Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2002/ Breskir togarar á Eyjamiðum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 7. febrúar 2017 kl. 12:24 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 7. febrúar 2017 kl. 12:24 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
GUÐJÓN ÁRMANN EYJÓLFSSON



Breskir togarar á Eyjamiðum


Enska öldin
Bretar og þá sérstaklega enskir sjómenn, hafa sótt á Íslandsmið, einkum fiskimiðin suðaustur af Íslandi og við Vestmannaeyjar frá því um 1400. Björn Þorsteinsson sagnfræðingur og prófessor,sem ritaði m.a. Íslandssögu ásamt Bergsteini Jónssyni sagnfræðingi, hefur skrifað manna mest um Ensku öldina sem tímabilið frá 1415 -1475 hefur verið nefnt í Íslandssögunni. Hann segir þar: „Á síðasta fjórðungi 14. aldar óx sigling til Íslands og einkum á hafnir sunnan og vestan lands. Árið 1396 var „veginn Þórður bóndi saklaust í Vestmannaeyjum um nótt, er hann gekk af sæng. Lágu þar sex skip“ segir í samtímaannál.“
Árið 1412 er getið um ensk skip á Íslandsmiðum og árið 1413 sigldu þangað 30 fiskiduggur eða fleiri auk kaupskipa. Í sögu enskra fiskveiða frá því um 1300, England's Seafisheries, segir að þrátt fyrir fregnir af miklum og góðum fiskimiðum við Nýfundnaland eftir að John Cabot endurfann norðurhluta Ameríku þá hafi Englendingar haldið áfram siglingum til Íslands og fiskveiðum á Íslandsmiðum. Í þessari bresku heimild, er þess sérstaklega getið að Cabot hafi haldið út frá Bristol, sem er í suðvestur Englandi og sú borg hafi verið brautryðjandi í Íslandssiglingum. Þangað hafi verið flutt mikið af skreið og „hugsanlega hafi hann [Cabot] heyrt um Norður-Ameríku í Íslendingasögunum.“
Með þessum siglingum og fiskveiðum frá Bristol hösluðu Bretar sér í fyrsta skipti völl á heimshöfunum. Íslandssiglingarnar voru undanfari hinna miklu siglinga og landvinninga Englendinga sem sjóveldis, en verið getið minna en skylt væri eftir landafundi Cabots á Nýfundnalandi.
Fiskveiðar og siglingar til Íslands voru Englendingum því ekki aðeins mikilvægar vegna þorsks og skreiðar sem þeir veiddu eða fengu í vöruskiptum og sigldu með heim að haustinu, heldur einnig vegna þess að í Íslandsferðunum fengu enskir sjómenn, mann fram af manni, í arf sjómennsku og þjálfun á erfiðu hafsvæði. Þegar fram liðu stundir varð til í Bretlandi traust sjómannastétt, sem átti eftir að verða undirstaða mesta sjóveldis í heimi. Úr röðum þeirra voru sjómenn sem mönnuðu flota aðmírálanna Nelsons og Howes (upphafsmaður siglingareglna), en í nýlendum breska heimsveldisins var flotinn undanfari kaupskipaflotans, sem sigldi með margs konar vörur frá nýlendunum heim til Bretlands. Þessar siglingar lögðu grunninn að breska heimsveldinu, sem náði hátindi sínum í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20.
Í þessu sambandi má minna á að James Cook, sem er vafalaust snjallasti landkönnuður sem hefur verið uppi og nefndur er Könnuður Kyrrahafsins, var fæddur í Jórvíkurskíri(Yorkshire). Hann fékk sinn skóla sem sjómaður á skútunum í Whitby, sem er nokkuð fyrir norðan Humber og borgina Scarborough, þaðan sem var mikil útgerð seglatogara og siglinga til Íslands.
Um miðja 15. öld voru Íslandssiglingar frá öllum höfnum í Bretlandi, frá Newcastle á austurströndinni til Bristol í suðvestri. Á vorin, í april og maí, lögðu um eða yfir hundrað skip úr enskum höfnum og sigldu norður í höf. Skipin voru flest duggur af hollenskri gerð, 30 til 80 tonn að stærð. Þau sigldu síðan heim aftur síðari hluta sumars, hin síðustu í september, hlaðin skreið og söltuðum þorski. Árið 1528 sigldu um 150 skip til Íslands frá Suffolk og Norfolk í suðaustur Englandi. Þetta skipti Englendinga miklu máli og árið 1659 skrifar flotaforingi í skýrslu sína að hann hafi fylgt 77 skipum frá Íslandi til Englands. Þegar kemur fram á síðari hluta 17. aldar dregur úr þessum siglingum vegna dönsku verslunareinokunarinnar, sem var komið á 1602 og skatti Englandskonungs á salt til verkunar þorsks en ekki síldar. Árið 1675 sigla 28 ensk skip til Íslands. Rétt eftir aldamótin 1700 leggjast þessar siglingar að mestu af. Árið 1702 segir í einni enskri heimild: „Fyrrum voru á Íslandsmiðum og í Norðurhöfum yfir 10.000 menn til fiskveiða, nú eru þeir innan við eitt þúsund.“
Í þingskjali neðri deildar breska þingsins frá 1785 er getið um að eitt sinn hafi um 200 skip siglt frá borginni Yarmouth til Íslandsveiða. Þegar kom lengra fram á 18. öld lögðust Íslandsveiðar Englendinga af. „Smám saman gleymdu meira að segja frammámenn í fiskveiðum á 18. öld þessum miklu fiskveiðum við Ísland, nefndu þær varla á nafn og beindu öllum kröftum sínum að síldveiðum og síldarverkun“, segir í sömu heimild.

Gufutogarar
Með tilkomu gufuknúinna togara um 1890 hófust þessar siglingar og fiskveiðar Englendinga við Ísland aftur af krafti. Fiskimiðin umhverfis Vestmannaeyjar og út af suðurströnd landsins urðu þéttsetin hundruðum skipa og mikið kapp og oft blóðug barátta var um þann gula í rúm 85 ár. Stóð svo frá upphafi togveiða erlendra skipa hér við land til 1975, er Íslendingar fengu alla stjórn á Íslandsmiðum með útfærslu fiskveiðilandhelginnar í 200 sjómílur.

´ Íslenskar heimildir
Hér verður í stuttu máli fjallað um enska togara á Vestmannaeyjamiðum og talin upp ensk heiti sem þeir gáfu miðunum og lýst togi á togbleyðum við Eyjarnar.
Í íslenskum ritum er víða getið um veiðar breskra togara á Íslandsmiðum. Hér skulu nefnd nokkur. Rit Jóns Þ. Þórs sagnfræðings - Breskir togarar og Íslandsmið 1889 - 1916, sem kom út 1982 er merkileg heimild um þetta tímabil. Togaröldin eftir Gils Guðmundsson sem kom út árið 1981 er mjög skemmtileg aflestrar. Í ævisögum íslenskra togaraskipstjóra er víða getið um samskipti Íslendinga og Englendinga, en margir þeirra voru á fyrstu áratugum 20. aldar og fram undir síðari heimsstyrjöldina 1939, skipstjórar á enskum togurum. Hér má nefna þekkta aflamenn, sem síðar á ævinni hösluðu sér völl á öðrum sviðum, t.d. Tryggva Ófeigsson, Þórarin Olgeirsson, Jón Oddsson og´´Agúst Ebenezarson, en þrír þeir síðastnefndu voru búsettir í Englandi.

Ensk áhrif - háskóli togaramanna
Stuttu eftir 1920 fengu enskir útgerðarmenn aðstöðu í Hafnarfirði, þeir bræðurnir Owen og Orlando Hellyer, sem venjulega voru nefndir Hellyersbræður. Á árunum 1924 - 1929 gerðu þeir út 10 enska togara frá Hafnarfirði og hafði þessi útgerð afgerandi áhrif á þróun íslenskrar togaraútgerðar. Á skipunum voru blandaðar áhafnir, skipstjórar og stýrimenn voru íslenskir, en á hverju skipi voru svonefndir flaggskipstjórar eða „leppar“, sem voru enskir og einnig voru „leppar“ fyrir stýrimenn. Vélstjórar og kyndarar voru yfirleitt enskir. „Vera mín hjá Hellyershræðrum í fimm ár var minn háskóli,“ segir Tryggvi Ófeigsson í ævisögu sinni.

Vélvæðing breska fiskiskipaflotans
Fram undir 1880 var fiskveiðifloti Breta sem veiddi umhverfis Bretlandseyjar og í Norðursjónum einvörðungu áraskip og seglskútur, svonefndir seglatogarar (sailing trawlers). Nokkru fyrir 1880 hófst vélvæðing flotans.
Fyrstu vélknúnu fiskiskipin í Bretlandi voru skip sem höfðu verið notuð sem dráttarskip. Þetta voru svonefnd hjólaskip, þ.e. skóflur snerust á hvorri hlið skipsins og knúðu það áfram. Í nóvember 1877 var fyrsta hjólaskipinu breytt í fiskiskip og áður en vertíðinni lauk hafði 43 hjólaskipum verið breytt í togara, sem notuðu bómutroll eins og seglatogararnir. Þessi skip voru gerð út frá North Shields, Hartlepool og Scarborough.
Árið 1881 komu fyrstu eiginlegu gufutogararnir í Grimsby og Hull. Þessi skip sönnuðu strax yfirburði sína og aldamótaárið 1900 var enginn seglatogari lengur til í Hull. Árið 1901 voru 435 gufutogarar í Grimsby og 410 í Hull. Þessar borgir höfðu forystu í togaraútgerð og voru ásamt Fleetwood á vesturströndinni og Aberdeen í Skotlandi stærstu og öflugustu fiskveiðiborgir í Bretlandi.
Á hverjum gufutogara var að meðaltali 10 manna áhöfn, þannig að á togaraflota þessara tveggja borga voru um níu þúsund manns upp úr aldamótunum 1900.
Minni skipin voru ekki traust og iðulega urðu stórslys, t.d. fórust sex togarar frá Hull í febrúarmánuði aldamótaárið 1900.
En sjómenn fyrri tíðar alls staðar í heiminum höfðu alltaf stundað sín störf við mikið öryggisleysi; t.d. fórust í desember árið 1863, 24 enskir seglatogarar með 144 mönnum, í mars árið 1877 fórust 36 skútur með 215 manns. Þar eins og hér við Íslandsstrendur krafðist sjósóknin og hafið sinna fórna.

Fyrstu ensku togararnir, „fískigufuskip“, á Íslandsmiðum
Það var um 1890, eða nánar talið sumarið 1889, að fyrstu ensku gufutogararnir hófu veiðar hér við Ísland, út af suðausturlandi.
Ensku togurunum fjölgaði mjög ört og voru árið 1892 orðnir 9 talsins, en eftir 1895 skiptu Íslandsveiðarnar orðið verulegu máli fyrir enska sjómenn og útgerðarmenn. Hinn 20. júlí 1892 birtist í landsmálablaðinu Ísafold fréttabréf frá Vestmannaeyjum og er þar sagt frá því, að 7. júlí hafi strandað tvö bresk fiskigufuskip í Leiðinni, annar togarinn strandaði á Hörgeyri og hinn sunnan við Leiðina á Hringskerinu. Togararnir voru frá Hull og Grimsby og stóðu þarna í sólarhring. Ef sjór hefði brimað eða hvesst hefði af austri hefðu bæði skipin eyðilagst og orðið að strandi. Þetta var nefndur nýstárlegur atburður, sem hann vissulega var. Útlendu togararnir, jafnt enskir sem aðrir, gerðust brátt aðgangsfrekir og margir skipstjóranna virtu hvorki lög né rétt Íslendinga og sópuðu burtu netalögnum og öðrum veiðarfærum hér á grunnmiðum, t.d. inni í Faxaflóa og víðar. Með reglulegu millibili birtust kvartanir yfir þessum yfirgangi og oft rányrkju í íslenskum og erlendum blöðum.

Örtröð á fiskimiðunum
Erlend fiskiskip voru í hundraða tali á Eyjamiðum og hér út af suðurströndinni á vetrarvertíðinni, frá janúar og fram í maí allan fyrri hluta 20. aldar fram yfir 1950. Árið 1929 voru t.d. yfir 1000 togarar skráðir í Grimsby. Þetta voru skip sem voru að veiðum um allt Norður- Atlantshaf.
Árið 1904 voru um 200 togarar á Íslandsmiðum, þar af um 150 enskir, 35 þýskir, 8 franskir og nokkrir hollenskir og belgískir.
Þegar gerði slæm veður eða um hátíðir eins og á páskum, sem Færeyingar héldu t.d. alltaf helga, var fram undir 1950 unnt að telja um og yfir eitt hundrað erlend skip, sem lágu í vari við Eyjarnar og inni í höfn. Um og eftir 1910 voru þau samt enn fleiri. Eitt sinn taldi faðir minn, Eyjólfur Gíslason (f.1897) á þessum árum milli 1910 og 1920 nærri 120 skip, sem í suðvestan átt lágu í vari á Víkinni og í Flóanum.

Erfíð landhelgisgæsla
Landhelgisgæsla meðan landhelgin var aðeins þrjár sjómílur og fylgdi öllum flóum og annesjum var erfið. Þar til Vestmannaeyja-Þór kom til Eyja 26. mars 1920, var gæslan nær eingöngu í höndum danska flotans, sem hafði allt of lítinn skipakost til eftirlits með þeim mikla fiskveiðiflota sem streymdi á Íslandsmið upp úr aldamótunum 1900 eða venjulega aðeins eitt skip. Oft hefur verið látið í það skína, að dönsku varðskipin hafi að mestu legið aðgerðarlaus inni á höfnum eða fjörðum. Það er ekki rétt og óréttlátt að saka þá um slíkt, en þetta var liður í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á þeim tíma. Annað sýndi t.d. Kommandör Schack sem var skipherra á herskipinu Heklu og tók 22 landhelgisbrjóta fasta, vorið og sumarið 1905. Þegar Schack lét af þjónustu hér við land kvöddu alþingismenn hann með því að halda honum veglega veislu og var Schack afhent sérstakt þakkarávarp, sem var undirritað af nokkur hundruð Íslendingum, segir í samtíma blaðafrétt. Fleiri skipherrar sýndu mikinn dugnað, t.d. Kapteinn Hovgaard. Eitt sinn kom t.d. gæsluskipið Fylla með 8 þýska togara til yfirheyrslu í Vestmannaeyjum.
„Þeir ( Þjóðverjarnir) voru unnvörpum uppi í landsteinum við sandana, alla leið austur að Ingólfshöfða, og ófá dæmi eru um að þeir hafi strandað á veiðunum“, segir Tryggvi Ófeigsson í sögu sinni.
Á þessum árum gegndi danski flotinn hér störfum við erfiðar aðstæður: aðeins eitt skip við gæsluna og fleiri hundruð erlend skip við veiðar allt umhverfis landið, víðast hvar hafnleysur og sjókort gömul en sjómælingar fátæklegar, ljósvitar fáir og víða engir. Eftir 1906 var danski flotinn mjög upptekinn við sjómælingar hér við landið, sem urðu undirstaða sjókorta og síðari sjómælinga sem hefur verið stuðst við fram á þennan dag. Það var því oft minni tími til landhelgisgæslu en skyldi.

Kunnugir togaraskipstjórar
Bresku togaraskipstjórarnir voru fljótir að ná tökum á veiðum hér við landíð. Sumir urðu þrælkunnugir, fiskuðu vel og toguðu allar bleyður af kunnáttu og leikni. Margir þeirra urðu þekktir í hópi íslenskra sjómanna. Í bókinni „Vestmannaeyjar, byggð og eldgos“ sem kom út árið 1973 birti ég bréf frá enskum togaraskipstjóra, Laurie Oliver, sem var svar við lesendabréfi mínu til enska fiskveiðiblaðsins Fishing News, árið 1965, en í bréfinu var ég að leita nánari upplýsinga um þessa ensku skipstjóra. Bréf Laurie Olivers er merkileg heimild um þessa tíma, en þar segir hann m.a.:
„Þetta var löngu áður en ratsjáin kom til sögu og ein af ástœðunum fyrir því, að svo fáir voru kunnugir á Eyjamiðum, var, að maður varð að vera svo nákvæmur í staðarákvörðun og siglingu, að skipstjóri gat aldrei farið úr brúnni, jafnvel ekki á matmálstímum. Margir skipstjórar vildu ekki leggja þessar löngu stöður á sig og hið geysilega álag, sem þessu fylgdi..
Í slæmu veðri eða dimmviðri varð maður að vera leikinn í að meta fjarlœgð skipsins frá útlagðri bauju til að halda góðum botni. Hér gilti ekkert hérumbil; annaðhvort var maður á góðum sandbotni eða utan í varasamri festu eða hrauni, þar sem nokkurra metra skekkja þýddi, að varpan var gjörsamlega töpuð.
Kennileiti og mið fyrir þessar fiskislóðir voru svo nákvæm og örugg- ef maður þekkti þau á annað borð, að jafnvel í tregfiski var sérlega ánœgjulegt að vera í brúnni.“
Einn þekktasti og frægasti enski togarskipstjórinn var Danski - Pétur og Snói sem svo var nefndur af Íslendingum, en hét réttu nafni Thomas Worthington.
Hann var nefndur Snói vegna þess að hann var hvíthærður og af Englendingum nefndur „Snowy.“ Danski - Pétur var þekktur og virtur meðal Eyjasjómanna, en auk þess að vera kræfur fiskimaður var hann allra skipstjóra duglegastur að leita að Vestmannaeyjabátum, þegar óttast var um þá í vondum veðrum.
Tryggvi Ófeigsson segir, að Danski - Pétur hafi verið fyrsti enski togaraskipstjórinn sem togaði með góðum árangri á Vestmannaeyjamiðum.
„Danski - Pétur átti sitt einkamið við Vestmannaeyjar og var það nefnt Péturshola á ensku togurunum, en heitir á íslenzku Bankapollur. Það var vandasöm bleyða, sem fáir náðu árangri á og Danski-Pétur fékk yfirleitt að vera í friði.“ segir í Tryggva sögu Ófeigssonar.

Miðabækur og miðakort
Til þess að ná sem bestum tökum á Íslandsmiðum söfnuðu Bretar skipulega öllum þeim upplýsingum sem þeir gátu komist yfir um mið og togbleyður og var þetta skráð niður eftir aflaskipstjórum frá stærstu útgerðarborgunum; Aberdeen í Skotlandi, Hull, Grimsby, Fleetwood og Milford. Enskir útgerðarmenn og skipstjórar stóðu að þessari skráningu, sem var gefin út í sérstökum bæklingi og sérstökum fiskikortum. Bókin og kortin voru kennd við Albert Close, sem sá um þessa söfnun upplýsinga og nefnd Close-kort. Auk Íslandsmiða náðu kortin og lýsingar á togbleyðum yfir fiskimið í Norðursjó, við vestur- og norðurströnd Bretlands, Rockall, Porcupine-banka vestan við Írland, við Færeyjar og fleiri mið. Bretar voru þarna langt á undan öðrum með gerð sérstakra fiskikorta og bókin og Close-kortin mjög vinsæl meðal fiskimanna frá hinum ýmsu þjóðum; einnig í hópi Íslendinga. Síðar tók fyrirtæki sem heitir Kingfisher (Ísfuglinn - „Halkion Suðurlanda“) við útgáfu þessara fiskikorta sem gegna enn í dag sínu hlutverki.
Í miðabók Close er lýst fjölmörgum togbleyðum allt umhverfis Ísland. Hér á eftir er lausleg þýðing á togbleyðum við Vestmannaeyjar ásamt myndum úr bókinni, sem voru einnig prentaðar í útjaðri fiskikortanna. Það getur verið skemmtilegt að bera þessar teikningar saman við þær myndir sem hafa áður birst í Sjómannadagsblaðinu úr þýskri miðabók yfir Íslandsmið.

Togbleyður á Eyjamiðum
Í kaflanum um fiskimið úti fyrir suðurströnd Íslands er eftirfarandi kafli í Miðabók Close um Vestmannaeyjar og Eyjamið:
Vestmannaeyjar
Vestmannaeyjar eru nærri 20 stórar og litlar eyjar og ná yfir um það bil 17 mílur í Vestur að Suðri frá Rangársandi. Heimaey er stærsta eyjan, á 63°26'N. brd. og 20° 16' V. lgd. Heimaey er líkust tveimur heysátum eða einni stórri sátu, með sykruðum brauðenda á sitt hvorum toppnum (Sjá mynd).
Þetta er eina eyjan sem er byggð, en á suðurodda hennar er viti, sem ætti alltaf að taka miðun af. Þegar vitinn sést í 6 til 7 mílna fjarlægð er ekki hægt að villast á honum og einhverju öðru.
Umhverfis Heimaey er akkerislægi í skjóli af öllum áttum. Á legunni norðan við eyjuna er slæmur botn, þó að skip verði að notast við leguna í suðlægum áttum.

Fiskimið
Fiskimenn sem stunda veiðar á Íslandsmiðum hafa sjálfir gefið minni eyjunum nafn og velja þá oftast einhvern hlut, sem þeim finnst svipaður í lögun. Geirfuglasker er þekkt sem „Ytriklettur“ („Outer Rock“) og einnig sem „Vesturklettur“(„West Rock“) eða ásamt minni eyjum, sem eru í suður að vestri frá Geirfuglaskeri „Hœnan og kjúklingarnir“ („Hen and Chickens“).
Einarsdrang [þannig ritað] kalla sumir „Vesturklett“ („West Rock“) en aðrir kalla hann „Risaklett" („Jumbo“) (Sjá mynd).
Drangasker og Þrídrangar eru þekktir undir margs konar nöfnum. Stundum er þeir nefndir „Fingurnir“(„The fingers“) af því að þeir líkjast manns hendi sem bendir upp með fingrunum. Aðrir kalla Drangana „Ljónsklett“ („Lion Rock“) en frá ákveðnum stöðum líkjast þeir liggjandi ljóni (sjá mynd). En Drangarnir eru einnig þekktir sem „Skonnortuklettar“ („Schooner Rocks“), þar eð þeir eru sum staðar frá líkastir skipi með þannig seglabúnaði. Fjórða heitið sem Drangarnir hafa er „Austurklettar“ („East Rocks“).
Togbleyður eru þarna fjölmargar og er mestur aflinn í mars, apríl og maí, þó að sumir togi þarna með góðum árangri allt árið um kring.
Athugasemd: Í Miðabók Close hefur hvert tog sitt númer, en í Closekortinu eru númerin sett nálægt þeim stað sem togið er. Einnig eru dregnar upp línur til miðanna. Þetta ætti að sjást á kortinu á bls. 72 og 73.

Tog nr. 66
(Austur af Heimaey, upp af Háfadýpi)
Suðaustur af aðaleyjunum eru eftirfarandi tvö togmið best, en jafnframt þau tvö mið sem er einfaldast að toga eftir.
ANA- enda Heimaeyjar á að bera í ANA- enda Bjarnareyjar, sem er í miðuninni NV 1/2 V; fjarlægð í Bjarnarey er 7 mílur, en Súlnasker er þá um það bil í miðuninni V 1/2 N.
Sá sem er ekki kunnugur þarna ætti að nota togbaujuna eða fara þannig að: Frá staðnum sem er gefinn upp hér að framan er togað í SVaS, þar til Álsey er laus við suðurenda Heimaeyjar, snúið þá og togið í NAaN þar til ANA endi Heimaeyjar og Bjarnareyjar bera aftur saman (kyssa).

Tog nr. 67
Annað mið fyrir sama tog er að rétt aðeins rifi á milli Yztakletts(ANA- endi Heimaeyjar) og sitt hvoru megin Bjarnareyjar. Þetta er ágætis togslóð á 70 og 80 faðma dýpi á leðjubotni.

Tog nr. 68
(Suðaustur af Heimaey, norðaustur af Ledd).
Önnur bleyða er þegar Súlnasker er í miðinu V 3/4 N og Álsey hálf við suðurenda Heimaeyjar um það bil í miðuninni NVa V (nær norðri). Hægt er að setja togbaujuna út í þessu miði og nota baujuna sem viðmiðun með tilliti til landhelgislínunnar. Óhætt er að toga umhverfis baujuna, en einnig getur skip togað í austur þar til Álsey kemst í hvarf bak við Stórhöfða (Suðurendi Heimaeyjar) og gott bil sést á milli Ellireyjar og Bjarnareyjar. Snúið síðan og togið í VaN og hafið Súlnasker framundan eða aðeins á stjórnborða, þar til Álsey er laus og sést greinilega á milli Heimaeyjar og Suðureyjar. Þetta er einnig ágætis fiskimið á leðjubotni og 60 til 70 faðma dýpi.

Tog nr. 69
(Togslóð, þar sem síðar komu upp Surtla, Syrtlingur, Surtsey og Jólnir og var þekkt fiskimið í Vestmannaeyjum sem „Hólarnir“ eða „Skerin saman“).
Þetta fiskimið er þekkt sem „Utan við Vesturklett“ („Outside the West Rock“) og ber þá Súlnasker yfir Geirfuglasker (eða Skerin saman) í miðuninni AaS 1/2 S og er fjarlægð í Geirfuglasker 3V2 til 4 sjómílur. Baujan er til þess að vara við landhelgislínunni og er venjan að toga ekki lengra til norðurs, en að Súlnasker sjáist norðan við Geirfuglasker og ekki lengra til suðurs en að Súlnasker sjáist sunnan við Geirfugl. Þetta er gott fiskimið á 60 til 70 faðma dýpi og 4 til 5 sjómílur frá þeim kennileitum sem nú hefur verið lýst. Ef togað er lengra úti verður að nota bobbinga vegna þess að þar kemur grjót í vörpuna. Varúð. Athugið að kasta eins fljótt og hægt er grjóti fyrir borð sem kemur í vörpuna, þar eð það er segulmagnað og hefur áhrif á áttavitann.

Tog nr. 70
(Togslóð suðvestur af Surtsey) Góð togslóð er einnig í þessu miði:
Geirfuglasker („The Outer Rock") rétt laust norðan við Súlnasker, sem á að vera í miðuninni A a S (Austur að Suðri) og í um það bil 6 sjómílna fjarlægð. Togið þá frá NV a N og yfir á VSV frá 70 faðma dýpi niður á 90 faðma dýpi og beint út á dýpra vatn í síðastnefndu miði.
Sumir telja betra að kasta þegar Geirfuglasker (fjarlægð um 3 1/2 sjómíla) ber í Þrídranga og toga síðan í NV en þó ekki svo langt að Einidrang beri í Þrídranga.

Tog nr. 71
(Suðvestur af Eyjólfsklöpp, 15-20 sjómílur r.v. 285° frá Surtsey).
Þegar engan fisk er að fá rétt upp við Eyjarnar segjast skipstjórar hafa togað með góðum árangri á togbleyðu þar sem Geirfuglasker miðast í ASA að SA að A og 20 mílur eru í Geirfugl. Þeim mun lengra sem þeir toguðu í stefnuna NV að V, þeim mun meiri varð aflinn og það alveg niður á 120 faðma dýpi.
Auðitað var talsvert rifrildi, en ágæt veiði bætti upp vinnu við bætningar og viðgerðir á trollinu. Fiskimönnum er bent á að ágætis afla mætti fá með því að leita jafnvel lengra til vesturs eða norðvesturs.

Tog nr. 72
(Á Eyjabanka, norðan við Hryggina, vestan við Sviðin).
Járnbrœðslan“ („Iron Foundry“) (Þessu miði má ekki rugla saman við „Kargann“ („Rough“) með sama heiti út af Ingólfshöfða). Þetta er mjög góð togbleyða.
Það eru ekki margir sem geta togað þarna, en með því að vanda sig og nota þau mið sem lýst er, getur hver sem er togað á bleyðunni og það er vel þess virði að reyna þarna fyrir sér á hvaða árstíma sem er. Aðallega er togað á bleyðunni að deginum vegna þess að ljósbaujan gefur rangt mat á fjarlægðum, en þegar bjart er af tungli sést til miða í landi. Ef ekki sést til miða eða kennileita er fiskimönnum ráðlagt að fara á einhver önnur fiskimið, af því að þarna er mikið um festur. Ef öll skilyrði eru fyrir hendi á að setja baujuna út í miðinu: Suðurenda eyjarinnar Brandur ber í norðurenda Suðureyjar, nálægt því í miðuninni ASA. Geirfuglasker („Ytriklettur'“) á að vera í miðuninni S að V og Þrídrangar eða „Fingurklettar“ („finger Rocks“) í NA 1/2 N. Á þessum stað á að vera 52 faðma dýpi og botninn er svört eldfjallagjóska. Haldið síðan áfram eins og hér er lýst í togi nr. 73:

Tog nr. 73
(Eyjabanki, norðvestan við Geirfuglasker) Togið í suður eða S að V eða SSV upp á Geirfuglasker (beint framundan) þar til vitinn á Heimaey (Stórhöfðaviti) kemur fram undan Brandi eins og sést á teikningunni, snúið þá og togið í NNA (sjá teikningu af miðinu) beint undan Geirfuglaskeri (beint afturundan) eða þannig að tveir „Fingurkletta“ (Þrídrangar) verða alltaf að sjást austan við (og lausir við) vestasta fingurinn. Sjáist ekki til þessara „Fingurkletta“ er togað of nærri eyjunum (Álsey, Brandi og fl.) og verður þá að halda vestar og stýra t.d. NNV þar til Stórhöfðaviti er rétt laus við suðurenda Álseyjar.
Hugsanlega er ennþá auðveldara að toga á þessari bleyðu með eftirfarandi miðum: Togið upp á Geirfuglasker og liggið eins nærri á stefnunni S að V og mögulegt er ( sjá teikningu). Togið upp á Geirfugl þar til Suðurey er laus suður úr Brandi, snúið þá og togið N að A þar til Suðurey er laus norður úr Brandi og mega ekki sjást færri en tveir „Fingurkletta“ í miðun nærri NA 1/2 N að NA.

Tog nr. 74
(Eyjabanki, vestan við Þorsteinsboða og suður af Þokuklakki)
Suðurey er í laginu eins og knapahúfa og á Brandinum eru þrjú horn á suðurenda eyjarinnar eða á hæsta toppnum. Þetta eru aðalmiðin sem notuð eru.
Með „Ytriklett“ (Geirfuglasker) í stefnunni S eða SSV og Suðurey laus norður eða suður úr Brandi eða Suðurey í hvarfi af Brandinum getur togið ekki mistekist. En Geirfuglasker má aldrei miðast vestan við SSW. Nærri stað í kortinu þar sem eru merktir 10 faðmar við P.D. (Position Doubtful) eða vafasamur staður, er slæm festa og hafa tapast þar veiðarfæri.
Frá þessari bleyðu er hægt að toga 6 sjómílur í VNV niður á „Lágsléttuna“ („Lower grounds“), sem verður lýst síðar og liggur til norðvesturs) með því að Brand og Suðurey beri saman sem ein eyja. Ekki er ráðlegt fyrir þá sem eru ókunnugir að toga þessa slóð, vegna þess að ef eyjunum er ekki haldið nákvæmlega í miði getur maður tapað veiðarfærum, þar eð slæmar festur eru á botninum.
Með því að fylgjast vel með togvírunum og nota lóðið kemst maður að raun um að þetta tog til vesturs eða í VNV er í rás eða djúpum skurði á 60 til 63 faðma dýpi og meðfram rásinni er slæmur botn með festum.

Lokaorð
Ég læt þessi sýnishorn úr Miðabók Close nægja í þetta skiptið. Fyrst og fremst er þetta sögulegur fróðleikur sem sýnir hve snar þáttur Íslandsmið voru í fiskveiðum Evrópuþjóða fyrr á tíð. Sóknin var mikil og skipstjórar lögðu sig alla fram með þeim tækjum og ráðum sem þeir höfðu yfir að ráða. Hafi sjómenn og lesendur Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja af þessu nokkra skemmtun og fróðleik mun ég hugsanlega síðar bæta við nokkrum „togbleyðum“ á Eyjamiðum og hér við suðurströndina.
Ég sendi öllum sjómönnum og Vestmannaeyingum hátíðarkveðjur á sjómannadeginum.

Guðjón Ármann Eyjólfsson


Heimildir:
1. The Fishing Grounds and Landmarks , A.Close, London
2. Jón Þ. Þór : Breskir togarar og Íslandsmið 1889-1916, Reykjavík 1982:
3. Ásgeir Jakobsson: Tryggva saga Ófeigssonar, Hafnarfirði 1979: :Teikning af togbauju birt með leyfi Rannveigar Tryggvadóttur.
4. Gils Guðmundsson: Togaraöldin- Stórveldismenn og kotkarlar, Reykjavík 1981:
5. David J Starkey, Chris Reid &Neil Aschcroft : England's Sea Fisheries, London 2000:
6. Robb Robinson : Trawling, The Rise and fall of the British Trawl Fishery,Exeter 1996:
7. Michael Thompson: The Marr Story -The History of a Fishing Family-Hull 1995
8. Michael Thompson: A Tribute to Hull's Fishing Industry:
9. Michael Thompson: Fish Dock- The Story of St. Andrew´'s Dock Hull.
10.Guðjón Ármann Eyjólfsson : Vestmannaeyjar - byggð og eldgos, Reykjavík 1973.
11. Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson: Íslandssaga, Reykjavík 1991.
12. Björn Þorsteinsson: Tíu þorskastríð 1415-1976; Sögufélagið Reykjavík 1976.