Blik 1967/Eyjabúar í atvinnuleit

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 24. ágúst 2008 kl. 11:28 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 24. ágúst 2008 kl. 11:28 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Setti tengla.)
Fara í flakk Fara í leit

Bilk hefur á undanförnum árum reynt eftir megni að halda til haga ýmsu úr sögu Vestmannaeyja varðandi líf og störf fólksins þar á undanförnum áratugum, og stundum hefur verið skyggnzt lengra aftur í tímann. Þetta efni ársritsins hefur notið vinsælda Eyjamanna. Það er glögg sönnun þess áhuga, er hér í bæ er ríkjandi á sögu, lífi og starfi genginna kynslóða í Eyjum. Það er jafnframt órækur menningarvottur og íslenzk eigindi.

Á síðasta tug 19. aldarinnar fór það æ meira í vöxt, að fólk af Suðurlandi leitaði sér atvinnu á Austfjörðum á vorin, vann þar að sumrinu við útgerð og aflaföng en hélt svo heim, þegar hausta tók, oft með drjúgan skilding í vasa eftir sumarstarfið þar eystra. Ég minnist þess frá bernsku- og æskuárum mínum, að fólk úr Eyjum gat sér jafnan mikinn og góðan orðstír þar eystra fyrir dugnað og skyldurækni við dagleg störf. Fáir þóttust sviknir af því starfsliði. Enn eru mér í minni margir Vestmannaeyingar frá fyrsta og öðrum áratug aldarinnar okkar, - menn sem þá voru á léttu skeiði, en eru nú æði aldraðir orðnir og margir þeirra horfnir „yfir móðuna miklu“.

Svo að ég nefni nokkra kunna Eyjaþegna mér til gamans og ungum lesanda mínum ef til vill til aukins áhuga, þá minnist ég t. d. Sveins Jónssonar frá Landamótum, Hannesar Hanssonar frá Hvoli við Urðaveg, Sigurðar heitins Bjarnasonar frá Búlandi, Sigurðar heitins Sigurðssonar frá Frydendal, Einars heitins Jónssonar frá Garðhúsum, Björns heitins Bjarnasonar frá Hlaðbær (síðar í Bólstaðarhlíð), Jóns heitins Ólafssonar frá Hólmi, Markúsar frá Fagurhól, Jóns heitins Erlendssonar frá Hjalteyri, Jóns heitins Bjarnasonar frá Sigtúni o. m. fl.

Eftir því sem við kynnumst betur atvinnu- óg félagslífi Eyjafólks fyrir og um aldamótin síðustu, stendur okkur ávallt ljósar fyrir hugskotssjónum þau miklu áhrif, sem Austfjarðarferðirnar, dvölin þar, hafði á atvinnu og afkomu fólks í Eyjum. Mætti þar aðeins drepa á línuveiðarnar, sem frumkvöðlar þeirra hér lærðu á Austfjörðum einmitt síðasta tug síðustu aldar. „Það voru einmitt þær, sem ráku að fullu hungurvofuna frá bæjardyrunum okkar Eyjabúa", sagði eitt sinn merkur útgerðar- og skipstjórnarmaður hér við mig. Hann var fæddur hér í Eyjum og sleit hér öllum kröftum sínum fram á gamalsaldur.
Þannig hefur með þessu móti fléttast saman atvinnusaga Vestmannaeyinga og Ausfirðinga, þó að lítið hafi verið um það efni skrifað til þessa.
Oft kom meginið af Eyjafólkinu svo seint heim frá Austfjörðum á haustin, að fólksfæðin hér stóð öllu skemmtanalífi fyrir þrifum jafnvel fram undir jólaföstu. Margskonar félagsfundum var skotið á frest fram á haust vegna hess, að beðið var eftir því, að félagsmenn kæmu heim frá Austfjörðum. Af sömu ástæðu gat Sigfús Árnason, söngstjóri á Löndum, nokkur haust ekki hafið söng-æfingar hjá Söngfélaginu sökum þess, hve lengi dróst að söngfélagarnir kæmu heim að austan.

Æði oft urðu Sunnlendingarnir að búa við þröngan og lélegan húsakost eða í bágbornum vistarverum yfir sumarið þarna austur í fjörðunum, sérstaklega, ef þeir gerðu sjálfir út, voru í eigin vist og höfðu eigið mötuneyti, sem ekki var óalgengt. Þessa minnist ég frá bernsku og æskuárum mínum í Norðfirði. Jafnframt man ég það, að margir austfirzkir útvegsbændur kostuðu kapps um að hlynna sem allra bezt að sunnlenzka kaupafólkinu sínu um húsnæði og allan viðurgerning. Svo var það a. m. k. um fósturforeldra mína. Hér bið ég Blik mitt að geyma fyrir mig nokkrar bernskuminningar frá fyrsta tug aldarinnar. Þær eru að sumu leyti tengdar atvinnuleit Eyjafólksins til Norðfjarðar á þessum árum.

Bernskuminningar

Einhvern veginn lagðist það í fóstra minn, að fiskur mundi ganga snemma þetta vor. Hann fór því árla vorsins að hugsa til róðra. Ég var naumast laus úr barnaskólanum um vorið, er hann lét mig dunda við það í sólskininu og veðurblíðunni að skafa bátinn sinn, „Síldina“, þar sem hann hvolfdi á tveim gildum rekatrjám milli beituskúranna ofan við Strandveginn.
„Síldin“ var þriggja manna far, fallegur „Færeyingur“, sem fóstri minn hafði keypt af Færeyingunum haustið áður, þegar þeir héldu heim frá sumardvöl sinni í kauptúninu. Þar lágu margir þeirra við og höfðu útræði blíðustu sumarmánuðina.

Ég skóf eftir getu gömlu tjöruna af bátnum með þríhyrndu bátasköfunni, svo að svitinn rann í sólarhitanum og lognmollunni. Tilhlökkunin glæddi vinnuviljann og athafnagleðina eftir langan vetur, byljóttan og snjóþungan. Ég hafði lengi hlakkað til þess, þegar á vorið leið og ég fór að þreytast við stagl og nám, að mega taka til við sumarverkin og framleiðslustörfin. Þegar farið var að róa á vorin, breyttist öll tilvera okkar strákanna. Starf hvern dag með tilbrigðum og tilbreytingu. Nýtt líf færðist í kauptúnið, ef eitthvað aflaðist. Ég hygg líka, að löngunin í nýjan fisk og lifur eftir tros- og bútungsátið allan veturinn, hafi átt sinn þátt í að glæða vinnuviljann og athafnaþrána.
Þegar ég hafði skafið „Síldina“ utan stafna á milli, tjargaði fóstri minn hana úr hrátjöru, nema efsta borðið og hástokkinn, sem var málað. Næsta dag var svo bátnum hvolft upp, svo að ég gæti skafið hann innan og hreinsað.

Fóstri minn hafði ráðið tvo nágranna sína til að róa með sér um vorið, þar til Vestmannaeyingarnir kæmu austur, en hann hafði ráðið tvo kunna borgara í Eyjum til þess að róa á „Síldinni“ um sumarið. Annar þeirra var bróðir fóstra míns, Sigurður í Frydendal, og hinn Einar Jónsson frá Garðhúsum, bróðir Ólafs Jónssonar, sem enn er í Eyjum hjá okkur. Sigurður skyldi verða formaðurinn. Þriðja bátsverjanum hefi ég gleymt. Það er bezt að skjóta því hér inn, ef lesandi minn veit það ekki, að Sigurður í Frydendal drukknaði af skjöktbát sínum í Læknum 10. jan. 1912 í afspyrnu austanroki. Einnig minnist ég þeirra stunda á æskuheimili mínu, þegar sú sorgarfregn barst austur.

Vel aflaðist á „Síldina“ þetta vor, áður en Vestmannaeyingarnir komu austur, og fékk fóstri minn oft hálffermi og stundum meira í bátinn. Þegar hann kom að, hafði ég gaman af því að kasta upp úr bátnum kóðunum og stútungunum. Hinir stærri drættir voru mér ofurefli á þessu aldursskeiði, sem ég var þá á.
Er sjómennirnir höfðu matazt, tóku þeir að gera að aflanum. Annar hásetinn hausaði fiskinn. Hinn risti á kviðinn og sleit innyflin úr honum. Fóstri minn flatti. Oftast hjálpaði fóstra mín til við aðgerðina. Flatti hún þá fyrst í stað með fóstra mínum, þar til hann tók til að salta fiskinn. Eftir það flatti hún ein. Allur stútungur eða undirmálsfiskur - styttri en 18 þumlungar eða um 45 cm - var flattur „í Vorð“. Það var þannig gert, að rist var til hliðar út úr miðri stirtlu, þegar flatt var. Sá fiskur var lítið þurrkaður og aldrei himnudreginn. Þessi Vorð eða Vord var erlendur fiskkaupmaður, sem réði þessari flatningu og verkun á fiskinum.

Allur fiskur var pækilsaltaður. Algengustu ílátin til að pækilsalta í voru stórar eikartunnur, sem steinolía hafði flutzt á til landsins. Sumir áttu trékör ferhyrnd úr plægðum gólfborðum.

Fósturforeldrar Þ. Þ. V., hjónin á Hóli í Norðfirði, Vigfús Sigurðsson frá Kúfhóli í Landeyjum og Stefanía Guðjónsdóttir frá Hamarsholti í Hreppum. Milli þeirra er einkasonurinn, Óli Vigfússon.

Ég var látinn slíta lifrina frá slóginu. Öll þorsk- og þyrsklingslifur var nr. 1, þ. e. fór í 1. flokk, hversu mögur og ljót, sem hún annars var. Öll önnur lifur, svo sem ýsulifur, karfalifur, ufsalifur o. s. frv. var látin í sérstakt ílát og fór í 2. flokk. Þannig var lifrin flutt flokkuð í bræðsluna og mæld í pottum. Svo var getið um pottatöluna úr róðri hverjum, þegar rætt var um aflamagnið hjá þessum og hinum bátnum eða formanninum. Það þótti góður róður að fá 40-50 potta af lifur. Einnig var stundum tekið fram, þegar rætt var um afla, hvað formaður árabátsins, en árabátur var næstum alltaf við hann kenndur, hefði fengið mörg rúm af fiski. Í venjulegu þriggja manna-fari - þrjár árar á borði -voru þessi rúm: Skutur, austurrúm (þar réri formaðurinn), miðrúm, framrúm (andófsrúm), kompa og barki eða stafn. Venjulega var fiskurinn fyrst látinn í miðrúmið. Með bjóðin í skut lá báturinn þá vel, þ. e. bátnum hallaði þá hæfilega aftur, svo að austur rann til austurrúms, en þar var báturinn ausinn með svo kölluðu trogi, sem tók vel niður í kjölsogið.
Gæfist meiri fiskur en eitt rúm, var hann látinn í skutinn og svo kompu, þannig að báturinn lægi vel, hallaði hæfilega aftur. Fullt miðrúm og skutur töldust tvö rúm af fiski. Það var um það hálffermi. Þá var kompan og andófsrúmið eftir. Í austurrúmið var auðvitað aldrei látinn afli, því að þar var ausið. Væri hvergi náð til austurs í bátnum, var dauði vís.
Þegar aðgerð var lokið, hófst beiting línunnar, þá reyndi fóstri minn að nota mig til þess að flýta fyrir sér og rekja upp hauginn, þ. e. línuásinn, vinda öngultaumana af ásnum, ef þeir höfðu snúizt um hann, Ekki var mér í fyrstu trúað fyrir því að skera slitna öngultauma af línuásnum af ótta við, að ég kynni í bernsku minni að særa ásinn sjálfan og skemma þannig línuna, veikja hana. Það gat leitt til þess, að hún slitnaði fremur í stormi og straumi og tapaðist gjörsamlega.

Oft var langt á kvöld liðið, þegar öllu var lokið, svo að svefntími sjómannanna var ekki alltaf langur, því að róið var oftast upp úr lágnætti, þegar góðar voru gæftir. Þó var það nokkuð háð sjávarföllum, flóði og fjöru, þ. e. sjávarstraumum, meðan stundaður var sjór á árabátum.

Meðan fóstri minn var ókominn að á morgnana eða daginn, var það starf mitt að fara með lifrina úr róðrinum daginn áður. Oftast kaus ég heldur að flytja hana inn í bræðslu á skektunni heldur en að aka henni eftir Strandveginum á hjólbörum. Leiðin lá inn með fjarðarströndinni, inn fyrir Vík, þar sem bræðsluskúrinn stóð með gufukatli og pottum og risavöxnum trétrektum, að mér fannst, sem lifrin var sett í og brædd í með gufu. Allt fannst mér smita í grút og brækju.

Gaman var að vera á sjónum og róa í sumarblíðunni. Það var líka ólíkt karlmannlegra starf en hjólböruakstur, fannst mér.
Ég og bræðslumennirnir, Lárus Waldorf og Jónas gamli Matthíasson, vorum góðir kunningjar. Þeir voru báðir nágrannar mínir. Margan lýsissopann drakk ég hjá þeim, þegar ég færði þeim lifrina. Um árabil átti ég geymdan hjá þeim sérstakan bolla, sem ég drakk úr lýsið. Stundum var hann hálfur eða vel það, stundum var minna í honum, alveg eftir lyst minni hverju sinni.

Gat hann verið ástfanginn, ekki eldri en hann var, aðeins 10 ára.

Þetta blessað vor leið fljótt, því að blíðskaparveður var hvern dag og afli nægur.
Svo leið að því, að von var á „Botníu“ að sunnan með sunnlenzka fólkið og þar á meðal Vestmannaeyingana, sem áttu að róa á „Síldinni“.
Þetta var fagur sunnudagur.
Frétzt hafði, að „Botnía" væri væntanleg um kvöldið.
Ég fór í kirkju með fóstra mínum eftir hádegið, svona til þess að sýna mig og sjá aðra eins og gengur, suma aðra. Allan þorra kirkjugestanna hafði ég engan sérstakan hug til að sjá, þó að ég þekkti þá alla, hvern einasta, smáa og stóra, unga og gamla. Hver þekkir brátt annan í fámenninu.
Fóstri minn gerði það fyrir mig að sitja uppi á lofti í kirkjunni innst við rimlana. Þar kaus ég mér helzt sæti, því að þaðan gat ég séð til dyranna, séð hitt kirkjufólkið koma inn um dyrnar, athugað fas þess og för. Þaðan gat ég líka séð hana Siggu litlu á Sæbóli, sem var á aldur við mig. En hún kom oft í kirkju með henni mömmu sinni, sem var mikil kunningjakona fóstru minnar, og þær kysstust alltaf, þegar þær hittust, sem stundum var á hverjum degi.
Ekki vissi ég eiginlega, hvernig á því stóð, að ég hafði mesta ánægju af að sjá hana Siggu af öllum telpunum í kauptúninu. Gat það verið, að ég væri ástfanginn af henni ekki eldri en ég var?
Þetta var þá erindið mitt í kirkjuna. En það sagði ég ekki fóstra mínum, ekki einu sinni honum, sem var þó bezti maðurinn, sem ég þekkti á jarðríki og unni sem góðum föður.

Ræða prestsins hefur sjálfsagt verið hugnæm og góð. Það vissi ég ekki, því ég heyrði hana ekki. Var annars hugar. En nokkrum árum síðar skildi ég það og vissi, að hann flutti söfnuði sínum góðar kjarnaræður. Þá hafði hann fermt mig. Seinna gifti hann mig líka.
Þegar messu var lokið, og við gengum frá kirkju, vildi fóstri minn skreppa út fyrir Kvíabólslækinn, út í Kelaskúrana, sem svo voru kallaðir eftir eiganda sínum. Þar bjó einsetukarl, Þorkell að nafni. Hann var Færeyingur. Hann hafði byggt þessa skúra til þess að leigja þá Færeyingum á sumrum, þegar þeir gerðu út frá Norðfirði, eða þá Sunnlendingum, þegar þeir gerðu þar út árabáta, sem stundum kom fyrir. Fyrir mitt minni hafði Keli gamli búið í þessum skúrum. Hann var jafnan glaður í bragði, fróður og ræðinn. Margir höfðu gaman af að heimsækja gamla manninn og skeggræða við hann um heima og geima.

Ég minnist þess, hversu Kela gamla var í nöp við presta. Sérstaklega var honum lítið um sóknarprestinn, fannst mér. Einhvern veginn hafði ég hugboð um, að ástæðurnar fyrir þessari óvild væru viðskiptalegs eðlis. Þorkell Færeyingur mun hafa selt presti „Vorðarann“ sinn, þegar prestur stundaði fiskkaup, var fiskkaupmaður á Neseyrinni. Og líklega hefur Kela gamla þá þótt presturinn helzt til mannlegur í þeim viðskiptum.
Fyrst ræddu þeir fóstri minn og Keli um útgerð og afla, daglegt líf í kauptúninu, hið væntanlega starfsfólk af Suðurlandi og svo auðvitað veðráttuna, sem er hið þjóðlega og sjálfsagða umræðuefni, þar sem kunningjar hittast. Síðast barst svo tal þeirra að messunni um daginn og kirkjusókninni. Keli gamli bað fóstra minn að tjá sér eitthvað úr stólræðunni þennan dag. Jú, það gat hann gert með ánægju, því að hann hafði mikinn áhuga á andlegum málum, hugsaði um þau, vó þau og mat og dró svo sínar ályktanir.
Prestur hafði flutt mjög athyglisverða ræðu, taldi fóstri minn. Hann hafði m. a. áminnt sóknarbörn sín um heiðarleik í orðum og athöfnum. Heimurinn fór æ versnandi, hafði hann sagt, enda var prestur sjálfur nú nokkuð við aldur. Allt viðskiptalíf, sagði hann, yrði stöðugt sorugra og sífellt meir lævi blandið. Til dæmis um það kvaðst prestur hafa lánað manni nokkrum þar í kauptúninu eitt hundrað krónur fyrir nokkrum árum, og ógreiddar væru þær enn, þrátt fyrir margar innheimtuatlögur af prestsins hálfu.

Þorkell Færeyingur

Þegar hér var komið frásögn fóstra míns, er mér Keli gamli sérstaklega minnisstæður. Þarna sat hann snöggklæddur á rúminu sínu ofan á brekáninu, sem breitt hafði verið yfir það. Hann hafði auðsjáanlega legið uppi í því um daginn, ef til vill fengið sér þar miðdegislúr, meðan á messu stóð. - Feitlaginn var hann nokkuð og grár fyrir hærum. Ennið hátt, enda hárlaust orðið upp á skalla. Nefið stórt og granstæðið vítt. Munntóbakstaumar leyndust ekki í gráum hökuskeggshýjungnum. - Nú hló hann verulegan karlahlátur með galopinn munninn, svo að við blöstu skörð og skældar tóbakstennur. Skegghýjungurinn á hökunni fannst mér hlæja með, þar sem hárin teygðu sig út í tilveruna, þegar karlinn lyfti höku við hláturinn. „Og forbannaður lúsakroppurinn“, sagði hann, „tað er ek, tað er ek. Tað er ek hann mænar, forbannaður“. Svo sagði hann okkur frá því, að prestur hefði lánað honum 100 krónur fyrir þrem árum. Sökum kergju og meðfæddrar kerskni hafði karl haft ánægju af að draga prest á greiðslunni, þrjózkazt við að greiða skuldina. Nú kvaðst hann með ánægju skyldi gera það næsta dag, fyrst prestur hefði tekið það ráð að innheimta skuldina af sjálfum stólnum.
Þá heyrðist skipspíp. „Botnía“ var komin með Sunnlendingana. Það var uppi fótur og fit í kauptúninu. Skipið hafði komið fyrr en ætlað var. Allur fréttaflutningur ónákvæmur og háður þessu „hér um bil“.
Við fóstri minn biðum ekki boðanna. Heim þurftum við til þess að skipta um föt. Enginn þvældist í kirkjuklæðum í árabát út að skipi og um það, því að enginn var hafskipabryggjan í kauptúninu.

Á myndinni sést nokkur hluti Kelaskúranna.

Þegar við komum út að skipinu, var þar kominn fjöldi árabáta að skipshliðinni, þar sem stiginn hékk. Við bundum skektuna okkar við aðra skekktu og urðum svo að ganga yfir 2-3 báta til þess að ná í skipsstigann. Svo mikil var mergðin af bátunum.
Á þilfari skipsins voru þegar margir sveitungar okkar að ráða til sín sjómenn og landfólk. Sumt fólkið var ráðið, áður en það lagði af stað að heiman. Aðrir réðust á skipsfjöl, þegar austur kom.
Sumir Sunnlendingar gerðu sjálfir út. Þeir töldu sér það arðvænlegra. Ég minnist einnar bátshafnar, sem leigði verbúð í Kelaskúrunum. Það voru engir sunnlenzkir aukvisar. Mér varð starsýnt á þá karla á þilfari skipsins. Augafullir voru þeir og þó að mestu sjálfbjarga. Formaður þessarar skipshafnar var Stjáni blái, sá hinn sami, sem Örn Arnarson skáld kveður um hið fræga kvæði. Stjáni hafði dvalizt í kauptúninu fyrr við sjósókn, og var kunnur að dugnaði og sjómennsku. Einnig var hann kunnur að drykkjuskap og að „láta hnefa semja sátt“, þegar hann var ölvaður, eins og segir í kvæði skáldsins.
Hásetar Stjána bláa Voru líka nafnkunnir menn. Annar var Sæmundur sífulli. Nafnið þótti hann bera með rentu. Hinn hásetinn var Oddur sterki af Skaganum. Einnig hann kafnaði ekki undir nafni. Hann þekkti ég persónulega, því að hann hafði róið áður með fóstra mínum eitt vor. Bezti karl, en dyntóttur, tortrygginn og skrítinn, enda heyrnardaufur og heyrði því ekki alltaf, hvað sagt var í kringum hann. Hann átti það til að fá æðisköst. Þá steytti hann stundum hnefa að okkur strákunum og froðufelldi. Þá vorum við fljótir að ,,missa niður hjartað" og „hverfa ofan í skóna okkar“. Þegar Oddur var fullur, var hann kunnur að sníkjum sínum: „Gef mér 10 aura, greyið, ég ætla að kaupa mér brennivín fyrir þá“.
Lauga lausgirta var verbúðarráðskona hjá þeim þremenningunum. Ef til vill hét hún eitthvað annað, en viðurnefnið bar hún með sanni. Það sá ég oft og man. Hún var úr Eyjum.

Mynd frá Nesi í Norðfirði, tekin á 2. tug aldarinnar. Séð til austurs. Bátarnir eru „Lófótungar“, sem keyptir voru frá Noregi. Yfir bátana ber ,,Gamla goodtemplarahúsið" á Nesi. Þá er Sandhóll, þá kirkjan og Bakki (tveir gluggar á stafni). Húsin tvö uppi á hæðinni eru Ekra. Í ytra húsinu bjó Ingvar Pálmason útgerðarmaður og alþingismaður. Neðan við hæðina eru verzlunarhús Sigfúsar Sveinssonar. Næstu hús utan við Bakka eru Kelaskúrarnir. - Maðurinn á myndinni er sagður Frakki.

Við hittum þarna á skipsfjöl Vestmannaeyingana Sigurð og Einar. Allt stóð þar heima. En fóstri minn gerði út fleiri báta en „Síldina“ og þurfti því að ráða til sín fleira fólk. Hann fór þess vegna um þilfar og lestir skipsins til þess að hafa tal af óráðnum sjömönnum, og svo kvenfólki til að verka fiskinn. Þá var íslenzkt verkafólk til lands og sjávar flutt í skipalestum milli landsfjórðunga eins og skepnur. Af þeim flutningum höfðu útlendingar drjúgar tekjur.
Niður í lest skipsins gengum við lausan stiga, eins konar utanhússstiga, sem var bundinn í efri endann með kaðli í járnlykkju í lestarkarminum.
Þegar niður í lestina kom, blasti við fremur ömurleg sjón. Sængurflet voru út um allt lestargólfið milli súða. Koffort og kassar eða matarskrínur stóðu við flestar flatsængurnar. Víða voru koffortin og kassarnir látin halda að sængurfötunum og móta legurúmið eða skilja á milli flatsænganna. Kvenfólk og karlar hafðist þarna við hvað innan um annað.

Oft heyrði ég það haft á orði, að lestarlíf þetta einkenndist af sukki og ólifnaði. Drykkjuskapur karlmanna mun oft hafa verið mikill á ferðum þessum. Af honum stafaði mikið amstur, ónæði og illindi á stundum, eins og fyrr og síðar. Um drykkjuskap kvenfólks heyrði ég ekki getið á ferðum þessum. Umhverfið allt fannst mér ömurlega fátæklegt, blærinn yfir því bera þess vott, hversu íslenska þjóðin var umkomulaus, lítils megnug og lítils virt. Ég mun hafa skilið þetta allt betur síðar, er ég eltist og óx að skilningi og vitglóru.
Áður en „Botnía“ létti akkeri og fór, hafði fóstri minn ráðið til sín a. m. k. tvo sjómenn sunnlenzka, annan „upp á fullt kaup“, hinn „upp á hálft kaup og hálfan hlut“. Líklega hafa báðir þessir menn verið Vestmannaeyingar, þó að ég sé búinn að gleyma því. Ég álykta svo af því, að Sigurður í Frydendal og Einar í Garðhúsum bentu fóstra mínum á mennina og veittu lið sitt við ráðningu þeirra.