Hornsíli

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 15. júní 2006 kl. 14:05 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 15. júní 2006 kl. 14:05 eftir Daniel (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Sjávardýr
Fiskar
Önnur sjávardýr

Hornsíli (Gasterosteus aculeatus)

Stærð: Getur náð 10 cm lengd en er oftast 4 – 8 cm.

Lýsing: Hornsíli er lítill og þéttvaxinn fiskur sem er straumlínulaga og hefur mestu hæð um miðjan bol. Haus er fremur þunnvaxinn og snáldur er stutt. Kjaftur er skástæður og lítill með framskjótanlegan efri skolt og framteygðum neðri skolt. Tennur eru smáar og oddhvassar. Augun eru stór. Afturrönd vangabeins er bein, en tálknaloksrönd er bogadregin. Bolur er alllangur en stirtla frekar stutt og mjókkar hún aftur, spyrðustæðið er mjög grannt. Bakuggi er aftarlega og nær aftur á stirtlu, framan við hann eru tveir gaddar sem eru hornin á hornsílinu auk þess er einn minni gaddur fremst í bakugganum. Raufaruggi er andspænis bakugga en þriðjungi styttri. Framan við hann er einn gaddur. Sporðurinn er stór og þrístrendur. Eyruggar eru allstórir. Kviðuggar eru einn broddgeisli, auk eins til tveggja liðgeisla. Hreistur vantar, en rák er greinileg. Litur er mjög breytilegur eftir kyni og árstíma. Hornsílin eru blágræn á bakinu og silfurlituð að neðan á veturna, en dökkna yfir sumartímann. Er líða tekur að hrygningu aukast litabrygðin hjá báðum kynjum, sérstaklega hjá hængunum sem verða fagurrauðir, en hrygnurnar dökkbröndóttar á baki og gular á hliðum.

Heimkynni: Hornsíli er að finna við Ísland, Færeyjar, Skandinavíu, Danmörku, í Eystrasalti og löndum að því, við Bretlandseyjar og í Norðursjó og löndum sem að honum liggja og allt suður í Miðjarahaf og Svartahaf, og í löndum sem liggja að þessum höfum.Einnig er Hornsíli að finna við Grænland og N – Ameríku norðan 30 – 32 gráður N, í NA – Asíu, norðurhluta Japans og víðar.Hér í kringum Ísland er Hornsílið mjög algengt í ósöltu vatni bæði á láglendi og hálendi. Það er einnig algengt í sjó og fjörupollum.

Lífshættir: Hornsílið lifir í ferskvatni og í söltu vatni árósa og strandsjávar. Í vötnum heldur það sig oftast á grunnum svæðum allt niður á 20 m.

Fæða: Þau eru mjög gráðug og er fæðan egg og seiði fiska, skordýr, lirfur, krabbadýr og oft leggja sérstaklega hrygnurnar eigin afkvæmi sér til munns.

Hrygning: Hornsílin hrygna á vorin, í maí og júní. Þegar kemur að hrygningu fer hængurinn að safna slíþráðum og býr til úr þeim kúlulaga hreiður. Hann límir saman þræðina með slími úr nýrunum og festir það við botnin með sandi, loks laðar hann að sér hrygnurnar sem síðan smeyja sér inn í hreiðrið og gjóta hluta af sínum 100 – 400 eggjum. Þá kemur að hængnum sem drífur sig í hreiðrið og frjóvgar eggin og lagar þau svolítið til og hleypir síðan næstu hrygnu í setrið sem getur tekið allt að sjö hrygnur í runu. Hængurinn stendur oft í óeirðum við aðra hænga um hylli hrygnanna og stendur hann í stórræðum við að verja hreiðrið og er þá hornunum óspart beitt. Hann myndar straum að hreiðrinu með eyruggunum og klekjast eggin á 4 – 27 dögum, fer eftir hitastigi. Seiðin eru um vikutíma í hreiðrinu en dreifast síðan og lifa á ýmsum smádýrum.

Nytsemi: Nytsemi er engin, nema sem fæða annara fiska og dýra t.d. fugla.