Súlnasker

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 25. ágúst 2006 kl. 09:06 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 25. ágúst 2006 kl. 09:06 eftir Daniel (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Súlnasker

Súlnasker liggur um 8 km suðvestur af Heimaey. Hún er umgyrt 60 m þverhníptum klettahömrum og er 0.03 km² að flatarmáli. Hellar ganga inn undir eyna vestan og sunnan megin og þegar sjórinn er kyrr má róa inn í og í gegnum þá. Ofan á skerinu liggur hryggur í vestur austur stefnu og hallar grasbrekkum dálítið út frá honum. Súlnasker er á náttúruminjaskrá því þar er mikið af bjargfugli. Skerið er með stærstu varpstöðum súlunnar á Íslandi. Súluungar eru þar veiddir á sumrin.


Súlnasker og skerpresturinn

„Sker eitt liggur í suður-útsuður af Vestmannaeyjum, hér um bil tvær vikur sjávar; er það ýmist kallað Súlnasker, Almenningssker eða Skerið.

Súlnasker heitir það af því þar er mikið af súlu, Almenningssker af því allar jarðir á eyjunni hafa jafnan rétt til ínytja þess og Skerið og jafnvel stundum „Skerið góða“ er nokkurs konar gælunafn.

Skerið á það og skilið að því sé sómi sýndur því Vestmannaeyingar fá þaðan á ári hverju hér um bil 4-5000 fýla og 4-500 súlna; þar er og helsta eggjatekja eyjabúa. Skerið sjálft stendur á fjórum bergstöplum upp úr sjónum, svo hátt að róa má undir það ef gott er í sjóinn.

Í skerið er farið einu sinni á ári til fugla og verður að velja til þess góðan veðurdag því bæði er brimsamt við það og sjálf uppgangan í skerið einhver hin hættumesta og örðugasta. Sá dagur sem farið er í skerið er nokkurs konar hátíðisdagur fyrir eyjabúa; þá fara vanalega heldri menn á skipi sér til að skemmta sér og horfa á hina sem í skerið ganga eftir fuglinum. Er þá einatt kátt á hjalla því þá liggur vel á öllum ef vel veiðist og enginn slasast.

Skerið hallast töluvert til útsuðurs og segir sagan tildrögin til þess þannig: Fyrst framan af kom engum manni til hugar að reyna að fara upp í skerið því engum þótti það fært nema fuglinum fljúgandi. Loksins gerðu þó tveir hugaðir menn tilraun til þess og tókst það vel þó glæfraför væri.

Sá þeirra sem fyrri komst upp á skerið sagði: „Hér er ég þá kominn fyrir guðs náð.“

En hinn síðari: „Hér er ég kominn hvort guð vill eða ekki.“

Við þessi orð brá svo að skerið snaraðist á hliðina og hristi guðleysingjann af sér út í hyldýpið og týndist hann þar. En stórvaxinn maður kom fram og greip í hinn manninn og studdi hann svo hann skyldi ekki fara sömu för.

Upp frá þeim degi hefur skerið hallast, en stórvaxni maðurinn var skerpresturinn sem bæði hjálpaði manninum niður og einnig að leggja veg upp á skerið sem lengi var farinn eftir það, en nú er með öllu af lagður og nýr vegur fundinn.

Framan af var það í mæli að skerpresturinn kæmi fram á skerið og bandaði á móti eyjabúum ef þeir vildu leggja þar að og allt eins gaf hann þeim bendingu um að leggja til eyjanna aftur ef hann vissi fyrir illt veður.

En ef þeir sinntu ekki þessum bendingum hans hlekktist þeim ævinlega eitthvað á, löskuðu skipið eða maður slasaðist af þeim og annað því um líkt. Stundum bar það og við að þó illt væri við skerið benti hann þeim að leggja að því allt að einu enda var þess þá víst að vænta að sjór og vindur gekk til bötnunar þegar svo vildi til.

Súlurnar sem súlnasker dregur nafn sitt af.

Fyrir þetta voru eyjabúar skerprestinum jafnan þakklátir og enn í dag helst það við að hver sá sem í fyrsta sinn kemur upp á skerið leggur fáeina skildinga í steinþró eina sem er uppi á skerinu. Á það að vera gjöf til skerprestsins og alltaf eru skildingarnir horfnir þegar komið er í skerið í næsta sinn.

Auk þessa sem nú er sagt af skerprestinum er hann besti prestur bæði fyrir altari og í stól og flytur ómengaða kenningu, annars gæti hann ekki verið eins góður vinur Ofanleitisprestsins eins og hann er.

Skerprestur heimsækir Ofanleitisprest einu sinni á ári; kemur hann þá róandi tveim árum á steinnökkva að Ofanleiti á gamlárskvöld og tekur Ofanleitisprestur við honum báðum höndum, leiðir hann til stofu og setur fyrir hann kaffi, brennivin, hangiket og ýmsar kræsingar.

Þegar skerpresturinn fer aftur frá Ofanleiti fylgir heimapresturinn honum til skips um miðnættið ofan í "Víkina" þar sem skerprestur lendir nökkva sínum, og hjálpar honum til að setja á flot sem Jón skáldi segir í Vestmannaeyjabrag:

„Prestur skers um Ránar reiti
rær oft upp að Ofanleiti
nóttina fyrir nýjárið.
Það er líka satt að segja,
sóknarprestur Vestmanneyja
höklabúkla hýrt tók við:
stofuna til staupa benti,
steinnökkvann í „Vík“ sem lenti
setti á flot um svartnættið.“

Á seinni árum hefur þó ekki orðið vart við skerprest og eru því líkur til að hann sé annaðhvort dáinn eða þá orðinn svo hrumur af elli að hann sé ekki ferðafær þó það hafi hvorki frést að brauðið sé veitt öðrum eða gamli presturinn sé búinn að taka sér kapellán.“ Fengið úr Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar frá Textasafni Orðabókar Háskóla Íslands.

Úr örnefnaskrá Gísla Lárussonar

VI. Súlnasker ; liggur ca 300-400 faðma frá Geldung í suðaustur. Er Súlnasker líkt á hæð og Geldungur. Það mun vera nál. Í ferhyrning og liggur norðan til á því hryggur austur og vestur, eftir endilöngu skeri. Er halli norðan við hrygginn ekki mikill og er þar alþakið fýl og lunda. Fyrir sunnan hrygginn er sléttlendi nokkuð, lárétt og er súluvarp mikið, en fyrir sunnan það er snarbratti að brún og alþakið fýl og lunda. Fyrir miðju skeri, að sunnan, skerst inn í það breiður vogur og ganga tvö nef þar fram, að vestan og austan. Á nefjum þessum er enginn halli og verpir þar aðallega svartfugl. Í gegnum nef þessi að neðan liggja göng, sem róa má stórum bát í gegn. Einnig má róa bát út úr vognum; er bergið mjög á sig fyrir miðjum vognum og 30 faðmar á hæð, svo að hellislögun verður og er það kallað Hellir . Hrapaði þar maður ofan af brún, Davíð nokkur Ólafsson ca 1850 og hafði líf (var hann að binda skóþveng sinn fremst á brún og er hann reisti sig upp féll hann niður. Tók hann jafnskjótt höndum niður fyrir knésbætur og rann þannig í sjó niður; báturinn var rétt hjá og tók hann upp meðvitundarlausan. En hann kom brátt til sjálfs sín og sakaði hvergi).

Varðan í Súlnaskeri

Örnefni eru hér mjög fá, þó er varða austast á Skerinu (hryggnum) nefnd Skerprestur (sjá Þjóðsögur Jóns Árnasonar um prestinn). Önnur sögn er þessi: Tvo menn hrakti eitt sinn þangað og komust upp báðir og er þó uppganga þar afar örðug. Sagði þá annar maðurinn: Hér er ég kominn fyrir Guðs hjálp! En hinn mælti: Hér er ég kominn hvort sem hann vill eða ekki! Er þá mælt að skerið hafi hrist guðleysingjanum af sér og á suðurhallinn að stafa frá því. En hinn hlóð vörðu og hafðist þar bjargarlaus við í ½ ár, uns róðrabátar björguðu honum. Er það síðan talin skylda allra, er koma þangað upp í fyrsta sinn – og er þar nú eini uppgangurinn – að hlaða upp vörðuna og leggja fé í. Er þar töluvert af koparfé og hnöppum.

Á uppgöngunni eru þessi örnefni: Steðji er farið er af skipi, á landsuðurshorninu, ofan við hann er Bænabringur (gera menn þar bæn sína áður en upp er farið). Ofar enn er nefnt Súlnabæli ; þar suður af dálítið svæði nefnt Hella . Hér sunnar Langi-Lærvaður ; þar er farið niður á lærvað, þegar farið er þeim megin niður. Hér suður af eru Jappar (flá gilmyndun með stöllum); enn sunnar Tómagil , mjótt gil, erfitt yfirferðar, því næst efst í uppgöngunni er endar á suðausturshorni skersins. Þá er vestan í skerinu nefnd Efri- og Neðri-Rifa ; er þar súluvarp og há sig; má komast þar hátt upp af sjó fyrir færustu fjallamenn. Gegnum norðvesturhorn skersins er lítið gat, sem lokast við sjávarmál. Þetta gat er nefnt Rifa . Stendur Skerið þannig á fjórum fótum, eins og oft er að orði komist.


Heimildir