þeir hafa reynzt hinir mætustu menn í lifanda lífi.

Þ.Þ.V.





Afmælisvísa

Austfirzkur góðkunningi og nágranni minntist 50 ára afmælis síns. Þessa vísu fékk hann í skeyti:

Fimmtugur ertu, vaski vin,
vinni þér allt í haginn.
Austfirðinga kappakyn
kemur glöggt á daginn.
Þ.